West Brom vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Við mætum West Brom á útivelli í 3. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar kl. 14:00 á eftir en svo undarlega vill til að á síðustu þremur tímabilum í röð hafa liðin skiptst á að vinna alla leiki tímabilsins milli þessara tveggja liða. Við unnum þá þrisvar á síðasta tímabili (heima, úti og heima í deildarbikarnum) en þess má geta að Anichebe skoraði í báðum þeim deildarleikjum. Tímabilið þar á undan vann West Brom báða leikina við Everton en tímabilið þar á undan snerist þetta aftur við (Everton vann báða leikina). Það er erfitt að spá fyrir um úrslit þar sem bæði lið eru í fínu formi sem nær aftur til seinni hluta síðasta tímabils og bæði taplaus í tveimur fyrstu leikjum tímabilsins (við unnið báða en West Brom unnið Liverpool 3-0 á heimavelli og gerðu 1-1 jafntefli við Tottenham á útivelli).

Everton hefur aðeins tapað einum af síðustu 10 leikjum á útivelli en West Brom hefur ekki fengið á sig mark í 6 af síðustu 8 leikjum á heimavelli. Ég ætla bara að láta hjátrúna ráða og spá því sama þriðja leikinn í röð: væri sáttur við jafntefli en hæstánægður með að stela þessu með einu marki. Þessi spá hefur jú virkað ágætlega hingað til! 🙂 Bæði lið eru að spila fínan bolta og þetta ætti þessi leikur að verða ágætis skemmtun.

Það eru allir heilir hjá Everton þó Neville hafi ekki náð að klára bikarleikinn (sem leiddi til þess að Everton lék manni færri) þannig að ég ætla að spá þessari uppstillingu: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbert. Miðjan: Gibson og Osman. Pienaar á vinstri, Naismith á hægri. Jelavic frammi og Fellaini fyrir aftan. Mirallas, sem brilleraði í bikarleiknum (átti stóran þátt í 4 mörkum) spái ég að verði á bekknum og komi inn á í lokin.

Meiðsli Odemwingie hjá WBA eru líklega að baki en hann er þó líklegri til að byrja leikinn á bekknum. Lánsmaðurinn Lukaku, sem missti af bikarleik þeirra, verður líklega frammi. Meiningin er að hittast og horfa á leikinn á Ölveri á eftir og vonumst við til að sjá sem flesta.

Þess má í lokin geta að leikurinn í deildarbikarnum við Leeds í 3. umferð verður leikinn 25. september næstkomandi, kl. 18:45 að íslenskum tíma. Leikurinn verður sýndur beint á Sky Sports þannig að það er aldrei að vita nema maður nái honum hér líka.

7 Athugasemdir

 1. Elvar Örn skrifar:

  Ég verð bara í símasambandi frá Akureyri við ykkur á Ölveri, heyrumst í dag.
  Væri gaman að sjá Mirallas í dag, varla hægt annað en að hann komi inná eftir frábæra frammistöðu í bikarleiknum.
  Ég veit að Fellaini hefur verið frábær en ég verð að segja að Coleman hefur verið að spila frábærlega í pre-season og þeim leikjum sem hann hefur tekið þátt í, t.d. var hann alveg magnaður í bikarleiknum gegn Leyton.
  Sigur í dag væri alveg magnað, en jafntefli er ekki alveg ónýtt (eða hvað?).
  Ok ok, bara sigur kemur til greina, ekkert 3-0 tap eins og hjá Liverpool gegn W.B.A. Er svo ekki um að gera að Liverpúl tapi fyrir Arsenal?

 2. Finnur skrifar:

  Við sýnum bara (enn og aftur) í dag hvort liðið úr Everton borg er betra. 🙂

 3. Eyjolfz skrifar:

  Ég kemst ekki á Ölver, verð að finna mér stream til að horfa á á eftir.

 4. Finnur skrifar:

  Þú verður með okkur í anda. 🙂

 5. Elvar Örn skrifar:

  Dapurt

 6. Finnur skrifar:

  Já, það lýsir þessum úrslitum ágætlega…

 7. Finnur skrifar:

  … og frammistöðunni eiginlega líka.