QPR vs Everton

Á sunnudaginn kl. 15 heldur Everton til London til að mæta QPR á útivelli. Þessi lið hafa aðeins mætst tvisvar í Úrvalsdeildinni enda kom QPR upp í Úrvalsdeildina á síðasta tímabili eftir nokkra fjarveru frá efstu deild. Í fyrra gerði Everton jafntefli við QPR á útivelli, 1-1, í leik þar sem Drenthe skoraði fyrir Everton en QPR jöfnuðu úr aukaspyrnu (óþarfa aukaspyrna sem Drenthe gaf). Ef sagan er skoðuð skipta Everton og QPR bróðurlega stigunum á milli sín á heimavelli QPR en í samtals 20 og fjórum leikjum Everton hefur Everton unnið tæp 30% leikja, QPR rétt yfir 40% og jafntefli hefur orðið í 30% tilvika. Moyes hefur 14 sinnum mætt liði undir stjórn Mark Hughes, sigrað 5 sinnum, tapað þrisvar og 6 sinnum hefur leik lyktað með jafntefli. Til gamans má geta að Everton fagnaði Englandsmeistaratitlinum tímabilið 1984/85 með 2-0 sigri á QPR á Goodison Park.

Everton er í fjórða sæti deildarinnar fyrir leikinn, með 14 stig eftir 7 leiki og getur með sigri (og hagstæðum úrslitum) komist upp í annað sæti deilarinnar en með tapi dottið niður í 7. sæti. QPR liggur á botni deildarinnar og hafa ekki náð að vinna neinn leik, með 2 stig eftir 7 leiki sem þeir náðu í með jafnteflum á móti Norwich (1-1) og markalausu jafntefli gegn Chelsea. QPR keypti 12 leikmenn fyrir þetta tímabil og hefur Mark Hughes verið að gera alls konar tilraunir með að hrista hópinn saman en ekki gengið sem skyldi.

Pressan hefur því aukist á leikmenn QPR (og stjórann Mark Hughes) með hverjum leiknum sem líður sem gerir það að verkum að ekki er laust við að maður sé hálf smeykur við að mæta þeim, því það hlýtur að koma að sigurleik hjá þeim. Þeir koma örugglega mjög grimmir til leiks því næsti leikur hjá þeim er á erfiðum útivelli gegn Arsenal og þeir vilja örugglega ekki skilja líka við október sigurlausir. Það þýðir vonandi að þeir komi ekki til með að liggja í vörn sem ætti að henta okkar mönnum mjög vel því Everton hefur gengið betur á útivelli á tímabilinu gegn liðum sem sækja (Aston Villa, Swansea) heldur en liðum sem pakka í vörn, reyna að brjóta niður spil okkar manna og treysta á skyndisóknir (West Brom).

Hjá QPR er Andy Johnson meiddur en Fabio og Clint Hill eru á batavegi. Hjá okkur er óvíst hvort Gibson geti leikið vegna meiðsla en víst er að Fellaini missir af þessum leik þó að meiðslin séu að sögn líklega ekki nógu alvarleg til að hann missi af leiknum á móti Liverpool helgina þar á eftir. Hibbert missir einnig líklega af leiknum. Uppstillingin verður því að öllum líkindum: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Neville og Osman á miðjunni, Pienaar á vinstri, Mirallas á hægri, Naismith í holunni fyrir aftan Jelavic. Anichebe hefur verið nokkuð í fréttunum undanfarið og hann lýsti því yfir að hann myndi vilja vera partur af sóknarpari Everton ásamt Jelavic en ég á síður von á að Moyes spili með tvo fremsta í þessum leik og sömuleiðis á ég ekki von á að sjá Hitzelsperger í leiknum, þó Gibson og Fellaini séu meiddir, nema kannski rétt síðustu 10 mínúturnar.

Þeir hjá Executioner’s Bong tóku QPR fyrir og tiltóku að þeir ættu í erfiðleikum með bakvarðarstöðurnar og að verjast boltum inn í teiginn, nokkuð sem Baines+Pienaar ættu ekki að eiga í vandræðum með að nýta sér og vonandi Coleman+Mirallas einnig. QPR eru í þriðja efsta sæti yfir lið sem hafa fengið flest færi gegn sér og aðeins Southampton hafa fengið fleiri skallamörk á sig. Það er því sárt að missa Fellaini í þessum leik en maður lætur sig hafa það ef hann nær þá í staðinn derby leiknum. Sem betur fer er Jelavic ágætur skallamaður líka (og fleiri). 43% af mörkum Everton á tímabilinu hafa verið með skalla og Mirallas var að auki nálægt því að skora með skalla gegn Swansea en skallaði í slána og niður (náði svo frákastinu og skoraði).

Í öðrum fréttum er það helst að stjóri Sheffield Wednesday vill endilega framlengja lánið á Barkley en Barkley hefur spilað 6 leiki og skorað eitt mark. Líklegt þykir að það verði samþykkt.

Og síðast en ekki síst, þá er Kevin Sheedy aftur tekinn við U18 ára liðinu eftir að hafa náð að jafna sig eftir aðgerðina til að fjarlægja krabbamein. Velkominn aftur, Kevin!

5 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  Fín upphitun.

  Líst ekki eins vel á leikinn, spái 1-0 tapi 🙁

 2. Finnur skrifar:

  Við höfum ekki tapað mörgum deildarleikjum á árinu þannig að maður á síður von á tapi en ef það kemur á morgun þá so be it. Það væri þá ágætis spark í rassinn fyrir derby leikinn. 🙂

 3. Gunnþór skrifar:

  sammála Finnur,en við erum að ara vinna þennan leik.

 4. Halli skrifar:

  Qpr er lið sem ég er smeikur við en okkar menn eru að spila fínan fótbolta íflestum leikjum svo að maður er vongóður núna
  1-2 osman mirallas

 5. Gestur skrifar:

  Ég vona að Moyes þrumi yfir leikmönnum þannig að þeir verði tilbúnir í þennan leik. Þessa leiki þarf að vinna ef Everton ætlað að spila í evrópu-deildinni á næsta tímabili, en maður er samt smeikur