Bolton vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Á morgun kl. 15:00 mæta okkar menn Bolton Wanderers á útivelli í 4. umferð FA bikarsins en þessi lið hafa mæst alls 74 sinnum á heimavelli Bolton og Everton hefur gengið ágætlega þar í gegnum tíðina, með hlutföllin 31:16:27 (Sigur:Jafntefli:Töp) en 5:2:4 ef bara nýlegir leikir (frá aldamótum) eru skoðaðir. Síðasti útileikurinn við þá var helst minnistæður fyrir rauða spjaldið sem Wheater hjá Bolton fékk fyrir ljótt brot á Bilialetdinov (Wheater er meiddur og verður ekki með á morgun). Everton vann þann leik 0-2 með mörkum frá Fellaini og Vellios. Síðasti heimaleikur Everton gegn þeim var minnistæðastur fyrir markið sem Tim Howard skoraði úr útsparki og var vel fagnað af samherjum (sjá mynd). Þó nokkrir leikmenn Bolton sem léku þann leik hafa verið seldir (Gary Cahill, Paul Robinson, Ivan Klasnic, Grétar Steinsson og markvörðurinn Jussi Jaaskelainen) og þeir losuðu sig auk þess nýlega við Martin Petrov í þeirri viðleitni að minnka launakostnaðinn.

Bolton komst í fjórðu umferð FA bikarsins með sigri á Sunderland í 3. umferð (á heimavelli Sunderland!) og áttu sigurinn fyllilega skilið. Sigurinn var þó eini sigur þeirra í fimm leikjum í öllum keppnum í janúar (þrjú jafntefli og eitt tap) en þeir eru nú í 16. sæti B deildarinnar ensku. Bolton féllu eins og kunnugt er úr Úrvalsdeildinni eftir síðasta tímabil en þeir höfðu verið í efstu deild samfleytt í 11 ár. Þeim hefur ekki gengið sem skyldi í B deildinni og ekki náð að taka þátt í baráttunni um að komast upp í Úrvalsdeildina. Þeir skiptu um þjálfara í október (Dougie Freedman tók við af Owen Coyle) og fóru taplausir í gegnum nóvember mánuð en unnu þó bara tvo leiki og gerðu fjögur jafntefli en duttu svo í sama farið í desember: 7 stig af 18 mögulegum. Þeir eru nokkuð ólíklegir til að ná nógu hátt í deildinni til að fara upp sem þýðir náttúrulega að þeir koma til með að taka FA bikarleikinn mjög alvarlega og leggja áherslu á að komast í næstu umferð.

Moyes hefur sagt að Everton tekur allar keppnirnar alvarlega en hefur þó sett markið á Champions League sæti en eitthvað segir mér að hann lítur FA bikarinn örugglega sömu augum og Neville sem vill berjast til síðasta manns á báðum vígstöðvum.

Þess má geta að allra fyrsti leikur Everton eftir stofnun félagsins var í FA bikarnum gegn Bolton árið 1887, á heimavelli Bolton og tapaðist sá leikur 1-0. Það kom síðar í ljós að Bolton stillti upp ólöglegum leikmanni og því þurfti (skv. reglum þess tíma) að endurtaka leikinn á heimavelli Everton, Anfield Road (Liverpool, litli bróðir Everton, varð ekki til fyrr en nokkuð mikið seinna). Sá leikur endaði með 2-2 jafntefli en Bolton skoraði mark sem var mjög umdeilt. Endurtekinn leikur endaði með 0-0 jafntefli en þar sem Bolton neitaði að spila framlengingu eftir leikinn (!) þurfti fjórða leikinn (í Everton borg) til að útkljá þá viðureign og Everton vann loksins þann leik 2-1. Það átti eftir að reynast skammvinn gleði því dramatíkin hélt áfram. Bolton kærði þann leik sökum þess að nokkrir leikmenn Everton væru atvinnumenn (sem mátti ekki á þeim tíma) og fengu því að taka sæti Everton í næstu umferð bikarsins. Gaman að þessu.

Coleman, Gibson og Hibbert eru meiddir fyrir leikinn  á morgun. Líkleg uppstilling því: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Neville. Pienaar á vinstri, Mirallas á hægri, Fellaini og Osman á miðjunni. Anichebe og Jelavic frammi. Einnig er möguleiki að Jelavic hvíli eftir frammistöðuna í síðasta leik en þá kemur Hitzlsperger inn á miðjuna og Fellaini verður færður framar á völlinn. Hjá Bolton missa Keith Andrews, Craig Dawson og David Wheater af leiknum og mögulega Matt Mills einnig.

Árangur Everton í leiknum á morgun kemur væntanlega til með að hafa áhrif á það hvort Barkley fær að leika sem lánsmaður gegn Tottenham í bikarnum á sunnudeginum. Ungstirnið og lánsmaðurinn Jake Bidwell hjá Brentford missir pottþétt af bikarleik þeirra gegn Chelsea því hann nældi sér í tvö gul spjöld í síðasta heimaleik þeirra.

Leikurinn á morgun (ef hann fer fram, sem er enn ekki víst) verður 500. leikur Everton með Moyes við stjórnvölinn. Everton menn eru ósigraðir í síðustu 6 útileikjum og Everton hefur ekki tapað nema einum útileik í FA bikarnum í síðustu átta leikjum (fjórir sigrar og þrjú jafntefli). Everton hefur þó aðeins unnið einn leik á útivelli gegn Bolton í FA bikarnum gegnum tíðina en það gerðist síðast árið 1907. Ég ætla því að spá 1-1 jafntefli (Fellaini með jöfnunarmarkið) og svo vinnur Everton Bolton heima.

Þess má til gamans geta að síðast þegar Everton fékk útileik í 4. umferð FA bikarsins var árið 1995, sem var einmitt síðast þegar Everton vann FA bikarinn. Aðeins þrír leikir FA bikarkeppninnar eru sýndir í beinni útsendingu á morgun og þessi leikur er ekki þeirra á meðal.

Í öðrum fréttum er það helst að samningur Distins var framlengdur um eitt ár. Hann er 35 ára en hefur ekki sýnt nein merki um að ferill hans sé brátt á enda en hann er enn einn fljótasti leikmaður liðsins og hefur verið afskaplega traustur í vörninni. Moyes sagði að Distin ætti samninginn fyllilega skilið.

10 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    500. leikurinn hjá Moyes. Verst að oftast fara svona áfangaleikir ekki vel svo ég spái 2-1 fyrir Bolton.

  2. Halli skrifar:

    Menn verða að vinna svona leiki til að vera ekki að auka leikjaálagið 0-2

    Finnur hefuru einhverstaðar séð livestream á leikinn

  3. Finnur skrifar:

    Ég hef ekki skoðað það þar sem ég kem ekki til með að ná leiknum sjálfur (afmæli innan fjölskyldunnar á sama tíma — hver skipuleggur þetta eiginlega!?). 🙂

    Á frekar von á því að hann sé að finna e-s staðar.

  4. Finnur skrifar:

    Það var staðfest snemma í morgun að leikurinn myndi fara fram, þrátt fyrir slæmt veðurfar.
    http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/01/26/bolton-game-goes-ahead

    Moyes sagði í viðtali vera að hugsa um hvort hann ætti að hvíla Jelavic í leiknum (http://www.toffeeweb.com/season/12-13/news/23592.html) og sagði jafnframt að hann hefði smá budget til að kaupa í janúarglugganum, ef réttur maður væri í boði, en bjóst við að ef eitthvað myndi gerast myndi það ekki verða fyrr en við lok gluggans.
    http://www1.skysports.com/football/news/11671/8440602/

  5. Halli skrifar:

    Hvern viljum við fá

  6. Finnur skrifar:

    Ekki spyr ég hver heldur hvar. Alveg sama hverjum við mætum en vil fá heimaleik.

  7. Finnur skrifar:

    Reyndar, væri sætt að mæta Oldham á heimavelli og fá að sjá Everton manninn Baxter aftur.

  8. Ari S skrifar:

    það væri gaman ef að Oldham myndi komast áfram… i ÞESSARI umferð….. Heitinga klikkar ekki… með sigurmarkið sem fleytti okkur áfram í næstu um ferð… 🙂