Bournemouth – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Næst á dagskrá er útileikur gegn Bournemouth í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og það er eins gott að síðasti tapleikur (gegn Newcastle) hafi kippt mönnum aftur niður á jörðina eftir frækinn sigur gegn United, á útivelli og manni færri (lungað úr leiknum). Maður vill allavega fá gott svar við frammistöðunni í síðasta leik.

Bournemouth menn voru á fínni siglingu á tímabilinu og litu út fyrir að ætla að blanda sér í baráttuna um Englandsmeistaratitilinn, eftir 5 sigra, þrjú jafntefli og aðeins einn tapleik í sínum fyrstu níu leikjum, en þeir voru þá í öðru sæti á eftir Arsenal. En svo kom nóvember og formið hjá þeim tók algjöra dýfu: Enginn sigur, eitt jafntefli (á heimavelli gegn West Ham, af öllum liðum) og þrjú töp, þar af eitt 4-0. Taphrinuna má vissulega að hluta til útskýra með því að þeir mættu andstæðingum í góðu formi (City, Aston Villa og Sunderland) en þeir hafa einnig verið að glíma við meiðsli. Þeir eru með þrjá á meiðslalistanum fyrir leikinn í kvöld, þá Ryan Christie, Ben Doak, og Akinmboni en þrír leikmenn þeirra verða ekki með gegn Everton í kvöld þar sem þeir enduðu í leikbanni vegna spjalda sem þeir fengu í uppbótartíma í seinni hálfleik (!). Lewis Cook fékk beint rautt spjald (á 96 mínútu!) og bæði David Brooks (á 93. mínútu) og Marcos Senesi (á 91. mínútu) fengu gult og fóru þar með í eins leiks banns vegna uppsafnaðra spjalda. Við grátum það ekki.

Þetta gæti því verið fullkominn tími til að mæta þeim, en þess ber að geta einnig að tölfræðin gegn Bournemouth er ekkert sérstaklega hliðholl Everton: tap í síðustu 6 af 8 úrvalsdeildarleikjum gegn þeim. Kominn tími til að stokka það upp.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Garner, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Iroegbunam, Alcaraz, Grealish, Dewsbury-Hall, Ndiaye, Barry.

Varamenn: Travers, King, Welch, Campbell, Aznou, Patterson, McNeil, Dibling, Beto.

Töluverð breyting á hópnum frá síðasta leik. Keane hvergi sjáanlegur í hópnum þannig að líklega fer Garner í bakvörðinn aftur og O’Brien í miðvörðinn. Alcaraz kemur einnig inn í byrjunarliðið og verður líklega við hlið Iroegbunam. Barry leiðir línua áfram en það er erfitt að horfa á bekkinn. Tveir markverðir, tveir kjúklingar og hægri bakvörður — aðeins McNeil, Dibling, og Beto til að leysa af þá í framlínunni.

En þá að leiknum..

Fyrri hálfleikur hundleiðinlegur, ef maður á að vera alveg hreinskilinn. Ekkert að frétta í leiknum fyrstu 22. mínúturnar en Everton líklegri, með fjórar tilraunir á mark — samt ekkert á rammann. Bornemouth hingað vegar með enga tilraun á mark. Varla hægt að sjá að þeir væru á heimavelli.

En svo náðu þeir skoti á markið, reyndar eftir að hafa brotið á Tarkowski utan teigs, en Pickford vandanum vaxinn.

Garner var líklega líklegastur til að skora í hálfleiknum, og það var beint úr hornspyrnu á 42. mínútum, en markvörður Bournemouth rétt náði að slá boltann frá marki.

Bornemouth náðu reyndar að koma boltanum í netið rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, en markið dæmt af vegna augljósar rangstöðu.

0-0 í hálfleik.

Barry fékk fínt færi á 55. mínútu eftir skyndisókn, komst einn inn fyrir en skotið varið af markverði.

En svo dó þetta svolítið aftur og ekkert að gerast fyrr en á 78. mínútu, þegar Grealish náði skoti á mark, rétt utan teigs. Boltinn fór í varnarmann Bournemouth og þaðan í markið hægra megin alveg út við stöng.

Everton komið yfir í leiknum, 0-1! Barry og Alcaraz var svo skipt út af fyrir Beto og McNeil strax í kjölfarið.

Markið færði smá aukinn kraft í sóknarleikinn hjá Everton og stuttu síðar náði Ndiaye flottu skoti á mark en varið.

Ekkert að frétta eftir það, sem við grátum ekki.

1-0 sigur Everton staðreynd. Ekki áferðafallegasti eða skemmtilegasti boltinn sem maður hefur séð, en hann var allavega áhrifaríkari en það sem Bournemouth buðu upp á á heimavelli.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Garner (6), Tarkowski (6), O’Brien (6), Mykolenko (6), Alcaraz (6), Iroegbunam (7), Ndiaye (), Dewsbury-Hall (6), Grealish (7), Barry (4). Varamenn: Beto (6), McNeil (6).

Maður leiksins að mati Sky var Jack Grealish.

4 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hvað er betra eftir háðung á heimavelli en að eiga leik örfáum dögum síðar, og geta þá mögulega komist aftur á rétta braut……nema að það sé útileikur gegn helvítis Bournemouth á litla hryllingvellinum þeirra.
    Ég held að eitt stig sé það besta sem við getum vonast eftir, en jafnvel það er hæpið.
    Svona í ljósi þess hvernig Everton hefur gengið á þessum velli þá spái ég 3-1 tapi.

  2. Eirikur skrifar:

    Gott að ná í 3 stig í kvöld gegn hálf bitlausu liði Bourmouth.
    Ekki að Everton hafi verið öflugir með Barry frammi. Ná svo í 3 stig um helgina og þá eru allir sáttir.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ja hérna hér!! Þetta var ánægjulegt og mjög, mjög óvænt.

  4. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Þrír sigrar í fjórum leikjum… það er hægt að sætta sig við það.

Leave a Reply to Ingvar Bæringsson