Mynd: Everton FC.
Roberto Martinez var rétt í þessu kynntur sem nýr stjóri hjá Everton frá og með 1. júlí.
Martinez ættu flestir sem fylgst hafa með enska boltanum að þekkja, allavega að einhverju leyti, en hann hefur verið við stjórnvölinn hjá Wigan undanfarin ár.
Hann var áður hjá Swansea (tók við því liði í febrúar árið 2007) þegar þeir voru í League One og batnaði árangur Swansea töluvert við komu hans — þeir töpuðu aðeins einum leik af síðustu 11 á tímabilinu og voru hársbreidd frá play-off sæti í lok tímabils. Á næsta tímabil komu þeir tvíefldir til leiks, gerðu sér lítið fyrir og unnu League One deildina og komust einnig í úrslit Football League Trophy keppninnar (sem er fyrir lið í League One og League Two).
Nýliðum Swansea gekk vel í næstu deild fyrir ofan en Martinez og félagar enduðu í áttunda sæti í Championship deildinni (ensku B deildinni) og voru þeir aðeins tveimur sætum (tveimur sigrum) frá play-off sæti á sínu fyrsta tímabili í þeirri deild. Martinez skipti svo í júní árið 2009 yfir til Wigan, sem er félag sem hann bar miklar taugar til, enda var hann lengst á sínum ferli á mála þar sem leikmaður og hann byrjaði tímabilið á að vinna Aston Villa. Þetta var fyrsta skipti sem Wigan vann upphafsleik sinn í Úrvalsdeildinni en næstu tímabil með Wigan þar eftir einkenndust almennt af mjög svo misjöfnu gengi, annars vegar sigrar á Liverpool, Arsenal, Manchester United og Chelsea en hins vegar stór töp líka inn á milli fyrir t.d. Tottenham og Chelsea.
Wigan hefur í raun verið í botnbaráttu Úrvalsdeildarinnar frá því áður en Martinez tók við stjórn en eftir að þeir komust upp (árið 2005) hafa þeir hæst náð 10. sæti (og einu sinni 11. sæti). Að öðru leyti hafa þeir verið í fallbaráttunni og oft bjargað sér með ævintýralegum hætti á lokasprettinum. Það tókst þeim þó ekki á nýafstöðnu tímabili en þeim til málsbóta má benda á að mikið var um meiðsli í herbúðum Wigan í ár (sérstaklega í baklínunni) og bikarævintýrið þeirra örugglega spilað stóra rullu líka. Þeir unnu FA bikarinn með því að leggja stjörnum prýtt lið Manchester City, eins og frægt er orðið, en til samanburðar má nefna að Wigan liðið kostaði, eins og einhver benti á, jafn mikið og Marouane Fellaini einn og sér. Wigan menn unnu 10 leiki allt árið 2013, þar af heila 6 leiki í FA bikarnum en aðeins fjóra í deildinni (einn sigur og eitt jafntefli í viðbót í deild hefði nægt þeim til að halda sér uppi).
Töluverð virðing er borin fyrir Martinez sem þjálfara almennt séð, þrátt fyrir að hann hafi ekki getað haldið Wigan uppi. Hann vann náttúrulega FA bikarinn með ekki stærra liði en Wigan, sem er afrek út af fyrir sig (aðeins Portsmouth hefur leikið það eftir á undanförnum áratugum). Þrátt fyrir að Wigan hafi ekki náð að skríða hátt upp töfluna var Martinez oft orðaður við önnur lið en bæði Aston Villa og Liverpool fengu leyfi til að ræða við hann um að taka við hjá sér. Það segir líka ákveðna sögu að fólk var hundfúlt að sjá á eftir Wigan niður um deild (flestir hefðu geta nefnt þrjú til fjögur önnur lið sem þeim fannst eiga meira skilið að falla). Stuðningsmenn Wigan vildu auk þess halda honum þó þeir hefðu fallið undir hans stjórn en þeir kunnu að meta það sem hann skilaði af sér undir erfiðum kringumstæðum á þeim fjórum árum sem hann var þar sem og jákvæðnina í leikskipulagi.
Martinez er sagður sækja leikstíl sinn til Barcelona en hann horfði á þá sem strákur (m.a. á árunum 1988-96 þegar Johan Cruyff stjórnaði þeim). Fráfarandi stjóri, Moyes, hefur einna helst verið gagnrýndur fyrir mjög varnarsinnað leikskipulag og fyrir að verja eins marks forystu og þeir sem það hafa gert ættu nú að gleðjast, því Martinez hefur sýnt það að hann heldur bara áfram að sækja þegar lið hans eru komin yfir. Hann hefur líka náð því með Wigan sem Moyes tókst aldrei með Everton — fyrir utan að vinna FA bikarinn — að sigra til dæmis Arsenal og Liverpool á útivelli og hann var reyndar hársbreidd frá því að vinna Chelsea líka á útivelli (töpuðu 2-1 en Wigan fékk eftir leikinn skriflega afsökunarbeiðni frá forsvarsmönnum Úrvalsdeildarinnar fyrir dómaramistök sem leiddu til beggja marka Chelsea). Martinez er eini stjórinn í sögu Wigan sem hefur skilað þeim fullorðins bikar og það verður fróðlegt að sjá hvað hann getur gert með Everton liðið.
Martinez á það jafnframt sameiginlegt með Moyes að hann er vanur að vinna vel úr litlu fé, sem er bráðnauðsynlegur þáttur í velgengni í starfi hjá Everton, sem hafa ekki fjárhagslega burði til að kaupa bara nýja og nýja leikmenn til að sjá hvað virkar.
Hvað val á stjóra varðar er aldrei hægt að gera öllum til hæfis (hver og einn með sinn uppáhaldsvalkost) og erfitt að segja til um hvað framtíðin ber í skauti sér en mig grunar að allavega að sá létleikandi stíll sem hefur kætt okkur á tímabilinu fái að halda sér með tilkomu Martinez. Sumir benda réttilega á að Martinez náði ekki að bjarga Wigan frá falli en þess má til gamans geta að Joe Royle, sá síðasti til að skila alvöru titli í hús, féll með Oldham stuttu áður en hann tók við liði Everton. Ég held að fallið með Wigan komi bara til með að gera drifkraftinn í að gera vel meiri. Ég hlakka allavega til að sjá hvernig liðið kemur til með að leika undir hans stjórn og óska honum taumlausrar velgengni sem og til hamingju með starfið.
Í lokin má geta þess að Executioner’s Bong er með ágætis greiningu á því hvernig Roberto Martinez virkar, fyrir þau ykkar sem vilja fá aðeins meiri innsýn inn í hugarheim hans. Einnig er hægt að lesa nánar um feril hans hér.
Við fögnum nýjum stjóra og óskum honum velfarnaðar í starfi. Nú verður spennandi að sjá hvar á vellinum hann vill styrkja liðið og með hvaða leikmönnum.
C.O.Y.B.
Loksins er biðin á enda og ég er bara mjög sáttur — hefði getað verið mun verra. 🙂
IMWT – In Martinez we trust!
Flottur stjóri,og viljum við ekki fá Macmanaman aftur heim?. Hann var magnaður í bikarúrslitaleiknum.
Blaðamannafundurinn er að byrja, sjá live blogging hér:
http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/06/05/press-conference-live
Vantar bara að hann fái sér sæti!
https://twitter.com/efc_danalston/status/342292224136069120/photo/1 🙂
Gömlu kempurnar eru farnar að láta í sér heyra:
Kevin Campbell er kátur með ráðninguna:
http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/06/05/campbell-excited-by-martinez
Barry Horne segir að Roberto sé réttur maður í starfið:
http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/06/05/horne-martinez-will-be-a-success
Svo er hér myndagallerí af Martinez:
http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/06/05/martinez-in-photos
Ég er ánægður með þessa ráðningu. Held að við getum stefnt á dollu núna!
Mér líst ágætlega þessa ráðningu. Wigan hefur oft á tíðum spilað skemmtilegan fótbolta og verður gaman að sjá hvað Martinez leggur upp með hjá Everton, sem hefur betri leikmenn innan sinna raða en Wigan. Everton liðið spilaði reyndar oft mjög flottan fótbolta á þessu tímabili og ég er viss um að Martinez getur byggt á þeim grunni og ekki sakar að hafa trausta varnalínu, eitthvað sem Wigan vantaði.
Ég er á því að þetta hafi verið best í stöðunni enda ekki mikið um góða stjóra á lausu.
Tek hattinn ofan fyrir Haraldi Erni formanni en hann á status dagsins á Facebook! 🙂
„Þá erum við Evertonmenn búnir að ráða stjóra Roberto Martinez. Það hlýtur að vera mikið varið í þennan mann fyrst hann hafnar litla bróður hinum megin við garðinn í fyrra og tekur svo við Everton í ár. Maður með metnað.“
-HÖH
Frábært rétt ákvörðun. Þá er bara spila rétt úr þessu. Kaupa réttu mennina og nota ungu leikmennina meira t.d. Barkley og Duffy. Óska nýja stjóranum til hamingju að sýna Everton þessa virðingu.
flott ráðning,flottur stjóri sem mun koma með nýja vídd í þetta Everton lið.
Já sammála með status dagsins á facebook, ekki spurning… 🙂
„I’ve always been fascinated by different techniques and I look at what the best physios in the world are doing. I love that side of football. Injury prevention. Maximising physical ability. The treatment of injuries. I always believe every injury can be avoided.“
Happy days ahead 🙂
Hvaða maður er þetta sem birtist á skjánum hérna til hægri, við hliðina á textanum?
Happy now, Ari? 🙂
Tony Hibbert hjá mér. 🙂
Allan tímann stöndum við með okkar manni og verum jákvæðir Roberto Martinez
Þetta er einn af þeim stjórum sem ég vildi.
[Finnur tók þetta komment og gerði að sér færslu, sjá hér].