Mynd: Everton FC.
Everton leikur í 3. umferð FA bikarsins við Cheltenham (sjá á korti) á útivelli kl. 19:45 á morgun (mánudag). Cheltenham Town er félag með langa sögu, stofnað 9 árum á eftir Everton (Cheltenham 1887 en Everton 1878) en þeir hafa leikið mestan hluta æviskeiðs síns í deildum sem ég er nógu fáfróður til að þekkja ekki nógu vel til. Besti árangur þeirra frá upphafi er sextugasta og fyrsta sæti í ensku deildunum, sem jafngildir 17. sæti í C deildinni í dag. Þeir eru í augnablikinu í 4. sæti ensku D deildarinnar (4. deildin í raun) og eiga því góða möguleika á að komast upp í C deildina (og kannski bæta sinn besta árangur á næsta tímabili). Þeir hafa unnið um helming leikja sinna (12 af 25, gert 6 jafntefli og tapað 7 sinnum).
Heil 66 önnur sæti skilja að Everton og Cheltenham í deildinni (eins og hún lítur út núna) en þessi tvö lið hafa aldrei mæst (ef undanskilinn er testimonial leikur á útivelli fyrir 22 árum — sem tapaðist 1-0 — þar sem Neville Southall kom á óvart og lék með Cheltenham!!) og alls ekki mikið sem maður veit um Cheltenham liðið annað en það sem tengist Everton en ungstirnið okkar og vinstri bakvörðurinn, Luke Garbutt, lék 34 leiki með þeim sem lánsmaður á sðasta tímabili og skoraði tvö mörk. Hann þekkir þá því vel og ætti að geta veitt David Moyes góða innsýn inn í leik þeirra. Einnig keypti Everton tvo leikmenn frá þeim, bræðurna Courtney (sóknarmaður) og Tyrone (miðjumaður) Duffus. Shaun Harrad er þeirra helsti markaskorari með sjö mörk á tímabilinu (5 í deild, 2 í FA) en hann ku standa sig best undir pressu fyrir framan myndavélarnar. Kaid Mohammed og Chris Zebroski fylgja honum fast á eftir, báðir með 6 mörk. Cheltenham hafa aðeins unnið einn af síðustu fjórum leikjum sínum, tapað tveimur og gert eitt jafntefli en í tveimur fyrstu umferðum þeirra í FA bikarnum unnu þeir utandeildarlið. En á móti kemur að þeir hafa hins vegar aðeins einu sinni ekki náð að skora á heimavelli í deildinni. Það boðar ekki vel gagnvart vörn Everton sem nær nánast aldrei að halda hreinu á tímabilinu.
Ekki mikið annað um Cheltenham að segja, nema kannski að Everton seldi þeim markvörð úr akademíunni, Connor Roberts, en ég get ekki séð að hann hafi spilað mikið þar sem Scott Brown, aðalmarkvörður þeirra spilar alla leiki þeirra og hefur (að sögn stuðningsmanna) staðið sig frábærlega. Og já, liðslæknir þeirra er dyggur stuðningsmaður Everton, þó hann styðji atvinnurekendur sína í þessum leik…
Everton hefur ekki tapað nema einu sinni á útivelli í þriðju umferð FA bikarsins síðustu 30 árin (síðast gerðist það á móti Shrewsbury árið 2003). Þess má auk þess geta að Leighton Baines hefur skorað þrisvar sinnum í röð í þriðju umferð FA keppninnar en ef hann skorar á morgun verður hann fyrsti leikmaðurinn í sögu Everton sem skorar í þriðju umferð fjögur ár í röð. Fyrir hjátrúarfulla má geta þess að Everton hefur aldrei tapað í FA bikarleik sem spilaður er 7. janúar (í 15 leikjum) — og í síðustu tvö skiptin sem Everton vann FA bikarinn átti Everton sigurleik (í einhverri bikarumferðinni) þann 7. janúar — og komst auk þess í úrslit árið 1989 (eftir að hafa sigrað á sama degi).
Það er ómögulegt að spá fyrir um liðið sem kemur til með að spila leikinn, nema að Hibbert, Gibson, Coleman og Mirallas verða líklega allir frá. Þetta verður þó erfiður útileikur sem þarf að taka mjög alvarlega. Cheltenham er með næst-besta árangurinn á heimavelli í D deildinni og að sögn eigin stuðningsmanna er þetta besta Cheltenham liðið sem þeir hafa séð. Þar sem einhverjir lykilmenn koma til með að hvíla verð ég sáttur við 1-0 sigur og að enginn meiðist. Duffy með markið úr skalla upp úr horni.
Af hinum Úrvalsdeildarliðunum er það að frétta að Newcastle og Southampton eru þegar dottin út og í dag annaðhvort Swansea eða Arsenal út (Swansea yfir þegar þetta er skrifað). Man United reddaði sér fyrir horn með jafntefli við West Ham og þurfa því að leika aftur og QPR og West Brom þurfa að gera það sömuleiðis. Það verða því að minnsta kost fjögur Úrvalsdeildarlið sem heltast úr lestinni og allt að átta eftir endurtekna leiki en Sunderland, Stoke, Fulham og Wigan gerðu jafntefli við lið úr lægri deildum og ekki má gleyma því að Liverpool á leik í dag. 6 lið úr Úrvalsdeildinni (Aston Villa, Reading, Man City, Norwich, Chelsea og Tottenham) eru hins vegar komin áfram í 4. umferð FA bikarsins. Dregið verður í 4. umferð bikarsins eftir um hálftíma.
Hver er ykkar spá um úrslit á morgun?
1-3 öruggur sigur okkar manna, Jelly,Baines,og Felly.Hittumst hressir a Ölver,
0-4 Osman, Barkley, Vellios 2. Sigurvegari þessa leiks fær Bolton eða Sunderland á útivelli í næstu umferð
Sé fyrir mér að stuðningsmenn Sunderland séu ekki kátir með þann drátt; fá sína helstu grýlu í næstu umferð ef þeir komast framhjá Bolton…
Vona að þetta verði ekki eitthvað FA Cup upset. Það væri svo týpískt Everton.
Spái mjög erfiðum leik. Eigum oft erfitt við að sækja lið úr neðri deildum heim í FA bikarnum. Leeds i vor er gott dæmi og Macclesfield í FA cup fyrir 2-3 árum.
Vona að Duffy fái tækifæri við hlið Distin, þó mér finnist það ólíklegt. Þá er ekki ólíklegt að Vellios fái tækifæri, vonandi nær hann að nýta það. Spái því að öðru leyti að við spilum nánast okkar sterkasta liði.
Drátturinn í 4 umferð er ömurlegur. Hvor sem við sækjum Bolton eða Sunderland heim, verður það erfitt. Sunderland verða þyrstir í hefnd og árangur í bikarnum og Bolton hafa reynst Everton erfiðir á Reebok í gegnum tíðina.
Spái 2-1 sigri okkar manna í kvöld í leik þar sem Der Hammer kemur okkur yfir, Chris Zebroski jafnar og Jelavic kemur af bekknum og setur sigurmark.
Góðar stundir!
Ég ætla að veðja á að þetta verði lið kvöldsins.
———— Howard————–
Neville Jags Duffy Garbutt
Naismith Osman Barkley Oviedo
Anichebe Vellios
Luke Garbutt er meiddur, ef ég man rétt. Grunar frekar að Oviedo verði í vinstri bakverði og Gueye eða einhver á kantinum fyrir framan hann.
Þetta fer 1-1 og stjórinn okkar tekur svo mikið kast í klefanum að hann verður fluttur í sjúkrabíl af svæðinu. 🙂
Ég giska að þetta fari 1-5 fyrir okkar mönnum og að Jelavic, Baines, Osman, Coleman og Fellaini með mörkin.
Þetta var flott, ég veit ekki en hafandi haldið með underdog liðið síðan 1984 þá fannst mér gaman að horfa á Cheltenham Þeir börðust eins og ljón. Reyndar var sigurinn mjög öruggur og maður var pínku fúll að þeir skyldu skora en þeir áttu það skilið. Börðust eins og ljón. En okkar menn voru greinilega ekki að spila á fullri getu en þetta er það sem mér finnst skemmtilegast við bikarinn 🙂
Georg alltaf sterkur í spánni. 🙂
Góður leikur hjá Everton. Coleman kom sterkur inn vonandi á hann eftir okkar helsti hægri bakvörður næstu árin.