Það var allt annað að sjá til okkar núna en á móti Blackburn fyrir tveimur vikum þó svo afraksturinn sýni það ekki. Við áttum þá varla skilið eitt stig miðað við spilamennskuna (en tókum öll þrjú) en þessa vikuna áttum við öll þrjú stigin skilið (en uppskárum aðeins eitt). Við áttum þó nokkur stórhættulegi færi þar sem boltinn hefði hæglega getað endað í netinu, áttum að fá þrjár vítaspyrnur en fengum bara eina og einfaldlega yfirspiluðum Aston Villa liðið.
Við hefðum getað fengið vítaspyrnu á fyrstu mínútu leiksins þegar brotið var á Cahill innan teigs en fyrsta markið kom þegar Leon Osman skoraði á 19. mínútu, eftir flotta sendingu frá Cahill gegnum teiginn og þar við sat í fyrri hálfleik. Við hefðum þó í raun átt að setja inn fleiri mörk í hálfleiknum og þannig gera út um leikinn, því ekki skorti færin. Við áttum að fá vítaspyrnu númer tvö snemma í seinni hálfleik (brotið á Baines) en fengum ekki og Petrov jafnaði svo með þrumuskoti langt fyrir utan vítateig, á 63. mínútu. Allt er þegar þrennt er, allavega þegar kemur að vítaspyrnum, en aðeins nokkrum mínútum eftir markið fengum við loksins víti sem Baines átti ekki í neinum vandræðum með að skora úr en það var svolítið týpískt að það þurfti 2 brot innan teigs í sömu sókninni til að fá vítaspyrnuna. Aston Villa náði svo að svara á 83. mínútu með flottu skallamarki eftir fína fyrirgjöf en þeir mega eiga það að bæði mörkin þeirra voru flott. Við hefðum hins vegar átt að vera löngu búnir að klára leikinn en íþróttafréttamaður BBC orðaði þetta annars ágætlega í viðtali við Moyes: "Þið fenguð næg færi til að vinna einn, líklega tvo leiki" en það er einmitt það sem hefur skort svolítið hingað til.
Það voru margir ljósir punktar við þennan leik, fyrir utan það að spilamennskan væri góð og yfirburðirnir þó nokkrir (við með boltann næstum 60% leiksins og áttum 17 skot að marki gegn 7 hjá Aston Villa — þar af aðeins 3 sem rötuðu á markið sjálft). Til dæmis var Leighton Baines leikfær, eftir að hafa misst af landsleik Englands sökum meiðsla. Einnig var frábært að sjá að Coleman er orðinn leikfær aftur (eftir ljóta tæklingu leikmanns Valencia á undirbúningstímabilinu) og skapaði hann usla í leiknum. Fellaini var traustur á miðjunni, Bily var líflegur, Cahill átti góða stoðsendingu sem gaf mark hjá Osman. Distin var eins og klettur í vörninni og það var unun að fylgjast með Baines eins og nánast alltaf. Vellios var líflegur undir lokin þegar hann kom inn á og átti tvö færi og Drenthe fékk nokkrar mínútur til að sýna hvað hann getur verið hrikalega snöggur. Rodwell fannst mér helst leika undir getu, en hann þarf að gera meira til að sýna að þetta sé hans tímabil, eins og hann hefur haldið fram, og að hann sé verður arftaki Arteta.
Fínn leikur annars. Hægt er að sjá mörkin í leiknum hér (ef þið eruð snögg, verður örugglega tekið niður von bráðar)
Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Jagielka 7, Hibbert 6, Coleman 7, Distin 7, Baines 7, Bily 7, Fellaini 7, Cahill 7, Rodwell 7, Osman 8. Varamenn: Barkley: 5, Drenthe 6, Vellios 6. Nokkrar sexur og sjöur hjá Aston Villa, en enginn sem stóð upp úr.
Comments are closed.