Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Áfram veginn - Everton.is

Áfram veginn

Mynd: Everton FC.

Þó helgin hafi verið erfið er maður smám saman að vinna þennan arfaslaka leik gegn Wigan út úr kerfinu. Það er þó erfitt enda olli frammistaðan hjá liðinu miklum vonbrigðum. Mikið hefur verið ritað um ástæðurnar og allir telja sig hafa fundið hina einu sönnu og réttu ástæðu ófaranna þó ástæðurnar sem tíndar eru til séu mýmargar. Enda nóg af sökudólgum þegar svo margir lykilmenn eiga slakan leik.

Neville er auðvelt skotmark þó tölfræðin sýni að Everton liðinu hafi gengið betur á tímabilinu með hann innanborðs en utan. Aðrir vilja benda á Moyes og/eða samningastöðu hans þó sú staða hafi ekki breyst neitt nýlega enda kvartaði fólk ekki mikið yfir samningastöðunni þegar leikirnir tveir á undan Wigan leiknum unnust báðir 3-1. Fellaini var arfaslakur í Wigan leiknum og nú heyrast raddir, m.a. frá Executioner’s Bong, um að rétt sé að selja hann. Það minntist enginn á það þegar hann skoraði 5 mörk í 6 leikjum…

Það þarf ekki endilega að vera röng ákvörðun að selja hann, eins og Everton menn ættu að þekkja af sögunni. Howard Kendall sagði til dæmis að það hefði verið lykilatriði að selja markaskorarann Gary Lineker á sínum tíma þó hann hefði skorað alveg gríðarlegan fjölda af mörkum á sínu eina tímabili — sökum þess að þeir hefðu þurft að breyta formúlunni með Lineker innanborðs og liðsheildin var ekki jafn áhrifarík. Everton endaði á að vinna titilinn tímabilið 84/85 (áður en Lineker kom) og svo aftur 86/87 (eftir að hann fór til Barcelona) en ekki með Lineker innanborðs, eins og þekkt er. Ekki ber þó að skilja sem svo að ég sé að kalla eftir því að Fellaini verði seldur.

Það er samt ekki hægt að benda á einn einstakling til að útskýra tapið. Öll lið eiga góða og slæma daga og Everton liðið átti einfaldlega mjög slæman dag, sem hefur eiginlega verið alveg ótrúlega lítið um á tímabilinu, þó að úrslitin hafi oft látið á sér standa. Liðið í ár er besta liðið sem Everton hefur átt undir stjórn Moyes og þar með besta lið Everton í nokkuð langan tíma, þar sem Moyes tók við liðinu í árlegri fallbaráttu. Hvað um það. Wigan leikurinn er búinn og rétt að snúa sér að næsta leik.

Eftir tapið í undanúrslitum FA bikarsins í fyrra mætti Everton á Old Trafford með væntingar í algjöru lágmarki og náði flottu 4-4 jafntefli af miklu harðfylgi. Það voru ekki mörg lið sem tóku stig af United á útivelli það tímabilið, hvað þá eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Liðið burstaði svo Fulham 4-0 í næsta leik og stuttu síðar gerði Everton út um Champions League vonir Newcastle í lokaleik tímabilsins. Það er kannski ágætt eftir svekkelsi helgarinnar að það er stórleikur um næstu helgi, því leikmenn verða örugglega staðráðnir í að laga það sem úrskeiðis fór og sýna að tímabilið er ekki búið.

Roberto Mancini mætir þá með olíugróðadrengina frá Man City á Goodison en Mancini hefur víst aldrei unnið leik á Goodison, hvorki sem leikmaður né sem stjóri. Og síðustu þrjú tímabilin hefur Everton jafnframt sigrað City á Goodison. Hægt er að sjá valin atriði úr leiknum í fyrra, sem fór 1-0 (sjá vídeó) eftir mark frá Gibson sem og sigurinn 2010 (sjá vídeó), þar sem Pienaar og Saha létu til sín taka.

Í öðrum fréttum er það helst að fréttamiðlar greindu frá því að Leroy Fer væri enn á radarnum hjá Everton. Ekki víst hvort nokkuð sé að marka þær fregnir.

En að öðru, því sigurganga U21 árs liðsins okkar heldur áfram og eru þeir eftir sem áður á toppi Group 1 riðilsins í keppni U21 árs liða, taplausir eftir 5 leiki. Liðið tók sig nefnilega til og vann fínan 0-1 sigur á liðinu (sem var þá) í öðru sæti í riðlinum, Chelsea, á útivelli, með marki frá Conor Mcaleny (sjá vídeó). Það skyggði á gleðina að Ross Barkley lét reka sig út af í leiknum. En það breytir því ekki að Everton U21 árs liðið er nú í efsta sæti með 13 stig af 15 mögulegum eftir fimm leiki en liðið sem kemst næst því er Fulham U21 með 11 stig — þó þeir hafi leikið tveimur leikjum fleiri en Everton. Alan Stubbs var að vonum kátur eftir leikinn.

Fjórir leikmenn Everton voru auk þess valdir í enska U19 ára landsliðshópinn sem mætir Tyrklandi síðar í mánuðinum: Miðjumaðurinn John Lundstram sem og varnarmennirnir John Stones, Tyias Browning og Matthew Pennington.

Coleman, Jelavic og Naismith voru einnig valdir í landsliðshóp sinna landa (Írland, Króatía og Skotland).

3 Athugasemdir

  1. Orri skrifar:

    Það þýðir ekkert að leggast í þunglyndi yfir síðasta leik. Nú er bara spíta í lófana og stefna á fjórða sætið.

  2. Baddi skrifar:

    Ekkert væl strákar, bara að halda áfram og við tökum City um helgina og stefnum á 4-5 sætið og brosa svo, enda stutt í útför. kv Baddi

  3. Elvar Örn skrifar:

    Ha? Er stutt í útför? Hver dó?

    Jú rétt við erum á leið til Everton-borgar eftir 6 vikur, eigum við að ræða það eða?