Everton – Stevenage 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton tók á móti Stevenage á Goodison Park í kvöld í 2. umferð deildarbikarsins.

Uppstillingin: Robles, Oviedo, Jagielka, Stones, Hibbert, Naismith, Osman, Heitinga, Deulofeu, Barkley, Kone. Átta breytingar frá leiknum við West Brom. Mjög sterkur bekkur, greinilegt að hákarlarnir voru tilbúnir að mæta ef eitthvað færi úrskeiðis: Howard, Coleman, Distin, Baines, Fellaini , Mirallas, Jelavic.

Um nokkra einstefnu var að ræða frá upphafi, Everton mun meira með boltann, yfirleitt á vallarhelmingi Stevenage, sífellt að leita að glufum en skorti einbeitingu og heppni þegar kom að því að klára færin. Og Everton náði fljótt upp góðri pressu — Naismith næstum kominn einn á móti markverði strax á 4. mínútu en missti boltann aðeins of langt frá sér. Á 6. mínútu átti Barkley flott skot sem var varið í horn, Jagielka átti skot upp úr horni sem var líka varið í horn og Barkley með skot framjá upp úr því horni. Sama var upp á teningnum á 8. mínútu: Barkley með skot, varið í horn. Barkley lét mikið til sín taka í leiknum og var fantagóður á miðjunni — virkaði svolítið eins og allt það jákvæða við leik Everton færi í gegnum hann og (og Deulofeu) og Barkley var óhræddur að láta vaða af löngu færi.

Á 11. mínútu björguðu leikmenn Stevenage á línu, eftir að Deulofeu hafði stungið sér inn fyrir vinstri bakvörðinn þeirra og sent eitraða sendingu fyrir markið frá hægri. Kone þar mættur í boltann og náði skoti úr algjöru dauðafæri en einhvern veginn náðu þeir að blokka skotið og böðla boltanum í burtu af línu.

Þetta hristi aðeins upp í Stevenage sem náðu tveimur skotum að marki Everton — það fyrra í varnarmann en hið seinna út af. Það var samt ákveðinn stígandi í leik Everton sem á um 20. mínútu höfðu algera stjórn á leiknum og lágu í sókn en áttu erfitt með að skapa sér dauðafæri og hvað þá að nýta þau sem komu. Deulofeu átti glæsilegt skot utan teigs stuttu síðar sem fór hárfínt framhjá og nokkrum mínútum síðar skot á fjærstöngina frá hægri (einnig rétt framhjá). Hann var mjög sprækur í leiknum, greinilega staðráðinn að sýna hvað hann gæti og sýndi oft á tíðum mjög góða sóknartilburði og fór ítrekað illa með bakverðina þeirra. Hann átti t.d. snöggan sprett framhjá bakverðinum á 31. mínútu og fyrirgjöf hans hitti Osman fyrir sem, líkt og Kone, var í dauðafæri en fyrirmunað að ná almennilegu skoti að marki og boltanum böðlað í burtu aftur.

Á 36. mínútu fengum við svo blauta tusku framan í okkur þegar Stevenage brunaði í skyndisókn eftir langa pressu Everton og  Luke Freeman skoraði mark, þvert gegn gangi leiksins. Vörn Everton greinilega sofnuð á verðinum enda lítið búið að reyna á hana. 1-0 fyrir Stevenage. Fyrsta skot Stevenage sem ratar á markið og að sjálfsögðu ratar það í netið. Aldrei getur Everton farið auðveldu leiðina að sigri, greinilega.

Áhorfendur öskruðu á víti á 41. mínútu þegar Kone var felldur inni í teig að því er virtist. Endursýning sýndi að brotið var utan teigs þannig að það var til full mikils ætlast að biðja um víti — en dómarinn sá ekki einu sinni ástæðu til að dæma á brotið. Kone var svo aftur á ferðinni með færi þegar hann skaut yfir á 44. mínútu. Greinilega ekki hans dagur.

Maður var orðinn ansi svartsýnn á að ná að jafna fyrir lok hálfleiks þegar Naismith og Deulofeu tóku á sprettinn fram völlinn, Naismith sendi flotta sendingu fram á Deulofeu sem kom á sprettinum, tók boltann inn í teig hægra megin, stoppaði snöggt og lék þannig á tvo varnarmenn og renndi boltanum meðfram jörðinni í hornið niðri vinstra megin. Mark á lokasekúndum seinni hálfleiks og staðan orðin 1-1. Mikið andaði maður léttar.

Distin inn fyrir Jagielka í hálfleik en framgangurinn í leiknum var svipaður og í fyrri hálfleik: Everton lá í sókn. Barkley átti skot af löngu færi á 47. mínútu sem var varið, Deulofeu með frábæra fyrirgjöf stuttu síðar en Naismith náði ekki til hans. Naismith átti svo stoðsendingu á Kone sem kom honum í dauðafæri á 51. mínútu en varið frá honum. Barkley með skot á 54. mínútu eftir að hafa tekið sprettinn langleiðina teiganna á milli en skotið rétt framhjá. Osman með skot innan teigs á 56. mínútu sem var varið í horn. „Ætlar okkar mönnum ekki að takast að klára þetta?“, hugsaði maður.

Coleman inn á fyrir Hibbo á 65. mínútu en einhvern veginn dalaði þetta þegar leið á. Stevenage komust í eina af mjög fágætum sóknum undir lok fyrri hálfleiks og náðu skoti á Robles á síðustu sekúndunum en hann varði boltann rétt yfir. Hefði verið laglegt suckerpunch þar á ferðinni. 1-1 eftir lok venjulegs tíma og því framlengt.

Stevenage byrjuðu fyrri hálfleik framlengingar af krafti og náðu að leika illilega á Oviedo í vinstri bakverðinum og komast upp að marki en Distin (alltaf traustur) reddaði Oviedo laglega. Fellaini inn fyrir Barkley á 95. mínútu.

Á 97. mínútu fór boltinn í jörðina og upp í hendina á varnarmanni Stevenage innan teigs en ekkert víti dæmt. :/ Á 98. mínútu átti Heitinga viðstöðulaust skot (eftir að varnarmenn Stevenage reyndu að hreinsa út úr teig) en skotið framhjá. Á 100. mínútu átti Deulofeu sprett upp kantinn, fór illa með varnarmann og sendi fyrir á Kone sem var kominn í færi en honum algjörlega fyrirmunað að skora. Hitti ekki boltann. Ennþá 1-1 í lok fyrri hálfleiks framlengingar.

Fellaini lét vel til sín taka í seinni hálfleik framlengingar, hann átti skot á 110. mínútu sem markvörður varði í horn (eftir að Naismith hafði reynt skot). Upp úr horninu fékk Fellaini frían skalla sem hann náði ekki að stýra á markið (mjög ólíkt honum). Það kom þó ekki að sök því að hann skoraði mark eftir nokkurn pinball leik inni í vítateig Stevenage sem endaði á því að Naismith sendi stutta sendingu á Fellaini sem tók viðstöðulaust skot og kom Everton 2-1 yfir. Stevenage reyndu hvað þeir gátu til að jafna — meira að segja að sparka Fellaini niður (ekkert dæmt) og rjúka í skyndisókn — en Robles sá til þess að ekkert kæmi úr síðasta færi þeirra og leikurinn eiginlega fjaraði út.

Ég var fyrir leik sáttur við eins marks sigur svo lengi sem enginn myndi meiðast og það virðist hafa gengið eftir þó maður hefði viljað sleppa við framlengingu og sjá þá bara klára leikinn.

Sky Sports gefur ekki einkunnir fyrir bikarleiki en mér fannst Barkley bera af í leiknum og Deulofeu var mjög góður líka — þó hann geti verið svolítið mistækur. Naismith virkaði vel (tvær stoðsendingar og hefðu getað verið fleiri ef menn hefðu nýtt færin) og Fellaini frábær í þann stutta tíma sem hann spilaði og gerði gæfumuninn. Vörnin og markvörður áttu ágætis leik — mæddi ekki mikið á þeim. Kannski Oviedo einna sístur, ekki alveg hans dagur. Osman og Heitinga á miðjunni heilluðu mig ekki svakalega mikið og Kone átti hálf slakan dag.

Hvað um það — Everton komið áfram í þriðju umferð og mætir Fulham á útivelli, þann 23. sept, en Fulham þurftu vítaspyrnukeppni til að sigra Burton Albion í 2. umferð.

11 Athugasemdir

  1. Holmar skrifar:

    Þetta stóð tæpt og maður hálf vorkenndi Stevenage mönnum fyrir þetta klúður þeirra rétt áður en vítaspyrnukeppnin hefði útkljáð leikinn.

    Okkar menn virtust löngum stundum vera í öðrum til þriðja gír. Deulofeu var sprækur og væri gaman að sjá hann spila í deildinni. Barkley heldur áfram að standa sig vel og mér fannst Oviedo komast vel frá leiknum. Stone virkaði líka nokkuð öruggur og er framtíðarmaður í liðinu.

    Kone hins vegar virkaði ekki alveg tilbúinn í þetta, er hræddur um að við þurfum einn alvöru framherja fyrir þetta tímabil.

    Gott að komast áfram en frammistaðan ekkert til að hrópa húrra fyrir. Vona svo sannarlega að Fellaini fari ekki, sýndi klassa tilþrif.

  2. Halli skrifar:

    Okkar menn fá svo Fulham á útivelli í 32 liða úrslitum í Capital cup

  3. Finnur skrifar:

    Manchester United v Liverpool
    Sunderland v Peterborough
    West Ham v Cardiff
    Man City v Wigan
    Burnley v Nottingham Forest
    Newcastle v Leeds
    Southampton v Bristol City
    West Brom v Arsenal
    Swindon v Chelsea
    Tranmere v Stoke
    Watford v Norwich
    Aston Villa v Tottenham
    Hull v Huddersfield
    Leicester v Derby
    Birmingham v Swansea
    Fulham v Everton

  4. Haraldur Anton skrifar:

    NAISMITH

  5. Finnur skrifar:

    Fyrrverandi alveg með þetta. 🙂

  6. Gestur skrifar:

    Everton virðist alveg fyrirmunað að skora. Það er svoldið skrítið að liðið hafi ekki verið styrkt fyrir átök vetrarins, þeir menn sem komu inn virðast vera vara menn. Ég held að peningaleysið fari
    að hafa áhrif á liðið og þeir góðu menn sem eru í Everton fari að hugsa sér til hreyfings.Er þetta ekki bara sama sagan ár eftir ár. Eins og ég hef sagt áður, þetta verður erfiður vetur.

  7. Georg skrifar:

    Ég var að horfa á extended highlights inn á evertonfc.com þar sem ég missti af leiknum í gær og það er í raun lögreglumál hvernig við náðum ekki að skora svona 4-6 mörk á 90 mínútum. Barkley og Deulofeu voru frábærir, voru báðir duglegir að skjóta á markið og voru óheppnir að ná ekki inn fleiri mörkum. Deulofeu var líka að búa helling til og átti marga frábæra krossa sem við vorum alls ekki að nýta nógu vel. Kone virðist vera hrikalega riðgaður því að snertingar, móttökur og skot hjá honum eru alls ekki á pari við það sem maður sá hann hjá Wigan, hann fékk nokkur mjög góð færi og hefði átt að setja 2-3 mörk í þessum leik en hann hitti boltan aldrei, virkaði mjög klaufskur.

    Þegar ég sá að við hefðum slegið þá út í framlengingu þá hugsaði ég hvað væri að frétta hjá okkur, en eftir að hafa horft á þetta þá voru við ótrúlega óheppnir að vinnna þetta ekki stórt. Stevenage skoraði svo úr einu sókninni sinni í fyrrihálfleik. Martinez gerir 8 breytingar á byrjunarliðinu en samt var þetta nokkuð sterkt byrjunarlið að mínu mati sem sýnir að við höfum smá breidd. Naismith var aðeins gagnrýndur inn á blueroom á evertonfc en hann var að búa til fullt af færum í leiknum, reyndar var hann ekki sjálfur að koma sér í færi en hann lagði upp bæði mörkin okkar í dag.

    Barkley er búinn að vera okkar besti leikmaður á þessari leiktíð og verður gríðarlega gaman að sjá hann í vetur, vonandi að hann fái að spila með englandi í undankeppninni.

    Eina áhyggjuefnið eftir þennan leik var klárlega það að við vorum ekki að klára færin okkar en á öðrum degi hefðum við átt að rústa þessum leik ef við hefðum klárað þessi færi.

    Við tökum Cardiff um helgina, ég er alveg viss um það!

  8. Finnur skrifar:

    Sammála Georgi. Blueroom umræðan um Naismith kemur mér ekki á óvart. Líklega var það þó Róbert sem startaði henni. 😉

    En svona grínlaust — ef það er ekki nóg að eiga nokkrar stoðsendingar sem skapa færi (þar af tvö sem skapa mark — reyndar *bæði* mörk okkar manna í leiknum) þá veit ég ekki hvað Naismith þarf að gera til að sannfæra efasemdamennina. 🙂

  9. Gunni D skrifar:

    Okkur sárvantar almennilegan slúttara.Í leiknum á móti WBA áttum við 11 marktilraunir á móti engri bara í fyrri hálfleik. Ein á rammann.Úrslit 0-0.Það er lögreglumál.

  10. Gunni D skrifar:

    Var ekki Baines að skapa flest færi í allri evrópu á síðustu leiktíð.Þau telja bara ekki inn á töfluna nema það sé skorað úr þeim.

  11. þorri skrifar:

    Góðan dagin félagar þá er stór leikur framundan.Hvað seigi þið um Cardiff.Ég er dáltið smeikur um þann leik.Eftir að cardiff vann mancíti.Ég vona að okkar menn taki þá.Eru menn ekki samála að okkur vantar markarskorara.Allavega gengur ílla að koma tuðruni í netið.Er ánægður með að okkar menn neiti tilboði mannun í Fellainni og Baines.séstaklega.Við eru þó enn þá tablausir.En 2 jafntefli ég hefði vilja sjá sigur á móti WBA.ég held að það sé bjart framundan hjá okkur OG SEIGJUM ÁFRAM EVERTON.