Við mætum Norwich á útivelli á morgun (lau) kl. 14:00. Við gerðum jafntefli við þá í fyrri leiknum á heimavelli, 1-1, í leik þar sem Norwich áttu markverði sínum, John Ruddy (sem eitt sinn var á mála hjá Everton), að þakka að hafa ekki tapað mjög stórt því við áttum 15 skot á markið (meira að segja eitt frá Hibbert) og dómineruðum leikinn algjörlega á öllum sviðum. Holt skoraði markið þeirra úr eina færinu sem hitti á rammann hjá okkur en hann átti síðar að fá rautt fyrir að slá Fellaini en slapp við það.
Tölfræðin gegn Norwich er okkur hliðholl en við höfum ekki tapað fyrir þeim síðan tímabilið 93/94, og höfum síðan þá unnið þá fimm sinnum og gert 2 jafntefli með samanlagðri markatölu 15-5 Everton í vil. Þó ber að geta þess að Everton hefur ekki spilað við þá á þeirra heimavelli síðan í október 2004.
Norwich eru í þriðja neðsta sæti formtöflunnar, einu sæti ofar en Liverpool, en Norwich hafa aðeins farið með sigur af hólmi í einum af síðustu 6 leikjum. Við erum í 5 efsta sæti formtöflunnar eftir þrjá sigra, 1 jafntefli og tvö töp. Helminginn af síðustu tíu leikjum hefur Everton unnið 2-0, þar með talið síðustu þrjá leikina í röð. Everton hefur ekki fengið á sig mark síðan í 1-0 tapinu gegn Arsenal og á heildina litið hafa aðeins Manchester-liðin tvö fengið á sig færri mörk en Everton í deildinni það sem af er. Í mörkum skoruðum er Everton einnig í þriðja sæti, þriðja neðsta þ.e.a.s., en mikil batamerki hafa verið þar á í undanförnum leikjum með tilkomu Jelavic.
Hjá Norwich er óvíst með Anthony Pilkington sem hefur verið að glíma við meiðsli í lærvöðva en James Vaughan (fyrrum sóknarmaður okkar), Daniel Ayala, Marc Tierney og Declan Rudd verða allir frá. Hjá okkur eru nær allir heilir en Coleman og Rodwell eru við það að detta inn í hópinn og ekki ólíklegt að þeir fái að spreyta sig eitthvað í næstu tveimur leikjum, þó ekki nema 15-30 mín af varamannabekknum. Drenthe er að sögn kominn aftur úr „samúðarleyfinu“ í Hollandi.
Uppstillingin mun líklega bera keim af því að Moyes þarf að passa upp á að menn séu ferskir í bikarleikinn við Liverpool en Everton leikur annan leik í millitíðinni eftir leikinn við Norwich (á mánudaginn við Sunderland heima). Pienaar getur ekki spilað bikarleikinn þannig að hann verður líklega í næstu tveimur leikjum á vinstri kanti. Distin spilar líklega þennan leik þar sem Norwich skorar flest mörk allra liða með sköllum. Stracqualursi og Jelavic skipta líklega með sér þessum tveimur deildarleikjum, Jelavic fær líklega þennan og Stracqualursi næsta, myndi ég giska á. Osman var tekinn út af í hálfleik í síðasta leik en líklega bara sem varúðarráðstöfun og hann ætti því að vera orðinn góður.
Líkleg uppstilling 4-4-1-1: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Hibbert. Miðjan: Gibson og Fellaini. Pienaar á vinstri, Osman á hægri (nema hann sé ekki leikfær, þá Drenthe/Gueye). Cahill fyrir aftan Jelavic frammi.
Í öðrum fréttum er það helst að Everton U19 eru komnir í undanúrslit í Dallas Cup og mæta Man United U19. Í hinum leiknum spila Eintracht Frankfurt og Coritiba FC (en Everton er þegar búið að vinna Cortiba 1-0 fyrr í keppninni).
Comments are closed.