Everton – Southampton 2-1

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin fyrir leikinn vakti athygli en fyrir utan það að Howard og Barry væru í banni tók Martinez þá ákvörðun að hvíla Pienaar og Mirallas og færa Oviedo framar á völlinn og eftirláta Baines vinstri bakvörðinn. Mikið gleðiefni að fá Baines aftur en mjög slæmt að heyra að Jagielka skuli vera meiddur í nokkrar vikur og maður var svolítið smeykur við svona margar skiptingar í einu fyrir þennan erfiða leik. Uppstillingin: Robles með Baines, Distin, Alcaraz og Coleman fyrir framan sig. Oviedo og Naismith voru á köntunum, Osman og McCarthy á miðjunni, og Barkley fyrir aftan Lukaku frammi. Sem sagt, stokkað vel upp eftir tapleikinn síðasta og nokkrir kaldir menn að koma inn af bekknum.

Clattenburg dæmdi leikinn eftir átta ára hlé frá því að dæma á Goodison og fékk óblíðar viðtökur hjá áhorfendum, eins og við var að búast. Fyrri hálfleikur var mjög fjörugur og skemmtilegur og bæði lið sýndu góðan sóknarbolta og fengu þó nokkuð af færum. Hvorugu liði tókst þó að koma boltanum á rammann fyrr en á 8. mínútu þegar Coleman brunaði upp hægri kantinn, fór illa með vinstri bakvörð Southampton og komst óvaldaður inn í teig. Maður átti von á fyrirgjöf en hann ákvað að dúndra tuðrunni bara uppi í hornið við fjærstöngina. Coleman átti þetta glæsimark alveg skuldlaust og Everton komið yfir strax á 8. mínútu! 1-0.

Southampton efldust við markið og fimm mínútum síðar skapaðist hætta upp við mark Everton sem Osman sópaði upp fyrir framan markvörðinn og hreinsaði frá. Southampton voru mjög ógnandi í hvert skipti sem þeir fengu boltann og spiluðu vel saman, brunuðu alltaf strax í sókn en gekk afar illa að ná skoti sem hitti á rammann og manni fannst sem ef þeir gætu stillt miðið aðeins þá gæti Everton verið í slæmum málum því flest annað gekk upp hjá þeim. Eitt skiptið komst Lalana til dæmis einn á móti markverði en skaut framhjá.

Lukaku var næstum búinn að setja Oviedo inn einan gegn markverði þegar hann tók sprettinn upp að teig hægra megin og hafði Oviedo dauðafrían sér á vinstri hönd. Ef boltinn hefði farið í gegnum klofið á varnarmanni hefði þetta líklega verið auðvelt mark fyrir Oviedo en varnarmaður blokkeraði sendinguna.

Fyrsta skot Southampton manna sem rataði á markið allan fyrri hálfleik kom rétt undir lok fyrri hálfleiks en skotið var slakt, af löngu færi og beint á Robles sem var ekki í vandræðum með það.

Undir lokin skaut Distin föstu skoti í hendi og andlit Lalana þegar hann reyndi að hreinsa, en Lalana brást hinn versti við og reyndi að taka Distin í glímu. Einhver hafði það á orði að þetta hefði verið „eins og að horfa á flugu að glíma við fíl“ en Clattenburg var áhugalaus. Róaði menn bara niður.

Staðan í hálfleik 1-0 eftir skemmtilegar 45 mínútur, þar sem liðin skiptust á að sækja og reyna að skapa sér færi. Liðin skiptu tímanum á bolta nærri jafnt á milli sín, Southampton kannski ögn meira með knöttinn (52% vs 48%) en athygli vakti að Everton komst ekki jafn mikið í sókn og venjulega. Tölfræðin sagði að boltinn hefði aðeins verið 17% Southampton megin.

Seinni hálfleikur var aðeins meira „scrappy“ og meira um brot en Southampton byrjuðu af krafti og pressuðu vel á Everton. Oft fór um mann þegar Southampton komust í sókn þar sem þeir sýndu að þeir gátu verið mjög skeinuhættir og sýndu oft mjög flotta takta. Þeir voru næstum komnir í dauðafæri á fyrstu mínútum en McCarthy náði að breyta stefnu á stórhættulegri fyrirgjöf og koma þannig í veg fyrir dauðafæri.

Á 50. mínútu tæklaði Oviedo leikmann illa út við kantlínu og var stálheppinn að sleppa með gult því takkarnir fóru í fótinn á leikmanninum. Ef það hefði ekki verið fyrir það að önnur löppin á Oviedo fór aldrei af grasinu hefði hann líklega fengið rautt. Gult var það á endanum.

Fjórum mínútum síðar fékk Oviedo flotta sendingu upp vinstri kantinn frá Lukaku og Oviedo sendi fyrir markið lágt meðfram jörðinni þar sem Barkley var mættur en hitti ekki boltann nægilega vel svo að boltinn skoppaði framhjá fjærststönginni hægra megin (og í raun sleikti stöngina). Markvörðurinn strandaður. Hér hefði staðan átt að vera 2-0.

McCarthy var næstum búinn að koma okkur í vandræði með slæmri sendingu á varnamann nálægt vítateig en moppaði það upp og hreinsaði frá. Hér var maður farinn að verða svolítið taugaveiklaður þar sem sókn Southampton var að aukast og Everton aðeins með eins marks forskot.

Pienaar inn fyrir Oviedo á 60. mínútu og hann kom með aukna innspýtingu í leikinn, en stórsókn Southampton hélt áfram og byrjaði að hrikta í stoðum Everton varnarinnar. Á einum tímapunkti vantaði eitthvað upp á samskiptin hjá Distin og Robles, því Robles komst ekki (fyrir Distin) til að grípa bolta og missir hann tvisvar en náði síðan að redda sér fyrir horn.

Hér hugsaði maður sér: „Af hverju Everton ekki búið að skora aftur? Mark Southampton liggur í loftinu!“

Og jú, það kom nokkrum mínútum síðar (á 70. mínútu). Ramirez tók boltann nálægt miðju, brunaði í átt að marki Everton og náði algjörri dúndru langt utan af velli sem fór yfir Robles og söng í netinu. Þvílíkt glæsimark en það verða sett spurningarmerki við það hvort Robles hefði mátt gera betur.

Mirallas inn fyrir Osman og svar Everton kom aðeins fjórum mínútum eftir mark Southampton.  Pienaar náði boltanum nálægt miðju, leit upp og sá hlaupið hjá McCarthy, fór aðeins áfram með boltann og sendi svo frábæra stungusendingu á McCarthy sem, með manninn í sér, sendi boltann til hægri þar sem Lukaku kom á ferðinni og þrumaði í netið. 2-1 fyrir Everton.

Everton náði flottri sókn strax þar á eftir sem leit út fyrir að gefa þriðja markið en hún var stoppuð í fæðingu vegna rangstöðu.

Lukaku sýndi snilli sína á 79. mínútu þegar hann fékk boltann utan teigs hægra megin; fór vinstra megin við einn varnarmann, svo hægra megin við þann næsta og tók netta gabbhreyfingu á þann þriðja sem gerði það að verkum að hann náði skoti á mark. Skotið hins vegar rétt yfir slána.

Southampton juku pressuna enn frekar við þetta og náðu að koma Everton í nauðvörn hvað eftir annað og í eitt skipti fékk Alcaraz boltann í hendi innan teigs en dómarinn áhugalaus. Maður hefur svo sem séð víti gefin við svona atvik.

Rétt fyrir leikslok (88. mínútu) átti McCarthy skot að marki sem var blokkerað en boltinn barst til Lukaku. Hann náði góðu skoti niðri í vinstra hornið sem var stórkostlega varið í horn. Upp úr horninu barst boltinn til Baines utan teigs sem tók skotið hátt yfir.

Dómarinn flautaði til leiksloka stuttu síðar, okkur öllum til mikils léttis. 2-1 sigur Everton í höfn sem fór fyrir vikið upp í fjórða sætið. Miðað við stöðuna í leik Chelsea og Liverpool í augnablikinu virðist sem Everton haldi því.

Verð samt að hrósa Southampton fyrir flottan leik og þó Everton hafi fengið heldur betri færi í leiknum þá voru Southampton menn oft nærri því að komast í dauðafæri og vantaði gjarnan bara að þetta dytti meira með þeim. Það er langt síðan ég hef verið svona glaður að heyra dómarann flauta til leiksloka sem segir ákveðna sögu um frammistöðu Southampton í leiknum. Þeir voru með boltann 55% á móti 45% hjá Everton, sem telst óvenjulegt á þessu tímabili, sérstaklega á Goodison. Þeir áttu líka 10 skot en aðeins tvö sem hittu rammann á móti 6 frá Everton og þremur á rammann.

Einkunnir Sky Sports: Robles 6, Baines 6, Alcaraz 7, Distin 7, Coleman 7, Oviedo 6, Osman 6, McCarthy 8, Naismith 6, Barkley 8, Lukaku 7. Varamenn: Mirallas og Pienaar, báðir 6. Southampton með nokkrar sjöur, annars bara 6 á línuna.

18 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    ég segi 2 -0, Barkley og Naismith, Koma svo !!!!!!!

  2. Orri skrifar:

    ‘eg er bar a nokkuð bjartsýn fyrir leik okkar manna í dag.Ég spái 3-1 fyrir okkur,eins og áður er mér saama hverjir skora bara að við skorum.

    Áfram Everton.

  3. Ari G skrifar:

    Frábær sigur vantaði 5 og samt vann Everton flott hjá þeim. Ánægður með Alcaraz stóð fyrir sínu. Hræðilegt að missa Jagielka en gott að fá Baines aftur. Barkley, Coleman, Lukaku og MaCarthy bestu menn Everton. Vel samt Coleman mann leiksins fyrir flotta markið.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Já flott að fá sigur í dag og vera fyrir ofan Liverpool um áramótin. Ég er reyndar ekki sammála með frammistöðu Lukaku, fannst hann arfaslakur en hann getur samt alltaf skorað þó hann spili illa, átti þó annað ágætt færi eftir markið. Snilldarmark hjá Coleman og McCarthy ásamt Barkley góðir. Agalega var dapurt að sjá Robles í þessu marki þeirra en annars ekki mikil ógn frá þeim.
    Var hræddur að þetta yrðu of margar breytingar á okkar liði en þetta gekk þó eftir. Bara 3 dagar í næsta leik þar sem við ætlum að vaða yfir Stoke á þeirra heimavelli.
    Alcaraz að koma svakalega vel út í þessum leik og gæti bjargað okkur í fjarveru Jagielka.

  5. Gunnþór skrifar:

    Flottur sigur hjá okkar mönnum,nokkuð um feilsendingar í dag en komumst upp með það og það er það sem skiptir máli,Barkley er að verða þvílíkur kóngur á vellinnum að það hálfa væri nóg ,þvílíkur leikmaður sem þessi drengur er að verða.Þetta verða flott áramót fyrir ofan Pool.Sammála Elvari með Alcaraz virtist leysa þetta vel miðað við að hann er ekki búinn spila mikið í vetur,Coleman var með frábært mark.

  6. Gestur skrifar:

    hélt þegar þeir jöfnuðu að þeir mundu setja annað. Vont að missa fyrirliðan í fjórar vikur en Alcaraz kom vel út í dag. Gott að geta breytt um aðeins um leikmenn en samt vinna. Jelavic virðist vera að fara út, vona að við fáum spennandi framherja í staðinn.

  7. þorri skrifar:

    Sammála þetta var flottur leikur. Ég er sammála að þessi Alcaraz leysti varnarleikinn mjög vel. Þá vitum við að við eigum mann í þessa stöðu. Svo er Coleman að verða nokkuð góður á kantinum. Vonandi að Lukaku sé að koma upp aftur. Það er æðislegt að vera fyrir ofan Liverpool. Ég lít vonar augum á evrópusætið. Liðið okkar er orið frábært og góður stjóri.

  8. Orri skrifar:

    Ég er yfir mig ánægður með sigurinn í dag,en ég er þess fullviss að við getum spilað betur en í dag.Barkley verður bara betri og betri með hverjum leik,Coleman skilaði sínu vel Annars voru flestir að gera vel.Það er frábært að enda árið fyrir ofan Liverpool,nú er bara halda þeim fyrir neðan okkur það sem eftir er vetrar.

  9. Finnur skrifar:

    Coleman og Lukaku í liði vikunnar að mati BBC:
    http://www.bbc.com/sport/0/football/25543214

  10. Halli skrifar:

    Verum allir jákvæðir hér á síðunni. Við erum í 4. sæti um áramót, hvað viljið þið meira, sæti í meistaradeild og flottur stjóri.

    Ég sem formaður Evertonklúbbsins á Íslandi óska ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Sem betur fer í upphafi árs 2014 erum við í 4 sæti og vonandi klárum við það í vor.

    Kv.

    Halli

  11. Diddi skrifar:

    Snilld að vera ofan við þá rauðu, og slys að vera ekki enn ofar. En þetta hefur verið frábær leiktíð til þessa og vonandi höldum við uppteknum hætti á seinni hlutanum, gleðilegt 2014 og takk fyrir gott 2013. Áfram EVERTON!!

  12. Diddi skrifar:

    Væri ekki í lagi að fá þenna sjóðheita Belga í okkar raðir, ég er ekki spenntur fyrir Alfreð. http://www.mirror.co.uk/sport/football/transfer-news/everton-plot-transfer-michy-batshuayi-2968191?

  13. Finnur skrifar:

    Veit einhver af hverju Belginn er kallaður „næsti Lukaku“? Er það af því að hörundsliturinn og þjóðernið er það sama, eða býr meira þar að baki?

  14. Baddi skrifar:

    4 sæti og fyrir ofan litla bró geggjað, næsta ár verður enn betra, jólakveðjur Baddi.

  15. Gunnþór skrifar:

    Baddi minn, ég var búinn að gleyma að þú værir til eða ekki, ekki hægt að gleyma svona snillingi, verð enn og aftur að minna á að Baddi er guðfaðir minn sem Everton aðdáandi og mun vera honum ævinlega þakklátur fyrir að hafa leitt mig á rétta braut. Verðum við ekki að fara skipuleggja næstu ferð félagar? Hvernig er með meistarana á Húsavík, er ekkert að frétta?

  16. Gunnþór skrifar:

    Hvernig væri að varpa lítilli sprengju á old trafford og kenna þessum mönnum aðeins lexiu og láta okkar menn vera eitt skipti fyrir öll.

  17. Finnur skrifar:

    Mikið rétt. Það er ákveðin lífsreynsla að hitta Badda í fyrsta skipti. Maður gleymir því aldrei. 🙂