West Ham vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Á morgun (lau) kl. 15 mætir Everton West Ham á heimavelli þeirra síðarnefndu. Þessi lið hafa leikið 124 leiki og Everton unnið rétt tæpan helming þeirra (49%), West Ham tekið tæp 30% og tæp 22% leikja enda með jafntefli. Af síðustu níu leikjum milli þessara liða hefur Everton unnið 5 og aldrei tapað en síðustu þrír hafa endað með jafntefli. Það er mikilvægt að taka þrjú stig eftir langa jafnteflishrinu undanfarið en fjórir af síðustu fimm leikjum Everton í deildinni hafa endað með 1-1 jafntefli (og nokkru áður var þriggja leikja jafnteflishrina).

Ef einstök lið eru skoðuð hefur Everton skorað flest mörk gegn West Ham síðan Úrvalsdeildin var stofnuð, eða 58 talsins. Það þarf að fara 65 leiki aftur í tímann til að finna fleiri en tvö mörk sem West Ham skoruðu gegn Everton (4-3 á Upton Park í febrúar 1974) en Everton hafa síðan þá í 13 leikjum skorað fleiri en tvö og stundum unnið stórt, t.d: 4-0, 4-0, 3-0, 6-0, 0-4 og síðast 5-0 (árið 2001). Everton er í 6. sæti fyrir leikinn með 27 stig eftir 17 leiki en sigur gæti þýtt að Everton kæmist í þriðja sætið — tap gæti þýtt fall niður í 9. sæti. West Ham eru í 11. sæti með 23 stig, einu stigi og einu sæti ofar en Liverpool. West Ham er í erfiðu prógrammi þessa dagana en þeir verða með leiknum á morgun búnir að spila við öll sjö efstu liðin í deildinni (að liði Arsenal undanskildu) frá því í byrjun nóvember og hafa aðeins sigrað tvisvar í níu leikjum. Þetta verður þó erfiður leikur en hvorki City né Chelsea tókst að vinna West Ham á Upton Park og Chelsea tók ekki einu sinni stig úr leik sínum gegn þeim.

Þetta er fyrsti leikur Everton í jólaprógramminu en Wigan mætir á Goodison annan í jólum og Chelsea daginn fyrir gamlársdag en Fellaini missir af öllum þessum leikjum vegna bannsins sem hann hlaut eftir leikinn gegn Stoke. Að auki eru Mirallas, Hibbert, Neville og Anichebe allir frá. Þeir tveir síðastnefndu eru nálægt því að vera lausir við sín meiðsli skv. fréttum. Líklegt byrjunarlið á morgun: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Pienaar á vinstri kanti, Barkley á hægri, Osman og Gibson á miðjunni, Naismith í holunni og Jelavic frammi. Einnig er mögulegt að Moyes hrókeri eitthvað Pienaar á miðju eða til hægri eftir þörfum, eins og hann hefur verið að gera í undanförnum leikjum. Executioner’s Bong fjallaði aðeins um mögulegan arftaka Fellaini í leiknum. Þessi leikur kemur örugglega til með að gefa tóninn fyrir jólaprógrammið sem framundan er og nauðsynlegt að finna lausn á fjarveru Fellaini.

Meiðslalistinn hjá West Ham er svipað langur og hjá okkar mönnum en Benayoun, Diame, McCartney, Vaz Te og Andy Carroll eru allir meiddir. West Ham eru sagðir ætla að skila vandræðagripnum Andy Carroll aftur til Liverpool en þessi dýrasti breski framherji allra tíma hefur aðeins skorað 1 mark á lánstímanum með þeim og hefur verið meira og minna meiddur frá því hann mætti á svæðið.

Í öðrum fréttum er það helst að Dennis Stevens, sem varð enskur meistari með Everton árið 1963, lést á dögunum 79 ára að aldri eftir baráttu við veikindi. Hann spilaði á miðjunni með Everton og fór beint í byrjunarliðið eftir að hafa verið keyptur og náði að spila næstu 100 leiki Everton í röð — sem aðeins þrír aðrir leikmenn hafa leikið eftir (Jack Taylor, George Wood og Joleon Lescott).

Í öllu gleðilegri fréttur er það helst að Leon Osman (sem myndin hér að ofan frá 2006 sýnir fagna marki gegn West Ham) var valinn leikmaður nóvembermánaðar á dögunum en Osman stóð sig mjög vel á miðjunni í þeim fimm leikjum sem Everton lék (þmt. sigur á Sunderland og jafntefli gegn Arsenal). Osman var jafnframt besti leikmaður enska landsliðsins í sínum fyrsta landsliðs-leik (vináttuleikur gegn Svíum).

6 Athugasemdir

  1. Orri skrifar:

    Eigum við ekki að reikna með sigri okkar manna í þessum leik.Ég spái okkur 2-0 sigri.

  2. Finnur skrifar:

    Hæstánægður með 1-0. Jelavic með markið. 🙂

  3. Halli skrifar:

    2-1 leikur bakvarðanna Coleman og Baines með mörkin

  4. Gestur skrifar:

    þetta er skrítið val á liði Everton í dag!

  5. Finnur skrifar:

    Mjög sérstakt.

  6. Gunnþór skrifar:

    flottur sigur flott 3 stig.