Mynd: Everton FC.
Everton mætir Southampton á útivelli í deildinni kl. 20:00 annað kvöld (mánudag). Everton vann fyrri leikinn á tímabilinu 3-1 á Goodison með tveimur mörkum frá Jelavic og einu frá Osman. Árangur Everton á útivelli gegn Southampton gegnum tíðina er þó ekkert til að hrópa húrra fyrir, 12 sigrar í 43 leikjum, 11 jafntefli og 20 töp (stig reyndist þó útkoman í rétt rúmlega 50% leikja). Southampton kom upp í Úrvalsdeildina í ár eftir 8 ára hlé og það eru 9 ár síðan Everton tapaði síðast fyrir þeim á útivelli, ef við viljum líta þannig á málið. Svo má líka benda á að Everton er taplaust gegn Southampton í síðustu 6 leikjum (3 sigrar, 3 jafntefli) en síðustu tveir útileikir enduðu með jafntefli, 2-2 tímabilið 2003/04 (þar sem Wayne Rooney skoraði tvö, sjá mynd) og 3-3 þar á undan. Everton er í 5. sæti fyrir leikinn (taplausir á útivelli í síðustu 5 leikjum) með 37 stig eftir 22 leiki en getur með sigri saxað á forskot Tottenham í 1 stig í fjórða sæti en þeir gerðu jafntefli í kvöld. Southampton menn eru í 15. sæti með 22 stig eftir jafn marga leiki en þeir hafa ekki unnið nema einn leik af síðustu sjö (í öllum keppnum).
Stjórn Southampton kom flestum á óvart á föstudaginn með því að reka stjóra sinn, Nigel Adkins, sem hafði verið við stjórnvölinn í rétt rúm tvö ár og á þeim tíma stokkið með liðið beint upp í Úrvalsdeildina, upp um tvær deildir á aðeins tveimur árum en ef þeir fá jafn mörg stig á seinni helmingnum (og á þeim fyrri) verða þeir búnir að að tryggja áframhaldandi veru í Úrvalsdeildinni fyrir síðustu leikina. Sagan verður að segja til um hvort þetta hafi verið rétt ákvörðun, en framundan eru þrír leikir gegn mjög erfiðum andstæðingum, fyrst Everton, svo Man United og Man City (og svo leikur við Wigan í bullandi fallbaráttu inn á milli). Ljóst er að stuðningsmenn Southampton eru reiðir yfir að hafa misst Adkins og búist er við að þeir veifi hvítum vasaklútum á leiknum sem ku vera spænsk hefð sem lýsir óánægju.
Mauricio Pochettino, nýi stjóri Southampton, gæti gefið Vegard Forren, nýja varnarmanni þeirra, sem Moyes skoðaði, séns í leiknum en það verður þó að teljast ólíklegt, nema um meiðsl sé að ræða. Kafteinn þeirra, Adam Lallana, er annars meiddur sem og Guilherme Do Prado og Jose Fonte. Veikleiki Southampton er vörnin og markvarslan en þeir hafa fengið á sig 40 mörk í 22. leikjum og prófað þrjá mismunandi markverði með misjöfnum árangri. Greining Executioner’s Bong á Southampton er hér.
Hjá Everton eru Hibbert og Gibson meiddir og Heitinga hefur misst af síðustu tveimur leikjum. Mirallas er byrjaður að æfa aftur en hann kemur líklega til með að missa af þessum leik því Moyes vill leyfa honum að fá auka tíma til að jafna sig. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Osman og Neville á miðjunni. Pienaar vinstra megin. Anichebe (eða kannski Naismith) á hægri. Fellaini fyrir aftan Jelvic frammi. Ef Osman spilar verður það 300. deildarleikur hans á ferlinum.
Ef Everton vinnur verður það fjórði útileikurinn í röð sem þeir vinna en það hefur ekki gerst síðan í febrúar 1985. Ef svo fer verður það jafnframt 600. útisigur Everton í deild, frá upphafi. Við skulum vona að það gerist. Spái 1-2 sigri Everton, Jelavic og Distin með mörkin. Hver er ykkar spá?
Vona það besta en óttast það versta. Það er svo dæmigert fyrir Everton að þegar við höfum tækifæri til að saxa á forskot næsta liðs fyrir ofan eða auka bilið á liðin fyrir neðan, þá klúðrast það einhvern veginn. Spái 2-0 fyrir Southampton.
Þessi vinnst 1-3 Pienaar Coleman og Jelavic
hjartanlega sammála Ingvari í öllu sem hann skrifar.en vonum það besta.
Verður þetta ekki bara snjókast?
0 1 fyrir okkar menn.osman með markið. sjaumst a Ölver i kvöld
Ég ætla nú að vera bjartsýnn.Ég segji 0-3 fyrir Everton.
Gunnþór, Everton rústar þessum leik. Einstefna af hálfu Everton. Bara spá samt 🙂
Southampton betri fyrstu 20 mínúturnar. Kræst.
23 leikir. 11 jafntefli. Við endum í 6.-8. sæti.
Getur einhver frætt mig á því hvern andskotann Naismith er að gera í liðinu??
Moyes hefur fundið marga góða menn fyrir lítinn eða engann pening, Naismith er ekki einn þeirra.
mér líst ekkert orðið á þetta. Liðið virðist búið á því og er
hugmyndasnautt í sóknum sínum. En kannski er menn að spara sig fyrir bikarleikinn á laugardaginn.
Jákvæða er að við héldum hreinu aftur og Mirallas virðist heill. Fannst völlurinn reyndar gríðarlega þungur og háll sem virðist ekki henta okkur sérlega vel. Hefði viljað sjá Oviedo seinasta korterið í stað Naismith eða Pienaar. Anichebe var sterkur þegar hann kom inná og Howard bjargaði okkur í dag.
Það er fátt um þennan leik að segja,við vorum bara heppnir að ná stigi úr þessum leik.Nú er bara að vona að liðið leiki næsta leik betur,verra getur það nú varla verið en í síðasta leik.