Chelsea – Everton 3-1

Við byrjuðum leikinn ágætlega, sköpuðum okkur tvö færi á fyrsta hálftímanum — skalli frá Cahill (að mig minnir) og skot frá Saha sem Cech varði. Chelsea virkuðu seinir og klaufalegir til að byrja með og voru að gera töluvert af mistökum og náðu á þessum tíma ekki einu sinni skoti á rammann. Það fór þó svo að þegar þeir hittu loks á markið, þá náðu þeir að skora. Mata sendi flotta stungusendingu til Cole (sem var illa valdaður af Coleman) og náði frábærri fyrirgjöf fyrir markið sem Sturridge átti ekki í erfiðleikum með að skalla inn. Sorlegt þar sem það leit út fyrir að við værum líklegri til að setja eitt inn þó Chelsea væri meira með boltann.

Coleman átti einnig þátt í seinna markinu þegar hann brýtur á Cole vinstra megin við teiginn rétt undir blálokin á fyrri hálfleiknum. Lampard tekur aukaspyrnuna fyrir markið og eini maðurinn sem stekkur upp til að skalla boltann (!) er John Terry, með bæði Jagielka og Fellaini sér við hlið. Spurning líka hvort Howard hefði átt að koma út fyrr og slá til boltans. Grátlegt að fá á sig mark úr aukaspyrnu á síðustu sekúndum hálfleiksins því 1-0 hefði verið í lagi í hálfleik (ekki í fyrsta skipti sem við höfum unnið slíkt upp). 2-0 er hins vegar heldur mikið að vinna upp gegn Chelsea á útivelli. Þessi tvö mörk verða að teljast afar rausnarleg af Everton vörninni þar sem boltinn hafði aðeins ratað á Everton markið hjá Chelsea í þessi tvö skipti enda höfðum við varist ágætlega að öðru leyti.

Við byrjuðum seinni hálfleikinn af krafti með skoti í utanverða stöngina frá Osman á fyrstu mínútunni (Það hefði verið gaman að sjá leikinn þróast ef hann hefði skorað á þeim tímapunkti) og svo 10 mínútum síðar átti Osman annað skot að marki. Þulurinn tók það jafnframt fram að það bæri merki um vilja til að skora "þegar vinstri bakvörður Everton væri dæmdur rangstæður", þegar Baines var aðeins of ákafur. 🙂

Það fór þó svo að Ramirez gerði út um leikinn með marki eftir frábæra fyrirgjöf frá Mata. Staðan 3-0, sem er kannski aðeins meira en Chelsea átti skilið. Vellios var svo skipti inn á 82. mínútu og aðeins nokkrum sekúndum síðar fékk hann fyrirgjöf frá Drenthe og náði að setja boltann í netið. Það kom þó of seint.

Chelsea eru annars vel að þessum sigri komnir. Þeir eru með betra lið en í fyrra og eiga eftir að veita Manchester liðunum harða keppni um titilinn með þessu áframhaldi. Ég fékk jafnframt ósk mína uppfyllta varðandi það að dómarinn myndi ekki eyðileggja þriðja leikinn fyrir okkur í röð, en mér fannst dómarinn standa sig vel og hallaði á hvorugt lið. Það var sérlega ánægjulegt að sjá hann dæma gult á Sturridge fyrir það sem endursýning sýndi að var greinilegur leikaraskapur. Hefði viljað þennan dómara í Liverpool leiknum.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 6, Distin 6, Coleman 5, Jagielka 7, Hibbert 6, Osman 6, Rodwell 6, Fellaini 6, Cahill 6, Saha 6. Varamenn: Drenthe 7, Neville 5, Vellios 7. Chelsea fékk mikið til sexur og sjöur, nema Drogba 5, Lampard 8 og Mata 9.

Hægt er að sjá mörkin hér.

 

Comments are closed.