Everton – QPR 3-1

Mynd: Everton FC.

Everton landaði nokkuð auðveldum sigri á QPR í kvöld en 3-1 sigur liðsins var kannski naumari en frammistaðan bar vott um. Mjög flottur fyrri hálfleikur hjá Everton sem setti tvö mörk á QPR án svars (Barkley og Mirallas) og þó QPR náðu einu marki undir lokin eftir að Everton bættu við einu var aldrei nokkur hætta á öðru en að þrjú stig næðust.

Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Besic, Barkley, Mirallas, Naismith, McGeady, Lukaku. Bekkurinn: Joel, Eto’o, Kone, Pienaar, Stones, Garbutt, Alcaraz. Mjög gott að fá Naismith aftur úr sínum meiðslum og í liðið. Við höfum saknað hans.

Ekki var mikið um færi fyrstu 20 mínútur leiksins; bæði lið svolítið að þreifa fyrir sér.

Jú, Lukaku var reyndar nálægt því að skora á 12. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Naismith sem sá færi þegar Everton komst í skyndisókn og tók á sprettinn upp vinstri kant, fékk boltann og náði flottri fyrirgjöf fyrir markið. Vantaði bara hársbreidd í það að Lukaku næði skoti á mark.

Vargas mjög líflegur hjá QPR í byrjun og maður hafði á tilfinningunni að hann ætti eftir að verða okkur skeinuhættur.

Everton strekkti þó á þumalskrúfunni eftir því sem leið á og fengu tvö ágætis færi. Barkley átti frábæra sendingu upp hægri kantinn á Coleman sem náði flottum bolta inn í teig, beint á Naimsith sem kom á hlaupinu og var óheppinn að QPR náðu að henda sér fyrir skotið. Hefði að öðrum kosti sungið í netmöskvunum. Örskömmu síðar átti svo Mirallas skot rétt yfir en hann spilaði fyrri hálfleikinn af mjög miklum krafti, greinilega staðráðinn í að keyra yfir QPR.

Vargas komst í ágætt færi fyrir opnu marki á 30. mínútu en Everton maður henti sér fyrir skotið og varði — en það skipti reyndar ekki öllu því QPR menn voru dæmdir rangstæðir.

En svo á 32. mínútu tók Barkley til sinna ráða. Fékk boltann á miðju vallar, tók nett þríhyrningsspil við Lukaku til að losa sig við QPR mann, fór auðveldlega framhjá öðrum og þegar hann var kominn að vítateig einfaldlega þrumaði hann boltanum upp í samskeytin. Týpískt Barkley, hlaup frá miðju með bolta og glæsilegt mark — 1-0 fyrir Everton og forskotið einfaldlega verðskuldað.

Næsta mark Everton kom á besta tíma — rétt fyrir hálfleik þegar Joey Barton gaf kjánalega aukaspyrnu nokkuð utan teigs þegar hann setti olnbogann í andlitið á Naismith. Dómarinn ekki í vafa. Mirallas náði flottri spyrnu en boltinn fór í varnarmann QPR og breytti um stefnu en endaði í netinu þar sem Green í markinu átti engan séns. Vissulega pínulítill heppnisstimpill á markinu en ekkert minna en Everton átti skilið.

Staðan 2-0 fyrir Everton og QPR þurftu þar með að skora jafn mikið af mörkum og þeir hafa skorað allt tímabilið hingað til á útivelli — og það bara til að ná að jafna.

McGeady var svo ekki langt frá því að auka forskotið úr skyndisókn en rétt framhjá. Forlögin að verki kannski þar sem hann handlék knöttinn.

2-0 í hálfleik og spilamennskan leit mjög vel út.

Everton hefði getað fengið víti eftir skyndisókn strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks þegar gamli Everton miðvörðurinn Richard Dunne einfaldlega ýtti Mirallas á hárréttu augnabliki — rétt áður en Mirallas náði að skjóta á mark, setti hann úr jafnvægi og felldi hann. Örugglega skiptar skoðanir um hvort þetta væri víti (kannski spurning hvaða sjónarhorn menn einblína á í endursýningu) en ef ég hefði séð þetta í vítateig Everton hefði ég ekki getað kvartað yfir víti.

Það kom þó ekki að sök því Naismith kláraði leikinn með marki á 52. mínútu. QPR vörnin í ruglinu — markvörðurinn Green með glórulausa hreinsun út úr teig (eina af mörgum), beint upp í loft. Mirallas náði boltanum, setti hann fljótt á McGeady hægra megin í teig sem sendi háan bolta fyrir á Naismith sem skallaði í átt að hliðarnetinu fjær. Green náði að slengja fingri í boltann sem var á leið í markið og boltinn fór í ennið á varnarmanni og inn. Það þýðir náttúrulega að markið er skrifað sem sjálfsmark þó Naismith hefði átt það allan daginn. Það sem mestu skiptir var þó að staðan var orðin 3-0 fyrir Everton.

Martinez gerði tvær skiptingar milli 70. og 80. mínútu; fyrst Pienaar inn á fyrir McGeady og svo Eto’o inn á fyrir Lukaku.

Á um 80. mínútu áttu Everton að fá aukaspyrnu við vítateig QPR en dómarinn ákvað af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að gefa gestunum aukaspyrnu í staðinn (ensku þulunum til nokkurrar undrunar). QPR brunuðu upp völlinn og náðu skoti á mark sem Howard varði til hliðar en boltinn barst til Zamora sem var nýkominn inn á og hann ekki í vandræðum með að skora fyrir opnu marki. 3-1. Eina almennilega færi QPR í öllum leiknum. Dæmigert.

Barkley var stuttu síðar ekki langt frá því að setja Coleman inn fyrir vörnina með frábærri stungusendingu. Coleman sá að hann myndi ekki komast upp að marki með varnarmann á hælunum og hlóð því í flott skot utan teigs á 82. mínútu sem Green varði.

Rétt fyrir leikslok var Mirallas svo tæklaður niður og borinn af velli á börum. Þulirnir á því að leikmaður QPR væri heppinn að hafa ekki fengið rautt. Enn ein meiðslin á timabilinu — og þetta fer að verða frekar þreytandi. Líklega þó það eina neikvæða við leikinn í kvöld.

Everton settu mjög góða pressu á QPR í lokin og voru óheppnir að bæta ekki við fjórða markinu. Sérstaklega þegar Eto’o skaut í innanverða stöng og í haus á markverði og út. Spurning um örfáar gráður til eða frá og þá hefði þetta orðið mark.

Kone kom inn á í blálokin en leikurinn endaði 3-1 og menn greinilega að senda tóninn fyrir seinni hluta tímabils þar sem þetta var meira í líkingu við það sem við sáum á síðasta tímabili. Frábær frammistaða hjá liðinu öllu, sérstaklega Mirallas, Barkley, Naismith og Besic. Lítið að gera hjá Howard í markinu, sem er plús í kladdann á bæði vörn og miðju. Gaman að sjá hvað liðið var ákveðið í sóknaraðgerðum og pressaði vel. Og uppskar þrjú stig. Sendu Liverpool niður í neðri helming deildar, sem er aldrei leiðinlegt. 🙂

Hefði alveg viljað vera á pöllunum í kvöld — líkt og fjórir Íslendingar á okkar vegum.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 5, Distin 5, Jagielka 6, Coleman 7, Barkley 9, Besic 8, McGeady 7, Naismith 7, Mirallas 7, Lukaku 5. Varamenn: Eto’o 7, Kone 4 (of stutt inn á), Pienaar 5. Einkunnir QPR einhverjar þær lökustu sem við höfum séð á tímabilinu: 6 leikmenn þeirra með 5 eða lægra (!), fjórir með 6 og aðeins einn náði upp í 7. Sannast kannski hið fornkveðna: Mótherjinn spilar jafn vel og maður leyfir honum.

20 Athugasemdir

  1. Elvar Örn skrifar:

    2-0 í hálfleik er besta mál. Barkley flottur í dag og margt gott í gangi. Komumst uppfyrir Liverpool með sigri og yrðum í 10 sæti, en ekki svo langt í næstu lið. Væri til í 4-0 í dag.

  2. Diddi skrifar:

    frábær afmælissigur fyrir Gunna D. en ekki gott að sjá tæklinguna á Mirallas sem líklega meiddist töluvert. Besic var hrikalega flottur að mínu mati og labbaði á línunni við að fá gult spjald 🙂 Barkley líflegur og liðið í heild bara nokkuð gott ef undan er skilinn McGeady sem átti þó flotta sendingu á Naismith sem skilaði marki en var þess utan algjörlega úti að aka 🙂

  3. Elvar Örn skrifar:

    Sammála með Besic, mjög sterkur. Naismith líka sem og Barkley, En hvar var Lukaku? Ég sá meira af Kone sem kom inná á 91 mínútu. Já og Eto’o hársbreidd frá því að skora , þvílíkur fagmaður. Vona að Mirallas sé ekki illa meiddur, fannst þetta reyndar klárt rautt á Mutch, en bjóst ekki við því frekar en gegn City. Kærkominn sigur.

  4. Ari S skrifar:

    Bešić maður leiksins. Martinez sagði í viðtali að Mirallas væri meiddur á ökkla og mynd verður tekin af ökklanum í fyrramálið… þangað til vonum það besta.

  5. Gunnþór skrifar:

    Besic var stórkostlegur í kvöld,saknaði Baines og Lukaku í kvöld,flottur sigur en seinni hálfleikur skelfilegur,

  6. Ari G skrifar:

    Flottur leikur hjá Everton. Sóknarleikurinn miklu betri með Naismith. Besti leikur Barkley i vetur. Besic hvað er að ske með hann var mjög lélegur fyrst í haust en núna er hann frábær miklu betri en Barry hefur verið undanfarið mín skoðun. Lukaku náði sér ekki á strik en Mirallas alltaf góður. Vörnin ok bakverðirinar samt langt frá sínu besti Jagielka ágætur samt og Distin ok. Núna vonandi kemur Stones inn um jólin til að hvíla Distin og Kone til að hvíla aðra sóknarmenn.

  7. Orri skrifar:

    Mörkin urðu 4 eins og ég spáði,en því miður aðeins 3 frá okkur.Góður fyrrihálfleikur en við gáfum of mikið eftir í seinnihálfleik,engu af síður flottur sigur.Ég saknaði Lukaku,Bains og Mc Geady fyrir utan sendiguna frá honum sem skilaði marki.Besic bestur hjá okkur,Barkley og Mirralas áttu góða spretti.En þarna varð viðsnúningurinn hjá okkar liði nú er leiðin greið það sem eftir lifir vetrar.

  8. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég sá ekki leikinn, en ég er rosalega feginn að hafa haft rangt fyrir mér.

  9. Teddi skrifar:

    Þakka Isla fyrir aðstoðina í fyrsta og flottasta marki leiksins.
    Einnig á Diddi Jinx stóran þátt í sigrinum með 1-2 spánni.

    • Teddi skrifar:

      Gott að sjá að Stones er orðinn leikfær, Distin finnst manni oftast endast bara í 65-70 min.

  10. Einar G skrifar:

    Flottur leikur og mér fannst ég sjá strax í upphafi að þetta yrði sigur og með nokkrum mun. Mér fannst sérstaklega flott að sjá loksins svona góða tengingu milli varnar og miðju, finnst það hafa vantað svolítið upp á síðkastið. En hrikalega varð ég pirraður þegar ég sá brotið á Mirallas, maður sá á svipnum á Mucha að hann var bara í þessu til að meiða, ekkert annað, fólskubrot sem átti skilið rautt spjald, vonum að Mirallas sé ekki alvarlega meiddur.Þá er bara að vona að liðið spili svona alla jólaleikina 😉 Nú er séns að skríða lengra upp töfluna.

  11. þorri skrifar:

    kæru félagar. Ég sá leikinn um kvöldið eftir vinnu.Mér fanst hann góður og skemtilegur að horfa.Everton voru góðir í fyrrihálfleik.og dróru sig til baka aðeins í seinnihálfleik.En flottur sigur og nauðsinlegur.Mér fanst allir standa sig vel hjá okkur og liðið var að spila eðlilega að mér fanst.En ég verð að hrósa Q.P.R.mér fanst þeir spila vel þó þeir fengu ekki færin.En færin komu okkar megin.ég var mjög sáttur við leikinn ég held ef allir verða heilir þá forum við ofar í deildinna

  12. Gunnþór skrifar:

    Diddi þessi spá klikkar ekki.

    • Diddi skrifar:

      Nei, ég má ekki gleyma mér í æsingnum og breyta henni 🙂 Set þetta inn fyrir næsta leik 🙂

  13. Diddi skrifar:

    Var að horfa á næstu keppinauta okkar Southampton tapa fyrir Sheffl Utd í deildarbikar með þokkalega sterkt lið. Þetta var 5. tapleikur Southampton í röð og sá 6. án sigurs. Til að gera þetta enn sætara fékk Schneiderlin (einn af þeirra betri miðjumönnum) sitt 5. gula og verður því í banni á laugardaginn. Einnig fékk miðvörður þeirra rautt en hann hefur svo sem ekki verið í byrjunarliði þeirra í undanförnum leikjum. NÚ ER LAG !!!!!!

  14. Orri skrifar:

    Sæll Diddi.Kom ekki svona taphrina hjá Southampton á síðasta leiktímabili,eftir gott gengi,mig minnir að þeir hafi verið með efstu liðum þegar að taphrinan byrjaði.En við eru hvergi smeykir.

  15. Diddi skrifar:

    Naismith var að framlengja til 2019, frábærar fréttir og sást í qpr leiknum hversu góð áhrif hann hefur á leik liðsins. Hvílíkur baráttuhundur 🙂