Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton vs. Aston Villa - Everton.is

Everton vs. Aston Villa

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Aston Villa á heimavelli á morgun (lau) kl. 15:00 en þessi lið hafa mæst alls 213 sinnum í gegnum tíðina.

Gengi þessara tveggja fornfrægu liða á tímabilinu gæti varla verið ólíkari, Everton í seilingarfjarlægð frá Champions League sæti en Aston Villa í mikilli lægð á þessu tímabili, í næst-neðsta sæti deildarinnar með fleiri leiki spilaða en stig fengin og -26 í markatölu. Þeir náðu ágætum árangri í deildarbikarnum, komust í undanúrslit en voru slegnir út af D deildarliðinu Bradford. Þeir hafa ekki unnið deildarleik síðan þeir unnu Liverpool sannfærandi á útivelli 1-3 þann 15. desember en síðan þá hafa þeir fengið tvö stig af tuttugu og einu stigi mögulegu (tapað fimm deildarleikjum og gert tvö jafntefli) með markatöluna 5-18. Það er sorglegt að sjá þetta sögufræga félag í þessari stöðu, en þessu tvö lið eru einu tvö liðin á Englandi sem hafa náð meira en 100 tímabilum í efstu deild. Everton með 110 tímabil en Aston Villa 102. Þeir hafa enn möguleika á að rétta úr kútnum en vonandi byrja þeir ekki á því á morgun. Everton vann fyrri leikinn auðveldlega, 1-3 á útivelli með mörkum frá Pienaar, Fellaini og Jelavic, en það eru 26 ár síðan Everton vann Villa síðast tvöfalt í deildinni en leikir þessara liða eru yfirleitt jafnir. Þessi lið hafa aðeins mæst í efstu deild, samtals 195 sinnum en engin tvö lið hafa mæst jafn oft í enskri fótboltasögu.

Everton náði 2-1 sigri á West Brom í frábærri síðustu umferð deildar þar sem næstu tvö lið fyrir neðan, Arsenal og litli bróðir, gerðu jafntefli innbyrðis og Chelsea og Tottenham gerði jafntefli við lið neðar í töflunni. Everton því í fimmta sæti aðeins stigi á eftir Tottenham og mikilvægt að ná í 3 stig úr leiknum við Aston Villa til að setja verulega pressu á Tottenham. Þeir hafa ekki náð að sigra í síðustu þremur deildarleikjum sínum og Chelsea hafa aðeins náð einum sigri í síðustu þremur (og hentu frá sér 2-0 sigri á móti Reading í síðasta leik). Sigur á morgun gefur Everton 4. sætið í bili allavega, því Tottenham á leik við West Brom á sunnudag. Tap færir Everton niður í 6. sætið ef Arsenal nær að vinna Stoke á heimavelli.

Hjá okkur eru hægri bakverðirnir Seamus Coleman og Tony Hibbert meiddir en Gibson og Mirallas eru líklega (blessunarlega) leikhæfir og því er ákveðinn hausverkur fyrir Moyes að velja liðið sem mætir Villa. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Neville. Pienaar á vinstri, Fellaini og Osman á miðjunni, Mirallas á hægri, Jelavic og Anichebe frammi. Ef Gibson spilar fer Fellaini í holuna, og spurning hvað gerist með Anichebe sem fer annað hvort á bekkinn eða (ólíklegra) á hægri kantinn. Svo gæti líka verið að Moyes hvíli Jelavic í annan leik því Anichebe átti fínan leik síðast. Spurningin er hvort nýi ungliði Everton, John Stones, láti sjá sig á bekknum en hann fær skyrtu númer 26. Á þó síður von á því. Hjá Aston Villa eru Marc Albrighton, Chris Herd og Gary Gardner meiddir og vafi á að Fabian Delph geti spilað. Richard Dunne gæti þó náð leiknum eftir nokkra fjarveru hjá þeim en ekki víst þó. Nýi miðjumaður þeirra, Yacouba Sylla, sem þeir keyptu í janúarglugganum er talinn fara beint í byrjunarlið þeirra og verður örugglega staðráðinn í að sýna hvað hann getur. Þeir eru annars með ungt lið sem hefur ekki náð nógu vel saman og hlakka örugglega ekki til að mæta á Goodison.

Þess má geta að Jelavic hefur skorað þrjú mörk í þremur leikjum gegn Villa (tvö með Rapid Vienna) en Osman hefur skorað flest mörk allra Everton leikmanna gegn Villa, samtals 5 mörk. Everton hefur þó ekki unnið Villa í deild á heimavelli í síðustu 6 tilraunum (eini nýlegi sigurinn í FA bikarnum). Það getur því brugðið til beggja vona. Spái 2-2 jafntefli, Jagielka og Jelavic með mörkin. Leikur Everton gegn Aston Villa var einn besti útileikur Everton á tímabilinu. Vonandi ná þeir upp sömu stemmingu í leiknum á morgun.

Í öðrum fréttum er það helst að Steven Pienaar var valinn leikmaður desember mánaðar eftir að hafa leikið alla leiki Everton þann mánuðinn og skorað þrjú mörk (gegn Tottenham, West Ham og Chelsea).

Hér í lokin, á meðan við teljum niður klukkutímana í leik, eru svo tvö vídeó af gömlum leikjum gegn Aston Villa: fyrst 3-1 sigurleikur Everton árið 2009 í FA bikarnum en leikurinn var liður í því að Everton kæmist alla leið í úrslit bikarsins það tímabilið. Og svo 4-1 sigurleikur árið 2006. Njótið vel.

Leikurinn er sýndur í beinni á Ölveri. Hver er ykkar spá?

3 Athugasemdir

  1. Kiddi skrifar:

    Spái því að okkar menn nái að bæta markatöluna og sigla tímabundið fram úr Tottenham, 4-1 ekki líklegt að liðið nái að halda hreinu en stemmingin á Ölver verður klárlega góð verði þetta úrslitin.
    Skil bílinn líklega eftir heima 🙂

  2. AriS skrifar:

    Spái sigri…… langar að spá stórum sigri….. segjum það bara stór sigur….. fyrir okakr menn… engar tölur þó…. 😉

  3. Halli skrifar:

    Aston Villa er slakasta liðið í epl og við vinnum 3-1 Anichebe 2 og Mirallas Benteke setur svo 1 fyrir þá