Mynd: Everton FC.
Magnaður leikur í dag, hörkuspennandi frá upphafi til enda og baráttan í báðum liðum algjörlega frábær. Afar kærkomið að sjá að Everton liðið er loksins komið úr jólafríinu og farið að glitta í frammistöðuna á síðasta tímabili. Gott ef þetta var ekki bara ein besta, ef ekki besta frammistaðan á tímabilinu í deild hingað til.
Uppstillingin fyrir Man City leikinn: Joel, Baines, Jagielka, Stones, Coleman, Besic, Barry, McGeady, Naismith, Barkley, Lukaku. Varmenn: Griffiths, Eto’o, Oviedo, Kone, Mirallas, Garbutt, Alcaraz. Aguero (og Kompany) á bekknum, en búist var við að Augero, sóknarmaðurinn skæði, gæti verið orðinn góður af sínum meiðslum. Toure í Afríkubikarnum, eins og fram hefur komið.
Lítið skildi liðin að til að byrja með, City menn ívið meira með boltann (sú tölfræði hélst út allan leikinn) og virkuðu hættulegri en alltaf þegar þeir komust í hálffæri eða alvöru færu lúðruðu þeir boltanum annað hvort hátt upp í stúku eða nokkuð vel framhjá. Athygli vakti að samkvæmt tölfræði í útsendingu áttu þeir ekkert skot sem rataði á markið í fyrri hálfleik.
Gott dæmi um þetta var þegar Jovetic komst í skotfæri á 10. mínútu en skotið hátt yfir, sem sendi svolítið tóninn fyrir restina af færum City. Navas fékk svo dauðafæri óvænt eftir að Jagielka fékk boltann í síðuna og missti hann til Silva en skotið hjá Navas lélegt. Framhjá vinstra megin að mig minnir.
Það kom í hlut Everton að fá besta færi hálfleiksins rétt áður en flautað var til hlés og það var algjört dauðafæri. Lukaku komst einn inn fyrir vörnina hægra megin, einn á móti markverði og skaut en Hart reddaði City með ótrúlegum hætti. Boltinn barst hins vegar út úr teignum og á Everton-mann sem framlengdi á Baines Coleman, sem tók skref til hliðar með boltann og hlóð í skotið en því miður í þverslá og út. City menn algjörlega stálheppnir, tvisvar í sömu sókninni.
0-0 í hálfleik og þó City hefðu verið sterkari og meira með boltann þá var Everton með eitt skot á mark úr dauðafæri á móti engu frá City — og hefðu með réttu átt að vera marki yfir. Engin breyting á uppstillingu liðanna í hálfleik.
City menn í salnum urðu pirraðari yfir framganginum eftir því sem leið á og kvörtuðu sáran yfir því að leikmenn Everton væru „dýrvitlausir“ í baráttunni um alla bolta (og meintu það jákvætt). Gott að heyra.
Everton fékk annað dauðafæri þegar Lukaku fór illa með Mangala í skyndisókn, fór auðveldlega framhjá honum og skaut vinstra megin í teig. Boltinn á leið í innanvert hliðarnetið en aftur varði Hart algjörlega meistaralega (í þetta skiptið í horn). Þar hefðu City menn geta verið komir 2-0 undir og hefðu ekki getað kvartað yfir því þó þeir höfðu verið sterkari aðilinn í leiknum fram að því.
Stuttu síðar vildi Jagielka (að mér sýndist) fá víti, Mangala slengdi hönd ofan á haus á Jagielka til að hafa betur í samkeppni um skallabolta og Jagielka féll við. Kannski hart, veit ekki. Ég hef séð mörg vafasamari atvik falla á móti okkur í okkar teig, til dæmis vítið í fyrri leiknum á tímabilinu gegn City.
Eftir um klukkutíma leik höfðu City menn enn ekki náð skoti sem rataði á mark úr 13 tilraunum, Everton með 5 tilraunir (tvær á markið). Ekki alveg það sem maður hefði átt von á fyrir leik.
Aguero inn á 65. mínútu fyrir Jovetic, sem hafði verið heldur slakur í framlínunni.
Það brutust út gríðarleg fagnaðarlæti þegar Everton kom boltanum í netið á 69. mínútu en endursýning sýndi að Naismith braut á Hart í aðdragandanum (og var líklega þar að auki rangstæður). Þetta hristi upp í City mönnum sem höfðu loks erindi sem erfiði og náðu að koma boltanum á markið. Og þeir skoruðu (að sjálfsögðu) úr þessari fyrstu tilraun. Skot frá Silva blokkerað inni í teig (City menn sögðu að boltinn hefði ekki verið á leið í mark) en boltinn barst til Fernandinho sem átti hálf slakan skalla sem Coleman náði ekki að hreinsa burt af línu. 0-1 fyrir City á 74. mínútu.
Mirallas kom inn á fyrir McGeady á 76. mínútu en hann hafði varla tækifæri til að koma inn á því Everton náðu strax að jafna. Baines átti aukaspyrnu af vinstri kanti og Naismith stökk hæst og skallaði í netið. Einfalt og áhrifaríkt. Það má segja ýmislegt um Naismith en hann hefur tilhneigingu til að skora í stóru leikjunum þegar mikið liggur við. Mirallas, aftur á móti, náði ekki að setja mark sitt á leikinn þetta korterið sem hann fékk (eitt færi en skotið slakt) — og er líklega ekki enn 100% heill.
Lampard inn á á 82. mínútu.
Nasri átti skot á mark á 88. mínútu — þeirra annað sem rataði á markið en auðveldlega varið hjá Robles.
Nasri út af á 92. mínútu fyrir Kolorov en það hafði engin áhrif á endanlega niðurstöðu. 1-1 jafntefli staðreynd.
Það eru greinileg batamerki á leik liðsins og þetta jafntefli gegn firnasterku liði City ætti að veita leikmönnum Everton aukið sjálfstraust sem hefur sárlega vantað undanfarið.
Einkunnir Sky Sports: Joel 7, Coleman 7, Jagielka 6, Stones 8, Baines 7, Besic 6, Barry 6, McGeady 6, Naismith 8, Barkley 7, Lukaku 7. Varamenn: Mirallas 6. Já City var Silva hæstur með 8 en annars voru einkunnirnar svipaðar – bara örlítið lakari en einkunnir Everton.
Í lokin er svo rétt að nefna nokkrar fréttir af ungliðunum: Enski U20 landsliðsmaðurinn John Lundstram, ungliðinn okkar sem var kallaður úr láni frá Blackpool, var lánaður aftur til Leyton Orient. Hann var þar að láni 2013/14 og hjálpaði þeim að komast í Playoff final sem þeir töpuðu á vítaspyrnukeppni. Af öðrum ungliðum er það að frétta að lán markvarðarðarins Connor Hunt hjá Hyde var afturkallað og U18 ára liðið vann Sunderland U18 1-0 með marki frá Michael Donohue.
Þvílík frammistaða strákar. Sá hinn sami og setur út á leik Everton í dag má búist við drullu kökum mér. Vörnin stóð sig frábærlega og þeir áttu sárafá skot að marki. Everton óheppnir að skora ekki þar sem Lukaku átti amk tvö frábær skot á mark, svo áttum við skot í þverslá og claim á viti. Já og mark dæmt af þar sem Naismith er líklega ransgstæður. Klárlega heppnir mark hjá City en jöfnunarmarkið magnað. Þvílík barátta og vöxtur frá baráttu í seinasta leik.
Sammála 😉
Sammála 🙂 Nú er tímabilið að hefjast !!!!! Jibbýýýý´!!!!!!
Frábær leikur hjá Everton. Ein slæm mistök í vörninni hjá Jagielka í öllum leiknum annars vörnin frábær. LUKAKU var stórkostlegur í þessum leik sennilega besti leikur hans í vetur. Áttum sennilega að fá viti allavega er þetta 50% viti. Loksins fóru bakverðirnir að sækja af alvöru loksins vaknaðir eftir langan svefn í vetur. Lukaku besti leikmaður vallarins annars voru hinir leikmennirnir frekar jafnir enginn lélegur ca 7 í einkunn nema LUKAKU 9.
Já og Besic mjög sterkur og spilar svona everton style finnst mér. Naismith er algjör vinnuhestur og flott mark hjá honum, já og sendingin frá Baines ekki síðri. Barry líka miklu betri en fyrstu leiki eftir meiðslin og mjög sáttur við Robles væri samt gott fyrir hann að ná að halda hreinu í einum leik,en hann gat ekkert gert við markinu í dag
Tökum West Ham á þriðjudaginn og þá fer Everton á skrið.
Í fyrri leiknum gegn City horfi ég á leikinn á Ölveri og mér fannst þeirra fylgjendur vera með þeim skemmtilegri sem ég hef séð á ölveri,kannski bara því ég var á leiðinni á Slash tónleikana hehe.
Ég verð líklega í Reykjavík á þriðjudaginn og þá mæti ég klárlega á Ölver,hlakka til ef af verður.
Nei, það var ekki einstakt tilfelli, Elvar.
Ég held það sé almenn skoðun okkar Everton manna á Ölveri að City mennirnir séu skemmtilegustu stuðningsmenn (mótherja) sem mæta á Ölver. Það var bara einn leiðinlegur í dag — og hann þurfti endilega að sitja við borðið okkar, orðinn vel kenndur þegar ég mætti og var stóryrtur fyrir leik — sagði að nú mættum við búast við því að það yrði valtað yfir okkur og alltaf að gaspra um þennan „alvöru fótbolta“ sem liðið sitt væri að spila. Svei mér þá ef hann hefur ekki líka fengið lánuð Liverpool gleraugu hjá vini sínum því hann krafðist gulra spjalda á hvert brot Everton en þrætti svo á móti fyrir hvert brot City — fyrir *nákvæmlega* sömu sakir. Það sljákkaði svolítið í honum eftir því sem á leið leik þegar ekkert skot rataði á mark frá þeim. Mig dauðlangaði allan leikinn til að sjá Everton komast yfir, bara þó ekki væri nema bara til að stinga metafórískum sokk upp í hann. 🙂
En ég lít á hann sem undantekninguna sem sannar regluna. Þessir venjulegu (og síkátu) City menn mættu vel og voru í góðum gír. Alltaf gaman að spjalla við þá. Salurinn fullur og góð stemming.
Það er að birta yfir leik liðsins. Allt annar bragur bæði á sókn og vörn og mikil batramarki á liðinu.
Lukaku er farinn að líta betur og betur út og átti sklið að skora mark í dag og var óheppinn að ná því ekki. Það hefði verið rán á hábjörtum degi hefði City unnið þennan leik á þessu skítamarki en frábær aukaspyrna frá Baines og flott klárun frá Naismith sáu til þess að það varð ekki stórslys.
Barry kallinn loksins að koma til í síðustu tveim leikjum eftir skelfilega frammistöðu leik eftir leik. Besic er að komast betur og betur inn í liðið og er mér farið að dauðlanga að sjá hann og McCarthy saman á miðjunni, það er örugglega ekkert gaman að kljást við þá tvo saman á miðjunni. Coleman er farinn að spila á sínum standard eins og svo margir. Það var meira trú á liðinu í dag og meira sjálfsöryggi.
Núna er ekkert annað í stöðunni en að slá út West Ham á þriðjudag og fara raða inn sigurleikjum í deildinni.
Þetta var flottur leikur hjá Everton liðinnu og þá tölum við um það þannig.Ég skil nefnilega ekki suma hér á þessari síðu að þegar liðið spilar illa og menn leggja sig ekki fram þá má ekki tala um liðið þannig að það hafi spilað illa þann leikinn.En í dag var allt annað Everton lið mæt til leiks.Barátta,flott spil og menn að vinna fyrir hvorn annan sem lið þetta var bara virkilega flottur leikur,allir leikmenn voru virkilega að leggja sig fram og stóðu sig frábærlega,og ég þreytist ekki að hæla Besic hann er frábær leikmaður í sínu hlutverki og á bara eftir að verða betri.ÁFRAM EVERTON.
Sammála Georg það er örugglega horror að þurfa að spila á móti McCarthy og Besic báðum saman á miðjunni.
Ég sá ekki fyrri hálfleik en ég vil meina að okkar menn voru hreinlega rændir tveimur stigum í dag. Það var greinilega brotið á Jagielka í vítateig city og svo var líka hendi á Zabaleta í aðdraganda marksins sem city skoraði.
En allt annað að sjá liðið í síðustu tveimur leikjum, þeir hljóta að vera hættir að hlusta á Martinez því þessi leiðinlegi krabbagangs, hliðar og til baka sendinga fótbolti hefur ekki sést í þeim.
Það er reyndar uppi sá orðrómur að sumir leikmenn séu hreinlega farnir að hunsa Martinez en það er nú vonandi bara bull og hann sé bara loksins búinn að fatta að þetta tippy tappy rugl á eigin vallarhelmingi virkar ekki. En ef það er ekki þannig þá vona ég að þeir haldi áfram að hunsa hann því það var gaman að horfa á Everton í dag. Í fyrsta skipti í mjög langan tíma var gaman að horfa á Everton.
Ég hef ennþá mikla trú á Martinez en ég trúi því ekki að leikmenn séu farnir að hunsa Martinez hann er alltaf stjórinn og ég er viss um að hann hafi ákveðið að blása til sóknar eins og hann gerði oft á síðasta tímabili. Héld að meiðsli leikmanna hafi spilað mikið inní þarna og hann hafi á þeim tímapunkti sennilega ákveðið að stíga varlega í leik Everton og ég er sammála Ingvari að Everton á endilega að spila vængmenninga meira framávið eins og þessum leik. Já Besic hefur staðið sig vel í undanförnum leikjum. Er ETO´o að fara til ítalíu finnst hann alls ekki standa undir væntingum nema fyrst í haust? Vonandi finnur Everton alvöru vængmann á móti Mirallas þótt hann sé í smá lægð núna tel ég það vera útaf meiðslum sem hann lenti í. Ættum að nota Oviedo í vængspilið langbesti kostur núna í stöðinni mín skoðun. Everton að að leggja allt í UEFA OG BIKARKEPPNINA núna tel það vonlaust að hugsa meira um 4 sætið vonandi nær Everton 60 stig sem er kannski mikil bjartsýni.
Greining Executioner’s Bong á leiknum:
http://theexecutionersbong.wordpress.com/2015/01/11/tactical-deconstruction-everton-1-1-man-city/