Þá er komið að fjórðu umferð FA bikarsins en við mætum Fulham á heimavelli í kvöld klukkan 20:00. Við unnum þá á útivelli, fyrr á tímabilinu 1-3 með mörkum frá Drenthe, Saha og Rodwell. Þetta var eiginlega harla óvenjulegur sigur þegar sagan er skoðuð því fyrir utan einn annan útisigur Everton á Fulham (og eitt 0-0 jafntefli í fyrra á Craven Cottage) þá þarf að fara aftur til tímabilsins 1974/75 (samtals 22 leiki) til að finna leik þar sem heimaliðið _vann_ ekki. Vonandi heldur það áfram í kvöld, en við bindum helstu vonir okkar á tímabilinu við gott gengi í FA bikarnum. Við erum taplausir á móti Fulham í síðustu fjórum leikjum (3 sigrar, 1 jafntefli) en Fulham hefur þó aldrei frá upphafi lotið í lægra haldi fyrir Everton í FA bikarkeppninni. Liðin hafa dregist saman í FA bikarnum á fjórum tímabilum síðan 1925 og þrisvar þurft að endurtaka leikinn. Við töpuðum síðast fyrir Fulham á heimavelli tímabilið 1974/75, en það var einmitt síðast þegar þessi lið áttust við í FA bikarnum.
Fulham koma þó örugglega til leiks fullir sjálfstrausts eftir 5-2 sigur á Newcastle í síðustu viku þar sem Clint Dempsey var í fantaformi og skoraði 3 mörk. Gera má ráð fyrir að mikill áhugi verði fyrir þessum leik í Bandaríkjunum, enda þrír sterkir landsliðsmenn þeirra að spila leikinn (Dempsey, Donovan og Howard — og reyndar Hahnemann mögulega á bekknum líka) en Dempsey og Donovan hafa þótt einna mest spennandi af bandarísku leikmönnunum undanfarið.
Meiðslalistinn er svipaður og hann hefur verið þó Hibbert sé líklega orðinn góður en hann var á bekknum í síðasta leik gegn Blackburn. Einnig spilaði Barkley með U18 ára liði Everton á dögunum. Bily var aftur á móti seldur á dögunum til Spartak (eins og fram hefur komið), þó enn vanti lokastaðfestingu á að salan sé gengin í gegn. Eftir sem áður eru Coleman, Osman, Jagielka, Distin og Rodwell líklega enn meiddir. Hjá Fulham eru Dembele, Orlando Sa, Mark Schwarzer og Grygera frá vegna meiðsla.
Þar sem tæplega hálft byrjunarliðið er enn á sjúkralistanum og þegar litið er til þess að Saha og Drenthe gekk mjög vel gegn Fulham síðast er líklegt að byrjunarliðið verði svipað og gegn Blackburn, nema að Drenthe fær líklega tækifæri í byrjunarliðinu á kostnað Anichebe. Þar með myndi liðið líta svona út: Howard, Hibbert, Duffy, Heitinga, Baines. Miðjan: Fellaini og Gibson, Drenthe á vinstri kanti, Donovan á hægri og Cahill fyrir aftan Saha frammi. Moyes var reyndar að velta fyrir sér hvort hann ætti að setja Hibbert í miðvörðinn í stað Duffy, þar sem Duffy er alveg reynslulaus en aðeins tíminn mun leiða það í ljós hvort það verði raunin og hvort það reynist rétt ákvörðun. Ég vona að Duffy fái að spreyta sig og hann standi sig með sóma.
Í heild sinni lítur 4. umferðin í bikarnum svona út (deild liðs innan sviga):
Föstudag:
Everton (1) vs Fulham (1)
Watford (2) vs Tottenham (1)
Laugardag:
QPR (1) vs Chelsea (1)
Liverpool (1) vs Man Utd (1)
Blackpool (2) vs Sheffield Wed (3)
Bolton (1) vs Swansea (1)
Derby (2) vs Stoke (1)
Hull (2) vs Crawley Town (4)
Leicester (2) vs Swindon (4)
Millwall (2) vs Southampton (2)
Sheffield Utd (3) vs Birmingham (2)
Stevenage (3) vs Notts County (3)
West Brom (1) vs Norwich (1)
Brighton (2) vs Newcastle (1)
Sunnudag:
Sunderland (1) vs Middlesbrough (2)
Arsenal (1) vs Aston Villa (1)
Comments are closed.