Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – Stoke 1-0 - Everton.is

Everton – Stoke 1-0

Mynd: Everton FC.

Næstu lið fyrir ofan Everton (Arsenal og Tottenham) unnu sína leiki áður en leikurinn við Stoke hófst og því ljóst að á brattann væri að sækja. Maður hafði áhyggjur af því hvaða Everton lið myndi mæta til leiks, enda erfitt að toppa sigur á Englandsmeisturunum í síðasta leik en leikmenn Everton stóðu sína pligt og unnu Stoke á heimavelli 1-0 með frábæru marki frá Mirallas.

Bæði Howard og Jagielka voru orðnir góðir af meiðslum sínum og fóru beint inn í byrjunarliðið og maður hálf vorkenndi Mucha fyrir að missa sína stöðu svona fljótt eftir að hafa haldið hreinu á móti Englandsmeisturunum. Það vakti jafnframt athygli að uppstillingin var óhefðbundin, eins konar 3-4-3 með þrjá miðverði (Distin, Jagielka og Heitinga), bakverðirnir okkar (Baines og Coleman) spiluðu meira á köntunum (með Gibson og Osman á miðjunni). Frammi voru Mirallas og Anichebe til stuðnings Jelavic. Uppstillingin því: Howard, Distin, Jagielka, Heitinga, Baines, Osman, Gibson, Coleman, Mirallas, Anichebe og Jelavic. Varamenn: Mucha, Oviedo, Naismith, Hitzlsperger, Barkley, Stones, Duffy.

Stoke menn voru staðráðnir í að gera bragarbót á sínum leik eftir slæmt gengi undanfarið og byrjuðu leikinn með látum: áttu skalla á upphafsmínútunum sem Howard varði stórglæsilega en þeir náðu frákastinu og skutu í slána. Everton menn stálheppnir að lenda ekki undir.

Stoke menn voru líka stálheppnir að fá ekki víti á sig, þegar varnarmaður þeirra handlék knöttinn eftir skot frá Osman, eins og þulurinn benti á.

Mirallas sá til þess að við söknuðum Pienaar lítið því hann var stöðugt ógnandi og reyndist Stoke mönnum mjög erfiður ljár í þúfu. Hann sýndi það í leiknum (sem við í raun vissum) að hann er leikmaður sem getur breytt leikjum upp á sitt einsdæmi en hann tók við boltanum nálægt eigin vítateig eftir að Howard hafði slegið boltann frá marki og tók á sprettinn upp völlinn. Hann náði að hrista af sér tæklingu frá miðjumanni Stoke og hélt áfram að bruna upp völlinn. Hann var það fljótur upp völlinn að hann endaði einn á móti miðverði Stoke, Geoff Cameron, með þrjá aðra varnarmenn Stoke á eftir sér (og engan samherja). Mirallas plataði Cameron mjög illilega þegar hann þóttist ætla til hægri framhjá honum en sneri honum svo á röngunni þegar hann tók sprettinn vinstra megin við hann. Þar með var hann kominn með fjóra varnarmenn á eftir sér og bara markvörðurinn eftir, sem reyndist formsatriði. Hægt er að sjá vídeó af markinu hér. 1-0 Everton eftir 28 mínútur.

Mirallas var næstum búinn að skora aftur nokkrum sekúndum síðar, meira að segja, þegar hann átti stórhættulegt færi en boltinn rétt framhjá stönginni.

Stoke átti fá svör við þessu í fyrri hálfleik, eitt skot af löngu færi sem Howard kastaði sér vel á en að öðru leyti náðu þeir ekki að skapa sér almennileg færi, þó ógnin væri oft til staðar. Everton þó með betri færi í fyrri hálfleik.

Stoke menn efldustu í seinni hálfleik en höfðu ekki erindi sem erfiði. Seinni hálfleikur var meira scrappy og greinilegt að framgangurinn fór í taugarnar á þeim. Þeir reyndu sitt besta til að dæla boltanum inn í teig, nánast sama hvar boltinn var á vellinum og bónuðu boltann vel og lengi í innköstum. Geisp. Mikið um brot og pústra almennt séð — eins og í öllum leikjum Stoke á tímabilinu en minna um dauðafæri. Þeir sköpuðu sér þó nokkur hálffæri, sem og Everton en Jelavic átti t.d. skalla í fínu færi á 63. mínútu og stuttu síðar þrumuskot úr aukaspyrnu sem Begovic varði glæsilega með fingurgómunum alveg út við stöng.

Ekki mikið meira um þann hálfleik að segja, nema hvað það fór örlítið um mann þegar Stoke fengu óverðskuldaða aukaspyrnu rétt utan teigs Everton á lokasekúndunum. Á einhverjum tímapunkti á tímabilinu hefði Everton fengið á sig jöfnunarmark upp úr því, en ekki í dag.

Þrjú stig í dag, þriðja leikinn í röð — og markinu haldið hreinu tvo leiki í röð. Gott að vera búinn með þennan leik enda aldrei gaman að horfa á leiki gegn Stoke (get ekki ímyndað mér að leikmenn séu hrifnir af því að spila við þá heldur). Aðeins tvö stig í 5. sætið (Arsenal) og fjögur stig í 4. sætið (Chelsea) eftir að þeir töpuðu í dag fyrir Southampton. Mjög erfiður útileikur næst gegn Tottenham þann 7. apríl.

Einkunnir Sky Sports: Howard 8, Baines 7, Distin 7, Jagielka 7, Heitinga 7, Mirallas 8, Osman 7, Gibson 7, Coleman 7, Anichebe 7, Jelavic 6. Varamenn: Barkley: 7. Einkunnir Stoke voru út um allt: Fimm leikmenn þeirra með 5 í einkunn, fjórir með 6 og fjórir með 7. Velti því fyrir mér hvort slakt gengi þeirra undanfarið sé vegna þess að dómararnir eru farnir að taka á þessum fólskulegu brotum þeirra út um allan völl. Það fóru til dæmis nokkrar sóknir hjá þeim í súginn í dag þar sem þeir voru að ýta, toga og snúa niður leikmenn Everton. Verð að hrósa dómurunum fyrir haukfrá augu gegnum allan leikinn (nema kannski þegar varnarmaður Stoke handlék knöttinn innan eigin teigs — en það kom svo ekki að sök).

Allir í Everton liðinu áttu fínan leik í dag en Mirallas alveg klárlega maður leiksins. Pienaar? Fellaini? Hverjir eru það? 🙂

16 Athugasemdir

  1. Gunni D skrifar:

    Skrítin uppstilling,svo ekki sé meira sagt.

  2. Gestur skrifar:

    sammála, Moyes er fastheldin á sýna menn.

  3. Gunnþór skrifar:

    var búinn að gleyma því hvað þetta er mikið skítalið þetta stoke lið.

  4. Gunnþór skrifar:

    3 stig í dag vel gert góður vinnusigur gegn slöku stoke liði.

  5. Elvar Örn skrifar:

    Sammála, það er mjög langt síðan maður hefur séð skemmtilega Stoke leik, þá sérstaklega gegn Everton.
    Flottur sigur og gaman að sjá að við erum bara 4 stigum eftir Chelsea sem er í fjórða sæti og við keppum við þá í seinasta leik tímabilsins. Einnig gaman að því að nú eru komnir tveir leikir í röð þar sem við höldum hreinu.
    Þó svo að Tottenham hafi unnið í dag og þeir eru 6 stigum á undan okkur í 3ja sæti þá er áhugavert að við eigum inni einn leik á þá og spilum gegn þeim í næsta leik. Það verður því mjög forvitnileg staða komin upp ef við vinnum þann leik. Eins og ég hef komið að áður þá eiga þessi lið í kringum okkur einnig eftir að spila innbyrgðis svo það getur allt gerst. Það er einnig gaman að sjá að það eru 6 stig í næsta lið (Liverpool) og liðin þar fyrir neðan hafa leikið leik meira en við svo það virðist ekki mikið ógnun frá þeim.

  6. Finnur skrifar:

    Ég lét blekkjast af leikjalistanum á heimasíðu Ölvers og mætti niður eftir. Kom að lokuðum dyrum og rétt náði að bruna heim aftur áður en leikurinn byrjaði! 🙂 Vona að ég hafi ekki afvegaleitt fleiri með tilkynningu um að leikurinn væri sýndur beint. 🙂

  7. Elvar Örn skrifar:

    Eigum eftir Tottenham, Arsenal, Liverpool og Chelsea og það alla á útivelli, það gæti orðið erfitt, hmmm.
    Eigum líka eftir QPR, Sunderland, Fulham og West Ham en allir eru þeir heima nema leikurinn gegn Sunderland.
    Með 8 leiki eftir þá eru 24 stig í pottinum.
    Er komið á hreint hvaða sæti gefa aðgengi að Evrópudeildinni?
    Ekki það að það skipti öllu máli þar sem við erum á leið í Meistaradeildina 🙂

  8. Ari S skrifar:

    Já þetta var flottur sigur hjá okkur í dag. Glæsilegt hjá Mirallas, ég bara sagði við sjálfan mig…. hvað er í gangi…. þetta er eitt af mörkum ársins ekki bara hjá Everton.

    Sá ekki byrjunina í leiknum (byrjaði á 20 og eitthv. mín) en fannst flestir spila fínt en þó hafði ég áhyggjur af Osman hann var hræðilegur í þessum leik. Ég vil næstum halda því fram að við höfum verið án þriggja mjög sterkra leikmanna, Pienaar, Fellaini og Osman.

    Frábær sigur og níu stig í röð ásamt hreint mark í síðustu tveimur leikjum. Mjög gott 🙂

  9. Finnur skrifar:

    Þegar ég sá markið frá Mirallas fékk ég flashback frá því þegar Everton tók á móti Chelsea í síðasta leik þarsíðasta tímabils — þegar Beckford geystist upp völlinn og skoraði framhjá Cech, sælla minninga! 🙂

    Minn topp listi yfir mörk tímabilsins:
    1) Aukaspyrna Baines gegn Newcastle.
    2) Mirallas í dag.
    3) Mark Osman á móti City í síðasta leik.

    Það var annars greinilegt að menn voru að reyna að toppa markið hans Osmans. Ekki bara reyndi Heitinga skot af svipað löngu færi og Osman þá heldur reyndi Osman að toppa það sjálfur í þessum leik! Hvorugur náði að toppa markið — aðeins Mirallas tókst það. Held það eina sem komi til með að toppa þessi mörk sé… tja — mark frá meistara Hibbert sjálfum?

  10. Finnur skrifar:

    Tony Pulis, stjóri Stoke, í viðtali við BBC eftir leikinn:
    „I thought we played some smashing football today, …“

    That is true. Your Stoke players smashed into quite a lot of footballers today.

  11. Ari G skrifar:

    Ég er ekki alveg sama að þetta hafi verið góður leikur. Mér fannst Everton spila miklu betur á móti City en í þessum leik enda erfitt að spila við Stoke. Everton voru miklu betri í fyrri hálfleik en seinni hálfleikur var ekki góður. Everton þarf að spila miklu betur til að eiga möguleika að vinna Tottenham tap í þeim leik gerir möguleika Everton nær vonlausa að ná 4 sætinu jafntefli mun halda í vonina. Bestu menn Everton voru Mirallas, Howard, Anichepe en mér finnst Jelavic slakur samt duglegur. Hefði vilja sjá fleiri skiptingar t.d Oviedo í stað Jelavic finnst hann frábær og vill nota hann meira.

  12. Finnur skrifar:

    Þeir hjá Executioner’s Bong eru búnir að liggja yfir vídeói af leiknum í nótt og hafa birt taktíska greiningu sína á nýju uppstillingunni hjá Moyes.
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2013/03/31/tactical-analysis-the-everton-back-3-experiment/

  13. Gunnþór skrifar:

    Sammála Ara þetta var ekki góður leikur hjá okkar mönnum,en góður vinnusigur og það er mikill munur þar á þurfum miklu miklu betri leik á móti tottenham ef við ætlum eitthvað úr þeim leik.

  14. Finnur skrifar:

    Og Mirallas var valinn í lið vikunnar hjá Garth Crook (BBC):
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/21988338

  15. baddi skrifar:

    Hvað er að frétta af bjórkvöldi og árshátið kæru stjórnarmenn kv. Baddi

  16. Finnur skrifar:

    Vel á minnst, Baddi. Við orum að fastsetja síðustu smáatriðin fyrir árshátíðina. Sjá nánar: http://everton.is/?p=4271. Endilega skráið ykkur.