Aston Villa – Everton 1-3

Mynd: Everton FC.

Frábær leikur hjá okkar mönnum í dag og algjör einstefna að marki Villa í fyrri hálfleik. Everton með boltann um 60% leiks og átti um 6 skot sem rataði á rammann bara í fyrri hálfleik og Villa hefðu endað með ekkert skot á markið í fyrri hálfleik ef þeir hefðu ekki náð einu af löngu færi í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Everton leit út fyrir að vera að fara að skora í næstum hverri sókn en bitlaust lið Aston Villa ógnaði lítið.

Uppstillingin svipuð og í síðasta leik gegn United, nema Hibbert vék fyrir Neville í hægri bakverði, Osman tók stöðu Neville á miðjunni og Naismith kom inn í byrjunarliðið á hægri kanti (í stöðu Osman). Uppstillingin því: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Neville. Miðjan: Gibson og Osman, Pienaar á vinstri kanti, Naismith á hægri. Jelavic frammi með Fellaini fyrir aftan sig.

Það tók Everton ekki nema 3 mínútur að skora fyrsta markið eftir laglegt samspil utan teigs. Naismith fær boltann upp við vítateig og gefur til vinstri á Pienaar sem tekur skotið yfir Given í marki Villa og skorar glæsimark. 0-1 fyrir Everton.

Jelavic átti tvö ágæt færi eftir þetta en tókst ekki að nýta sér þau.

Annað mark Everton leit dagsins ljós þegar Jagielka gaf sendingu fyrir djúpt inn af hægri kanti á 31. mínútu, beint á Fellaini sem skallar í Given sem tekst ekki að verja og boltinn inn. Given hefði líklega getað gert betur, en við grátum það ekki. 0-2 Everton. Annað mark Fellaini í tveimur leikjum. Maðurinn er einfaldlega óstöðvandi.

Þriðja markið kom svo rétt fyrir hálfleik eftir að Baines brunar upp að endalínu vinstra megin við markið en í staðinn fyrir að senda háan bolta fyrir markið sendir hann lágan bolta fyrir með stefnu aðeins frá marki þar sem Jelavic er mættur og í fyrstu snertingu skýtur í netið. Óverjandi fyrir Given. 0-3 Everton eftir 43 mínútur.

Þannig stóðu leikar í hálfleik en Everton menn voru ekki hættir. Gibson splundraði vörn Villa með frábærri sendingu á Jelavic sem komst einn inn fyrir vörn Villa en varnarmaður Villa, Ciaran Clark, rakst í hælana á honum þegar hann reyndi að fylgja honum, rétt utan vítateigs, og fékk rautt spjald fyrir vikið. Gibson tók aukaspyrnuna en boltinn fór rétt yfir markið.

Þar sem Villa voru manni færri var eins og Everton byrjaði að slaka á og Villa komst betur inn í leikinn. Stundum hafa rauð spjöld öfug áhrif. 🙂

Everton náði þó næstum fjögurra marka forystu þegar Distin átti skalla en Bent varði í neðanverða slána og út. Skall aldeilis hurð nærri hælum þar hjá Villa.

Þeir náðu þó að minnka muninn með marki frá El Ahmadi á 75. mínútu með skoti af töluvert löngu færi en boltinn breytti um stefnu á leiðinni sem gerði Howard mjög erfitt fyrir og hann náði aðeins að slá boltann sem endaði í netinu.

Villa menn voru næstum búnir að hleypa spennu í leikinn í flottu færi en skotið fór í stöngina og út og næsta skot varið af Baines í horn.

Mirallas kom inn á undir lokin og var næstum búinn að komast í dauðafæri eftir sendingu af hægri kanti en Villa maður bjargaði í horn. Mirallas náði svo að skora mark nokkru síðar með skalla eftir fyrirgjöf af hægri en dæmdur rangstæður sem endursýning staðfesti að var réttur dómur. Lífleg byrjun hjá honum samt. Það verður gaman að fylgjast með honum á tímabilinu.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Jagielka 7, Distin 7, Neville 7, Pienaar 9, Gibson 7, Osman 7, Naismith 6, Fellaini 8, Jelavic 8. Varamennirnir Heitinga, Mirallas og Coleman fengu allir 6.

Í öðrum fréttum er það helst að mikið hefur verið rætt um að Everton sé að tryggja sér M’Baye Niang frá Caen. Sjáum hvað setur.

10 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Frábær leikur

  2. Gunnþór skrifar:

    Lítur bærilega út strákar.

  3. Finnur skrifar:

    „Bærilega“, jú. Hefði ekki verið hægt að biðja um meira. 🙂

  4. Elvar Örn skrifar:

    Verst að þessir blessaðir Carling bikarleikir eru ekki sýndir því ég geri ráð fyrir að nýju mennirnir fái að spreyta sig þar (þ.e. gegn Leyton Orient í miðri viku). Verður gaman að sjá amk highlights frá þeim leik.
    Trúi nú ekki öðru en að við vinnum hann örugglega, svo er bara að taka næsta útileik gegn W.B.A.
    Tveggja vikna hlé tekur svo við, ekki verra að vera með fullt hús stiga þá.
    Gaman að sjá ykkur á Ölveri, sjáumst fljótlega aftur.

  5. Finnur skrifar:

    > Tveggja vikna hlé tekur svo við, ekki verra að vera með
    > fullt hús stiga þá.

    Segðu!

    > Gaman að sjá ykkur á Ölveri, sjáumst fljótlega aftur.

    Já, sömuleiðis!

  6. Finnur skrifar:

    Síðast voru tveir af okkar mönnum í liði vikunnar hjá goal.com! Þessa vikuna eru þeir þrír (Jagielka, Fellaini og Pienaar)! 🙂

    http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2012/08/27/3332422/premier-league-team-of-the-week-chelsea-trio-torres-hazard

  7. Finnur skrifar:

    Skemmtileg greining líka á leiknum að venju frá Executioner’s Bong:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2012/08/27/tactical-deconstruction-how-evertons-midfield-bossed-aston-villa/

  8. Orri skrifar:

    Þetta fer vel af stað hjá okkur mönnum.

  9. Haraldur Anton skrifar:

    Það eru svo mikið um þreifingar núna að ég refresa evertonfc mjög reglulega.

  10. Finnur skrifar:

    Smá svona til umhugsunar…

    Gibson hefur ekki tapað deildarleik með Everton síðan hann var keyptur frá Man United (og reyndar ekki í tvö ár, ef ég man rétt). Honum var skipt út af á 70. mínútu gegn Aston Villa og hvað gerðist? Villa menn komust aftur inn í leikinn og skoruðu mark aðeins fjórum mínútum síðar (og næstum annað stuttu síðar) og hleyptu smá spennu í leikinn.