West Ham vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Minni enn á ný á tækifærinu sem ykkur gefst til að fara með okkur í fótboltaferðina — að sjá Everton taka hressilega á móti Tottenham í nóvember. Þetta hefur verið frábær skemmtun í öll þau skipti sem við höfum farið. Endilega látið þetta tækifæri ekki framhjá ykkur fara og við viljum endilega bjóða velkomið nýtt fólk í hópinn líka. Um helmingur hópsins sem skráður er hefur ekki farið áður með okkur.

En þá að leiknum — Everton mætir West Ham á útivelli á morgun kl. 14:00 og er þetta ágætis tími til að mæta þeim því Everton er komið á sigurbraut og meiðslalistinn hjá okkur styttist með hverjum deginum sem líður. Martinez sagði að bæði Gibson og Kone ættu að vera klárir í leikinn við West Ham sem þýðir að Everton getur valið úr sínum sterkasta hópi, að Pienaar og Alcaraz undanskildum. Það er mjög mikilvægt að fá Gibson og Kone aftur þar sem þrír leikir eru framundan á einni viku (tveir í deild og einn í bikar). Nokkuð er um meiðsli í herbúðum West Ham, sérstaklega í framlínunni en Andy Carroll, Mladen Petric, Joe Cole, Stewart Downing, George McCartney og Alou Diarra eru allir meiddir. Líklegt byrjunarlið hjá okkur er það sama og í síðasta leik: Howard, Baines, Distin, Jagielka og Coleman. Barry og Osman á miðjunni, Naismith og Mirallas á köntunum og Barkley og Jelavic frammi. Ég á fastlega von á því að Lukaku (sem Sam Allardyce reyndi að kaupa fyrir tímabilið) byrji á bekknum (nema Jelavic sé ekki leikfær) og komi inn á í hálfleik en hann ætti að vera mjög hungraður í að spila eftir að hafa þurft að horfa á síðasta leik enda gat hann ekki leikið gegn Chelsea.

Nokkuð hefur verið rætt um þátt Osman í framtíðinni, þar sem bæði McCarthy og Barry hafa bæst við hópinn. Martinez sagði þó að hann hefði mjög mikilvægu hlutverki að gegna áfram: „Leon is more than just a footballer. He represents Everton. He’s an incredible guide to the young players.“

Tölfræðin lítur nokkuð vel út gegn West Ham en Everton hefur unnið 5 af síðustu 6 leikjum á þeirra heimavelli (og gert eitt jafntefli) en Everton er taplaust gegn West Ham í síðustu 11 leikjum (í öllum keppnum) ef heimaleikir eru taldir með. Síðasti sigur West Ham (1-0 sigur) kom árið 2006 en liðin hafa gegnum tíðina skipt með sér stigunum á heimavelli West Ham (Everton unnið 22 leiki en West Ham 23).

Það verður þó erfitt að koma tuðrunni framhjá markverði West Ham en þeir hafa ekki fengið á sig nema eitt mark í þeim fjórum deildarleikjum sem þeir hafa spilað á tímabilinu. En á móti kemur að þeir hafa á sama tíma ekki náð að skora síðan þeir unnu upphafsleik sinn gegn Cardiff. Gera má ráð fyrir að Everton verði töluvert með boltann, eins og hingað til á tímabilinu, en West Ham eru með lélegasta hlutfall heppnaðra sendinga í deildinni (72%). Everton er með flestar sendingar á vallarhelmingi andstæðinga (681) og efst á listanum yfir heppnaðar sendingar (517) á sama svæði. Skv. því sem ég hef lesið er þetta sjötti besti árangur allra liða í Evrópu.

Mér finnst líklegt að þetta endi með 0-0 jafntefli eða 1-0 sigri Everton en ég ætla að vera kokhraustur og spá 2-0 sigri, Mirallas og Jagielka með mörkin.

Everton mun leika með regnbogalitaðar reimar í leiknum til að sýna samkynhneigðum leikmönnum stuðning. Hið besta mál en þeir undirstrika þar með að kynhneigð leikmanna skiptir engu máli — það sem skiptir máli er geta leikmanna á vellinum. Reimarnar voru sendar á öll lið í England, Skotlandi og Wales og nú er að sjá hverjir svara kallinu.

Í öðrum fréttum er það helst að lesendur geta brátt kosið um nýtt merki Everton (e. club crest). Mikilvægt er að vita sitt Everton Customer Number til að geta lagt inn atkvæði í kosningunni en það númer er einkvæmt sjö stafa númer sem byrjar á 5. Við hjá klúbbnum erum með á skrá númer eiginlega allra sem hafa farið með okkur í fótboltaferðirnar undanfarin ár, þannig að ef ykkur vantar númerið hafið þá samband við okkur eða Everton úti (crestvote (hjá) evertonfc.com). Opnað verður fyrir kosninguna strax eftir helgi og mun hún standa til loka þriðjudags, 1. október. Tveimur dögum síðar (3. okt) verður tilkynnt hvert merki Everton verður fyrir næsta tímabil.

Og í lokin má geta þess að:

– Gibson segist tilbúinn að spila fyrir Írland aftur nú þegar búið er að segja Trappatoni upp störfum.
– Hallam Hope skrifaði undir tveggja ára samning við Everton en þessi 19 ára sóknarmaður er nú bundinn félaginu til sumars 2014.

En — West Ham á morgun. Áfram Everton! Hver er ykkar spá fyrir leikinn?

5 Athugasemdir

  1. Kiddi skrifar:

    Sælir félagar, gaman að hafa svona virka og málefnalega penna á síðunni.
    Ég held öfugt við þig Finnur að Lukaku byrji leikinn og setji mark sitt á hann með eftirminnilegri þrennu. Mínir spádómar hafa svo sem ekki ræst hingað til en þessi leikmaður er hungruð markamaskína.
    Sjáumst hressir í Ölveri

  2. Gunni D skrifar:

    Sammála með Lukaku.Hann er búinn að vera hjá okkur í þrjár vikur og ætti að vera kominn í takt við liðið.Bara hend´onum inn í byrjunarliðið.

  3. Halli skrifar:

    Sælir félagar þessi leikur fer 1-2 lukaku og Mirallas setja mörkin þetta er skrifað í skýin

  4. Baddi skrifar:

    Ég ætla að spá okkar mönnum sigri, 3-1 vona að bæði Jelly og nýji framherjinn okkar Lukaku nái að skora 2.Sjáumst hressir á ÖLVER. kv Baddi

  5. Finnur skrifar:

    Fáum við að sjá Lukaku byrja inn á? Smellið hér til að komast að því, því að uppstillingin er komin í loftið:
    http://everton.is/?p=5567