Everton – Fulham 1-0

Mynd: Everton FC.

Þessi leikur var merkilegur fyrir margra hluta sakir. Helst ber þar að nefna að 22 Íslendingar (allavega) voru uppi í stúku í Everton búningum að horfa á leikinn (þ.m.t. tveir af þeim sem hafa skrifað pistla hér — sem er ein ástæða seinkunnar á leikskýrslunni). Auk þess var Moyes fimmtugur í vikunni og verið að minnast þess þegar Everton fagnaði tímabilið 62/63 deildarmeristaratitlinum sínum á þessum degi — með sigri á Fulham. Góð teikn á lofti og fínt veður í Everton borg á leikdegi, bjart og sólríkt og frábær stemming inni á börunum fyrir utan Goodison Park. Allir til í að spjalla og kynnast nýju fólki og ræða um leikinn eða leikmannamál Everton. Vel var tekið á móti gestunum frá Íslandi.

Eftirvæntingin eftir því að leikurinn byrjaði var mikil hjá okkur og létum við vel í okkur heyra á pöllunum allan leikinn. Vorum í Top Balcony 2, fyrir miðju með gott útsýni yfir völlinn.

Uppstillingin fyrir leikinn ljós: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Osman og Fellaini á miðjunni. Pienaar og Mirallas á köntunum. Jelavic og Anichebe frammi.

Fellaini var líflegur strax frá upphafi — átti skot og skalla að marki sem báðir voru blokkeraðir.

Engin ógnun frá Fulham en Everton greinilega staðráðið í að vinna leikinn. Á 16. mínútu tekur Osman sig til og framkvæmir nett þríhyrningaspil við Mirallas utan vítateigs hægra megin. Osman sendir boltann svo á Coleman sem kom í hlaupinu upp eftir kantinum, lítur upp og sér Pienaar koma hlaupandi inn í teig, algjörlega á auðum sjó, og sendir fyrir á hann lágan bolta meðfram jörðinni. Pienaar ekki í neinum vandræðum með að afgreiða boltann í netið. 1-0 fyrir Everton eftir aðeins 16 mínútur. Allt varð náttúrulega vitlaust uppi á pöllunum.

Fulham menn höfðu verið slakir fram að þeim punkti og ekki líklegir til að skora enda stjórnaði Everton leiknum. Þeir efldust þó nokkuð við að fá á sig mark og náðu upp smá pressu en ekkert kom út úr því.

Berbatov hjá Fulham fór allt í einu að haltra og fór út af meiddur á 30. mínútu með rifinn kálfa (sagði Martin Jol eftir leikinn). Stuttu síðar kom svo annað einfalt þríhyrningaspil, vinstra megin í þetta skiptið: Pienaar, Jelavic, aftur á Pienaar sem sér Fellaini á hlaupum við jaðar varnarlínunnar og sendir hann einan innfyrir en skotið hans rétt framhjá. Fellaini átti síðar fast skot innan vítateigs Fulham sem endaði í bakhlutanum á Anichebe. Hefði verið gaman að sjá hvar það hefði annars endað.

Everton algjörlega dóminerandi í fyrri hálfleik og Fuham fengu á þeim tíma í raun aðeins eitt almennilegt tækifæri sem ég man eftir. Það kom á síðustu sekúndum hálfleiksins þegar sóknarmaður þeirra komst á hlaupinu inn í teiginn og sendi fyrir á fjærstöngina þar sem vantaði bara að slengja fótinn í boltann en boltinn sem betur fer út af. Ekkert að frétta hjá Fulham í 44 mínútur hálfleiks og svo allt í einu komast þeir í dauðafæri og voru óheppnir að jafna ekki.

Hléið í hálfleik leið hratt. Hluti hópsins fór að ná í meiri bjór á sölubásunum á Goodison, hluti inn á áhorfendapöllum að njóta andrúmsloftsins og hluti inn á klósett að skila bjórnum sem var innbyrtur fyrir leik. Tveir af Íslendingunum fóru að spjalla saman (á íslensku) á meðan þeir köstuðu af sér og þá heyrðist í einum innfæddum (sem hafði hlustaði á „skandinavískuna“) hátt og snjallt með þvílíkum scouser hreim: „These sound like Liverpoodlians!!“ og allir á klósettinu sprungu úr hlátri. Gaman að þessu.

Everton var líka betra liðið í seinni hálfleik og áfram lítið að gerast hjá Fulham en, eins og í fyrri hálfleik, fengu þeir gott tækifæri til að næla sér í óverðskuldað stig, þegar sending berst frá vinstri inn í teig meðfram jörðinni á sóknarmann sem kemur hlaupandi en skotið framhjá stönginni og maður andaði aldeilis léttar. Illa farið með gott tækifæri, en mikið óskaplega hefði maður verið ósáttur ef þeir hefðu náð jafntefli, miðað við framganginn í leiknum.

Mirallas fékk gullið tækifæri til að tryggja sigurinn stuttu seinna, komst einn innfyrir vinstri megin eftir að hafa leikið á varnarmann en skotið frá honum varið vel.

Fellaini fékk svo ennþá betra tækifæri þegar Baines sendi fyrirgjöf hátt fyrir markið frá vinstri, markvörðurinn kom út úr markinu og reyndi að slengja hönd í boltann en náði ekki til hans. Boltinn barst til Fellaini sem var á bak við hann og reyndi hann að stýra knettinum í opið markið en boltinn í jörðina og rétt yfir slána. Ótrúlegt dauðafæri.

Moyes gerði aðeins eina skiptingu í leiknum, enda lítil ástæða til að breyta því sem virkaði. Barkley kom þó inn á fyrir Jelavic á 67. mínútu og var líflegur í lokin. Hann náði að nýta sér misskiling varnarmanna Fulham og komast einn inn fyrir vörnina í dauðafæri — einn á móti markverði — en lét verja frá sér.

Dómarinn flautaði svo af eftir rétt rúmlega 90. mínútur og fyllilega verðskuldaður sigur í höfn. Samkvæmt tölfræðinni var Everton með boltann 58% leiktímans, fékk bestu færin í leiknum og átti 10 skot á markið gegn tveimur frá Fulham. Tuttugasti tapleikur Fulham á Goodison í röð því staðreynd. Martin Jol sagði eftir leikinn: „Kannski með smá heppni hefðum við geta farið með jafntefli héðan en þeir hefðu líka getað skorað allavega tvö til þrjú mörk til viðbótar“. Mikið rétt. Everton auk þess að halda hreinu í sjötta af síðustu 7 leikjum. Ekki slæmt!

Mjög skemmtileg stemming uppi á pöllunum enda Everton að spila flottan bolta og afgreiða Fulham snyrtilega. Meiriháttar að fá að njóta þessara veislu í eigin persónu og kannski skelli ég inn smá færslu um það þegar ég hef dustað af mér ferðarykið. Everton enn með augun á Evrópusæti en aðeins 3 stig í Tottenham í sætinu fyrir ofan, þar sem þeir náðu bara jafntefli gegn Wigan í síðasta leik.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 8, Distin 7, Jagielka 7, Coleman 8, Pienaar 9, Osman 7, Fellaini 7, Mirallas 7, Jelavic 6, Anichebe 7. Varamaðurinn Barkley fékk 6. Hjá Fulham voru Kacaniklic (með 7) og markvörðurinn Schwarzer (þeirra besti maður með 8) voru þeir einu sem náðu upp fyrir 6 í einkunn. Enoh og Ruiz fengu 5 og Berbatov 3. Er ekki sagt að þú spilir ekki betur en andstæðingurinn leyfi?

Stór leikur um næstu helgi (derby leikurinn).

18 Athugasemdir

 1. Finnur skrifar:

  Þakka öllum sem mættu með okkur í frábæra ferð að sjá Everton spila!

 2. Halli skrifar:

  Ég vil byrja á að þakka þeim sem fóru með okkur til Liverpool um helgina fyrir frábæra skemmtun. Þeir eru báðir bakverðirnir okkar í liði vikunnar hjá bbc. Mér fannst liðið heilt yfir gott betra fram á við með 2 framherja inná vellinum Pienaar spliað einar 3 stóður báða kantana og í holunni maður leiksins finnst mér. Ég væri samt til í sjá Moyes nota allan hópinn betur leikmenn eins og Oviedo sem er nánast ónotaður í allan vetur.

 3. Ari S skrifar:

  Sömuleiðis þakka ykkur öllum og sérstaklega ykkur tveimur Halla og Finni fyrir fyrir að vera þið.

 4. Hallur j skrifar:

  Vill þakka fyrir frábæra ferð og góðan sigur hjá okkar mönnum
  bíð spentur eftir næstu ferð

 5. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  Þessi ferð var bara algjör snilld frá upphafi til enda og ekki við öðru að búast þegar horft er til þess hverjir þátttakendurnir voru:-) Kveðja til ykkar allra sem voru með. 🙂

 6. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  Flottur pistill hjá okkar manni sem hefði þó mátt vera aðeins stundvísari í rútuna eftir leik og þetta er í síðasta sinn sem einhver minnist á það atvik vona ég 🙂 Ég er allavega búinn að gleyma því:-)

 7. Finnur skrifar:

  Grrrr…. Ég get bara hlaupið ákveðið hratt með Ara á öxlunum. 😉

 8. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  þar sem QPR er fallið þá held ég að við ættum að hirða Loic Remy af þeim, hvað finnst ykkur???

 9. Addi skrifar:

  Takk fyrir frábæra helgi félagar. Ég er enn með tárin í augunum af geðshræringu, takk allir 🙂
  Frambjóðandinn 🙂

 10. Ari S skrifar:

  Ég var alltaf viss um að þið mynduð bíða eftir okkur. Ég var svo sem ekkert að flýta mér heldur…he he 😉 En við fengum spjall við hardcore Everton season ticket holders í staðinn, varla hægt að slíta sig frá þeim….. 🙂

 11. Gunnþór skrifar:

  frábær ferð, takk fyrir samveruna um helgina þetta var magnað í alla staði. Já Sigurjón væri frábært að taka Remy.

 12. baddi skrifar:

  Yndisleg ferð og frábær hópur hlakka til næstu ferðar kv.Baddi 🙂

 13. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

  maður veltir fyrir sér hvernig í andsk. við gátum tapað fyrir þessu hlandliði Sunderland, það er algjörlega ófyrirgefanlegt. (Er að horfa á Aston Villa drulla yfir þá)

 14. Þorgeir skrifar:

  Takk kærlega fyrir góða ferð, félagar. Þetta var tær snilld!

 15. Hólmar skrifar:

  Þetta var allt í lagi ferð, finn enn fyrir henni. Spurning um einn Fernet Branca til að redda þessu?
  Nei þetta var alveg magnað allt saman. Legg til að við verðum í Liverpool næst, þvílík stemmning þar á sunnudags eftirmiðdegi. Við kíktum reyndar á einhvern G A Y bar á sunnudagskvöldinu þar sem við rákumst líklega á tvíburabróðir Fellaini í dragi. Hugsanlega stærsti kjólasveinn í heimi, vel á þriðja metra myndu álykta.
  Takk fyrir mig og sérstakar þakkir til Halla og Finns fyrir frábæra skipulagningu og utanumhald!

 16. Finnur skrifar:

  Já, það var fínt að gista í Manchester en betra að vera í Everton borg, ég segi það með þér. Vonandi verður næsta flug til baka á kristilegri tíma. 🙂

 17. Finnur skrifar:

  Opinn umræðuþráður hér: http://everton.is/?p=4478
  Endilega takið þátt. 🙂