Cardiff – Everton 0-0

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Cardiff á þeirra heimavelli í leik sem endaði með markalausu jafntefli. Uppstilling sú sama og í síðasta deildarleik: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Pienaar, Osman, Fellaini, Mirallas, Barkley og Jelavic. Varamenn: Robles, Heitinga, Oviedo, Kone, Deulofeu, Naismith og Stones.

Fyrstu 15 mínúturnar voru hálf bragðdaufar og gáfu tóninn fyrir restina af leiknum. Barkley komst í skotfæri á 8. mínútu en varið í horn. Smá líf í Everton en ekkert að gerast hjá Cardiff. Eina skotið hjá þeim sem rataði á réttan stað var olnbogaskot frá Craig Bellamy í andlitið á Baines á 13. mínútu — ekkert dæmt. Þeir náðu að skapa hættu með tveimur hornum í röð, það fyrra skallað aftur fyrir af varnarmanni en það seinna (frá Wittingham) fór í boga frá hornfána og beint á markið. Þetta reyndist eina skot Cardiff sem rataði á markið í öllum fyrri hálfleiknum (!) — og það beint úr horni. Howard átti ekki von á að þurfa að verja en sló boltann niður í teiginn og þar var hreinsað frá.

Mirallas átti tvo fría skalla inni í teig með nokkurra mínútna millibili (fyrst eftir aukaspyrnu en svo úr fyrirgjöf frá Jelavic), en í bæði skiptin fór boltinn í hárgreiðsluna og langt framhjá marki. Mjög illa farið með ákjósanleg færi.

Á 40. mínútu var Baines felldur inni í teig af varnarmanni sem kom á skriðtæklingu, ætlaði að taka boltann en klippti niður Baines í staðinn. Púra víti og ekkert annað. En nei. Veit ekki hvað Everton þarf að gera til að fá dæmt víti en Cardiff sluppu með ótrúlegum hætti með skrekkinn. Coleman komst í skyndisókn á 41. mín en skot hans langt framhjá. Ekki hans besti dagur.

Pressan að aukast hjá Everton og þulurinn hafði á orði: „Ekkert að gerast í sóknarleik Cardiff, mark Everton liggur í loftinu“. Tveimur mínútum bætt við og markið kom næstum því rétt áður en fyrri hálfleikur var flautaður af. Coleman átti eitraða fyrirgjöf inn í teig þar sem Jelavic stökk upp og sýndi Mirallas hvernig maður skallar. Boltinn fór hins vegar í hendina á varnarmanni (víti? nei?) og breytti um stefnu. Marshall markvörður Cardiff var að fara að kasta sér til hægri en þurfti nú aldeilis að taka á honum stóra sínum og sýna hvað hann væri viðbragðsfljótur — kasta sér niður til vinstri og slengja hendi í boltann og redda sínum mönnum.

0-0 í hálfleik, Everton með boltann 63% á móti 37% hjá Cardiff og hefði getað verið tvö til þrjú núll yfir. Þulurinn hafði á orði að dómaratríóið hefði ekki átt neinn stórleik og það verður að teljast understatement því þeir gerðu mörg mistök, sum lítil en sum mjög stór (vítaspyrnu einhver?).

Cardiff byrjaði seinni hálfleik með látum og áttu tvær stórhættulegar fyrirgjafir á 46. mínútu, meðal annars þar sem Kim komst inn fyrir eftir að hafa leikið illilega á Jagielka sem lá eftir í grasinu (ekki oft sem maður sér landsliðsmannin og fyrirliðann Jagielka láta fara illa með sig). Cardiff reyndu tvisvar fyrirgjafir upp úr þessu og enduðu á skoti sem fór nokkuð framhjá.

Barkley átti flotta stungusendingu á Jelavic á 51. mínútu og kom honum í færi einum á móti markverði með varnarmenn á hælunum en Jelavic lúðraði boltanum upp í stúku.

Bellamy átti skot úr aukaspyrnu á 55. mín. af mjög löngu færi beint á markið en auðvelt fyrir Howard. Eiginlega bara æfingabolti. Þetta og hornið í fyrri hálfleik voru einu boltanir frá Cardiff sem rötuðu á markið í öllum leiknum (!). Spáið í það. Þetta er liðið sem vann Man City í síðustu viku.

Kim sendi svo Bellamy inn fyrir vörnina og einan á móti markverði með glæsilegri stungusendingu á 61. mínútu en fyrsta snerting Bellamy arfaslök og hann næstum búinn að missa boltann í horn. Eyðilagði algjörlega færið þeirra. Þeir náðu þó að senda fyrir aðeins seinna en Frazer Campbell náði ekki að stýra boltanum úr fyrirgjöfinn og ekkert kom úr því.

Kone inn fyrir Jelavic á 67. mínútu. Sú skipting gerði lítið og leikurinn eiginlega datt niður í um rúmt korter. Everton yfirleitt í sókn en ekkert markvert að gerast.

Það var ekki fyrr en á 80. mínútu sem hlutirnir fóru að gerast aftur. Baines náði þá fyrirgjöf inn í teig sem Fellaini skallar í átt að marki. Svolítill glundroði í teig Cardiff, boltinn endaði hjá Kone alveg upp við mark en markvörður varði. Skipti þó litlu því Kone var rangstæður. Baines átti svo langskot með hægri af nokkuð löngu færi en boltinn rétt framhjá hægra megin.

Á 84. mínútu fékk Mirallas stungusendingu, inn fyrir vörnina en varnarmaður náði að skriðtækla milli boltans og marks og loka þannig fyrir þannig að Mirallas stoppar til að leggja boltann á hinn fótinn og setja hann framhjá markverði en þá er annar varnarmaður mættur að stoppa hann. Mirallas út af fyrir Deulofeu, búinn að eiga frústrerandi leik.

Deulofeu fékk nokkrar mínútur í lokin, náði einu skoti af löngu — ekki of erfitt fyrir markvörðinn — og einni eitraðri fyrirgjöf fyrir markið sem enginn átti greinilega von á því boltinn skoppaði bara framhjá markinu. Nóg af mönnum Everton inni í teig en allir greinilega að búast við boltanum út í teiginn. 0-0 lokastaðan.

Það vantaði miklu meira hraða í leikinn, og uppbygging sókna oft löturhæg. Það var eins og dagsskipunin hefði verið að halda boltanum og reyna bara smám saman að spila sig í gegnum vörn andstæðingsins. Skemmtanagildið var því af mjög skornum skammti. Engin mörk lífguðu upp á dapran leik og lítið gaman að horfa á Everton liggja í sókn en ná aldrei að setja tuðruna í netið. Maður fékk það á tilfinningunni að leikurinn hefði getað verið tvöfalt lengri en samt endað 0-0. Ótrúlega frústrerandi að horfa upp á Everton gera þriðja óverðskuldaða jafnteflið í röð.

Einkunnir Sky Sports sýna glögglega hvað skemmtanagildið var lítið: Howard 4, Baines 7, Distin 6, Jagielka 6, Coleman 5, Pienaar 5, Osman 4, Fellaini 6, Mirallas 5, Barkley 6 og Jelavic 3. Varamenn: Kone 5 og Deulofeu 4. Cardiff með svipað slæma útreið: fjórir með 6 í einkunn, fimm með 5 og tveir með fjarka. Varamenn þeirra fengu tvo, tvo og einn í einkunn (!).

21 Athugasemdir

 1. Elvar Örn skrifar:

  Gremja.is

 2. Finnur skrifar:

  Ótrúlega svekkjandi. Hvað þarf að gerast til að við fáum víti?

 3. Finnur skrifar:

  Og já Sigurjón (svara þér af öðrum þræði): Þú valdir aldeilis vitlausan leik til að byrja að horfa (leiðinlegasti leikurinn af síðustu fjóru leikjum). 🙂

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta var ömurlegt á að horfa. Ég ætla rétt að vona að Martinez hafi ekki verið sáttur við þessa frammistöðu og hafi látið menn heyra það eftir leik.
  Þetta er annars ósköp svipað og í fyrra þar sem menn urðu ráðþrota um leið og þeir nálguðust vítateig andstæðinganna nema nú eru þeir helmingi lengur að komast þangað.

  Það er ekki nóg að halda boltanum vel, það verður að gera eitthvað við hann. Það virðist bara enginn hafa hugmynd um hvað.

  Sóknarleikurinn gengur allt of hægt og það verst er að ef við fáum færi á skyndisókn, þá er það bara sama sagan.

  Svo virðist ekki vera neitt plan B ef að senda og bíða fótboltinn er ekki að virka. Það er ekki einu sinni reynt að setja Fellaini framar til að geta sent háa bolta á hann, en það hefur nú stundum virkað vel.
  Eftir 75 mínútur af senda og bíða bolta sem var engann veginn að virka, þá var Fellaini enn að dútla í kringum Jagielka á eigin vallarhelmingi.

  Það sem mér finnst verst er að þetta er ekkert að fara að lagast nema við fáum fleiri nýja menn í þessum félagaskiptaglugga. Okkur vantar alvöru sóknarmann, jafnvel tvo og tvo miðjumenn, einhvern sem er góður tæklari og getur stjórnað miðjunni og svo annað hvort kantmann eða sóknarmiðjumann.
  NEI!! Ég vil ekki fá Gareth Barry.
  En það er kannski það besta sem hægt er að búast við úr þessu.

  Svo finnst mér að það ætti að senda Jelavic í rauða hverfið í Amsterdam, þá kannski skorar hann.

 5. Halli skrifar:

  Ömurlegur leikur en clean sheet er alltaf kostur. Hvað gerði Howard til að verðskulda þessa einkunn varði hann ekki þetta eina skot sem Cardiff átti í leiknum og skilaði boltanum vel frá sér. Í leik sem þessum þá þarf RM að breyta leikaðferð og fá inn meiri sóknarþunga í dag hefði ég viljað fá Kone inn fyrir Osman og keyra á þetta af fullum þunga og fá 3 stig

 6. Ari G skrifar:

  Þessi leikur var hörmung Everton miklu betri . Ég tel að það hafi verið mistök að kaupa Kone hefði miklu frekar keypt Alfreð mín skoðun. Hef mikla trú á Barkley nema að hann missir stundum boltann klaufalega en ég héld að það sé reynsluleysi hann á eftir að blómstra. Miralles var hræðilegur ég sem hef svo mikla trú á honum. Mundi setja unga Spánverjann í næsta leik í stað Osmans breyta til. Anechebe sem fremstan þegar hann er til og senda Jelavic og Kone í sumarfrí.

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Held að Jelavic hefði mátt taka smá Ramadan með Kone. Finnst hann þungur og seinn.

 8. Finnur skrifar:

  En Ramadan fastan er ástæða þess að Kone virkar svifaseinn. Hann fékk lítið sem ekkert undirbúningstímabil. 🙂

 9. Elvar Örn skrifar:

  Áhugavert eftir leik dagsins:
  http://blog.emiratesstadium.info/archives/30587

 10. Elvar Örn skrifar:

  Einu fréttirnar í dag eru þær að Fellaini sé að fara til United, vona að um slúður sé að ræða. Spurning hvort Everton bæti við manni í hópinn? Hvernig sem þetta fer allt saman þá mun maður fylgjast með lokun gluggans annaðkvöld.

 11. Gunnþór skrifar:

  Fellaini og baines eiga bara að vera löngu farnir,þetta er ömurlegt að horfa uppá áhugaleisið algjört,þetta skemmir bara einbeitinguna þessar vangaveltur um þá félaga skil ekki afhverju það sé búið að ganga frá þessu fyrir löngu síðan,það þarf alltaf að gera þessa hluti á síðustu metrum félagsskiptagluggans.Framistaðan í gær var vægast sagt léleg liðinn eru farinn að lesa Evertonliðið eins og opna bók leifa því að stjórna leiknum sem við kunnum ekki og ætla sér að sækja hratt á okkur,Cardiffliðið hefði alveg getað stolið þessum þremur stigum sem í boði voru fengu miklu hættulegri færi þó svo að þeir hafi verið frekar slakir í leiknum þá voru þeir vel skipulagðir og skinsamir.

 12. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  Eitt er alveg morgunljóst í mínum huga og það er að ef Fellaini fer til manutd þá hættir hann að fá gul spjöld 🙂

 13. Finnur skrifar:

  Takk fyrir linknn Elvar. Skemmtilegar pælingar. Verst að ekki er minnst á hvaða leiki þetta nær yfir — hefði til dæmis viljað vita hvort Newcastle leikurinn er þarna inni (tvö lögleg mörk dæmd af okkur, sjá http://everton.is/?p=2280). Þetta staðfestir þó það sem við höfum verið að segja, hallar verulega á okkar menn í því sem máli skiptir: vítum, seinna gula spjaldi og rauðum spjöldum. 🙁

 14. Elvar Örn skrifar:

  James McCarty verður leikmaður Everton á morgun.

 15. Elvar Örn skrifar:

  James McCarthy that is

 16. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  á kostnað Fellaini er það ekki?? ég vildi frekar fá hann til viðbótar í liðið

 17. þorri skrifar:

  við skulum vona að þetta fari nú að koma. Mest sárastur að Martines eða stjóninn hafi ekki keypt alfref finboga.Það var það viltlausasta sem þeir gerðu ekki.

 18. Finnur skrifar:

  Leighton Baines í liði vikunnar að mati BBC:
  http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/23922033

  „This was one of the most professional performances I’ve seen from a footballer for years. Considering the full-back has been the subject of transfer speculation for weeks, with a possible move to Manchester United on the cards, his commitment in the 0-0 draw at Cardiff was impeccable. He was denied a certain penalty by referee Anthony Taylor and never protested, only to be struck in the mouth by a Craig Bellamy flailing arm. He just got on with it. A proper footballer with a great attitude.“

 19. Holmar skrifar:

  Eru fleiri en ég sem eru að misþyrma F5 takkanum? Þetta verður stresssandi lokadagur félagaskiptagluggans. Ekki býst maður við að einhver spennandi verði keyptur, vonast bara til að halda okkar mannskap. McCarthy fyrir 12-15 milljónir punda finnst ekki alltof spennandi. Verð þó að viðurkenna að ég þekki þennan leikmann ekki mikið.

  Það væri ákaflega sorglegt að missa Fellaini og Baines svona alveg undir lok gluggans og þurfa að kaupa einhverja í flýti. Og hvað á þá að gera við allar Fella hárkollurnar?

 20. Finnur skrifar:

  Baines líka í liði vikunnar að mati Goal.
  http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2013/09/02/4230705/premier-league-team-of-the-week-classy-giroud-makes-the

  Annars er kominn opinn þráður um félagaskiptagluggann hér:
  http://everton.is/?p=5349

  > Og hvað á þá að gera við allar Fella hárkollurnar?

  Senda þær í pósti á skrifstofuna hjá Moyes? 🙂