Mynd: Everton FC.
Það er af ýmsu að taka í þetta skiptið en fyrst er rétt að geta þess að ferðin sem fyrirhuguð var á Goodison Park (til að horfa á Southampton leikinn) fellur því miður niður. Þegar við settumst niður með ferðaskrifstofunni kom í ljós að ekki var lengur hægt að fá flugmiða þessa helgina til Manchester þar sem þeir eru uppseldir. Það gerir þó ekki til, við reynum bara aftur síðar. En þá að öðrum fréttum.
Maður er enn í skýjunum eftir upphafsleikinn á tímabilinu, sigurleik á Manchester United á Goodison Park. Frábært að byrja tímabilið svona vel og afgreiða sterkan andstæðing með sigri. Það er enn ekki hægt að dæma um hvort byrjunin á tímabilinu sé góð eða slæm, þar sem þetta er bara einn leikur en við kannski lítum yfir farinn veg eftir 5-10 leik. Við fáum þó betri vísbendingar eftir Villa leikinn á laugardaginn.
Fyrir leikinn var allt hype-ið um United og Van Persie and það þagnaði all snögglega eftir leikinn og menn fóru í staðinn að mæra frammistöðu Jagielka og Fellaini. Ferguson grét sáran í fjölmiðlum yfir því að Everton skyldi alltaf vera að senda á Fellaini en það er bara gott merki því þegar Ferguson er pirraður út í leikmann andstæðingana þá er sá leikmaður að gera eitthvað mikið rétt. Hann má væla eins og hann vill. Þeir réðu ekkert við Fellaini í leiknum og engin ástæða til að nýta sér ekki veikleika andstæðingsins. Jelavic var annars heitur eftir leikinn og benti á að Everton hefði getað farið illa með United þetta kvöld, ef ekki hefði verið fyrir nokkrar frábærar markvörslur frá De Gea. Jelavic býst við miklu af Everton í framhaldinu. Við tökum einn leik í einu og höldum okkur á jörðinni.
Tim Howard náði þeim merka áfanga í leiknum að leika 184. leikinn í röð fyrir sama klúbbinn, sem er met í Úrvalsdeildinni. Glæsilegur árangur. Hann tekur það met af Pippi Reina, sem leikur fyrir rauðnefja röngu megin garðsins í Liverpool.
Kevin Mirallas var, eins og þeir sem fylgdust með leiknum vita, kynntur á Goodison fyrir leikinn (sjá einnig myndir og tvö viðtöl: hér og hér) og fékk hann mjög góðar móttökur frá áhorfendum. Þetta svipaði eiginlega pínulítið til þess þegar Man City kom í heimsókn síðasta janúar en þá var Jelavic kynntur til sögunnar og Everton vann þann leik frækilega 1-0. Í þetta skiptið var það Mirallas sem var kynntur og Everton vann hitt Manchester liðið 1-0. City stóðu sig þó betur, ef ég á að segja eins og er, á Goodison Park í sínum leik (en United gerði á mánudaginn síðasta) og voru mun hættulegri. Það verður þó mjög gaman að sjá hvernig Mirallas fittar inn í leikskipulagið en ég held við fáum að sjá hann, þó ekki verði nema hluta leiks, á laugardaginn gegn Villa. Fyrrum samherji hans, markvörðurinn Roy Carroll, þekkir Úrvalsdeildina vel og segir að Mirallas eigi eftir að slá í gegn í Úrvalsdeildinni.
Þær leiðu fréttir bárust að Kevin Sheedy, sem fer fyrir Everton akademíunni, hafi greinst með ristilkrabbamein. Hann mun taka sér hlé frá störfum um stund og taka svo við aftur þegar hann hefur náð að jafna sig. Óskum við þessum merka Everton manni skjóts bata og vonumst til að sjá hann sem fyrst aftur. Klúbburinn setti upp póstfangið Sheeds@everton.isfc.com sem hægt er að senda heillaóskir á en eintak af kveðjunum sem berast á þetta póstfang verður komið til skila til hans.
Miðjumaðurinn og ungstirnið John Lundstram var kallaður til liðs við U19 ára lið Englands sem mætir Þýskalandi U19 í undankeppni Evrópumeistaramótsins. Leikið verður 6. september.
Í öðrum fréttum er það helst að Tony Hibbert ætlar greinilega að gera tilkall til treyju númer 10 á næsta tímabili, eftir að hafa fundið markaskóna sína. Einnig skrifaði Everton undir samning við Dafabet um að þeir síðarnefndu verði opinber samstarfsaðili Everton í veðmálum á alþjóðlegum markaði. Þessi samningur kemur í kjölfar svipaðs samnings fyrir breska markaðinn við Paddy Power. Líkt og þá voru upphæðir samningsins ekki gerðar opinberar.
Hrikalega flottur 3 búningurinn. Hvað var sirinn að meina með að dómarinn hafi verið slakur
Já, heyrðu – takk fyrir að minna mig á það. Ég gleymdi nefnilega að minnast á að búið er að kynna til sögunnar þriðju treyju Everton á tímabilinu, en sjá má myndir af Mirallas í treyjunni hér að ofan. Mér líst mjög vel á hönnunina en við komum til með að sjá Everton spila í þessum búningum á móti Aston Villa á laugardaginn.
http://www.evertonfc.com/news/archive/2012/08/23/new-third-kit-launched
Hægt er að forpanta treyjuna af vefverslun Everton í dag (http://bit.ly/PHXny2) en hún verður komin í almenna sölu þann 20. september.
Hef ekki heyrt neitt tal um dómarann í síðasta leik. Er gamli kallinn (SAF) ekki bara farinn að sjá illa?
Það er komið nýtt Everton app í iphone og android síma, virðist mjög flott við fyrstu sýn. Appið er frítt og official.
Já, mikið rétt.
Sjá http://evertonfc.com/appstore
Lítur vel út. Var að setja upp á Androidinum mínum.
Eru menn að fara að hittast á Ölveri um helgina? Hve margir mæta vejunlega? Gæti verið að ég verði á svæðinu á laugardaginn, skýrist í dag.
Verður góð mæting á laugardag enda góður leikur.
Já, klárlega Ölver á laugardaginn. Það var fantagóð mæting á mánudaginn síðasta, með allra besta móti eiginlega. Góð stemming líka, enda fólk spennt fyrir nýju tímabili og nýjum leikmönnum. Endilega láttu sjá þig, of langt síðan við hittum þig síðast.
Það er staðfest að ég fer suður en það lítur út fyrir að ég verði á Selfossi kl.16 (er liðsstjóri með Þórs stelpum), hélt ég yrði í höfuðborginni á meðan Everton leikurinn stæði yfir. Ég læt vita ef ég kemst, sjáumst vonandi.
Að öðru þá rakst ég á áhugaverða grein sem fer yfir tölfræði Darron Gibson og einnig samanburður á honum og Jack Rodwell. Framlag Gibson gleymist stundum og er það mjög áhugavert að við höfum ekki tapað þegar hann er í liðinu.
http://www.eplindex.com/18008/everton-importance-darron-gibson-opta-stats-analysis.html?utm_source=rss&utm_medium=rss&utm_campaign=everton-importance-darron-gibson-opta-stats-analysis
Leitt að þú sjáir ekki fram á að mæta. En það eru fleiri leikir á tímabilinu, þú verður bara að vera duglegur að kíkja suður. 🙂
En þetta er flott grein! Gibson er klárlega vanmetinn leikmaður og þetta voru frábær kaup hjá Moyes (500þ pund!), eins og venjulega. Og eitt það besta við Gibson er líka að Fellaini blómstrar þegar Gibson er í liðinu.
Hvað er þetta með þessa APP forritara og beiðni um réttindi?
TAKE PICTURES AND VIDEOS
Allows the app to take pictures and videos with the camera. This allows the app at any time to collect images the camera is seeing.
RECORD AUDIO
Allows the app to access the audio record path.
Sýnist sem eitt af því sem forritið býður upp á sé að deila myndum með öðrum. Það er náttúrulega ekki hægt nema að notandinn gefi leyfi fyrir að appið sæki myndir af myndavélinni. Ætli það sé ekki sama með hljóðið, án þess að ég viti það… (yppi öxlum)