full screen background image

Everton – Liverpool 0-0

Mynd: Everton FC.

Margir bjuggust við svipaðri flugeldasýningu og þegar þessi tvö lið mættust á síðasta tímabili (sem endaði 3-3) og horft var til Gerrard að gera eitthvað stórkostlegt í sínum síðasta Merseyside derby leik en hvorugt varð raunin. Varnirnar héldu og bæði lið fóru með eitt stig. Líklega lélegasti leikur Gerrard á móti okkar liði (sem ég man eftir allavega).

Uppstillingin: Robles, Oviedo, Jagielka, Stones, Coleman, Barry, McCarthy, Besic, Mirallas, Naismith, Lukaku. Varamenn: Griffiths, Gibson, Kone, Barkley, Lennon, Browning, Alcaraz.

Að mestu var þetta eins og búist var við nema hvað enginn Baines var sjáanlegur (ekki einu sinni á bekknum). McCarthy fór aftur á móti beint í byrjunarliðið — mjög gott að fá hann loksins aftur.

Leikurinn var í járnum alveg frá byrjun, taugarnar þandar, gott tempó en ekki mikið um færi. Gerrard átti aukaspyrnu á 9. sem Robles varði í horn sem ekkert kom úr. Stuttu síðar fór Lucas Leiva svo út af meiddur.

Ibe komst í gott færi hægra meginn þegar sending þveraði vörnina frá vinstri og Ibe kom á hlaupinu óvaldaður en Robles mættur á réttum tíma og lokaði vel á hann.

Skondið atvik gerðist svo innan teigs hjá Everton þegar boltinn skoppaði upp og snerti rassinn á Stones og Liverpool menn heimtuðu að sjálfsögðu víti (!).

Naismith hefði getað komist í dauðafæri stuttu síðar þegar hann fékk háan bolta inn í teig vinstra megin, var óvaldaður og hefði kannski átt að taka hann á kassann og skjóta en reyndi í staðinn skalla sem var slakur.

Ibe var aftur líklegur á 24. mínútu þegar hann fékk að hlaupa á vörnina óáreittur og tók skot af löngu færi hægra megin sem fór framhjá Robles og endaði í utanverðri fjærstöng. Oviedo ekki að gera nógu vel að mæta honum.

Coutinho átti skot af löngu á 34. mínútu en auðvelt fyrir Robles. Liverpool líklegri og sóknin alls ekki að gera sig hjá Everton. Gerrard búinn að vera farþegi í leiknum.

0-0 í hálfleik og engin breyting á liðunum. Naismith virtist meiðast í fyrri hálfleik og Barkley sendur að hita upp en honum var ekki skipt inn í hálfleik eins og maður átti von á.

Sterling átti tvö færi á stuttum tíma í kringum 52. mínútu. Það fyrsta auðvelt fyrir Robles að verja en svo aðeins betra færi sem Robles varði í horn.

Sturridge inn fyrir Coutinho og Lennon inn fyrir Mirallas á 59. mínútu. En seinni hálfleikur var hálf dapur fyrir áhorfendur og ekki mikið um færi. Á um 80. mínútu fór að hitna í kolunum þegar Ibe og Besic flæktust saman og upp úr sauð. Pústrar manna á milli og þrír til fjórir fengu gult (allavega Besic, Henderson og Naismith) og áhorfendur létu vel í sér heyra.

Barkley kom inn fyrir Naismith á 84. mínútu og Alcaraz fyrir Besic og Barkley var næstum búinn að setja strax mark sitt á leikinn, aðeins mínútu eftir að hafa komið inn á. Hann sá Coleman á hlaupinu og þveraði vörnina með frábærum bolta sem setti Coleman inn einan hægra megin (svipað og Ibe í fyrri hálfleik nema betra færi — utar og markvörður ekki búinn að loka á markið) en Mignolet varði flott skot frá honum í horn. Líklega besta færi leiksins.

En fleiri urðu almennileg færi í leiknum ekki. McCarthy, Besic og Barry sterkir á miðjunni að eyða allri hættu sem stafaði af Gerrard og þó maður hafi verið smeykur að sjá McCarthy byrja þennan leik eftir meiðsli þá var eins og hann hefði aldrei misst úr leik á tímabilinu.

Við þurfum að skoða sóknarleikinn mun betur en hann virkaði alls ekki í þessum leik. Afgreiðslan inn í teig alltaf slök og einfaldar sendingar á milli manna alltof oft að fara aftur fyrir menn eða í hælana á þeim. Og hvað er þetta með Lukaku og rangstöðuna?

Jafntefli líklega sanngjörn niðurstaða þó Liverpool hafi verið líklegri. Við kvörtum þó ekki yfir því að halda hreinu þriðja leikinn í röð né því að hafa ekki tapað 6 leikjum nú í röð. Nú þarf bara að fara að snúa þessum jafnteflum yfir í sigra.

Einkunnir Sky Sports: Robles 7, Oviedo 5, Stones 6, Jagielka 6, Coleman 7, McCarthy 6, Barry 6, Besic 6, Mirallas 7, Naismith 7, Lukaku 6. Varamenn: Barkley 7, Lennon 5, Alcaraz 5. Ekki ósvipaðar einkunnir hjá Liverpool (sexur og sjöur). Ibe valinn maður leiksins með 8.

9 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  Djöf… er Everton orðið leiðinlegt á að horfa. Ég sé eftir þeim tíma að horfa á svona ógeðlegan leik, kom on 1 skot á markið. All flestir leikmenn Everton lélegir og Martinez er komin alveg út í horn og hefur engin ráð. Burt með manninn.

 2. Teddi skrifar:

  Alcarasss inná fyrir Besic??? Frekar slæmt að vilja ekki sækja til sigurs gegn þreyttu Liverpool-liði, hefði viljað sjá Kone fyrir Barry.

 3. Diddi skrifar:

  ég var nú bara ánægðastur með að þetta er síðasti leikur sem óþokkinn nr. 8 í þeirra liði mætir okkur og ég hugsa að ég fái mér bara eitthvað af því tilefni 🙂 Frábært líka að halda hreinu, mjög góður varnarleikur en því miður kemur það niður á sókninni hjá okkur, En við fórum „back to basics“ og við horfum upp töfluna frá þessum leik það er klárt 🙂 Hrikalega mikilvægt að frá McCarthy inn aftur í okkar lið. Ég held að Everton tapi ekki fleiri leikjum í vetur 🙂 Koma svo 🙂

  • Finnur skrifar:

   Gerrard er búinn að bera miðlungsgott lið Liverpool á öxlunum ansi lengi. Kem ekki til með að sakna hans neitt. Vona bara að hann endi ekki sem enn einn Liverpool púkinn á fjósbita hjá Sky sjónvarpsstöðinni. Orðinn frekar þreyttur á að alltaf hlusta á skoðun Liverpool manna á *öllum* heilhveitis Everton-leikjum sem ég horfi á (ef það er ekki Carragher eða Redknapp þá eru það McManaman eða John Barnes).

   En, já. Þetta er svolítið back to basics eftir erfiða jólavertíð og þó þessi leikur hafi ekki verið mikið fyrir augað þá hafa verið mjög mikil batamerki á liðinu í leikjunum á undan þessum. Everton aftur farið að sýna einskæra nísku þegar kemur að því að hleypa inn mörkum, líklegast megum við þakka það endurkomu Stones úr meiðslum. Borguðum að mig minnir eina milljón punda fyrir þann unga en frábæra leikmann. Toppar náttúrulega ekkert kaupin á Coleman en kaupin á Stones algjörlega frábær kaup engu að síður.

   • Diddi skrifar:

    já alveg rétt, hann heitir víst gerrard, takk fyrir að minna mig á það Finnur 🙂

   • Finnur skrifar:

    Engar áhyggjur, Diddi. Þetta verður líklega í *allra* síðasta skipti sem ég þarf að nefna hann á nafn — nema liðin mætist í Europa League. 🙂

 4. Ari G skrifar:

  Alveg sammála að þessi leikur var leiðinlegur annað en leikurinn í fyrra 3:3 þá. Finnst Lukaku þreyttur virðist ekki geta stungið menn af nema einu sinni seint í leiknum. Frábær innkoma Barkley af hverju kom hann ekki fyrr inná og Kone þá hefði Everton getað unnið leikinn.

 5. Teddi skrifar:

  Liðin spila bara aftur í úrslitaleik Euroleague, ekki hægt annað en að bæta upp þessi leiðindi. 🙂

%d bloggers like this: