West Ham – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Coleman var greinilega meiddur og Jagielka því að leysa af í hægri bakverðinum. Meiri athygli vakti þó að bæði Neville og Anichebe byrjuðu inn á en við töldum örugglega flest að við myndum ekki sjá þá fyrr en á nýju ári. Anichebe frammi með Jelavic, Neville á miðjunni því Osman var færður á hægri kant. Uppstillingin því 4-4-2: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Jagielka. Pienaar á vinstri kanti, Osman á hægri, Neville og Gibson á miðjunni. Anichebe og Jelavic frammi. Maður hváði eiginlega þegar maður sá byrjunarliðið og furðaði sig á því jafnframt að Neville skyldi vera valinn á miðjuna í stað Hitzlsperger, fyrrum West Ham mannsins, sérstaklega þar sem Neville er hægri bakvörður og Jagielka hefði þá geta tekið miðvörðinn í stað Heitinga!

Everton byrjaði leikinn ágætlega og lítið að gerast hjá Howard í markinu framan af. Everton meira með boltann og náði fljótt ágætum tökum á leiknum og létu boltann ganga vel manna á milli.

Fyrsta dauðafærið leit dagsins ljós á 8. mínútu þegar brotið var á Pienaar sem sendi aukaspyrnuna á Distin í teignum sem stökk upp óvaldaður, en skallinn í jörðina og rétt yfir slána. Mjög illa farið með gott færi og þarna átti staðan að vera 0-1 fyrir Everton.

Aðeins þremur mínútum síðar á Everton hornspyrnu sem Gibson tekur og Osman stekkur manna hæst og skallar í netið (sjá mynd). 0-1 fyrir Everton?? Nei, dómarinn dæmdi markið af, réttilega að mínu mati, þar sem Anichebe hindrar markvörðinn innan þess svæði sem ekki má snerta hann og því ekkert mark. Ef hann hefði bara látið það vera.

Tvö mjög góð færi farin í súginn og því hlaut suckerpunch markið hjá West Ham að vera ekki langt undan. Og það var eins og við manninn mælt, aðeins tveimur mínútum síðar var Everton komið undir í leiknum. Carlton Cole fékk boltann rétt utan teigs og hamraði hann framhjá Howard í markinu. Heitinga átti að gera betur í að hindra skotið og Howard, sem las Cole þannig að hann myndi ekki skjóta í nærhornið sem Heitinga var að verja, náði ekki til boltans nógu fljótt. Heitinga átti annars arfaslakan leik í dag, réði greinilega illa við Carlton Cole og þurftu aðrir nokkrum sinnum að koma honum til bjargar. Hvað varð um þann Heitinga sem við þekktum af síðasta tímabili? Kjörin besti leikmaður síðasta tímabils og svo er hann ekki svipur hjá sjón! Skil þetta ekki. Hann leit út eins og gangandi tímasprengja inni á vellinum, maður var alltaf smeykur þegar sóknarmenn West Ham voru nálægt honum með boltann.

Þvert gegn gangi leiksins var Everton nú lent undir — og ekki í fyrsta skipti á tímabilinu. West Ham hafði átt eitt skot að marki fram að þessu, arfaslakt skot úr þröngu færi, sem fór beint á Howard og var varið auðveldlega. Svo skora þeir úr fyrsta almennilega skoti sínu.

En Everton gafst ekki upp – frekar en fyrri daginn. Everton lagði allt kapp á að jafna og voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik, (59% vs 41%) og voru beittari í sóknaraðgerðum þó hvorugu liðinu tækist að skapa sér almennileg færi. Jelavic féll í rangstöðugildruna trekk í trekk og var lélegasti leikmaður liðsins í dag, ásamt Heitinga, en ekkert gekk upp í sókninni hjá króatanum okkar. Samt vill maður ekki taka hann út af því það er eins og það sé alltaf mark í honum. Baines og Pienaar fannst manni auk þess ekki ná nógu vel saman í leiknum, allavega undir þeim háa standardi sem þeir hafa sett á tímabilinu.

1-0 fyrir West Ham í hálfleik.

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri, Everton nokkuð betra liðið en bitlaust þegar kom að sókninni. Nokkrum sinnum voru reyndar frábærar sendingar á Jelavic sem var næstum sloppinn í gegn, nema hvað alltaf of fljótur af stað og kominn í rangstöðuna þegar sendingin kemur.

Á 53. mínútu átti Gibson þrumuskot úr aukaspyrnu af löngu færi en markvörður ver í horn. En það var lítið í gangi, Everton ekki að komast í dauðafærin og aukaspyrnur og horn að fara í súginn. Leit út fyrir lengi vel að þetta myndi ráðast á markinu eina.

Alveg þangað til á 63. mínútu þegar Pienaar tekur aukaspyrnu utan teigs þar sem Anichebe stekkur upp óvaldaður og skallar boltann í netið. Everton, liðið sem aldrei gefst upp, búið að jafna 1-1.

Stuttu síðar tók dómarinn leikinn í sínar hendur þegar hann dæmir rautt spjald á Carlton Cole, hættulegasta mann West Ham. Spjaldið fékk hann fyrir að reyna að sparka til boltans hátt á lofti, en hittir ekki boltann heldur í öxlina á Baines (nálægt því að hitta hann í andlitið) og rífur peysuna hans Baines að auki. Enski þulurinn var ekki sammála rauða spjaldinu og sagði að þetta væri umdeildur dómur. Skal ekki segja. Dómarinn átti þó eftir að jafna þetta út mikið síðar.

Everton var betra liðið fyrir rauða spjaldið og ekki var spjaldið til að hjálpa West Ham.

Everton skoraði svo aftur á 72. mínútu. Pienaar og Osman tóku nokkra létta þríhyrninga gengum vörn West Ham og inn í teiginn þar sem Pienaar kemst í dauðafæri sem er varið en glundroðinn í teig West Ham veldur því að varnarmaður reynir að hreinsa en skýtur boltanum í lærið á Pienaar og inn. 1-2 fyrir Everton.

Bæði lið fengu dauðafæri rétt undir lok leiks: Jelavic komst einn á móti markverði hægra megin í teig en skaut í hliðarnetið og West Ham komust inn fyrir vörnina en Distin náði að trufla sóknarmanninn og loka fjærhorninu með tæklingu þannig að West Ham maðurinn skaut framhjá markinu á nærstöng.

Fjórum mínútum bætt við en það helsta markverða var að Gibson var rekinn út af fyrir nákvæmlega sama brot og Carlton Cole. Það má deila um þá ákvörðun dómara að dæma rautt á þessi brot, en samkvæmur sjálfum sér var hann allavega.

Lukkutröllið okkar, Gibson, fær því væntanlega þriggja leikja bann og missir því af leikjum við Wigan, Chelsea og Newcastle. Akkúrat það sem við þurftum.

En þrjú stig í höfn þó síðustu mínútur væru taugatrekkjandi. Það væri alveg eftir tímabilinu, hugsaði maður, að West Ham myndu ná að jafna og taka af okkur tvö stig. Það gerðist þó ekki og Everton aftur komið í 4. sæti og aðeins markatala sem kemur í veg fyrir að Everton sé í þriðja sæti. Frábær jólagjöf frá Everton liðinu.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Distin 7, Heitinga 5, Jagielka 7, Pienaar 8, Neville 7, Gibson 6, Osman 8, Anichebe 7, Jelavic 6. Varamenn: Oviedo, Naismith og Duffy, allir með 6. West Ham með svipaðar einkunnir, 6 sjöur, fjórar sexur og varnarmaðurinn Collins með 8.

16 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Bæði lið ætla greinilega að áfrýja rauðu spjöldunum.
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/20828315

  2. Orri skrifar:

    Ég ætla rétt að vona að liðin áfrýji rauðuspjöldunum.Annars er ég mjög glaður yfir úrslitunum.

  3. Teddi skrifar:

    Gleðileg Jól.

    Kv,
    Dómari leiksins.

  4. Ari G skrifar:

    Fannst þetta ekki góður leikur. Hvar er Barkley er hann meiddur? Vill halda Jagielka og Distin samn í miðju varnar ekki breyta því. Hvað er að ske með Jelavic vill hvíla hann og setja hann inná seinna í leiknum. Anichepe er ótrúlegur sést kannsi ekkert í leik og síðan skorar hann stórglæsileg mörk öðru hvoru. Vill að hann byrji inná næst og Barkley fyrir aftan og síðan getur Jelavic komið inná seinna. Svo á þjóðverjinn að leysa Gibs af hann fer í leikbann hef aldrei þolað Heitinga vildi vilja selja hann í janúar ef rétt verð fæst og kaupa Molde leikmanninn í staðinn man ekki nafnið.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það hefur oft verið talað um að það vanti stöðugleika í dómgæsluna á Englandi. Ég er ekki alveg sammála því. Dómgæslan er stöðugt skítléleg. Bæði Cole og Gibson áttu að fá gult og ekkert meir. Þessi rauðu spjöld verða væntanlega skoðuð og jafnvel felld niður en ég er viss um að það verður ekki fyrr en eftir Chelsea leikinn.

    Og já, selja Heitinga hann virðist hreinlega vera kominn eitthvað annað, ferlega er hann orðinn slakur.

  6. Haraldur Anton skrifar:

    Tim Cahil!

  7. Haraldur Anton skrifar:

    l

  8. Gestur skrifar:

    Ég sá ekki leikinn, en mér leist ekkert á þetta. Fyrir minn smekk var þetta ekkí lagi, þrtta gekk upp í dag, en að setja tvo leikmenn sem ekki eru í leikæfingu inná , en hafa góða menn á bekknum, getur ekki verið gott. En Moyes er snillingur og landaði 3 stigum. Mér fannst á tæpasta vað vaðið en kannski er hann að hugsa um alla þessa leika fram undan en mér finnst að velja Aniehebe í byrjunarlið umfram aðra frekar fúlt en hann stóð sig vel og vona að þetta þjappi sama hópnum frekar en að sundra honum. Ég vona að allir standi sig jafn í dag og læsta leik. Ég og fjölskylda mín óska öllum gleðilegra jóla.

  9. Andri skrifar:

    Horfði á leikinn hjá mínum mönnum eins og ávalt. West Ham spilaði eins og þeir eru vanir. Okkar menn voru einfaldlega mjög bitlausir, Baines og Pieenar mjög slakir í fyrrihálfleik og reyndar liðið allt. Anichebe að hnoðast og maður beið eftir varnarmistökum hjá báðum liðum. Síðari hálfleikur leit hreint út sagt mjög illa út fyrsta korterið. Jelavic hræðilegur og virðist vera langt frá því að hafa það sjálfstraust sem hann hafði í fyrra. Jöfnunarmark okkar manna kom reyndar ekki eftir aukaspyrnu heldur voru Baines og Pieenar að teygja á vinstri væng sem endaði í flottum bolta sem Anichebe stýrði í fjærhornið. Eftir það tók spilamennskan við sér og aðeins eitt lið á vellinum, mynnir að Jelavic hafi fengið besta færi leiksins þegar boltinn datt fyrir hann beint fyrir framan markið en þá renndi hann sér á boltan og rúllaði honum beint á markvörðin, svo lélegt að ég hefði tekið hann útaf og löðrungað hann. Rautt spjald og við skorum fljótlega.. Osman á það mark enda langbesti maður vallarins, fór af pieenar og inn. Við vorum heppnir að fá ekki á okkur jöfnunarmark einum fleirri, Nolan með skot sem straukst við Heitinga og rétt framhjá, líklega það eina sem heitinga gerði í leiknum og síðan fékk Nolan nánast einn á móti Howard.. Fáránlega slök er varnarvinnan og sérstaklega þegar við erum yfir og lítið eftir. Það sem stendur eftir er að við náðum í 3 stig og fengum dómgæslu með okkur í lið til þess enda kominn tími á okkur. Erfiður útileikur sem vegur þungt í framhaldinu, gildir ekkert ef við vinnum ekki Wigan í næsta leik samt. Ljóst er að okkur vantar mannskap, djúpan á miðju, senter, miðvörð.. Þetta eru nauðsynlegir hlutir og gríðaræega líklegt að við Kaupum Molde strákin og Belgan sem náði ekki skiptum fyrir fyrri gluggan.. Eftir frammistöðu Jelavic þá er ljóst að hann skortir þá hæfileika til að nýta það sem Pieenar, Osman og Baines skapa.

  10. Finnur skrifar:

    Phil McNulty hjá BBC: „Moyes’ most complete team“
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/20825958

  11. Albert Gunnlaugsson skrifar:

    Gott að landa þrem stigum.
    Gleðileg jól allir.

  12. Finnur skrifar:

    Executioner’s Bong með greiningu sína. Alltaf skemmtileg lesning…
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2012/12/23/west-ham-1-2-everton-tactical-deconstruction/

  13. Halli skrifar:

    Góður sigur í gær og flott að ná 4 sætinu yfir jólin

  14. Gunnþór skrifar:

    Er algjörlega sammála öllu sem Andri segir,sá ekki leikinn en endurspeglar mínar tilfinningar fyrir Evertonliðinnu í haust okkur vantar framherja og aðeins meiri gæði í nokkrar stöður á vellinum.

  15. Finnur skrifar:

    Baines og Pienaar í liði vikunnar hjá Garth Crook (BBC):
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/20831742
    Það er að auki víst við hæfi á degi sem þessum að stilla upp liði vikunnar í jólatrés-uppstillingu. 🙂