Hitzlsperger enn undir smásjánni og fleira

Mynd: Everton FC.

Klúbburinn tilkynnti á dögunum að Thomas Hitzlsperger myndi leika með U21 árs liðinu sem einn af „öldungunum“ en Moyes og Round eru enn að meta hvort hann sé orðinn góður af meiðslum og komi til með að nýtast Everton á miðjunni. Ef svo er verður honum boðinn samningur en þessi fyrrum landsliðsmaður Þýskalands er, eins og er, með lausan samning. U21 árs liðið mætti svo áðan Norwich á útivelli og vann góðan útisigur, 0-2, en Vellios og Grant skoruðu mörk Everton. Þetta er þriðji sigur U21 árs liðisins í röð en Hitzlsperger lék allan leikinn og þótti skilvirkur á miðjunni. Distin var sá eini úr aðalliðinu sem tók þátt og spilaði annan hálfleikinn.

Í öðrum fréttum er það helst að varamarkvörður Everton, Jan Mucha, tilkynnti á dögunum að hann væri hættur að leika með landsliði Slóvakíu en Mucha er aðeins 29 ára gamall og hefur leikið 35 landsleiki. Ekki fylgdi sögunni hvað fékk hann til að taka þá ákvörðun.

Naismith nældi sér í leikbann með Skotum á dögunum fyrir olnbogaskot sem hann gaf leikmanni Serbíu í markalausum jafnteflisleik liðanna. Dómarinn sá ekki atvikið meðan á leiknum stóð en FIFA skoðaði atvikið eftir á og dæmdi Naismith í tveggja landsliðsleikja bann og hann verður því í banni á móti Wales og Belgum. Ég sá ekki leikinn en skoðaði atvikið á netinu eftir á og verð að vera sammála FIFA því Naismith á bannið fyllilega skilið. Ég veit ekki hvað gekk á í leiknum en er eiginlega gáttaður á Naismith, þessum annars dagfarsprúða leikmanni, að láta skapið hlaupa með sig svona í gönur. Svona lagað á ekki heima á knattspyrnuvellinum og vonandi hefur hann lært sína lexíu.

4 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  Hann er með rosalegan vinstri fót og skorar mikið með langskotum og aukspyrnum

 2. Elvar Örn skrifar:

  Ekki veitir af með Fellaini meiddann næstu vikurnar. Ég er spenntur fyrir Hitzlsperger.

 3. Dyncla skrifar:

  Mér skilst að Hitzlsperger spilaði nokkuð vel á móti Norwich. Vona samt að við sitjum ekki uppi með leikmann sem sittur alltaf heima, meiddur, á fullum launum. Annars býst ég ekki við að Moyes og Round taka slíka áhættu. I.M.W.T (og Round líka) 🙂

 4. Finnur skrifar:

  I.M.W.T.A.R.T. 🙂