Mynd: Everton FC.
Elvar Örn tók að sér að skrifa pistil um leik Everton gegn United þar sem Finnur var vant við látinn. Elvar hafði þetta um leikinn að segja:
Everton átti ekki sinn besta leik í dag gegn sterku liði Man Utd en margir bjuggust við hálfgerðu varaliði United sem eiga að spila eftir þrjá daga í meistaradeildinni gegn Real Madrid.
Uppstilling Everton var nokkuð hefðbundin en þó varð breyting rétt fyrir leik þar sem Distin var ekki hress og því kom Heitinga í hans stað í vinstri miðvörðinn. Ekki mjög heppileg uppákoma í ljósi þess að frammistaða Heitinga hefur verið mikið gagnrýnd í undanförnum leikjum í hægri miðvarðarstöðunni. Það átti líka eftir að koma á daginn að vörnin var veikari fyrir vikið. Liðið annars skipað Howard, Baines, Jagielka, Heitinga, Neville, Gibson, Osman, Mirallas, Fellaini, Pienaar og Anichebe tekin framfyrir Jelavic í sókninni. Varamenn voru Mucha, Jelavic, Naismith, Oviedo, Hitzlsperger, Stones og Duffy.
United stilltu upp sterku liði eins og áður sagði og var það greinilegt á fyrstu mínútunum þar sem þeir voru mikið snarpari og betri á öllum sviðum og fyrstu 15 mínúturnar voru eign United. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af leiknum komst Van Persie í dauðafæri þar sem hann komst framhjá Howard en skaut í stöng fyrir opnu marki en Neville var full aftarlega sem gerði Persie réttstæðan. Á þrettándu mínútu kom sending á Persie þar sem Heitinga var illa staðsettur og missti hann Persie framhjá sér og Persie sendir boltann á Giggs sem setur boltann létt í hægra hornið, stöngin inn. Satt best að segja afleit byrjun en Everton komst svo betur og betur inn í leikinn og Osman átti flott langskot sem De Gea varði vel í horn. Mirallas átti einnig nokkra góða spretti á hægri kantinum og einn slíkur endaði með sendingu á Anichebe rétt fyrir framan markið en Anichebe náði ekki skoti á markið og Rafael hreinsaði í horn. Möguleikar voru fyrir Everton að jafna en eftir þessar tilraunir þá sendir Rafael stungu á Van Persie en vörn Everton var mjög framarlega nema enn og aftur gleymdi Neville sér í rangstöðulínunni og Van Persie brunar að marki og kemst framhjá Howard og rennir boltanum í markið, þó með viðkomu í Heitinga sem reyndi að verja markið, 2-0 fyrir United í hálfleik.
Everton voru nokkuð sterkir í seinni hálfleik án þess að skapa sér alvöru marktækifæri en Phil Jones hafði haldið Fellaini í gíslingu með góðum árangri. Jelavic var skipt inná fyrir Anichebe á 57 mínútu og Naismith kom inná fyrir Mirallas þegar 70 mínútur voru liðnar og ég hefði viljað sjá Oviedo einnig inná í stað Pienaar en svo varð ekki. Þó Everton væru mikið með boltann var það mikið á eigin vallarhelmingi og varnaleikur United var frábær með Vidic í fararbroddi, maður leiksins að mínu mati en Rafael var einnig gríðarlega öflugur. United áttu t.a.m. tvær stórhættulegar sóknir, en í þeirri fyrri átti Jonny Evans tvær tilraunir með skalla og skoti sem Howard varði frábærlega og Rooney fylgdi reyndar eftir með þriðja skotið á markið á sömu sekúndu sem Jelavic varði nánast við marklínuna. Seinna átti Cleverley frábært skot sem virtist stefna í þverslá og hugsanlega inn en Howard varði aftur meistaralega. Síðla leiks komst Jelavic í flott færi en var ranglega dæmdur rangstæður og niðurstaða var 2-0 United í vil.
Einkunnir leikmanna á skysports.com er Howard 7, Baines 6, Jagielka 6, Heitinga 5, Neville 6, Pienaar 7, Gibson 5, Osman 6, Mirallas 6, Fellaini 5, Anichebe 5 og loks leikmenn sem skipt var inná Jelavic 6, Naismith 5. Hjá United voru 9 leikmenn með 7 í einkunn og Vidic með 8.
Nokkuð sáttur við þessa einkunnargjöf og Howard kom í veg fyrir stærra tap má segja. Mér fannst spurning hvort Neville eigi skilið að fá 6 í einkunn þá sér í lagi fyrir að klikka tvisvar á rangstöðulínu varnarinnar og í bæði skiptin varð úr dauðafæri og annað endaði í stöng en hitt í markinu. Heitinga var slakur og Jagielka þurfti reyndar margoft að fara yfir á vinstri hlutann til að sjá um svæði Heitinga en hann var allt of oft framarlega og seinn aftur. Jagielka á jafnvel meira skilið en 6 fyrir vikið. Pienaar fannst mér slakur en fær hér 7 í einkunn. Óvenju döpur frammistaða hjá Gibson í dag verð ég að segja.
Enn og aftur er Heitinga á vörum manna vegna lélegrar frammistöðu og ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að nú er kominn tími á að Duffy fái að spreyta sig í vörninni ef Distin eða Jagielka eru fjarverandi. Það verður einnig spennandi að sjá hvort að nýi leikmaðurinn John Stones sé tilbúinn í hægri bakvörðinn en það vantar akkúrat meiri hraða í hægri bakvörðinn þá í takt við Baines á þeim vinstri.
Næsti leikur Everton er næsta laugardag í FA bikarnum á útivelli gegn Oldham sem hreinlega verður að vinnast. Síðan mætum við Norwich og Reading í deildinni svo möguleiki ætti að vera á að ná í nokkur stig þar.
Skrifað í fjarveru Finns
Elvar Örn
Getur ekki verið betra. Gaman væri að sjá unga strákinn frá Barnsley í næstu leikjum. Ég er mjög hissa hvað Ferguson stillir upp sterku liði miðað við yfirlýsingar hans í gær að hvíla menn. Stend samt við 3:1 sigur Everton býst við að leikmenn hugsi um leikinn á móti Real Madríl.
Þetta var týpísk tilraun hjá Ferguson til að standa í sálfræðihernaði, efast um að Moyes hafi tekið nokkuð mark á þessu. United vill ekki tapa tækifærinu á að komast í 12 stiga forystu og svo gott sem tryggja sér titilinn.
Fór eins og ég óttaðist red devils mætu með hausinn í lagi en toffees ekki,klassamunur á þessum liðum sást vel í dag.Vantar meiri breidd í hópinn hjá okkur þessar skiptingar í dag breittu eingu slétt eingu nema þá frekar til þess verra,menn voru áhugalausir og vantaði alla baráttu.og því miður getum við með þessum úrslitum hvatt baráttunna um 3 til 4 sætið og meigum vera heppnir ef við náum evrópusæti í vor því miður.
Sammála það besta sem Everton getur vonast eftir er 6-7. sætið og gott gengi í bikarnum. Hugsa reyndar að úr þessu verði það okkar eina von um að komast í Evrópukeppni að vinna bikarinn eða komast í úrslitaleikinn gegn liði sem verður í meistaradeildinni.
Alls ekki sammála með að kveðja Gunnþór. Nú fyrst hefst baráttan. Ef við töpum öllum leikjunum okkar sem eftir eru 2-0 (eins og í dag) þá getum við kvatt 3-4. sætið. En leyfum okkur að vera bjartsýn, það er fullt ef leikjum eftir og við eigum eftir að innbyrða nokkur stig í viðbót……. 😉
verðum þá að vona að tottenham og arsenal tapi töluvert fleiri stigum en við framá vor,er ekki alveg að sjá það en allt getur gerst í þessu Ari,vonum það besta.
Enga svartsýni,stjórnuðum fyrri hálfleiknum.En því miður virðumst við hafa eignast okkar Titus Bramble í vörninni.Góðar stundir.
Þakka Elvari fyrir að leysa mig af með stuttum fyrirvara. Þegar dómarinn flautaði til leiks var ég að leggja við fæðingardeildina með þá von að fjölga Everton aðdáendum í heiminum um einn en bumbubúinn ætlar að láta eftir sér bíða enn um sinn.
Flott skýrsla annars, Elvar!
Heitinga komst í „Alls ekki lið vikunnar“ í sunnudagsmessunni fyrir arfaslaka frammistöðu að sögn þeirra í messunni.
Hvað svartsýni er þetta. Everton var að spila við langbesta lið ensku deildarinnar. Aldrei gefa upp vonina um 4 sætið. Leikur Everton var lélegur í dag og vonandi geta þeir náð sér upp aftur. Mikil mistök að kaupa ekki fleiri leikmenn eða leigjaí janúar mín skoðun.
Mikil mistök að kaupa ekki fleiri leikmenn eða leigjaí janúar mín skoðun.
Alveg sammála þessu Ari.
Everton var ekki að spila sinn besta leik í dag og hefur reyndar ekki verið að spila vel í nokkurn tíma.
Ég vil meina að það sé einfaldlega búið að vera of mikið álag á sömu mönnunum vegna þess hve hópurinn er lítill og það eru alltaf þeir sömu sem þurfa að spila hvern einasta leik.
Mér hefur sýnst það í síðustu leikjum að menn séu hreinlega búnir á því.
Það er ekki lengur sami léttleiki og barátta í liðinu og var í byrjun tímabilsins.
Hefðum við nú fengið 2 eða 3 nýja menn í janúarglugganum litu hlutirnir kannski betur út en af því að það var ekki gert þá er ég ansi hræddur um að allir draumar um Evrópu séu úr sögunni. Þar að auki eru Spurs núna 6 stigum á undan okkur og virðast ekki vera á leiðinni að tapa stigum, sama má segja um Chelsea og Arsenal og við eigum eftir að mæta öllum þessum liðum á útivelli.
Get því miður ekki séð að við séum að fara á White Hart Lane, Stamford Bridge eða The Emirates og sækja 3 stig í þessum leikjum.
Hvers vegna liðið var ekki styrkt í janúar geta menn svo rökrætt sín á milli, held að þeir sem hafa fylgst með á þessari síðu viti amk mína skoðun á því.
Manni finnst pínu eins og það sé kominn þreyta í suma leikmenn. Ekkert skrítið svosem, þar sem þetta eru sömu gæjar sem hafa spilað 90 mínútur frá því í ágúst, í hverri viku. Þori að fullyrða að þarna fór Champions League sætið fyrir fullt og allt. Það kæmi mér ekki á óvart ef við endum í 7 sæti og Liverpool fari upp fyrir okkur.
Hvað Stones og Duffy varðar, þá held ég að menn geti gleymt því að fá að sjá þá. Duffy mun ekki fá að spila nema það sé algjörlega nauðsynlegt, líkt og í fyrra. Moyes virðist ekki finnast Stones tilbúinn, en hann hefur talað um hann sé fyrir framtíðina og hann verði mögulega lánaður aftur til Barnsley.
Eina jákvæða úr þessum leik í dag var að sjá hvað Phil Jagielka var sterkur í miðverðinum og hvað Howard virðist vera búinn að finna sitt gamla form. Þá var Mirallas mjög sprækur og ógnaði í hvert skipti sem hann fékk boltann. Jelavic leit vel út þegar hann kom inná, en fyrir utan það var þetta dæmigerð „Old Trafford frammistaða“ frá þeim bláu.
Baráttan um efstu sætin fjögur lítur ekki vel út fyrir Everton eftir þennan leik en gleymum því ekki að United er með 12-0-1 árangur á heimavelli og hefur skorað 62 mörk í 26 leikum á tímabilinu (2,4 mörk á leik!). Nefnt var fyrir leikinn að þeir hefðu aldrei verið jafn fljótir að ná svona mörgum stigum svona snemma á tímabilinu. Það er því kannski ekki skrýtið að lið komi hálf vængbrotið frá leik gegn United á þessu tímabili, sérstaklega á Old Trafford. Everton vann þó allavega United á heimavelli á meðan flest lið eru að horfa upp á það að tapa báðum leikjum sínum á tímabilinu (aðeins einu öðru liði en Everton hefur tekist að sigra United á eigin heimavelli á tímabilinu). En það er vissulega erfitt prógram framundan og október-nóvember mánuður gætu, þegar uppi er staðið, hafa reynst okkur mjög dýrkeyptir. Ég sé miklu meira eftir hverju stigi úr þeim leikjum en stigunum þremur í þessum leik.
Executioner’s Bong með greiningu sína á leiknum:
http://theexecutionersbong.wordpress.com/2013/02/11/9-point-tactical-deconstruction-on-man-utd-2-0-everton/
Núna rétt í þessu var litla liðið í Everton borg, nei ekki Tranmere heldur Liverpool, að tapa fyrir WBA.
Everton situr fyrir vikið öruggt í 6 sæti deildarinnar með 5 stiga forskot á Swansea og WBA.
Fyrir ofan okkur er aðeins 2 stig í Arsenal og 6 stig í Tottenham og 7 stig í Chelsea sem er í þriðja sæti.
Það eru 12 leikir eftir sem geta gefið allt að 36 stig og Everton á eftir að leika við öll þessi lið fyrir ofan okkur. Þessi lið eiga einnig erfiða leiki eftir, þ.m.t. innbyrgðis leiki, og MUNU tapa stigum svo ég bara verð að segja að allt getur gerst.
Ekki má gleyma því að við náðum þremur stigum gegn Man Utd á leiktíðinni (sigur og tap), eitthvað sem ekki öll lið í kringum okkur leika eftir.
Ég vona að eftir nokkrar umferðir geti ég skrifað hér pistil með innihaldinu I TOLD YOU SO og satt best að segja er það ekki svo fráleitt.
Ég tel að við eigum rosalega mikinn séns á evrópusæti og þokkalega möguleika á meistaradeildarsæti og get bara ekki verið sammála um að sá möguleiki sé úti.
Everton hefur í vetur spilað einn sá allra besta bolta sem liðið hefur spilað til fjölda ára en ég er sammála því að eftir áramót hefur spilið ekki verið eins gott og ekki alveg sami kraftur í liðinu. Everton hefur hinsvegar alltaf spilað betur með hækkandi sól og vori og ég vona að svo verði einnig nú.
Svo erum við að fara að vinna þennan helv…. FA bikar í ár.
Áfram Everton
Flottur Elvar verum bjartsýnir á gengi okkar manna C.O.Y.B.
Alltaf gaman að lesa kommentin frá Elvari og ekki bregst hann í þetta sinn, frekar en venjulega. 🙂
Algerlega sammála, þetta er flott hjá þér Elvar 🙂
Vona svo sannarlega að þú hafir rétt fyrir þér Elvar.
Það er mikill munur á að vera bjartsýnn og svo að vera raunsær,en Elvar ég segi eins og Ingvar , vona svo sannarlega að þú hafir rétt fyrir þér.Svo að lokum Elvar eins og ég er búinn að segja þér svo oft gamli að þetta er taktík að vera svartsýnn því að þrjátíu ára reynsla mín af því að vera everton aðdáandi boðar aldrei gott ef ég verð bjartsýnn. ÁFRAM EVERTON.
Raunsær maður miðar við það sem er núna. Sem þýðir að þar sem að við fáum alltaf fleiri stig eftir áramót eigum við bjarta tíma framundan. Höfum alltaf (á undanförnum árum verið betri eftir áramótin. Nýttur þér þá raunsæina Gunnþór g vertu bjartsýnnn 😉 kær kveðja, Ari.
ÁFRAM EVERTON.
Án hóflegrar bjartsýni komast menn ekkert áfram.Ég segji eins og Ari verum bjartsýn á gengi okkar manna það sem eftir lifir af tímabilinu sem vonandi skilar okkur 4 sætinu.
verðum líka að passa okkur að fá ekki Liverpool cyndromið inn á þessa síðu , og tala bara um leikinna eins og þeir spilast og ekki taka pollyönnu leikinn endalaust hann er góður með líka. að lokum hlakka til að hitta Everton menn í suðri með vorinnu yfir einum leik og einum eða tveimur ölllllll.ÁFRAM EVERTON
Alan Stubbs telur að John Stones eigi fullt erindi í aðalliðið áður en langt um líður. Það eru góðar fréttir tel ég.
Nú er Barkley kominn til baka og um að gera að leyfa honum að spila gegn Oldham um helgina.
Er ekki kominn tími á að gefa Fellaini og Osman smá pásu, þ.e. ekki byrja með þá báða, það er klárlega þreyta í þeim en bikarleikur er svosem alltaf bikarleikur.
Finnur má skella nýjum þræði fyrir spjall um bikarleik helgarinnar.
Gjörðu svo vel, Elvar.
http://everton.is/?p=3937
🙂
Tim Howard var valinn leikmaður mánaðarins hjá Everton.
Hann er vel að því kominn enda verið að spila fantavel eftir áramót, vonum bara að restin af liðinu fylgi þessu formi hans betur eftir.
Verðum nú að rúlla yfir þetta Oldham lið á laugardag takk fyrir.