Hugleiðingar um breidd hópsins

Mynd: Everton FC.

Nú þegar maður hefur fengið að sofa aðeins betur á þessum félagaskiptum er rétt að líta yfir leikmannahópinn. Eftir kaup gærdagsins erum við með 26 manns í hópnum, ef við teljum með Vadis Odjidja-Ofoe, nýjasta belgann okkar, sem FIFA mun væntanlega staðfesta í næstu viku. Það er ákveðið spurningamerki við það hvar nýju mennirnir, Oviedo og Ofoe, slotta inn þar sem maður veit ekki hvað Moyes ætlast fyrir fyrr en þeir hafa fengið að spila nokkra leiki. Ég ætla að gera ráð fyrir að þeir spili í þeim stöðum sem fréttamiðlarnir ræddu um (vinstri bakvörður og varnarsinnaður miðjumaður) og líta svo á sem nýju ungliðarnir Kennedy og McLaughlin fari beint í akademíuna (tel þá því ekki með). Hópurinn lítur svona út:

Mark: Tim Howard
Mark: Jan Mucha
Vörn: Leighton Baines
Vörn: Phil Jagielka
Vörn: Sylvain Distin
Vörn: John Heitinga
Vörn: Tony Hibbert
Vörn: Phil Neville
Vörn: Shane Duffy
Vörn: Luke Garbutt
Vörn: Bryan Oviedo
Miðja: Marouane Fellaini
Miðja: Darron Gibson
Miðja: Steven Pienaar
Miðja: Leon Osman
Miðja: Steven Naismith
Miðja: Kevin Mirallas
Miðja: Seamus Coleman
Miðja: Ross Barkley
Miðja: Magaye Gueye
Miðja: Francisco Junior
Miðja: Vadis Odjidja-Ofoe
Sókn: Nikica Jelavic
Sókn: Victor Anichebe
Sókn: Apostolos Vellios
Sókn: Conor McAleny

Þar sem Moyes lætur Everton yfirleitt spila einhver afbrigði af 4-5-1 eru hlutföllin hér að ofan (2-9-11-4) í samræmi við það. Að meðaltali tveir um hverja stöðu og fjórir að keppast um einu stöðuna fremst. En þessar tölur segja ekki allt því það má líka líta á málið frá annarri hlið þar sem Moyes leggur mikla áherslu á fjölhæfni leikmanna. Það er að segja að þeir geti spilað margar stöður. Lítum á það:

Vinstri bakvörður: Neville og Distin hafa hlaupið undir bagga með Baines þegar á þarf að halda og þó þeir hafi staðið sig ágætlega sem vinstri bakverðir í neyð þá er hvorugur þeirra vinstri bakvörður. Framtíðin er björt hvað þessa stöðu varðar þar sem við eigum tvo ungliða í enska unglingalandsliðinu, þá Luke Garbutt og Jake Bidwell sem hafa stundum skipt með sér leikjum landsliðsins jafnt (annar komið inn á í hálfleik fyrir hinn). Þeir eru hins vegar bráðungir og spurning hvort þeir tveir séu tilbúnir fyrir alvöruna en nú hefur Everton keypt Bryan Oviedo, mann með reynslu í vinstri bakverðinum, sem ætti að setja pressu á Baines til að standa sig betur (sem verður erfitt því Baines er einfaldlega besti vinstri bakvörðurinn í deildinni – bar none). Hægt verður þá kannski að lána Garbutt út til að öðlast reynslu en Bidwell er þegar í láni. Ef Oviedo er eins góður og Moyes og Steve Round telja þá hef ég litlar áhyggjur af þessari stöðu.

Miðverðir: Distin og Jagielka eru búnir að vera stórkostlegir í fyrstu leikjum Everton og við vitum alveg hversu öflugur Heitinga er, leikmaður tímabilsins í fyrra. Þrír mjög öflugir að bítast um tvær lausar stöður. Ungliðinn Duffy stóð sig jafnframt mjög vel í fjarveru lykilmanna á síðasta tímabili og meira að segja Hibbert tók leik á móti Man City í þessari stöðu og var besti maður vallarins (en ekki hvað?). Þó Distin sé kominn á aldur virðist hann enn í fantaformi þannig að ég hef einhvern veginn ekki áhyggjur af þessari stöðu.

Hægri bakvörður: Hibbert er einn besti tæklarinn í deildinni, varnarmaður af gamla skólanum og mjög erfitt að komast framhjá honum. Ronaldo norðursins hefur sýnt að hann getur tekið þátt í sókninni, samanber tveir, ef ekki þrír krossar fyrir markið á Old Trafford sem skópu mark og gerðu út um titilvonir United, að mati Sir Alex. Neville hefur verið drjúgur líka, samanber alla leiki sem hann spilar gegn Tottenham þar sem hann pakkar saman Gareth Bale aftur og aftur. Það þarf þó að huga að framtíðarmanni í þessa stöðu þar sem bæði Hibbo og Neville eru komnir á aldur en þó mér finnist ekki liggja á því í haust, sérstaklega þar sem rætt hefur verið um að Coleman sé framtíðarmaður hér. Coleman lék einmitt í hægri bakverðinum í bikarleiknum síðasta og var valinn maður leiksins. Svo getur Heitinga líka tekið þessa stöðu ef í hart fer, þó hann sé náttúrulega ekki sérlega spenntur fyrir henni. Við vorum jafnframt að kaupa unlinginn McLaughlin sem er hægri bakvörður, þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur hér.

Vinstri kantmaður: Pienaar er fyrstur á blað og hefur verið aldeilis frábær! Ungliðinn Gueye leikur þessa stöðu einnig og hefur staðið sig vel (sbr. Sunderland í FA cup á síðasta tímabili). Mirallas, Naismith, Oviedo og Osman geta allir leikið þessa stöðu þannig að það er hægt að prófa ýmislegt hér í fjarveru Pienaar.

Miðjan: Gibson er algjört must hér, hann hefur frábær áhrif á liðið í kringum sig þegar hann er inni á. Frábært auga fyrir sendingum sem hann og klárar líka og er hættulegur skotmaður eins og Man City fékk að kenna á. Osman hefur staðið sig vel við hlið Gibson en hann er vanmetinn og klókur leikmaður sem nær oft að skapa ýmislegt skemmtilegt. Fellaini hefur verið frábær í þessari stöðu líka, en núna maður vill ekki missa hann úr „holunni“ eftir frammistöðu hans þar undanfarið. Það verður fróðlegt að sjá nýja manninn, belgíska landsliðsmanninn Vadis Odjidja-Ofoe, og ungliðann Francisco Junior spreyta sig á miðjunni. Belginn er náttúrulega óþekkt stærð (fyrir mér allavega) en Junior hefur litið ágætlega út á undirbúningstímabilinu. Barkley, eitt ungstirnanna okkar, hefur spilað nokkra leiki hér og komið vel út. Hann er ungur enn þó. Neville og Heitinga hafa leyst hér af í neyð, þó þeir tveir séu náttúrulega ekki fyrsta val hjá manni í þessari stöðu. Ef eitthvað er saknar maður kannski pínulítið leikmanns á borð við Arteta en ég er að vona að sköpunargáfa Gibson, Osman, Naismith og sérstaklega Pienaar (Bainaar-teymisins) nái að vega þar upp á móti. Sama með Mirallas, sem lítur út fyrir að verða spennandi leikmaður fyrir okkur.

Hægri kantmaður: Sýnist á öllu sem Naismith sé að gera þessa stöðu að sinni. Coleman var frábær á sínu fyrsta tímabili en meiddist á undirbúningstímabilinu fyrir næsta (síðasta) tímabil og náði sér ekki almennilega á strik. Hann hefur þó verið líflegur á undirbúningstímabilinu en mig grunar að Moyes fari nú að prófa hann meira í hægri bakverðinum, eins og upphaflega var stefnt á. Mirallas getur einnig leikið þessa stöðu og Osman sömuleiðis. Gott ef Barkley hafi ekki fengið að spreyta sig hér einnig á síðasta tímabili. Nóg af mönnum.

Holan: Fellaini er fyrstur á blað hér en Naismith og Mirallas og Osman eru allir sprækir í þessari stöðu. Spurning með að prófa Barkley hér líka.

Frammi: Jelavic raðaði inn mörkum eftir að hann var keyptur í fyrra og átti stóran þátt í að við enduðum tímabilið á almennilegum stað á töflunni. Loksins er Everton komið með almennilegan markaskorara sem var Akkilesarhæll liðsins á fyrri hluta síðasta tímabils, áður en Jelavic var keyptur í janúarglugganum. Jelavic er því að sjálfsögðu fyrstur á blað. Anichebe hefur reynst drjúgur miðað við hvað hann hefur náð lítið að spila. Hann var algjör super-söbb í fyrra og skoraði 5 mörk þrátt fyrir að sitja mestan tímann á bekknum. Fellaini getur leikið í þessari stöðu, en nú er Everton komið með Mirallas og Naismith sem geta einnig leyst af hér, svo kannski þarf þess ekki. Svo má ekki gleyma ungliðunum, Vellios og McAleny en Vellios var um tíma markahæstur fyrir Everton á síðasta tímabili, með frábært mark per mínútu-hlutfall. Mér sýnist auk þess sem pressunni á fremsta mann sé að létta hjá okkur aðeins, þar sem Everton skoraði 9 mörk í fyrstu þremur leikjunum og dreifir mörkunum bróðurlega milli manna: Mirallas með 2, Fellaini 2 og Pienaar, Jelavic, Osman, Anichebe og Gueye með eitt mark hver.

Það væri frábært að hafa annan öflugan og sannreyndan markaskorara innan okkar raða en slíkir leikmenn eru ekki á hverju strái og kosta yfirleitt mikið. Við vitum ekki enn almennilega hvers Mirallas og Naismith eru megnugir frammi og hvort Anichebe, Vellios eða McAleny stígi upp og láti til sín taka. Vonum bara að Jelavic verði heill, sem og Tim Howard en Mucha hefur ekki kannski verið nógu sannfærandi fyrir minn smekk þegar ég hef séð hann taka við af Howard.

Er ég að gleyma einhverju? Held ekki. Segið endilega ykkar álit í kommentunum.

Ég er bjartsýnn fyrir tímabilið sem fer í hönd. Þrír fyrstu leikirnir segja svo sem ekki mikið þegar uppi er staðið, eins og sannaðist síðast þegar Everton vann fyrstu þrjá leikina á tímabilinu því það tímabil endaði Everton í fallbaráttunni. Þetta eru þó allt aðrir tímar nú og mun betra lið sem Everton hefur yfir að ráða. Vonandi nær Everton að fylgja þessu eftir fram að jólum og taka seinni hálfleikinn með trompi eins og yfirleitt vill gerast. West Brom á eftir, kl. 14:00, við í þriðja sæti deildarinnar í augnablikinu og ef meiðsli setja ekki strik í reikninginn getur allt gerst á tímabilinu. 🙂 Áfram veginn!

5 Athugasemdir

  1. Ari skrifar:

    Getur þú útskýrt þetta, (Bainaar-teymisins) Eitthvað tengist það Baines og Pienaar eða hvað? Hvaðan kemur þetta?

    kær kveðja, Ari

  2. Ari skrifar:

    En annars bara frábær úttekt á liðinu, vel gert…….:)

  3. Finnur skrifar:

    Jamm, þeir eru stundum kallaðir Bainaar, þeir tveir, á vefsíðum úti. 🙂

  4. Finnur skrifar:

    Graeme Sharp kom inn á þetta líka. Það verða allir að vera á tánum með að missa stöðu sína í liðinu. Jafnvel menn eins og Baines, sem hefur vantað backup í langan tíma (þó hann hafi hingað til ekki þurft hvatningu til að standa sig frábærlega á hverju einasta tímabili)…
    http://www.evertonfc.com/news/archive/2012/09/03/an-unprecedented-level-of-competition

  5. Finnur skrifar:

    Tölfræðin er greinilega Baines-megin. Cole er einfaldlega ekki jafn góður vinstri bakvörður. Skil ekki af hverju hann er ekki varamaður með Baines sem fyrsta val!
    http://www.eplindex.com/18593/england-case-baines-cole-opta-stats-analysis.html