Mynd: Everton FC.
Uppstillingin fyrir Swansea leikinn var eftirfarandi: Howard (fyrirliði), Baines, Distin, Stones, Coleman, Mirallas, McCarthy, Barry, McGeady, Barkley, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Alcaraz, Deulofeu, Naismith, Osman, Garbutt og Browning.
Sem sagt, Jagielka enn frá og ungliðinn Stones að leysa hann af þó Alcaraz væri á bekknum. McGeady í byrjunarliðinu, líklega í hans fyrsta skipti.
Swansea byrjuðu leikinn nokkuð líflega, áttu tvö skot að marki en engin hætta, fyrra skotið af mjög löngu færi beint á Howard og hið seinna framhjá.
Það kom í hlut Barkley að fá besta færið í upphafi leiks þegar Coleman sendi flotta fyrirgjöf frá hægri á Barkley, sem hitti boltann illa í ákjósanlegu færi. Hefði átt að gera betur þar.
Hann bætti þó upp fyrir það á 18. mínútu þegar hann var, í miðri skyndisókn, sparkaður niður inni í teig af Chico Flores. Glæfraleg tækling og dómarinn í engum vafa. Víti. Baines öruggur að vanda þó Vorm hafi giskaði á rétt horn; setti boltann inn við vinstri stöng ofarlega.
Everton tók fótinn af bensíngjöfinni við markið og Swansea efldust mjög; höfðu ekki verið hættulegir fram að markinu en tóku nú allt í einu völdin á vellinum og uppskáru mark á 32. mínútu (sending á hægri kant, fyrirgjöf fyrir mark og Bony potaði inn).
Og Swansea voru ekki hættir; náðu að pressa meira á Everton sem virtust hálf ráðþrota og spil okkar manna datt niður. Swansea náðu þó ekki meiru en að banka á dyrnar, en voru þó ekki langt frá mark í einni aukaspyrnu sem breytti um stefnu af öxlinni á McCarthy og boltinn næstum búinn að enda í netinu. Howard var lagður af stað á nærstöngina en boltinn sleikti fjærstöngina. Everton menn stálheppnir.
Swansea héldu áfram að pressa stöðugt fram að lok hálfleiks og maður var mjög feginn að fara í hálfleik með stöðuna 1-1. Hvorugu liðinu tekist að koma boltanum oft á markið en Swansea mun meira með boltann (58%).
Everton byrjaði seinni hálfleik af meiri krafti, settu pressu á Swansea og unnu horn. Distin komst í mjög gott færi í kjölfarið beint fyrir framan markið en skotið beint á Vorm í markinu.
Pressan skilaði þó marki á 52. mínútu þegar Lukaku sendi á Mirallas á hægri kantinn, fékk fyrirgjöfina til baka og Lukaku potaði inn. Eiginlega alveg eins mark og Swansea skoraði. 2-1 fyrir Everton. Og ekki meira en fimm mínútum síðar var Everton búið að bæta við upp úr horni. Einfalt mark, fyrirgjöf fyrir markið og Barkley — óvaldaður — skallaði inn. 3-1 Everton og þetta leit út fyrir að verða auðvelt þar á eftir. En það er ekki það sem Everton er þekkt fyrir.
Bony hjá Swansea átti frábæran skalla á 62. mínútu sem Howard varði glæsilega. Leikurinn alls ekki búinn. Stuttu síðar kom skot frá þeim af hættulegum stað en Howard varði.
Everton svaraði með flottri skyndisókn. Mirallas fékk boltann og tók á sprettinn og virtist ætla að stinga varnarmann Swansea af, komast einn á móti markverði og skora en skot hans varið.
Swansea svaraði með skyndisókn hinum megin en Baines þvældist fyrir boltanum og ekkert varð úr því. Michu komst svo inn fyrir vörnin eftir stungusendingu, en Distin reddaði í horn með frábærri skriðtæklingu.
Tíu mínútum fyrir lok almenns leiktíma átti Howard frábæra markvörslu úr dauðafæri. Swansea menn að eflast aftur.
Barkley og McGeady út af fyrir Osman og Naismith á 83. mínútu.
Swansea menn minnkuðu muninn á 91. mínútu upp úr horni þegar Williams skallaði boltanum í slána og inn. Óverjandi fyrir Howard. Aftur komin spenna í leikinn! Staðan 3-2.
En Everton hélt þetta út og landaði sigrinum. Deulofeu kom inn á fyrir Mirallas og sýndi ágætis takta en breytti ekki gangi leiksins. Lokatölur 3-2 fyrir Everton og sjöundi heimasigurinn í röð í höfn. Jafnframt þriðji sigurinn á Swansea á tímabilinu. Everton fór upp í fimmta sæti við sigurinn, upp fyrir Tottenham sem spila á morgun en Everton á tvo leiki til góða á þá þegar Tottenham klárar leik sinn í umferðinni á morgun.
Einkunnir Sky Sports: Howard 8, Baines 7, Distin 7, Stones 6, Coleman 7, Mirallas 7, Barry 7, McCarthy 6, McGeady 6, Barkley 8 (maður leiks), Lukaku 7. Varamenn Everton fengu ekki nema nokkrar mínútur inni á vellinum og fengu 6 (Deulofeu, Naismith og Osman). Hjá Swansea voru fimm með 6 í einkunn, tveir með 5 og fjórir með 7.
klukkan sýnir 40:40 og Swansea er að sundurspila Everton. Engin neikvæðni en samt því miður staðreynd. Vonandi lagast þetta á eftir? 🙂
Okkar menn ótrúlega meðvitundarlausir í þessum fyrri hálfleik og það fer alltaf um mann þegar þulurinn segir fyrir leik að Swansea hafi aldrei tapað leik þar sem þessi dómari dæmir 🙂 En liðið er hundlélegt og þetta getur ekki annað en batnað í seinni þegar Martinez er búinn að lesa þeim pistilinn 🙂
Sluppum með dapra spilamensku i dag góð 3 stig í hús
Swansea spiluðu vel í dag. Við sluppum með skrekkinn og náðum í þrjú stig. Ef maður tekur jákvætt út úr leiknum þá er Barkley að koma til. Hann var sprækari en hann hefur verið og verður vonandi kominn vel í gang fyrir síðustu leikina í mótinu því við þurfum á honum að halda ef við ætlum að ná 4. sætinu. Lukaku fínn líka og Baines öruggur í vítinu. McCarthy verður orðinn hinn nýi Barry og dominerar deildina eftir þrjú ár. Vonandi með okkur á toppnum.
Þetta lítur alls ekki illa út fyrir okkur í því eftir úrslit dagsins í dag. Kommon, við erum bara búnir að tapa 9 stigum meira en efsta liðið Chelsea og deildin er mjög jöfn. Við verðum samt að spila betur en við gerðum í dag, það er ljóst.
kær kveðja, Ari
Góður sigur en ég var ekki ánægður með spilamennsku Everton í dag en þetta slapp. Voru miklu betri í leiknum gegn Cardiff. Barkley maður leiksins skil samt ekki af hverju Martinez spili aldrei 4-4-2 á móti verri liðunum óþarfi að vera alltaf með 2 djúpa miðjumenn þótt þeir eru báðir góðir. Það mundi skila miklu meiri hraða í sóknarleiknum þetta er mín skoðun og þá gegn verri liðunum.
nú fer að koma tími á sannfærandi 3-0 sigur og greddu í okkar leik.
Sammála öllu hér að ofan.
Þetta slapp fyrir horn en nauðsynlegt að vinna líka þá leiki sem spilast ekki vel. Mjög gott að sjá Barkley ferskan eftir meiðsli en Everton liðið flaug ansi hátt með hann í góðu formi í fyrri hluta tímabils og hans hefur verið sárt saknað í tábrotinu. Þau meiðsli eru vonandi alfarið að baki; hann allavega lofar góðu fyrir framhaldið.
Greining Executioner’s Bong á leiknum er hér:
http://theexecutionersbong.wordpress.com/2014/03/23/tactical-deconstruction-everton-3-2-swansea/
Holl lesning að vanda. 🙂
Sko vörnin var hörmung allan leikinn. Hún skánaði aðeins í seinni hálfleik. En það hafðist. Stones fannst mér vera frekar lélegur í leiknum. Barkley var mjög góður. Og Lukaku hann er allur að koma til. Heildina séð ágætur leikur.
Ég sá ekki leikinn en það er gott að ná í 3 stig í leikjum þar sem liðið er ekki betri aðilinn í. Nú eru komnir 6 sigurleikir í röð á heimavelli sem er frábært en næsti heimaleikur er við Arsenal og væri gott að vinna þá rimmu
Mikið rétt! Ég sagði óvart „sjöundi sigurleikurinn“ hér að ofan en taldi óvart einn bikarleik með. Ef bikarleikir eru taldir með eru þeir átta í röð (sigurleikirnir á heimavelli).