Everton vs. Southampton

Mynd: Everton FC.

Það er ekkert sem fær mann til að gleyma skelli á borð við þann sem við fengum gegn Sunderland eins og annar leikur örfáum dögum síðar, í þetta sinn á heimavelli gegn Southampton. Þeir sitja nú í 9. sæti deildar með 27 stig úr 18 leikjum en komust á ágætis skrið fyrr á tímabilinu þó þeir hafi nokkuð dalað síðan. Sigur þeirra gegn Cardiff í síðasta leik var fyrsti sigur þeirra í sjö umferðum.

Maður þorir varla að minnast á hvað langt er síðan Southampton hafa unnið á Goodison Park (hint: þar var í nóvember 1997), en 7-1 sigur Everton á þeim árið áður er stærsti sigurleikur Everton frá upphafi í Úrvalsdeildinni. Ef þetta hljómar kunnulega þá er þetta nánast það sama og ég skrifaði í upphituninni fyrir Sunderland leikinn en við vitum alveg hvernig það fór (Sunderland er hitt liðið sem Everton hefur unnið 7-1 í Úrvalsdeildinni). Við skulum vona að eldingu slái ekki niður tvisvar á sama staðinn en ljóst er þó að leikurinn ætti að vera meira fyrir augað (en leikurinn gegn Sunderland) þar sem Southampton líta betur út á velli en Sunderland (með fullri virðingu fyrir þeim síðarnefndu).

Komið hefur í ljós að Mirallas fór út af undir lok fyrri hálfleiks gegn Sunderland til að ræða við lækninn en í ljós kom að hann var með einhverja magapest og var því skipt út af. Það stendur þó ekki í veg fyrir að hann verði til reiðu á morgun. Óvíst er hvort Baines nái Southampton leiknum en Howard og Barry verða í eins leiks banni og missa því af honum. Barkley er jafnframt einu spjaldi frá því að fara í bann (sem myndi vera á móti Stoke), en ef hann sleppur við gult falla spjöld hans niður þar sem árið er á enda. Hjá Southampton eru Nathaniel Clyne, Artur Boruc og Victor Wanyama meiddir en Morgan Schneiderlin í banni.

Ég vonast til að sjá Osman á miðjunni í staðinn fyrir Barry, svo hann fái tækifæri til að bæta fyrir mistökin og sýni stórleik. Líkleg uppstilling: Robles, Oviedo, Distin, Jagielka, Coleman, Pienaar og Mirallas á köntunum, Osman og McCarthy á miðjunni, Barkley fyrir aftan… tja… Jelavic? Hann þarf að sanna sig fyrir nýju liði ef hann vill fara í janúar en Martinez staðfesti nefnilega í viðtali að tvö félög hafi haft samband og lýst yfir áhuga á Jelavic. Mér sýnist því á öllu að hann verði ekki leikmaður Everton þegar febrúarmánuður byrjar og það kæmi mér ekkert á óvart þó Heitinga fari líka, eins og áður hefur komið fram á þessum vef.

Í öðrum fréttum er það helst að Duffy framlengdi lánssamninginn hjá Yeovil fram til loka tímabils.

En Southampton á morgun kl. 13:30. Sjáumst á Ölveri!

7 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Mín skoðun eftir Sunderland leikinn er að við eigum að halda okkar striki og ég vil ekki sjá nein panic buy í janúarglugganum. Ég horfði á nokkra leiki Liverpool í byrjun tímabils þegar Mr. Fred Rodgers tók við þeim og þeirra baklína var *mjög* svo shaky þegar hann innleiddi pass-from-the-back stílinn.

    Okkar leikmenn hafa tekið þessari breytingu eins og atvinnumenn og hafa litið mjög vel út á tímabilinu, haldið hreinu í fjöldamörgum leikjum og hafa varla slegið feilpúst. Það var kominn tími á tap á heimavelli og ég persónulega græt það ekki að það var Sunderland sem við gáfum stigin þrjú. Ég vil alls ekki sjá þá falla.

    Hvað um það. Hvet ykkur til að kíkja á flott myndband í boði Google+; skemmtilegar svipmyndir frá Everton klúbbnum á Íslandi á árinu 2013:
    https://plus.google.com/u/0/b/112748004040041987934/112748004040041987934/posts/Nd6zkdEq3cX

  2. Halli skrifar:

    Næsti leikur jólin eru svo skemmtilegur tími í enska boltanum alltaf leikir. Ég ætla að spá 3-1 Pienaar með 1 og annaðhvort Jelavic eða Lukaku með 2 eftir því hvor spilar.

    Flott myndband Finnur á google plús

    Þetta er síðasti leikurinn á Þessu ári fjölmennum á Ölver. Áfram Everton

  3. Gunnþór skrifar:

    Flottur pistill eins og alltaf,það verður heimasigur á Goodison í dag alveg klárt erum ekki að fara að tapa tveimur heimaleikjum í röð.Strákar þið skilið kveðju til allra í litla hererginu á ölveri héðann að norðann.

  4. Gunni D skrifar:

    Er þetta ekki eina liðið sem við eigum eftir að spila við? Talandi um fyrri úrslit, ég man eftir 8-0 sigri Everton á Southampton einhverntíma snemma á 8.áratugnum. Stærsti sigur sem ég man eftir hjá okkar mönnum í deildarkeppni.Þá var gaman að vera Everton maður. Því miður var engin meistaradeild þá, Everton meistarar 70 og við toppinn einhver ár þar á eftir. En kannski er okkar tími framundan í þessum efnum. Hver veit. Spái 3-0. ÁFRAM EVERTON!!!!

  5. Teddi skrifar:

    Fín upphitun, fíla svona stutt og laggott. 🙂

    Vinnum 2-1 í hörkuspennandi og skemmtilegum leik.

  6. Finnur skrifar:

    Uppstillingin komin. Hún er mjög athyglisverð:
    http://everton.is/?p=6278

  7. Ari S skrifar:

    Ég man eftir 8-0 það var Southampton. Og svo var ég staddur á Goodison Park á leik Everton gegn Southampton vorið 1986. Við unnum þann leik 6-1. Góður sigur í dag 🙂 Takk enn og aftur fyrir pistlana Finnu, þeir eru dýrmætari ef maður missir af leikjum.