Mynd: Everton FC.
Everton mætti Newcastle á heimavelli á mánudagskvöldi í síðasta leik umferðarinnar en með sigri gátu Everton komist upp í fjórða sæti eftir 6 leiki. Uppstillingin nokkuð hefðbundin: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, McCarthy, Barry, Osman, Mirallas, Barkley, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Heitinga, Jelavic, Kone, Deulofeu, Naismith, Stones. Maður var hálf hissa að sjá Naismith á bekknum eftir að hafa skorað tvö mörk í síðustu þremur leikjum, en maður verður víst að treysta Martinez fyrir valinu.
Og Everton byrjaði með miklum látum, settu strax góða pressu á Newcastle og það tók ekki nema eina mínútu fyrir Lukaku að setja knöttinn í netið, en því miður (réttilega) dæmdur rangstæður. Hann setti þó tóninn fyrir restina af hálfleiknum því hann átti aldeilis eftir að láta til sín taka. Aðeins þremur mínútum síðar, fór Mirallas mjög illa með vinstri bakvörð Newcastle (Santon), brunaði upp kantinn og sendi frábæra sendingu fyrir markið þar sem Lukaku kom á hlaupinu inni í teig og átti ekki í miklum vandræðum með að setja boltann framhjá Krul í marki Newcastle, eins og sjá má:
1-0 fyrir Everton og þetta var bara byrjunin.
Newcastle menn virtust eiginlega hálf smeykir við Everton liðið og gekk lítið hjá þeim að spila boltanum og Everton réð lögum og lofum frá upphafi. Everton pressaði mjög vel á þá og Barkley náði góðu skoti á 7. mínútu en boltinn rétt sleikti utanverða stöngina.
McCarthy vann boltann af miðjumanni Newcastle á 17. mínútu og brunaði í sókn og var næstum búinn að skora mark númer 2 en skotið ekki nógu fast og Krul náði að verja. Osman náði frákastinu og reyndi háa fyrirgjöf en tveir varnarmenn Newcastle mættir til að skalla frá áður en Barkley náði til knattarins. Algjör glundroði í vörn Newcastle.
Coleman var næstum búinn að koma Mirallas í færi með fyrirgjöf aðeins þremur mínútum síðar (20. mínútu) en Collocini bjargaði vel fyrir Newcastle. En aðeins 5 mínútum síðar var Everton komið í 2-0. Distin skallar fram völlinn, Mirallas sendir á Lukaku sem á algjörlega frábæra stungusendingu á Barkley sem kom á hlaupinu gegnum vörnina og afgreiddi færið glæsilega framhjá Krul í markinu. 2-0 fyrir Everton.
Algjör einstefna að marki Newcastle, sem varla komu boltanum út úr eigin vallarhelmingi og eftir um hálftíma leik höfðu Everton menn náð fimm skotum í átt að markið (þrjú á rammann og tvö inn) á meðan Newcastle hafði ekki náð skoti — ekki bara á markið, heldur AÐ marki.
Og okkar menn voru ekki hættir. Howard átti langt spark fram völlinn á 37. mínútu og hlaupið hjá Lukaku var frábært, Krul reyndi að sprikla útlimum í boltann en Lukaku komst fram hjá honum og tók gabbhreyfingu á Collocini sem reyndi skriðtæklingu til að bjarga marki og smellti boltanum í autt markið. 3-0 fyrir Everton. Takið eftir stoðsendingunni frá Howard. 🙂
Og Lukaku var alls ekki hættur — kom boltanum í netið á 41. mínútu en aftur dæmdur (réttilega) rangstæður.
Fjórum mínútum bætt við fyrri hálfleik og rétt undir lok hans (á 45.+4 mínútu) kom fyrsta skot Newcastle á markið en Howard með það allan tímann. 3-0 í hálfleik og þetta allt of auðvelt. Loksins tekst Everton að nýta töluverða yfirburði og drepa leikinn algjörlega. Það er varla hægt að tapa niður 3-0 forystu eftir svona spilamennsku — eða hvað?
Tvöföld skipting hjá Newcastle í hálfleik, Cabaye og Williamson inn á.
Seinni hálfleikur byrjaði með látum. Newcastle náðu stungusendingu gegnum vörnina hægra megin og sóknarmaður þeirra náði skoti framhjá Howard en boltinn í innanverða vinstri stöngina og Coleman hreinsaði frá. Everton beint í sókn hinum megin vallar, fyrirgjöf frá Mirallas frá hægri en Krul ver og kemur í veg fyrir að Osman, sem mættur var á hárréttan stað, smelli boltanum í autt markið.
En aðeins nokkrum mínútum síðar (50. mínútu) kom mark frá Newcastle. Cabaye tók skot af löngu utan teigs, smellhitti boltann upp í vinkilinn hægra megin. Glæsimark og algjörlega óverjandi fyrir Howard. Staðan 3-1.
Fyrsta markið sem Everton fær á sig síðan í mars, að mig minnir og þurfti glæsimark til.
Liðin skiptust á skotum eftir það. Barkley átti skot á 51. mínútu en varið. Newcastle áttu skot á 56. mínútu utan teigs, en Howard átti það. Lukaku átti skot á 67. mínútu en hátt yfir.
Deulofeu inn á á 73. fyrir Mirallas og hann lét fljótt til sín taka, sólaði sig í gegnum vörnina á 80. mínútu en enginn til að taka við fyrirgjöfinni. Baines náði boltanum stuttu síðar en átti skot hárfínt framhjá.
Á 84. mínútu áttu Newcastle aukaspyrnu á hættulegum stað, en skutu boltanum beint í vegginn, fjórða aukaspyrnan í röð sem fór beint í vegginn. En aðeins fjórum mínútum síðar voru þeir búnir að minnka muninn þegar Remy potaði inn af stuttu færi og þar með fór um mann.
Aldrei getur þetta blessaða Everton lið sleppt því að gefa manni hjartaslag undir lokin. Newcastle töldu sig eiga séns á óverðskulduðu stig og náðu ágætri pressu undir lokin en vörnin hélt og Everton landaði sigrinum.
Þetta var algjör fótboltaveisla sem Everton stóð fyrir í fyrri hálfleik en þeir slökuðu allt of mikið í fyrri hálfleik og þurfa að passa upp á að missa ekki einbeitninguna þegar forystu er náð. Ekkert nýtt þar, í raun.
Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Distin 6, Jagielka 6, Coleman 8, Mirallas 7, Barry 6, McCarthy 6, Osman 6, Barkley 9, Lukaku 9. Varamenn (Deulofeu, Naismith og Stones) fengu allir 6. Gouffran stóð upp úr byrjunarliði Newcastle, með 7, fjórir með 6, fimm með 5, og Yanga-Mbiwa átti skelfilegan leik í vörninni, fékk 3 í einkunn og var kippt út í hálfleik.
Everton þar með enn eina liðið í deild sem er taplaust eftir 6 leiki og komið í fjórða sæti og aðeins einn sigurleikur í toppliðið, sem fyrr. Meira svona!
Áfram Everton kemst ekki þar sem ég er sjálfur í tuðru sparki á sama tima en treysti þvi að þið munið stýra þessu í örugga höfn
Virkilega flottur leikur hja´okkar mönnum, ég hefði samt viljað halda hreinu en maður má ekki vera of frekur. Sigur er alltaf sigur og okkar menn spiluðu frábæran bolta á köflum.
Orri hafði samband frá Tenerife og bað fyrir kveðju til ykkar stuðningsmanna Everton á Íslandi. Honum fannst Coleman vera bestur og eins átti Deulofeu góða spretti þann stutta tíma sem hann var með. Coleman var mjög góður en snilldin sem kom frá Lukaku og Barkley á köflum fannst mér standa uppúr. Takk fyrir mig Everton. Meira af þessu 🙂
kær kveðja,
Ari
PÚFF!!! Þarna munaði of litlu.
Fyrri hálfleikur frábær en hvað í ósköpunum gerðist í seinni hálfleik???
Það var eins og okkar menn væru enn inni í búningsklefa fyrstu 10-15 mínúturnar. En 3 stig eru 3 stig og það eru jú þau sem skipta öllu máli. En okkar menn verða að fara að mæta í seinni hálfleikinn á sama tíma og hitt liðið ef við ætlum að vera með í baráttu um Evrópusæti.
Ingvar þetta eru 90 plús mín. Við skulum (allavega hef ég) hafa gaman af góðu gengi á meðan það varir. Þetta var samt hræðileg spenna í lokin, mér leist ekkert á þetta…..
Spennandi leikur næst á útivelli gegn Mancester City. Þá sést úr vherju okkar lið er gert 🙂
Frábær fyrri hálfleikur. Mjög gaman að sjá Everton núna spila skemmtilegan fótbolta. Lukaku maður leiksins ekki spurning svolítið þreyttur í restina. Er ekki hægt að kaupa hann í janúar þótt hann kosti 15 millur. Losa okkur við Jelavic, Heitinga og kannski Osman finnst hann ekki sami maður núna og í fyrra. Erfiður leikur næst við City vona að Everton haldi haus í þeim sennilega erfiðasti útileikurinn í ensku í dag.
Finnst kannski ekki rétt að segja að við hefðum ekki mætt til leiks í seinni hálfleik, fannst meira jafnvægi á liðinum í seinni hálfleik en við fengum 3-4 mjög góð færi í seinni hálfleik og hefðum vel geta skorað mörk og að mínu mati klaufaskapur að skora ekki allavega 4-5 mörk í þessum leik, Newcastle áttu ekki mörg færi í seinni hálfleik og Cabaye skorar mark upp úr engu og svo fannst mér alveg ótrúleg heppni yfir hvernig boltinn lenti hjá Remy eftir klaufaskap/óheppni hjá Jagielka. Eina alvöru færið þeirra fyrir utan þessi tvö mörk var þegar þeir áttu skotið í stöngina í upphafi hálfleiks.
Við algjörlega áttum fyrri hállfleik og liðið spilað hreint út sagt óaðfinnanlega og pressaði mjög hátt á Newcastle, það sem Newcastle gerði vel í seinni hálfleik var að þeir pressuðu okkur framar og þá náðum við ekki sama flæði í spilið. Þó eins og ég segi þá áttum við ef eitthvað er fleiri færi í seinni hálfleik þó þeir hefu skorað 2 og við ekkert.
Vel verðskulduð 3 stig í dag og hefði hreinlega verið skandall að vinna þetta ekki þar sem mér fannst við eiga þennnan sigur fyllilega skilið. Áttum að vinna þetta með 2-3 mörkum miðað við gang leiksins.
Ari ég er alveg sammála með Coleman, hann var alveg frábær í kvöld og hefur hann svo sannarlega slegið í gegn í þessari hægri bakvarðarstöðu, frábær bæði í vörn og sókn. Fannst hann eiginlega maður leiksins þó að Lukaku hafði sett tvö mörk og lagt upp annað. Lukaku var algjörlega frábær í þeim fyrri en dalaði í seinni og var orðinn þreyttur. Það tekur smá tíma að komast í 90 mín leikform og Martínez hefði hugsanlega mátt gefa Jelavic 20 mín. Barkley átti líka flottan leik.
Við erum ennþá eina taplausa liðið í deildinni og erum komnir í topp 4. Áfram Everton!
Sammála Georg, Everton átti fyrri hálfleikinn en mér fannst seinni hálfleikur frekar jafn og ekki má gleyma því að við áttum fjölmörg færi í seinni hálfleik sem við náðum ekki að nýta okkur.
Coleman fannst mér stórbrotinn í þessum leik og varnarlega var hann alveg fanta sterkur. Fannst Barkley og Lukaku einnig frábærir og Mirallas frekar öflugur.
Eins og Lukaku var góður í fyrri hálfleik þá lék hann illa seinustu 30 mínúturnar og hefði ég viljað sjá honum skipt útaf á þeim tímapunkti. Deulofeu sýndi skemmtilega takta og mun hann klárlega taka meiri og meiri þátt í leikjum vetrarins.
Góður sigur og mjög sanngjarn og gríðarlega ósanngjarnt ef Newcastle hefði náð að jafna í lokin. Hefði talið 4-2 eðlileg úrslit.
Erum komnir í 4 sætið og einungis 1 stigi frá öðru sæti og bara 3 stigum frá toppsætinu og erum ennþá eina taplausa liðið í deildinni og ekki má gleyma því að komnir eru 3 sigurleikir í röð.
Nú er bara að sigra Man City á útivelli á laugardaginn og koma okkur í mjög svo áhugaverða stöðu í deildinni eftir næstu umferð.
Já og ekki má gleyma því að Moyse hefur loksins tekist áætlunarverk sitt eftir tilraunir seinustu 10 ára að Everton komist vel uppfyrir Manchester United. 🙂
Góður Elvar ég hló mig máttlausan þegar ég sá þennan
Flottur leikur og ég verð að hrósa Coleman,finnst hann svo vonlaus í útliti en virkilega skila sínu og gott betur hehe 😉
Það verður samt að segjast að Lukaku verður að fara standa sig betur á bolta, í nokkur skipti í hraðri sókn klikkar stuttar sendingar að hjá honum. Rétt fyrir 1 mark Newcastle tapar hann bolta og við erum heppnir að fá ekki á okkur mark, Í 1 markinu tapar hann svo aftur bolta og hröð sókn myndast sem endar á að komið er í veg fyrir fyrirgjöf en í stað þess berst bolti út á Cabaye sem setur hann í andlitið á okkur þegar varnarmenn eru að koma sér fyrir. Þetta virðist vera akkilesarhæll okkar, tapaðir boltar á miðsvæði sem orsaka hraðar gagnsóknir. Þetta sást á undirbuningstímabilinu gegn Real sérstaklega.
Lukaku er ungur og reynsluleysið virðist orsaka þetta og í raun mjög í líkingu við það hvernig Barkley var að missa boltan í svipuðum aðstæðum í fyrstu leikjum tímabilsins. Barkley hefur hinsvegar bætt vel úr þessu og virðist sterkari með hverjum leiknum og gerir færri svona mistök.
Ég tel því miklar líkur á því að Martinez nái þessu úr LUkaku með því að spila honum áfram í næstu leikjum.
Margar lélegar sendingar hjá Lukaku í seinni hálfleik.Skrítið að sjá þetta frábæra lið fyrri hálfleiks varla nenna þessu í seinni.Meiri hluta seinni hálfleiks var eins og hvorugt liðið nennti að spila fótbolta.En flott 3 stig.Við höfum oft gert góðar ferðir til Manchester.Verum ekkert að breyta því um næstu helgi.Þangað til:Góðar stundir.
Þessi sigur er frádær og gefur mönnum örugglega mikið sjálfstraust í næstu leiki og vonandi heldur þetta form áfram. Gallinn við næsta leik er að Barry má væntanlega ekki spila sem lánsmaður frá city
Skondið að hugsa til þess að í síðastu tveimur leikjum þessara tveggja liða á Goodison Park kom Everton tuðrunni yfir marklínu Newcastle samtals tíu sinnum!! Það er greinilega aldrei lognmolla í þessum leikjum — spurning um að skoða Íslendingaferð á heimaleik gegn Newcastle á næsta tímabili? 🙂
Robbie Savage fjallaði annars lofsamlega um Everton eftir leikinn:
http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/24339775
Martinez hrósaði Barkley líka í hástert í viðtali við BBC:
http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/24342856
Þrír í liði vikunnar að mati Goal (Barkley, Lukaku og Howard):
http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2013/10/01/4301064/premier-league-team-of-the-week-lukaku-runs-riot-alongside
BBC höfðu ekki fyrir því að bíða til mánudags með að velja lið vikunnar (þeir gerðu það eftir sunnudagsleikinn). En Sky Sports, aftur á móti, völdu Lukaku og Barkley:
http://www1.skysports.com/football/news/11979/8951219/pl-team-of-the-week
Þetta var frábær fyrrihálfleikur hjá okkar mönnum.með heppni hefðu við geta gert fleiri mörk í fyrrihálfleik.En seinnihálfleikurinn hefði mátt vera betri.En við börðumst vel.Og unnum 3 stig í hús.Mér fanst coleman vera bestur.og svo kom Lukaku og Barkley. Hann lukaku þarf að laga aðeins sendíngar hjá sér en hann er annars mjög góður.En ég er bjartsínismaður ég held að við vinnum Manciti á laugardagin ég seigi að Barkley skori.Mig langar að seigja að hann Deulofeu vera nokkuð sprækur þegar hann kom inn á ég seigi hann á bara eftir að vera betri