Everton vs. Newcastle

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Newcastle á heimavelli í eina kvöldleiknum á morgun (mánudag kl. 19:00) en með sigri gætu okkar menn farið að blanda sér í baráttu fjögurra efstu liða. Þar sem deildin er skammt á veg komin eru aðeins fjögur stig í efsta lið (þegar Everton á einn leik til góða) en líka aðeins fjögur stig í 16. sætið. Everton hefur á 11 ára bili aðeins tapað einum leik af 10 gegn Newcastle á heimavelli (0-1 tap við byrjun tímabils 2010/11) , unnið 6 og gert þrjú jafntefli (þar af eitt þar sem tvö lögleg mörk Everton töldu ekki). Gengi Newcastle hefur verið misjafnt á tímabilinu, þeir töpuðu stórt (4-0) fyrir City í upphafsleiknum og gerðu svo markalaust jafntefli við West Ham heima. Mörðu Fulham og Aston Villa með eins marks mun í hvorum leik en töpuðu svo fyrir nýliðum Hull í síðasta leik.

Gengi Everton hefur verið jafnara — en eftir nokkur jafntefli þar sem Everton átti mun meira skilið unnu þeir Chelsea í deildinni og síðan West Ham nú síðast og eru eina taplausa liðið í deildinni. Það er að sjálfsögðu mikið ánægjuefni, ekki bara að mati Roberto Martinez, enda var ekki vitað hverju maður ætti von á þegar skipt var um í brúnni hjá okkur. Tapið í deildarbikarnum var vissulega vonbrigði en úrslitin voru í engu samræmi við frammistöðuna í leiknum þannig að leikmenn (sem og við öll örugglega) bíðum óþreyjufull eftir því að sjá þá komast aftur á sigurbraut og þetta er frábært tækifæri til þess, undir flóðljósunum á Goodison Park dyggilega studdir af áhorfendum. Stemmingin verður örugglega ólýsanleg.

Þetta verður líka sérstök stund fyrir Gareth Barry en hann getur náð 500. Úrvalsdeildarleik sínum ef hann spilar á mánudaginn, en fastlega má gera ráð fyrir því að hann spili. Hann yrði þar með einn af aðeins 10 leikmönnum til að ná því marki frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð. Tveir af leikmönnunum 9 sem hafa náð þessum áfanga eru fyrrum Everton menn: Phil Neville og Gary Speed. Í tilefni leiksins rifjaði klúbburinn einnig upp feril Duncan Ferguson, sem (eins og ætti ekki að hafa farið framhjá neinum Everton-aðdáanda) lék fyrir bæði Everton og Newcastle.

Meiðsladeildin lítur ágætlega út: Alcaraz er enn meiddur en Martinez hljómaði vongóður með að Pienaar gæti leikið. Osman og Kone eru líklega heilir og Gibson spilaði heilan leik síðast og komst vel frá honum, engin eftirköst eftir meiðsli hans. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Miðjan: Barry og Gibson, Naismith og Mirallas á köntunum, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi. Hjá Newcastle eru Shola Ameobi, Jonas Gutierrez og Steven Taylor líklega frá og Yohan Cabaye sagður tæpur.

Lítum yfir helstu fréttir líka. Fyrst ber að nefna að Don Donovan, fyrrum leikmaður Everton, lést á dögunum en hann var 83ja ára gamall þegar hann lést. Hann var síðasti núlifandi leikmaður Everton-liðsins sem tryggði sér sæti í efstu deild á ný, með því að leggja Oldham 4-0 árið 1954. Við hér á everton.is vottum honum virðingu okkar.

En þá að núverandi leikmönnum: Heitinga er nýlega búinn að lýsa því yfir að hann sé kátur undir stjórn Martinez, sem kom mér nokkuð á óvart því hann á minni séns að komast í liðið núna en hann átti undir stjórn Moyes. Hann hafði allavega séns á að koma inn sem varnarsinnaður miðjumaður en með tilkomu Gareth Barry hefur tækifærunum farið enn fækkandi. Hann sagði í viðtali að Everton hefði fengið tilboð í sig í ágúst en að honum hafi ekki litist á þau en myndi skoða tilboð í janúar ef einhver berast. Hann verður með lausan samning næsta sumar.

Einnig má geta þess að Everton U18 sigraði West Brom U18 á útivelli, 1-3 með þremur mörkum frá George Green. Og aðalliðið mætti í myndatöku og viðtöl á Goodison Park á dögunum og var greinilegt á öllu að létt var yfir hópnum og leikmenn skemmtu sér konunglega.

Í lokin, nokkrar tilkynningar:

– Síðasta tækifæri til að segja skoðun sína á nýju merki Everton félagsins er núna á þriðjudaginn (1. október).
– Síðasta tækifæri til að skrá sig í Íslendingaferðina í nóvember er nú á miðvikudaginn (2. október). Við verðum að minnsta kosti 11 á pöllunum og getum enn bætt á okkur!
– Og að lokum minnum við á félagsgjöldin en gíróseðla finnið þið í heimabanka ykkar og að sjálfsögðu einnig er hægt að millifæra beint. Sjá allar nánari upplýsingar hér. Við getum ekki haldið uppi öflugum stuðningsklúbbi nema með ykkar hjálp!

16 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  Gódur pistill að venju Finnur. Við eigum harma að hefna gegn Newcastle á heimavelli eftir hörmungina í dómgæslunni í fyrra 2 töpuð stig þá en það er eitthvað við þetta Newcastle lið sem hræðir mig og ég spái 1-1 og að Kone jafni seint í leiknum. Svo hvet ég alla til að taka þátt í starfi Evertonklúbbsins á Íslandi og reyna að stækka og gera klúbbinn enn öflugri en hann er.

 2. Gunni D skrifar:

  Þetta fer 4-0. Það stendur í þriðjudagsmogganum. Góðar stundir.

  • Teddi skrifar:

   Furðulegt maður, var að skoða Fréttablaðið næsta þriðjudag og þar stendur 1-1. 🙂

  • Finnur skrifar:

   Ég held þið séuð eitthvað að rugla — Ég fékk að sjá forprentað eintak af Fréttablaðinu og þar stendur skýrum stöfum að Everton hafi skorað þrjú lögleg mörk og unnið leikinn 1-0. Naismith með sigurmarkið.

 3. Gestur skrifar:

  það er alltaf einhver kvíði að mæta Newcastle, þeir eru óútreiknanlegir og stundum hefur Everton farið illa út úr þessum viðureignum, þó kannski ekki á heimavelli að undanförnu. ég spái þó markaleik 3-3

 4. Sigurbjörn skrifar:

  Tölfræði okkar gegn Newastle er ágæt sl. 10 ár. 8 sigrar, 6 jafntefli og 5 töp. Ég er þó sammála Gesti að einhvern veginn finnst manni þessir leikir gegn þeim óútreiknanlegir en ég ætla að vera bjartsýnn og segja að allar flóðgáttir opnist og við vinnum 4-0. Mirallas á inni eitt eða tvö mörk og ætli Barkley og Lukaku sjái ekki um restina.

  • Sigurbjörn skrifar:

   Það er svo sem óþarfi að margtyggja tölfræðina en góð vísa aldrei of oft kveðin 😉

 5. Gestur skrifar:

  Ég tel líklegt að Heitinga fari í janúar, hann er samningslaus næsta sumar og Martinez vill ekki nota hann, enda tekin af velli í bikarleiknum og greinilega að hann er ekki eftirsóttur, fyrst að þetta voru ekki líkleg tilboð.
  Hann kom til okkar 2009 á 6,1m , og hefur ekki getað neitt en man þó eftir smá spretti hjá honum þar sem hann var ágætur. Þeir voru ekki allir góðir sem Herra Moyes keypti.

 6. Finnur skrifar:

  Heitinga er reyndar mjög góður varnarmaður. Gallinn er bara sá að hann er mjög brokkgengur ef hann fær ekki að spila reglulega — sem er raunin núna. Hann sýndi hvað hann gat þegar hann fékk tækifæri fyrir nokkru síðan þegar Jagielka meiddist í nokkra mánuði. Heitinga var þá fastamaður í vörn og algjörlega blómstraði (valinn maður tímabilsins undir lokin). Hann missti svo sæti sitt og hefur síðan aðallega verið notaður í stöðu (varnarsinnaðs miðjumanns) sem hann er í besta falli „fínn kostur“ í en ekki mikið meira. Það er ekki hægt að meta hvort hann sé eftirsóttur út frá þessum upplýsingum þar sem við vitum ekki hvaða lið var um að ræða eða hvaða kröfur hann gerir. Kannski er hann bara að leita að Champions League liði á Englandi/Hollandi? Erfitt að segja hvað honum finnst spennandi.

  • Halli skrifar:

   Hann var kosinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum leiktíðina 2011/2012

  • Gestur skrifar:

   nei það þarf auðvitað meiri upplýsingar til að greina þetta betur en þetta eru bara pælingar

 7. Holmar skrifar:

  Ég er óvenju bjartsýnn fyrir þennan leik, sem veit því miður yfirleitt ekki á gott. Þannig að eiginlega ætti ég að verða svartsýnn í hvert skipti sem ég verð bjartsýnn, en vandamálið er að yfirleitt þegar ég er svartsýnn þá fer vel svo þetta er hálfgerður vítahringur. En þetta var nú ekki það sem ég ætlaði skrifa, afsakið þennan út úr dúr.

  Ætla að vera voðalega ófrumlegur í spánni og spá 2-1 fyrir Everton. Baines setur eitt úr víti (kannski smá frumleiki í að spá því að Everton fái vítaspyrnu) og Lukaku setur hitt. Lendum eflaust undir og komum svo sterkir til baka.

 8. Finnur skrifar:

  Klukkutími í leik. Þið vitið hvað það þýðir!

  Jú, uppstillingin er komin!
  http://everton.is/?p=5684