FIFA neitar að staðfesta lánið

Ég er enn að ná mér niður eftir glæsilegan 2-0 sigur íslenska landsliðsins á Norðmönnum í undankeppni HM. Flottur leikur hjá okkar mönnum; margt sem þarf að bæta, en tek þetta ekki af þeim — þeir voru vel að sigrinum komnir.

Það eru þó blendnar fréttir sem berast í kvöld hvað Everton varðar. Slæmu fréttirnar eru þær að FIFA neitaði að staðfesta lánið á Ofoe, þrátt fyrir að enska og belgíska knattspyrnusambandið hefðu staðfest lánið og Everton hefði skilað inn nauðsynlegum pappírum fyrir lok gluggans en belgíska félgaið (Brugge) skilaði pappírunum of seint inn. Við skulum vona að félagið geti áfrýjað þessum úrskurði, því ég held að Ofoe geti látið til sín taka í ensku deildinni, sérstaklega í fjarveru Gibson — sem vonandi verður orðinn klár fyrir leikinn við Newcastle.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Baines lék allan leikinn gegn Moldóvum og skoraði 5. markið í 0-5 sigri Englendinga. Jagielka var á bekknum en þar sem Terry meiddist gæti hann tekið hans stöðu gegn Úkraínu.

Mér sýnist Everton leikmennirnir annars koma ágætlega undan landsleikjunum. Jelavic skoraði sigurmark Króata gegn Makedóníu í 1-0 sigri. Belgía vann Wales 0-2 en Mirallas lék fyrri hálfleikinn og Fellaini allan leikinn. Heitinga spilaði nær heilan leik gegn Tyrkjum en Hollendingar sigrðu þann leik 2-0. Coleman var á bekknum í 1-2 sigri Íra gegn Kazakstan. Gibson gaf ekki kost á sér í þeim leik (og er meiddur í þokkabót). Og mér sýnist sem ekki hafi verið flautað til leiks hjá Jamaica gegn Bandaríkjunum. Get ekki séð að neinn af landsliðsmönnunum hafi meiðst, sem er gott mál.

5 Athugasemdir

 1. Haraldur Anton skrifar:

  Það á að hafa einhver lög yfir lið sem senda of sein, kannski er svo.

 2. Georg skrifar:

  Já þetta verður að teljast mjög léleg ákvörðun hjá FIFA þar sem þeir eru beinlínis að hunsa bæði enska og belgíska knattspyrnusambandið með þessari ákvörðun. Þar sem þau bæði gáfu grænt ljós á félagsskiptin. Vonandi nær Everton að áfrýja ákvörðuninni.

  Annars skoraði Jelavic sigurmarkið í 1-0 sigri Króatíu gegn Makedóníu, hann kom víst inn á sem varamaður. Gaman að sjá Baines skora fyrir England. Væri flott að sjá Baines og Jagielka í byrjunarliðinu gegn Úkraínu

 3. Finnur skrifar:

  Athyglisvert að félag sem vill ekki missa leikmann geti bara dregið lappirnar í málinu með pappírsvinnuna þegar bæði enska og belgíska knattspyrnusambandið er búið að staðfesta samninginn. Ótrúlegt, ef satt er.

 4. Finnur skrifar:

  Bandaríkin, með Howard innanborðs, og Costa Rica, með Oviedo, töpuðu bæði sínum leikjum.