Félagaskiptaglugginn lokaður

Mynd: Everton FC.

Félagaskiptaglugginn var að lokast rétt í þessu og ekki úr vegi að líta á afraksturinn.

Farnir:

Joseph Yobo (seldur til Fenerbache)

Loksins (loksins!) lauk þessari sögu eftir langa veru sem lánsmaður hjá Fenerbache. Hef ekkert á móti Yobo en þessi sala tók _allt_ of langan tíma og ekki langar mann að skipta við Fenerbache aftur eftir þessa reynslu. Gott að geta notað peningana í annað.

Jack Rodwell (seldur til Manchester City)

Rodwell var endalaust á sjúkralistanum á síðasta tímabili og virtist aldrei ná að stíga upp og verða meira en bara virkilega efnilegur. Fengum 11M út og nokkrar millur í viðbót (háð gengi Man City á tímabilinu). Sá hann í tveimur leikjum með City eftir söluna og hann átti þátt í einu marki í hvorum leik — sem City fékk á sig. Vona að honum gangi allt í haginn en eins og er er ég mjög sáttur við að fá 11M+. Gibson er auk þess búinn að vera *frábær* í stöðunni „hans Rodwell“ og Gibson fengum við á ekki meira en hálfa milljón punda!

Tim Cahill (seldur til New York Red Bulls)

Keyptur á um milljón, seldur á um milljón — eftir að hafa reynst okkur alveg ótrúlega drúgur gegnum árin. Mikil eftirsjá af honum en staðreyndin er sú að hann var skugginn af sjálfum sér á síðasta tímabili og Fellaini er búinn að vera óstöðvandi í stöðunni hans Cahill síðan. Frábært að hafa fengið milljón fyrir Cahill.

Sagt upp samningi:

Royston Drenthe – lánsmaður, vandræðagripur, gat unnið leiki upp á sitt einsdæmi og tapað þeim — upp á sitt einsdæmi. Átti stóran þátt í að við duttum út úr báðum bikarkeppnum á síðasta tímabili.
Denis Stracqualursi – lánsmaður sem þótti ekki standa sig. Hugsa hlýlega til hans enda baráttumaður, en var ekki lausn á markaskorun liðsins. Fékk lítið að spila eftir að Jelavic kom.
James McFadden – meiðslapési, líklega á pay-as-you-play samningi.
Marcus Hahnemann – fertugur markvörður, hann og James hjá okkur báðir í eitt ár. Báðir komu ókeypis ef ég man rétt.
Adam Forshaw,
James Wallace – hann og Adam: ungliðar, söluvara — greinilega ekki metnir sem framtíðarleikmenn í Everton liðinu. Sá þá aldrei spila.
Connor Roberts,
Aristoto Nsiala,
Femi Orenuga,
Adam Davies – allir fjórir ungliðar sem þóttu ekki standa sig (og ég kann ekki deili á).

Nokkuð margir út tölulega séð en aðeins Rodwell og Cahill (og kannski lánsmennirnir Drenthe og Straq) komust nálægt því að vera fastamenn og enginn af þeim var í raun partur af burðarásinum í liðinu á síðasta tímabili.

Keyptir:

Steven Pienaar (frá Tottenham)

Við borguðum aðeins meira en við seldum hann á (enda undir pressu að selja á sínum tíma) en þetta eru gríðarlega mikilvæg kaup. Bara bikarleikurinn gegn Liverpúl á síðasta tímabili sýndi hvað við söknuðum hans mikið.

Steven Naismith (frá Rangers)

Ótrúlegt að hafa fengið þennan gimstein ókeypis! Á eftir að reynast okkur mjög drúgur. Hefur staðið sig frábærlega á hægri kantinum og á bara eftir að batna, að ég tel.

Kevin Mirallas (frá Olympiacos)

Tvö mörk og tvær stoðsendingar í fyrsta byrjunarleiknum. Við erum rétt að byrja að sjá hvað þessi fjölhæfi leikmaður getur gert.

Matthew Kennedy (frá Kilmarnock)

Ódýr kantmaður (eða sóknarmaður) sem fer beint í akademíuna. Klárlega fyrir framtíðina. Sjáum hvað verður úr honum. Treysti Moyes og félögum fyllilega að slípa þennan demant.

Ben McLaughlin (frá Dunkalk)

Sama og með Kennedy. Fyrir framtíðina. Hægri bakvörður sem leysir Tony Hibbert af þegar Tony fer á eftirlaun (um fertugt).

Bryan Oviedo (frá FC Köbenhavn)

Besti vinstri bakvörðurinn í dönsku deildinni, getur spilað stöður upp alla vinstri hliðina. Líklega backup fyrir Baines, Pienaar og Gueye (en þeir tveir síðarnefndu taka þátt í Afríkubikarnum janúar 2013).

Sem sagt, þrír nýir í samkeppni um stöður í aðalliðinu (tveir sem lofa mjög góðu og einn óþekktur) og tveir fyrir framtíðina. Ég var mjög sáttur við að missa engan fastamann (Baines t.d. sagður á förum í allt sumar en allt saman hugarburður blaðamanna) og er mjög sáttur við þá sem voru keyptir og hópinn eins og hann lítur út núna. Það er jákvæðni og bjartsýni ríkjandi.

Það getur vel verið að frekari félagaskipti verði staðfest eftir lokun (tekur alltaf svolítinn tíma að vinna sig í gegnum þetta) en klúbburinn var sagður reyna lokatilraun til að fá Vadis Odjidja-Ofoe til liðs við sig en hann er hávaxinn og varnarsinnaður belgískur miðjumaður og sagður vera „næsti Fellaini“ í heimalandi sínu. Sel það ekki dýrara en ég stal því. Ætla að láta þetta gott heita í bili. Held að þessu sé lokið þangað til í janúar.

Deildarleikur við West Brom á morgun. Get ekki beðið.

Hvað finnst ykkur um þessi félagaskipti?

6 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Og hvaða staða metið þið að sé veikleiki í liði Everton?

  2. Haraldur Anton skrifar:

    Hægri bakvörður.

  3. Finnur skrifar:

    Enga vitleysu. Chuck Hibbert Norris er með þá stöðu cover-aða. Neville í backup og Coleman að vaxa í hana. Og svo efnilegir ungliðar. Þarf eitthvað að ræða það frekar? 🙂

  4. Georg skrifar:

    Jæja við virðumst ekki vera hættir. Vorum að fá Vadis Odjidja-Ofoe á árslöngu láni. Þetta var gert á síðustu sekúndum gluggans og eina sem þarf til að þetta verði samþykkt er eitt stk. gæðastimpill frá FIFA sem verður snemma í næstu viku.
    Þetta er búinn að vera frábær gluggi fyrir okkar menn og er Ofoe hugsaður til að fá meiri breidd á miðjuna.

  5. Georg skrifar:

    Það sem við eru að gera vel í þessum glugga er að við erum að kaupa leikmenn sem geta allir spilað 2-3 stöður á vellinum sem gerir þessi kaup ennþá veglegri fyrir okkur. Það var mjög flott að fá Bryan Oviedo í dag þar sem hann getur spilað allar stöðurnar á vinstri helmingi vallarins, þar sem við höfum verið með einna minnsta coverið.

    Mirallas held ég að eigi eftir að slá í gegn í vetur. Hágæðaleikmaður þarna á ferð. Núna getur maður andað aðeins léttar ef að Jelavic myndi meiðast, því þá höfum við Bæði Mirallas og Naismith ásamt því að Fellaini hefur staðið sig mjög vel í holunni fyrir aftan strikerinn.

    En einna mikilvægast í þessum glugga var að við klófestum Pienaar aftur. Það sást mjög vel hvernig allt spilið hjá liðinu bættist eftir að hann kom aftur og svo átti Jelavic að sjálfsögðu gríðarlega mikinn þátt í frábæri gengi okkar síðustu mánuði síðasta tímabils.

    Svo er alltaf flott að fá unga og efnilega leikmenn í U-21 árs lið Stubbs. Bara vonandi að þetta séu framtíðarleikmenn.

    Eftir mjög góðan síðasta dag gluggans þá held ég að við séum bara nokkuð vel settir hvað varðar cover í allar stöður á vellinum.

  6. Finnur skrifar:

    Eina staðan sem ég hef áhyggjur af augnablikinu er í raun varamarkvarðarstaðan. Mér hefur ekki fundist Mucha verið sannfærandi í leikjum þar sem ég hef séð hann (og reynt hefur á hann — sem gerði ekki á móti Leyton Orient). Sem betur fer hefur Howard verið nokkuð heppinn með meiðsli gegnum tíðina.