Everton – Norwich 1-1

Nokkuð hefðbundin uppstilling að mestu. Osman var sá eini af þrenningunni (Osman, Rodwell, Drenthe) sem náði í byrjunarliðið eftir meiðsli, en annars var Howard í markinu, Hibbo, Heitinga, Jags og Baines í vörninni (Distin á bekknum), Osman og Gueye á köntunum, Neville og Fellaini á miðjunni, Cahill fyrir aftan Saha frammi. Rodwell var ekki orðinn nógu góður til að spila og Gueye var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti, kom inn á fyrir Coleman sem missti af leiknum sökum tognunar á læri.

Tölfræðin segir eiginlega allt sem segja þarf um þennan leik. Það vantaði ekki margar prósentur í að við værum með boltann 2/3 hluta leiks. Auk þess lágum við í sókn, dældum boltanum fyrir markið, áttum 15 skot á markið (þeir áttu aðeins 1) og fengum 13 hornspyrnur (þeir fengu enga). En þeir gátu þakkað markverði sínum, John Ruddy — fyrrum Everton leikmanni, að ná einu stigi úr leiknum, en hann átti stórleik í markinu (og sýndi hvað Moyes sá í honum þegar hann keypti hann 19 ára gamlan frá Cambridge fyrir mörgum árum síðan en seldi svo til Norwich þar sem honum tókst ekki að taka markvarðarstöðuna af Howard).

Leikurinn þróaðist eins og eiginlega við var að búast fyrir fram, Neville og Fellaini eignuðu sér miðjuna og við höfðum tögl og haldir í leiknum og áttum öll færin í leiknum framan af. Náðum ekki að nýta okkur yfirburðina og svo skoraði Norwich þvert gegn gangi leiksins með fyrsta og eina (!) skotinu þeirra sem hitti á markið þegar Holt fékk boltann rétt fyrir framan markið, með markið og Heitinga bak við sig, lítur út eins og hann sé að fara að missa boltann frá sér en allt í einu snýr hann sér milli Heitinga og Hibbo og smellhittir boltann stöngina inn af stuttu færi.

Holt var svo stuttu síðar stálheppinn að vera ekki rekinn út af þegar hann bókstaflega kýldi Fellaini í andlitið en dómarinn ákvað að sýna ekkert spjald, einhverra hluta vegna. Algjörlega óskiljanlegt. Líklega var okkur refsað fyrir að Fellaini skyldi ekki beita Suarez látbrögðum og láta sig detta — sorglegt ef það er það sem þarf til að dómarinn refsi fyrir svona brot.

Færin voru mýmörg, Fellaini fyrst einn á móti markverði (vel varið), Osman átti skot utan af teig (varnarmaður skallar burt af línunni) og svo átti Gueye skot rétt utan við rammann. En svo gerðist það… Holt fær boltann vinstra megin úr teignum, einn frammi og enginn annar Norwich leikmaður nálægt (en 7 leikmenn Everton) en hann nær að skora eins og áður sagði. Staðan 0-1.

Færin héldu áfram að koma á færibandi, Cahill átti færi, Saha átti skot rétt framhjá vinstra megin. Osman átti fast skot vinstra megin úr teig en Ruddy varði í horn (það var reyndar brotið á Saha rétt utan teigs áður en Osman skaut, hefði viljað sjá Baines taka þá aukaspyrnu). Hver tilraun sem fór forgörðum jók pressuna á okkur og við þurftum að taka meiri sénsa, sem næstum kom okkur í koll þegar Holt komst í ágætt skallafæri en skallaði framhjá. Straqualursi kom svo inn á fyrir Cahill og náði strax að framlengja sendingu með skalla sem skapaði færi fyrir Saha sem brunaði inn í teig hægra megin og náði góðu skoti (sem Ruddy varði). Gueye, sem hafði verið líflegur framan af, var skipt út af fyrir Drenthe sem tíu mínútum síðar hljóp af sér varnarmenn Norwich og náði skoti á markið sem Osman náði að breyta um stefnu og inn í markið. Jöfnunarmarkið loksins komið, á 81. mínútu.

Við fengum svo tækifæri til að vinna leikinn þegar Drenthe losaði sig aftur við varnarmanninn og skaut föstu skoti nokkuð fyrir utan teig, boltinn breytti um stefnu í loftinu á leið í markið og Ruddy átti í mestu vandræðum með að verja boltann sem fór upp og til hliðar. Á leið niður aftur var boltinn næstum því farinn inn í markið en endaði rétt utan við slánna. Meira að segja Tony Hibbert átti skot að marki, sem Ruddy varði. Kannski eins gott að hann skoraði ekki, því það hefði þurft að endurbyggja Goodison Park frá grunni eftir fangaðarlætin sem hefðu brotist út ef Hibbo hefði skorað sitt fyrsta mark. Undir lok leiks kom McAleny inn á fyrir Saha en full seint til að ná að setja mark sitt á leikinn. Lokaniðurstaða: 1-1 jafntefli en Norwich hlýtur að líta á þetta eina stig líkt og þeir hefðu unnið öll þrjú.

Gaman að sjá Gueye og Straqualursi fá séns og standa sig vel, mikið gleðiefni að fá Drenthe aftur og gott að ungliðar á borð við McAleny eru að standa sig nógu vel á æfingu til að fá séns annan leikinn í röð.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Heitinga 6, Jagielka 6, Hibbert 6, Osman 8, Fellaini 6, Neville 6, Gueye 6, Cahill 6, Saha 6. Varamenn: Drenthe 7, Straqualursi 7, McAleny 6. Norwich fengu sexur og sjöur (einn varnarmaður með 8).

Comments are closed.