Stoke vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton leikur við Stoke á útivelli á morgun kl. 15:00. Everton vann Stoke nokkuð reglulega í gömlu fyrstu deildinni (á níunda áratug síðustu aldar) og það var einnig raunin fyrstu árin eftir að Stoke komst upp í Úrvalsdeildina því fyrstu fimm leikina af átta var Everton taplaust gegn þeim (vann þrjá og gerði tvö jafntefli) en í síðustu þremur leikjunum hefur hallað heldur á ógæfuhliðina: Stoke unnið tvo og eitt jafntefli. Stoke liðið er jafnframt með ótrúlega góðan árangur á heimavelli í deildinni á tímabilinu: Taplausir í 7 leikjum í röð (14 leikjum ef síðasta tímabil er tekið með) og aðeins fengið 2 mörk á sig!! Á móti kemur samt að þeir eru einnig með næstfæst mörk skoruð (7) á heimavelli í deildinni (aðeins botnlið QPR með færri mörk, eða 5). Stoke eru í 9. sæti fyrir leikinn með 23 stig (markatala: +2, einu stigi og sæti ofar en Liverpool), Everton í því fjórða með 26 (+7). Leikurinn í fyrra fór 1-1 en Stoke skoraði bæði mörkin (Crouch með sjálfsmark — sjá mynd — sem kom Everton yfir og svo jöfnuðu þeir með suckerpunch marki upp úr engu). Tony Pulis viðurkenndi að hann væri mjög smeykur við Evertonliðið og er það vel.

Mirallas, Hibbert, Anichebe og Neville eru allir meiddir þannig að byrjunarliðið breytist eitthvað. Moyes sagði á blaðamannafundi að Mirallas myndi jafnframt missa af næstu vikum eftir að meiðsli hans tóku sig upp í leiknum gegn Tottenham (sjá greiningu Executioner’s Bong á meiðslunum). Einnig sagði hann að Hibbert þurfi að fara í uppskurð á ökkla. Byrjunarliðið því væntanlega: Howard, Baines, Distin, Jagielka (sem hefur skorað tvö sjálfsmörk á Brittania vellinum) og Coleman. Osman og Gibson á miðjunni, Pienaar vinstra megin, Naismith hægra megin og Fellaini aftan við Jelavic frammi. Mögulega tekur Fellaini stöðu Osman á vellinum þar sem Fellaini er með hæðina til að hjálpa miðvörðunum en ef það gerist þá er aldrei að vita hvernig uppstillingin á Pienaar, Naismith (og jafnvel Oviedo) verður. Ef Howard leikur á morgun verður það 200. deildarleikur hans í Úrvalsdeildinni í röð með Everton (sem engum hefur tekist að ná með sama liði). Glæsilegur árangur hjá honum.

Hjá Stoke missir Michael Owen af leiknum, sem og boltafægjarinn og sérfræðingur þeirra í innköstum, Rory Delap. Marc Wilson er einnig meiddur en hægri bakvörðurinn Ryan Shotton er í banni. Charlie Adams er hins vegar laus úr banni.

Fellaini var valinn leikmaður nóvembermánaðar en hann var óstöðvandi í leikjum gegn: Fulham (tvö mörk), Sunderland (mark og stoðsending), Reading (stoðsending) og Arsenal (mark). Stoðsending hans í leiknum gegn Sunderland gaf markið sem Jelavic skoraði og var valið mark nóvembermánaðar.

En þá að öðrum fréttum: Everton mætir Cheltenham á útivelli í þriðju umferð FA bikarkeppninnar en stjóri þeirra var hæstánægður með það hlutskipti. Þeir eru í ensku D deildinni en nálægt því að komast upp um deild. Leikurinn fer fram 7. janúar. Í FA bikarkeppni ungliða er það að frétta að Everton U18 sigraði Southampton U18 á útivelli 0-2 með mörkum frá George Waring og Conor Grant. Kevin Sheedy var að sjálfsögðu kátur með sigurinn.

Og í hraðsoðnum fréttum:

– Moyes benti á það að mjög lítið af vafaatriðum í dómgæslu á tímabilinu hafi fallið Everton í vil. Allir stjórar kvarta að vissu leyti yfir þessu en það er fjöldi vafaatriða á tímabilinu sem hefur vakið athygli.
– Hann sagði jafnframt að Everton þyrfti ekki að selja leikmenn til að kaupa í janúar, eins og svo oft áður, enda hefði hann ekki náð að nýta allan peninginn sem honum var úthlutað í sumar.
– Steven Naismith kom líka inn á það að ákvörðunin að yfirgefa Rangers hafi verið sú erfiðasta á hans ferli. Meira um það hér. Líklega mun endanlegt verð á honum verið ákveðið í janúar, en deilur standa um það.

Hvað um það. Stoke á morgun og mikilvægt að sigra til að halda 4. sætinu og saxa á Chelsea sem spila ekki í deildinni alveg á næstunni. Greining Executioner’s Bong á leiknum við Stoke er hér. Þetta verður erfiður leikur, eins og leikir gegn Stoke eru alltaf þannig að ég verð sáttur við að halda hreinu og ef dómarinn gerir ekki mistök. Mjög sáttur við að lauma inn marki. Hvað með ykkur?

4 Athugasemdir

 1. Elvar Örn skrifar:

  Jafnan hundleiðinlegir leikirnir gegn STOKE en sigur væri kærkominn til að sækja að Chelsea.

 2. Halli skrifar:

  Þetta er líklega leikur með 1 marki þá vonandi okkar það þarf stóran mann til að skora á maður ekki bara að skjóta á Distin. Felliani flottur að fá leikmannaverðlaunin

 3. Teddi skrifar:

  Úffff, headline-Halsey að dæma.

  Þetta verður óvæntasta skemmtun ársins.
  2-2 og verður Baines með bæði.

 4. Evertonmenn voru arfaslakir þegar þeir heimsóttu Stoke í dag.Þrátt fyrir að komast í dauðafæri tvisar eða þrisvar var þeim ógjörningur að skora mark. Það var besti maður vallarins varnarmaður Stoke sem gerði sjálfsmark í fyrri hálfleik siðan fengum við á okkur skallamark sem Hovard hefði átt að verja.Ekki okkar dagur í dag.