Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Tottenham – Everton 2-2 - Everton.is

Tottenham – Everton 2-2

Mynd:Everton FC.

Everton mætti Tottenham á White Heart Lane í bráðfjörugum og skemmtilegum leik þar sem boltinn gekk markanna á milli og varla dauður punktur í leiknum. Þó vantaði máttarstólpa í bæði lið en bæði Fellaini og Pienaar voru í banni hjá Everton og Bale, Lennon og Defoe fjarri góðu gamni hjá Tottenham.

Uppstillingin 4-4-1-1: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Heitinga og Gibson á miðjunni, Mirallas og Barkley á köntunum. Osman fyrir aftan Anichebe frammi. Bekkurinn: Mucha, Jelavic, Oviedo, Naismith, Hitzlsperger, Stones, Duffy.

Leikurinn byrjaði með látum þegar Tottenham skoruðu í sinni fyrstu sókn, fyrirgjöf frá Vertonghen frá vinstri inn í teig fyrir markið þar sem bæði Jagielka og Distin náðu ekki til boltans en Adebayor var mættur á réttan stað og potaði í gegnum klofið á Howard. 1-0 fyrir Tottenham eftir rétt rúmar 40 sekúndur — næstfljótasta markið sem Tottenham hefur skorað í Úrvalsdeildinni frá upphafi (Ledley King með metið: 10 sekúndur) en Everton menn greinilega ekki tekið frískamínið sitt í morgun og ekki með einbeitinguna í lagi. Þeir létu þetta þó ekki slá sig út af laginu.

Osman komst inn í sendingu aftasta varnarmanns ekki löngu eftir markið og átti skot framhjá en jöfnunarmark Everton kom ekki löngu síðar því á 15. mínútu kom mark upp úr horni þar sem Jagielka skallaði í gegnum klofið á Lloris, markverði Tottenham. 1-1.

Tottenham menn vildu fá víti í fyrri hálfleik þegar boltinn fór í hausinn á Gibson en dómarinn vandanum vaxinn í það skiptið. Dómaratríóið átti annars erfiðan dag og gerði marga feila sem bitnaði á báðum liðum, þó kannski hallaði meira á Tottenham en Everton — sérstaklega þegar þeir vildu víti í seinni hálfleik, þegar Mirallas fékk boltann í höndina.

Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik (og eiginlega ekki færin heldur) en maður var sáttur við að fara með jafna stöðu í hálfleik því Tottenham voru meira með boltann og betri aðilinn í hálfleiknum og Everton of mikið í því kýla boltann fram, með mjög takmörkuðum árangri, frekar en að spila gegnum miðjuna sem gengur oft betur. Maður hafði á tilfinningunni í fyrri hálfleik að Tottenham myndi skora en þeir náðu ekki neinum almennilegum færum. Minnir að bæði lið hafi verið með 100% skotnýtingu í fyrri hálfleik (úr skotum sem rötuðu á markið).

Everton byrjaði seinni hálfleikinn mun betur og Gibson fékk fyrsta almennilega færið: Skot sem sleikti stöngina en Everton náði svo að skora augnabliki síðar þegar Mirallas í næstu sókn sundurspilaði vörn Tottenham, ekki ósvipað og gegn Stoke í síðustu viku — stakk af annan miðvörðinn hjá Tottenham og hamfletti hinn, skaut boltanum svo í gegnum klofið á varnarmanninum og framhjá Lloris í markinu (nánast stöngin inn á fjærstöngina). 1-2 fyrir Everton á 53. mínútu. Hægt er að sjá vídeó af markinu hér.

Tottenham svöruðu næstum því samstundis, þegar Dembele skaut af löngu færi, en boltinn fór í Heitinga og breytti um stefnu og Howard næstum því „strandaður“ á línunni en var eldfljótur að hugsa og náði að kasta sér niður í hina áttina og verja boltann í neðanverða slána og út. Þar skall aldeilis hurð nærri hælum. Frábær markvarsla hjá Howard.

Jelavic var næstum kominn einn á móti markverði stuttu síðar en Lloris náði til boltans fyrst. Tottenham eitthvað að reyna skot af löngu færi (Dempsey fyrst hátt yfir og svo beint á Howard í miðju markinu). Engin hætta. Heitinga næstum kominn í dauðafæri upp við mark eftir horn en Tottenham menn ná að hreinsa. Howard varði svo vel skot frá Walker stuttu síðar en Tottenham voru annars mest í langskotunum (Adebayor og Dempsey).

Anichebe fékk á 70. mínútu ágætis tækifæri til að leggja boltann fyrir Jelavic, sem var í aðeins betra færi, og hefði líkelga getað náð þriðja marki Everton en Anichebe ákvað að skjóta sjálfur. Boltinn fór þó í leikmann Tottenham og í horn. Illa farið með gott tækifæri. Hann átti svo skot rétt yfir slána stuttu síðar en Anichebe var líflegur í leiknum og áttu varnarmenn Tottenham erfitt með hann.

Hálfleikurinn varð meira og meira frústrerandi fyrir Tottenham sem voru mikið með boltann en virkuðu hálf bitlausir frammi og náðu ekki að láta reyna á Howard mikið. Vörnin hélt lengi vel, alveg þangað til á lokamínútunum þegar Tottenham átti skot í innanverða stöng og út aftur þar sem Gylfi Sigurðsson var mættur og potaði í autt markið.

Tottenham menn sáu sér leik á borði og ætluðu að taka öll þrjú stigin en það var þó Everton sem komst næst því þegar Anichebe gerði mjög vel og náði að stinga af varnarmann Tottenham og komast einn á móti markverði en Lloris varði meistaralega frá honum með löppunum í algjöru dauðafæri. Enn illa farið með gott tækifæri. Lloris varði svo einnig stuttu síðar frá Jelavic.

2-2 jafntefli því staðreynd. Í sjálfu sér er jafntefli ekki ósanngjörn úrslit þegar litið er til þess hvernig leikurinn spilaðist og eftir fyrri hálfleikinn hefði maður tekið það fegins hendi. Það er þó erfitt að sjá Everton komast yfir með frábæru marki og vera aðeins örfáar mínútur frá því að taka 6 stig af Tottenham á tímabilinu.

Sigur hjá Everton hefði hrist all verulega upp í baráttunni um fjórða sætið þar sem Everton hefði þá aðeins verið þremur stigum frá Tottenham í fjórða sætinu og með leik til góða á þá. Tap hefði þýtt að möguleikarnir á því væru nánast úr sögunni. Hvorugt lið er þó ánægt með eitt stig úr þessum leik, sérstaklega í ljósi þess að Arsenal og Chelsea unnu bæði sína leiki. Everton er því 6 stigum frá Tottenham í 4. sætinu en á sjö leiki eftir (21 stig) og Tottenham 6.

Moyes stefnir enn á 4. sætið, enda ekki nema 6 stig í það (og leikur til góða) og 21 stig enn í pottinum. Það getur allt gerst í síðustu leikjunum enda hefur Everton tekið 4 stig af liðum á borð við Manchester City og Tottenham á tímabilinu og 3 stig af Manchester United þannig að það er aldrei að vita. Auk þess endar Everton tímabilið yfirleitt vel á meðan Tottenham og Arsenal eiga það stundum til að dala þegar líður á tímabilið.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Jagielka 7, Distin 6, Coleman 6, Mirallas 7, Gibson 6, Heitinga 6, Barkley 5, Osman 6, Anichebe 7.  Jelavic 6 (skipt inn á 52. mínútu), Naismith 5 (skipt inn á 86. mínútu). Einkunnir Tottenham eitthvað aðeins lægri: Fjórir með 5 í einkunn, fjórir með 7, þrír með 6.

12 Athugasemdir

  1. Albert Gunnlaugsson skrifar:

    Horfði á leikinn. Ótrúleg skemmtun, en súrt að missa í jafntefli, þó það hafi kannski verið réttlát úrslit!

  2. Finnur skrifar:

    Var að átta mig á því að síðan Mirallas skoraði markið gegn Oldham í FA bikarnum á dögunum er hann búinn að skora mark í þremur af síðustu fjórum deildarleikjum Everton. Það væri fróðlegt að vita hvar Everton væri ef hann hefði náð heilu tímabili.

  3. Ari G skrifar:

    Flottur leikur miklu betri en leikurinn á móti stoke. Hræðilegt að missa þetta niður í jafntefli. Miralles maður leiksins markið hans stórkostlegt.

  4. Halli skrifar:

    Gott stig en mér fannst Spurs líklegri allan tímann og helv…. Hann Gylfi maður leiksins Anichebe hefði getað stolið þessu í restina flott færi sem hann lætur verja frá sér

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Svekkjandi að ná ekki að vinna en jafntefli kannski bara sanngjarnt.
    Anichebe óheppinn að ná ekki að skora, það hefði alveg kórónað hans leik og hann átti það alveg skilið því varnarmenn Tottenham voru bara eins og lítil börn í kringum hann og réðu ekkert við hann.

  6. Finnur skrifar:

    Sammála. Það var náttúrulega ekkert annað en grátlegt að horfa upp á Lloris verja færið frá Anichebe þarna í lokin.

  7. þorri skrifar:

    að mínu dómi þetta var skemtilegur leikur að horfa á og Anichebe sá besti. Annars fanst mér Gylfi ekki vera neitt rosalega góður. Við verðum líka horfa það að við vorum á úti velli.og okkur vantaði 2 góða menn hjá okkur.

  8. Finnur skrifar:

    Mirallas í liði vikunnar að mati Garth Crooks hjá BBC:
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/22059997

  9. Finnur skrifar:

    Goal tímaritið valdi aftur á móti Jagielka í lið vikunnar: http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2013/04/09/3889847/premier-league-team-of-the-week-rosicky-aguero-make-the-cut

    Allt nýliðar annars í liði vikunnar, nema okkar maður.

  10. Ari S skrifar:

    Og leikmaður tímabilsins hjá okkur, Leighton Baines var hræðilegur í lokin. Það var honum að kenna að við fengum á okkur seinna markið…. Sá það enginn nema ég? Og það var líka annað atvik þarna í lokin en hann endaði leikinn hræðilega orðinn vel þreyttur.

    Anichebe var frábær í leiknum og gamna að sjá til hans þessa dagana. Hefði verið virkilega flott að sjá hann skora þarna í lokin.

    Áfram EVerton 🙂

  11. Finnur skrifar:

    Nei, það sáu það fleiri. Halli hafði orð á því við borðið okkar þegar við horfðum á leikinn.

    Baines er einn af þremur (að mig minnir) í deildinni sem hefur spilað alla leiki og aldrei verið skipt út af — enda skapar hann flest marktækifæri allra í ensku deildinni — og þó víðar væri leitað.