Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – QPR 2-0 - Everton.is

Everton – QPR 2-0

Mynd: Everton FC.

Everton mætti QPR í dag í leik sem endaði með 2-0 sigri Everton sem skilur QPR eftir í þvílíkum vandræðum við botn deildarinnar. Sigurinn var sannfærandi og kærkominn, sérstaklega svona á árshátíðardegi klúbbsins hér heima, en ekki laust við að maður væri smeykur við þennan leik þar sem Everton hefur reynst svo svakalega aumingjagott lið og hefði alveg verið víst með að gefa QPR stig (og jafnvel öll þrjú, eins og sagan undanfarið sýnir). Það fór þó ekki, sem betur fer, og Everton því nú í 6. sætinu með 55 stig, aðeins þremur stigum frá meistaradeilarsætinu (Chelsea í 4. sæti með 58 stig og Tottenham í 5. með jafn mörg stig) þegar 6 leikir eru eftir. Ekki skemmdi heldur fyrir að litli bróðir í Liverpool sem er í sætinu fyrir neðan Everton gerði annað 0-0 jafnteflið í röð.

Uppstillingin var eins og spáð var: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Pienaar og Mirallas á köntunum. Osman og Gibson á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Anichebe frammi. Varamenn: Mucha, Heitinga, Jelavic, Oviedo, Naismith, Hitzlsperger, Barkley.

Leikurinn var eiginlega hálfgert anti-climax eftir leikinn á útivelli gegn Tottenham í síðustu viku þar sem leikurinn var eiginlega bara spennandi á köflum og minna um færi. Everton með boltann um 60% leiksins og yfirleitt á vallarhelmingi QPR, náðu oft að sundurspila vörn QPR en alltaf vantaði herslumuninn í klára færið með skoti eða skalla, eins og til dæmis í upphafi leiks þegar Baines gaf stutta en flotta fyrirgjöf á Anichebe, sem var cm frá því að ná að skalla boltann í algjöru dauðafæri.

Það voru þó QPR menn sem áttu fyrstu tilraun í átt að marki þegar Hoilett skaut yfir á 5. mínútu en aðeins öskömmu síðar átti Everton að fá víti þegar Coleman var kominn framhjá bakverðinum en var tekinn niður. Lee Mason dómari sá þó ekki ástæðu til að dæma neitt, frekar en þegar stigið var ofan á löppina á Pienaar og brotið á Fellaini við teiginn, stuttu síðar — en Fellaini fékk svo gult fyrir minna brot síðar. Hvað um það.

Það var þó lítið sem gerðist þangað til á 26. mínútu þegar Howard þurfti að taka á honum stóra sínum og verja skot frá Loic Remy. Þetta var frústrerandi kafli í leiknum þar sem QPR virtist var við það að ná yfirhöndinni í leiknum og ekki gekk nógu vel að byggja upp sóknir hjá Everton. Viljinn til að pressa virtist ekki til staðar og QPR fengu of mikinn tíma á boltanum.

Skyndilega var Everton þó komið í dauðafæri þegar Gibson tók (frá hægri) skot á innanverða markstöng vinstra megin eftir hornspyrnu en Distin reyndi að stýra skotinu í netið hægra megin. Sá bolti fór þó út af en það kom ekki að sök því á 40. mínútu átti Gibson svipað skot að marki, sem fór í gegnum klofið á fyrirliða QPR, Clint Hill, og breytti um stefnu og í netið. 1-0 fyrir Everton og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði með látum! Loic Remy átti skot sem Howard varði mjög vel og svo komst Anichebe í algjört dauðafæri (eftir frábært spil frá Mirallas á vinstri kantinum). Anichebe var beint fyrir framan og alveg upp við mark QPR en skot hans í innanverða stöngina og frákastið hreinsað frá! QPR sannarlega stálheppnir. Everton greinilega staðráðnir í að klára leikinn. Distin með skalla eftir horn sem markvörður QPR varði yfir slána. Distin fékk annað tækifæri aðeins fimm mínútum síðar þegar Baines sendi fyrir úr horni og Distin skallaði í átt að marki. Markvörður QPR hefði varið ef Anichebe hefði ekki staðið fyrir framan hann og breytt stefnu boltans.

2-0 fyrir Everton en eftir þetta var þetta aldrei spurning um hvoru megin sigurinn lenti og Everton gat leyft sér að slaka á. Mirallas átti þó tvö flott skot sem markvörður þeirra varði vel og Fellaini ekki langt frá því að ná frákastinu í því fyrra. Annars lítið að gerast í sókninni hjá QPR. Það lifnaði eiginlega ekki yfir þeim aftur fyrr en á 80. mínútu, þegar þeir náðu skot að marki sem Howard varði vel. Þeir fengu fjórar aukamínútur til að gera eitthvað en framlag þeirra í leiknum var yfirleitt ekki nægjanlegt og það sem nægði sá Howard og vörnin til að yrði ekki að neinu. 2-0 sigur í höfn. Þrjú stig og Everton hélt hreinu. Varla hægt að biðja um meira.

Einkunnir Sky Sports: Howard 8, Baines 8, Distin 6, Jagielka 7, Coleman 7, Pienaar 7, Gibson 8, Osman 6, Mirallas 8, Fellaini 8, Anichebe 8. Varamenn: Jelavic 6, Naismith 6. Remy var hæstur hjá QPR með 8, Onuha næstur með 7 en aðrir með einkunnir á bilinu fjórir til 6.

Everton þar með búið að ná 13 stigum í deild af síðustu 15 mögulegum en það er mjög erfiður útileikur gegn Arsenal næst (á þriðjudaginn). Sigur í þeim leik myndi setja allt í uppnám hjá liðunum fyrir ofan í baráttunni um meistaradeildarsætið.

Flott að fara inn í árshátíðina á eftir á Nítjándu með sannfærandi sigur Everton í farteskinu. Góður dagur í dag!

Í öðrum fréttum er það helst að U18 ára lið Everton rústaði Crystal Palace U18 5-1 með tveimur mörkum frá George Waring, einu frá Harry Charsley, einu frá Jonjoe Kenny og einu frá Courtney Duffus.

9 Athugasemdir

  1. Gunni D skrifar:

    Flott lið.

  2. Ari G skrifar:

    Frábær leikur hjá Everton með svona spilamennsku geta þeir unnið resT. Margir mjög góðir og treysti mér ekki að nefnda þá bestu í dag margir það góðir. Anecebe er að komast í risaform með svona spilamennsku er loksins kominn heimsklassasóknarmaður til Everton. Vel hann mann leiksins samt voru aðrir líka mjög góðir.

  3. Gunnþór skrifar:

    glæsilegur sigur í dag. verðið að taka einn kaldann á mann fyrir mig í kvöld,hugsa til ykkar góða skemmtun.

  4. Haraldur skrifar:

    Þakka komuna í kvöld þið voruð flottastir.

  5. Finnur skrifar:

    Já, takk fyrir okkur segi ég nú bara, Halli. Þetta var frábær skemmtun í góðum félagsskap og maturinn æðislegur. Hefði ekki getað verið betra og fjör og gaman líka í eftir
    partýinu. 🙂

  6. baddi skrifar:

    Takk fyrir frábæran dag og kvöld kv frá Mávahlíð.

  7. Halli skrifar:

    Flottur leikur hjá okkar mönnum, gaman að sjá þessa stgasöfnun 13 af 15 mögulegum er náttúlega bara frábært mér finnst Jags vera að spila mjög vel þessa dagana. Takk fyrir skemmtilegt kvöld öll í gærkvöldi

  8. Finnur skrifar:

    Anichebe er í liði vikunnar hjá Garth Crooks (BBC):
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/22147455

  9. Finnur skrifar:

    Og Distin í liði vikunnar hjá Goal.com:
    http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2013/04/15/3903665/premier-league-team-of-the-week-black-cats-dominate

    Upphitunin fyrir Arsenal leikinn annars komin. Sjá:
    http://everton.is/?p=4372