Mynd: Everton FC.
15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar er brostin á og í þetta skiptið koma Sean Dyche og hans menn í heimsókn á Hill Dickinson leikvanginn í fyrsta skipti. Dyche hefur tekist að snúa gengi Forest við, en þeir voru í fallsæti eftir átta umferðir og höfðu aðeins náð í 1 stig af sínum síðustu 6 leikjum. Þetta snarbreyttist með komu Dyche, en undir hans stjórn hafa þeir náð að vinna sig upp úr fallsæti og hafa núna unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Garner, Alcaraz, Grealish, Dewsbury-Hall, Ndiaye, Barry.
Varamenn: Travers, King, Aznou, Campbell, Patterson, McNeil, Dibling, Beto.
Liðið velur sig eiginlega sjálft, eins og stundum er sagt, því Gana og Iroegbunam eru báðir í leikbanni fyrir þennan leik — Gana á eins leiks bann eftir af rauða spjaldinu og Iroegbunam fékk sitt fimmta gula spjald á tímabilinu í síðasta leik, þannig að hann fór einnig í eins leikja bann. Að auki eru Branthwaite, Merlin Rohl, Nathan Patterson og Seamus Coleman eru allir frá vegna meiðsla.
Það verða því Garner og Dewsbury-Hall sem verða á miðsvæðinu og Barry sem leiðir línuna, en Alcaraz fyrir aftan hann.
Forest menn voru í gjafastuði í upphafi leiks og skölluðu boltann í eigið net eftir fyrirgjöf frá Dewsbury-Hall eftir aðeins 80 sekúndur! 1-0 fyrir Everton!! Að auki hafði hægri bakvörður þeirra nælt sér í gult spjald eftir 20 sekúndur
Forest reyndu að svara á 13. mínútu með skalla en boltinn ekki á rammann. Lítil hætta — og sýndist þeir brjóta á O’Brien í þokkabót.
Dewsburry-Hall átti svo fínt skot stuttu síðar en varið og skot frá Ndiaye á 27. mínútu innan teigs sömuleiðis – VAR skoðaði tvö atvik þar sem boltinn fór í hendina á leikmanni Forest, en það var metið saklaust.
Ekki mikið markvert sem gerðist fram að lokum fyrri hálfleiks. Forest áttu slakt skot í lokin, auðvelt fyrir Pickford. En Everton komst í skyndisókn við lok uppbótartíma, komust þrír á einn þar sem Ndiaye var með boltann og hafði bæði Barry og Alcaraz sér til aðstoðar. Sendi til vinstri á Barry, sem skoraði loksins sitt fyrsta mark í úrvalsdeildinni! Þvílíkur léttir!
Everton með 2-0 forystu í hálfleik!!
Forest menn fengu ágætt skallafæri á 57. mínútu, en vörn Everton vandanum vaxin.
Beto kom svo inn á fyrir Barry á 62. mínútu.
Forest menn fengu dauðafæri á 66. mínútu þegar hár bolti barst inn í teig. Pickford var með mann í sér og þurfti að slá boltann út í teig, en sló boltann í Tarkowski. Boltinn barst af honum til sóknarmanns Forest og Tarkowski náði að bjarga Everton með því að verja á línu.
McNeil inn á fyrir Alcaraz á 73. mínútu. Dewsbury-Hall með skot í utanverða stöng, skömmu síðar. Ndiaye með flott fast skot sem markvörður Forest varði í horn.
Þriðja mark Everton kom á 80. mínútu og þar var Dewsbury-Hall að verki. Stökk til á lausan bolta eftir horn, innan teigs, og þrumaði í hliðarnetið! 3-0 fyrir Everton!
Dibling inn á fyrir Grealish á 85. mínútu. Stuttu síðar bjó McNeil til flott skotfæri fyrir Beto, en skallinn framhjá marki.
Forest menn hálf vonlausir og lánlausir í lokin, og 3-0 sigur Everton verðskuldaður. Meira svona.
Einkunnir Sky Sports ekki komnar, uppfæri síðar.
Uppfært einum og hálfum degi síðar: Einkunnirnar enn ekki komnar og því ekki víst að þeir ætli að birta einkunnir fyrir leikinn. Kíki aftur síðar.


3-0 Héldum hreinu, Barry skoraði, hvað er hægt að biðja um meira 🙂
Frábær leikur hjá Everton. Voru miklu betri. Dewsbury-Hall maður leiksins 2 mörk eitt stangarskot. Ótrúleg barátta og loksins skoraði Barry orðinn skárri og duglegur. Til hamingju Everton menn.
Það er hollt að rifja upp að Everton var tveimur stigum frá fallsæti þegar Moyes tók við (11. janúar 2025) en í kvöld situr liðið í 5. sæti í deild eftir 15. leik tímabilsins — og fjórða sigurinn í síðustu fimm leikjum.
Frábært að ná þessum 3 stigum. Þetta lítur miklum betur út því í fyrra þegar Moyes tók við í janúar vorum við með 17 stig, nú ættum við að geta verið komin með 30 stig um áramót ef vel gengur. Stórkostlegt að Barry skyldi loks skora.
Dewsbury-Hall í liði vikunnar að mati BBC:
https://www.bbc.com/sport/football/articles/c4gvqr09rqro?at_medium=RSS&at_campaign=rss