Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton vs. Swansea - Everton.is

Everton vs. Swansea

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Swansea á heimavelli kl. 15:00 á laugardaginn en þetta er annar leikurinn í röð á Goodison við lið frá Wales — eftir 2-1 sigur Everton á Cardiff í síðustu umferð — og jafnframt fyrsti leikurinn í þriggja leikja seríu sem nær yfir aðeins átta daga. Nokkuð ljóst að eftir um rúma viku vitum við hvað Everton er mögulegt og hvað ekki á tímabilinu.

Þessi tvö lið (Everton og Swansea) hafa aðeins níu sinnum mætst á heimavelli Everton og Swansea aldrei unnið — Everton með fimm sigra en fjögur jafntefli. Reyndar er rétt að geta þess, eins og áður hefur fram komið, að Swansea hefur aldrei í sögu þess félags unnið Everton (með 18 tilraunir frá árinu 1930). Síðan Everton tapaði (manni færri og óverðskuldað í þokkabót) gegn Sunderland á heimavelli hefur liðið unnið alla sjö leiki sína á Goodison Park með samanlagðri markatölu 16-4.

Klúbburinn rifjaði í tilefni leiksins upp nokkra skemmtilega leiki gegn Swansea, til dæmis 1-0 sigur (sjá vídeó) í desember 2011, 0-2 sigur (sjá vídeó) í mars 2012, 0-3 sigur (sjá vídeó) í september 2012 og 2-1 sigur (sjá vídeó) í desember 2013.

Ekkert er nýtt að frétta úr meiðsladeildinni: Gibson, Kone, Oviedo enn á langtímalegunni og Pienaar og Jagielka metnir tæpir, líkt og í síðustu umferð en Jagielka þó nær endurkomu en Pienaar. Traore er einhvers staðar þar á milli. Bati Oviedo af fótbrotinu hefur reyndar verið ótrúlega hraður en vonast er til að hann nái HM og maður hlakkar til að sjá hann aftur inn á í leik með Everton. Barry lenti í ljótri tæklingu gegn Cardiff, sem verðskuldaði rautt spjald, en var heppinn með hvar takkarnir lentu og hann virðist hafa náð að jafna sig af þeim meiðslum.

Líkleg uppstilling fyrir Swansea leikinn: Howard, Baines, Distin, Stones, Coleman, Deulofeu, McCarthy, Barry, Mirallas, Osman, Lukaku.

Stóra fréttin síðastliðna viku er meðal annars framlenging Everton á Chang samningnum en Chang hafa verið aðalstuðningsaðili Everton undanfarin ár. Chang koma til með að borga um eða yfir 16 milljónir punda fyrir næstu þrjú ár en þeir eiga lengsta samfellda samning sem nokkurt fyrirtæki hefur gert við Úrvalsdeildarlið (samningurinn byrjaði árið 2004). Þetta mun vera um 30% hækkun að verðgildi frá fyrri samningi.

Einnig var heilmikið talað um að Coleman væri á leið til United fyrir 15M punda en Martinez blés á þær sögusagnir og sagði að klúbburinn væri vel staddur fjárhagslega og þyrfti ekki að selja (og enginn hefði haft samband varðandi Coleman). Hann staðfesti hins vegar að verið væri að skoða að gefa nokkrum ungliðum nýjan samning næsta sumar, til dæmis til handa Barkley, Stones, Coleman og McCarthy — sem hann sér alla sem framtíðarleikmenn sem þarf að verðlauna fyrir mjög góða frammistöðu á tímabilinu.

Í öðrum fréttum er þetta helst:

– Kevin Sheedy olli svolitlu fjaðrafoki á dögunum þegar hann tilkynnti að David Moyes hefði aldrei sýnt ungliðastarfinu neinn áhuga á meðan þeir voru báðir á mála hjá félaginu.
– Wilf Dixon lést á dögunum en hann var aðstoðarmaður Harry Catterick þegar Everton vann Englandsmeistaratitilinn (enn og aftur) tímabilið 1969/70.
– Richard Kenyon var ráðinn í stöðu Director of Marketing and Communications.

Og af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 unnu Stoke U21 2-0 en Conor McAleny skoraði bæði mörkin (sjá viðtal og vídeó). Glöggir lesendur muna eflaust eftir honum sem markaskorararnum sem fótbrotnaði með Brentford fyrir einhverjum mánuðum síðan og frábært að sjá að hann er kominn á skotskóna aftur.

En, Swansea á laugardaginn! Hvaða uppstillingu viljið þið sjá og hver er ykkar markaspá?

16 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    16 milljónir á þremur árum eru smaaurar þegar tekið er með í reikninginn hve miklir peningar flæða um fótboltan í dag. Þetta eru ekki nema rétt rúmar 5 milljónir á ári og þó það sé metsamningur fyrir Everton þá er þetta bara ruslsamningur miðað við þau lið sem við viljum og erum að keppa við. Spurs og Liverpoo fá til dæmis 19 og 20 miljónir á ÁRI frá sínum stuðningsaðilum. Ég er ekki að segja að við eigum endilega að fá svo mikið en við ættum að minnsta kosti að vera að fá ca 10-12 milljónir á ári. Nú var ég náttúrulega ekki við samningaborðið og veit ekki frekar en aðrir hvað fór fram milli Everton og Chang, en mér finnst að þeir sem sjá um þessi mál hjá félaginu hafi enn einu sinni samið illa. Mér finnst þetta anga af einhverjum smáklúbba hugsunarhætti, aumingjaskap og vanmati á félaginu. Svo kemur Elstone og segir að þetta gefi félaginu „competitive edge“ umfram keppinauta þess.
    Ég efast um að menn hjá t.d Spurs, Liverpool, Arsenal og Newcastle séu skjálfandi á beinunum yfir þessu.

  2. Finnur skrifar:

    Þegar kemur að svona stórum samningum hljóta öll eðlileg fyrirtæki að leitast við að ná sem hagstæðustu samningum við viðsemjendur sína. Það eru *mjög* alvarlegar ásakanir að halda því fram að Elstone hafi vísvitandi eða óviljandi samið af sér, hvort sem það er vegna „minnimáttakenndar“ eða einhvers annars því þar með væri hann að stórskaða hagsmuni Everton. Svoleiðis ásakanir þurfa meiri rök en „Mér finnst“, „Ég held“ og/eða „Ég las e-s staðar á Internetinu“. Ef slíkar ásakanir eru á rökum reistar þá er rétt að ræða það opinberlega, vísa í sönnunargögn og krefjast skýringa. En sá hinn sami verður þá að vera með sönnunargögn í höndunum áður en farið er af stað; til dæmis hvaða fyrirtæki bauð Everton 10-12 milljónir punda á ári, svo ég vísi í töluna sem þú dróst upp úr hattinum. Ef ekki er fótur fyrir neinum slíkum ásökunum þá er sá sem ber svoleiðis róg á borð fyrir aðra sjálfur að skaða hagsmuni félagsins. Þó við viljum alltaf meiri pening inn í félagið og getum bent á önnur lið sem fá meiri pening er ekki þar með sagt að sá peningur sé í boði (eða rétt að taka við honum eins og ég kem inn á síðar).

    Tilvitnun þín í Elstone er bæði slitin úr samhengi og svo snúið út úr því sem hann sagði. Ég hlustaði á allt viðtalið við hann þegar samningurinn var kynntur og það var tvennt sem þar kom fram sem rétt er að komi fram í umræðunni.

    1. Hann sagði að *allir* klúbbarnir í Úrvalsdeildinni væru að fá stóraukið fjármagn vegna sjónvarpssamninga. Það sem gæfi liðunum forskot á keppinautana væri því sá peningur sem kemur inn *fyrir utan* sjónvarpssamninginn og nefndi auglýsingasamninginn og miðasöluna á Goodison Park sem dæmi. Þú kýst að handvelja þrjá keppinauta af 20 í Úrvalsdeildinni en það er augljóst að Elstone er að tala um miklu fleiri lið. Einnig er rétt að líta á t.d. QPR í Championship deildinni sem keppinaut á leikmannamarkaði því þeir gætu allt í einu fengið budget upp á 30M og þannig tekið leikmann/menn sem Everton girnist. Það sem Elstone sagði ekki er að þetta er líka spurning hvernig þú eyðir peningunum: Okkar samningur jafnast á við kaupverð á einum Mirallas eða áttatíu og þremur Séamus Coleman á ári (Coleman nú orðinn markahæsti varnarmaðurinn í deildinni). Litli bróðir á fyrir rétt um hálfum Andy Carroll á ári. 🙂

    2. Hitt sem hann sagði var að á meðan Chang borgar Everton meira í hvert skipti sem endurnýjað er eiga mörg lið þessa stundina í erfiðleikum með að landa svona samningi og miklu fleiri (seljendur) að reyna það heldur en kaupendur eru að. Hann benti auk þess á að þetta er ekki bara spurning um peninga fyrir Everton heldur líka aðgang að Asíumarkaði fyrir vörumerki Everton í gegnum virt fyrirtæki í Asíu en Everton vinnur ötullega að því að auka sýnileika sinn þar. Það sem hann lét vera að segja er að stundum er þetta líka spurning um að velja réttan samstarfsaðila. Ég held að við myndum til dæmis þurfa að halda fyrir nefið ef Everton myndi taka upp Standard Chartered bankann sem stuðningsaðila. Ég er ekki viss um að auglýsingasamningur við banka sem var gripinn glóðvolgur við fjárþvætti fyrir „hryðjuverkamenn, vopnasmyglara, eiturlyfjabaróna og spilltar ríkisstjórnir“ (svo vitnað sé í New York State Department) auki hróður nokkurs liðs mikið (http://www.telegraph.co.uk/finance/newsbysector/banksandfinance/9456963/Standard-Chartered-accused-of-exposing-US-to-terrorists-key-points.html).

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Bara mín skoðun Finnur, ég hlýt að meiga segja mína skoðun og ég er ekki einn um að finnast þetta. Þú kemst að því ef þú skoðar umræður um þetta t.d à toffeeweb.com.

      • Finnur skrifar:

        Orð hafa ábyrgð, eins og dæmin hafa sýnt. Látum rógburðin liggja á Toffeeweb þangað til við höfum eitthvað meira í höndunum en að „Elstone hafi sökum aumingjaskapar samið af sér því upphæðin er minni en mér finnst hún eigi að vera“.

  3. Halli skrifar:

    Sælir félagar nú vonumst við eftir áframhaldandi velgengni okkar liðs sérstaklega á heimavelli 3 stig og ekkert minna. Ég vonast eftir að sjá Jags snúa aftur það er alltaf svo gott að hafa kafteininn í liðinu og Barkley fyrir Osman. 3-1 fyrir okkar menn Barkley, Lukaku og Mirallas með mörkin.

    Kv

    Halli

  4. þorri skrifar:

    Er sammála þetta á að vera skyldusigur á heimavelli.

  5. Diddi skrifar:

    það verður gaman að fylgjast með McGeady í byrjunarliði, Koma svo

  6. Ari S skrifar:

    Ég er sammála því að stór orð um Elstone eiga kannski ekki rétt á sér en mikið svakalega er ég orðinn þreyttur á því að sjá stjórnendur Everton dásama sína samninga á meðan „hin“ liðin eru að fá tvöfalt betri samninga frá styrktaraðilum. Fáránlegt og þreytandi til lengdar.

    Er samningurinn við Chang góður? Bara vegna þess að þeir boga meira núna heldur en síðast? Við eigum að fá hækkun í hvert einasta skipti það á ekki að vera frétt. Það ætti að vera frétt þegar við fáum samskonar samning og „hin“ liðin eru að fá.

  7. Finnur skrifar:

    > mikið svakalega er ég orðinn þreyttur á því að sjá stjórnendur Everton dásama sína samninga

    Ég er alveg gáttaður á svona kommentum… Veit varla hvar á að byrja að svara þessu. Everton var að gera sinn stærsta samning við styrktaraðila frá því félagið var stofnað. Þetta er 30% aukning á verðgildi samnings bara við það að endurnýja og jafngildir þremur milljörðum íslenskum króna, svo maður setji þetta í íslenskt samhengi. Er í alvöru ekki hægt að gleðjast yfir því að það er framför í þessu líkt og svo mörgu öðru hjá klúbbnum þessa dagana (punktafjöldi í deild miðað við sama tíma í fyrra, t.d.)?

    Ertu að biðja um að Elstone hlaupi í fjölmiðlana og kvarta yfir því að önnur fyrirtæki voru ekki tilbúin að bjóða þeim hærri samning fyrir það að fá að setja logo-ið sitt á búningana? Eða vildu menn frekar sjá engan samning til að þurfa ekki að tilkynna um einhvern „smáaura-samning“ eins og þetta hefur verið kallað? Væri það betra?

    Myndi ég vilja sjá sambærilega samningsupphæð og liðin við toppinn hafa fengið? Auðvitað — hver myndi setja sig upp á móti því? En setjið ykkur í spor þeirra sem sitja hinum megin borðsins: Af hverju ættu þeir aðilar að borga jafn mikið til Everton og til þessara örfáu liða í ensku sem eru með meiri sýnileika á heimsvísu og eru þar að auki að keppa í Meistaradeildinni, sem allra augu eru á?

    Það breytir engu hversu háa upphæð stuðningsmenn heimta. Það þarf að vinna fyrir enn frekari auglýsingatekjum, til dæmis með reglulegri veru í Meistaradeildinni.

  8. Ari S skrifar:

    Þú ert eins og DV blaðamaður, slítur hlutina úr samhengi… 😉

    „mikið svakalega er ég orðinn þreyttur á því að sjá stjórnendur Everton dásama sína samninga á meðan „hin“ liðin eru að fá tvöfalt betri samninga frá styrktaraðilum.“

    SVONA leit þetta út hjá mér og þú hefðir átt að hafa alla setninguna með þegar þú vitnaðir í hana og gagnrýndir.

    kær kveðja, Ari

  9. Finnur skrifar:

    Það er erfitt að slíta hluti úr samhengi þegar samhengið er til staðar (næsta færsla á undan)… 🙂

    Það breytir hins vegar litlu því að mitt svar er nákvæmlega hið sama… Ég var að svara öllu kommentinu þó ég hefði bara afritað það að hluta til.

  10. Orri skrifar:

    Ég hef nú ekki fylgst með þessu máli um styrktarsamninginn frá Chang. En ég tek heils hugar undir með Finni. Til að fá stærri samning þarf liðið að vinna fyrir honum, með því að komast í meistaradeildina. Ég held að sem betur fer séum við að nálgast það óðfluga.

  11. Ari S skrifar:

    Þetta er bara mín skoðun, ég hlýt að mega segja mína skoðun… 🙂

    Ég verð nú að segja að ÉG er gáttaður á þessum ofsaviðbrögðum frá þér Finnur, gagnvart mínum pósti.

    Ok þetta er 30% hækkun, þetta er fínn samningur. En ég er samt þreyttuyr/leiður á því að sjá stjórnendur Everton dásama sína samninga á meðan „hin“ liðin eru að fá tvöfalt betri samninga frá styrktaraðilum.

    Ég veit vel að með betri árnangri þá fáum við betri samning. Þetta er ekki flókið þetta eru engin geimvísindi. End of.

    Endilega lestu þetta aftur Finnur og legðu ekki svona drastíska meiningu í þetta. Lestu þetta bara eins og ég segi þetta.

    Þú segir „Er í alvöru ekki hægt að gleðjast yfir því að það er framför í þessu líkt og svo mörgu öðru hjá klúbbnum þessa dagana (punktafjöldi í deild miðað við sama tíma í fyrra, t.d.)?“

    Líkt og svo mörgu öðru hjá klúbbnum??? Punktafjöldi í ár? HVAÐ ERTU AÐ MEINA ÞARNA? Ertu virkilega a spyrja mig (og hæðast í leiðinni) að því hvort að ég geti ekki glaðst yfir góðu gengi míns uppáhaldsfélags í ár? Ég er alveg gáttaður á þessu og þú hefur greinilega verið aðeins of reiður þegar þú skrifaðir þetta, algerlega burtséð frá því sem ég skrifaði þar á undan og „kveikti í þér“. Og ég hef aldrei talað illa um stjórnendur Everton og aldrei sagt að þeir standi sig illa. Og þarf ég að segja… ég er mjög glaður yfir góðum árgangri okkar manna í ár þó hann hefði getað verið betri 🙂

    Ég ætla að láta staðar numið hérna og kannski skrifa ég bara ekkert á næstunni, þarf að hvíla mig á everton.is

    kær kveðja,

    Ari

  12. Finnur skrifar:

    Sæll Ari minn,

    Ég var sérlega illa fyrirkallaður á laugardags-eftirmiðdeginum (löng og leiðinleg saga) og hefði líklega átt að láta kommentakerfið alveg vera. Gallinn er bara sá að maður fattar það aldrei fyrr en eftir á.

    Við getum öll verið sammála því að það er þreytandi að horfa upp á þennan fjárhagslega raunveruleika sem við lifum í; að liðin sem eru ekki nema örfáum sætum ofar fái miklu stærri samninga. Ekki nóg með að þau fái auknar tekjur af Meistaradeildinni heldur líka stærri auglýsingasamninga — hvorutveggja sem gerir það að verkum að það er enn erfiðara að brjóta glerþakið.

    Ég ætla samt ekki að láta það eyðileggja fyrir mér góðar fregnir því þetta með samninginn stefnir allavega í rétta átt. Elstone er greinilega á sama máli.

    > Líkt og svo mörgu öðru hjá klúbbnum??? Punktafjöldi í ár? HVAÐ ERTU AÐ MEINA ÞARNA?

    Ég las það fyrir, að mig minnir, þar síðasta leik að Everton væri nokkrum stigum í töflunni betur sett en á sama tíma í fyrra. Síðan þá hafa einu úrslit Everton verið sigrar. Martinez hefur náð 1.86 stigum per leik hingað til en Moyes náði, á sínum síðustu tímabilum (raðað í öfugri tímaröð): 1.66, 1.47, 1.42, 1.61, 1.66, 1.71, 1.53, 1.32, 1.61. Þessi síðasta tala er, vel að merkja, þegar Everton endaði í Champions League sæti árið 2005. Það var einfaldlega það sem ég var að vísa í.

    > Og ég hef aldrei talað illa um stjórnendur Everton og aldrei sagt að þeir standi sig illa.
    > Ertu virkilega a spyrja mig (og hæðast í leiðinni) að því hvort að ég geti ekki glaðst
    > yfir góðu gengi míns uppáhaldsfélags í ár?

    Ég var alls ekki að hæðast að þér og mér þykir það afskaplega leitt ef þetta er það sem þú last út úr því sem ég skrifaði. Langt í frá ætlunin. Ég var síður en svo að gefa í skyn að þú gleddist ekki yfir góðu gengi liðsins. Það myndi ég aldrei gera; þekki þig persónulega og veit að það væri ekki rétt.

    En látum þessari umræðu lokið. Ég hefði feginn vilja vera alveg laus við hana (frá upphafi) en hún er nú komin út á ákveðnar brautir sem ég held að enginn hafi séð fyrir né ætlað. Samt erum við í grunninn þó sammála enda viljum við öll sjá veg klúbbsins sem mestan, sbr. Nil Satis Nisi Optimium.

    > kannski skrifa ég bara ekkert á næstunni, þarf að hvíla mig á everton.is

    Þetta er það sem stingur mig einna mest því ég hef haft mjög gaman af því að lesa það sem þú skrifar og veit að aðrir gera það líka. Ef einhver ætti að hvíla sig á everton.is þá væri það frekar ég. Ég vona allavega að þú endurskoðir þetta.

  13. Ari S skrifar:

    Sæll Finnur kæri vinur, þetta er vel sagt hjá þér og látum þessari umræðu lokið:) Ég tek það til baka sem ég sagði um að hætta á everton.is … auðvitað var það aldrei ætlunin. Algerlega endurskoðað 🙂

    kær kveðja,

    Ari