Everton – Crystal Palace 2-1

Mynd: Everton FC.

Þá var komið að 7. umferð ensku úrvalsdeildarinnar en Everton átti heimaleik á móti Crystal Palace. Þetta var verðugt verkefni, enda voru Palace menn eina taplausa liðið í deild á tímabilinu, og náði sú hrina ennþá lengra aftur í tímann — 19 leiki samtals ef síðasta tímabil er meðtekið. Frá því að Everton vann Palace í febrúar, á síðasta tímabili, höfðu þeir aðeins tapað tveimur deildarleikjum (gegn Newcastle og Man City) — þangað til í dag, það er að segja.

Stór áfangi hjá Pickford í dag, en þetta var 300. leikur hans fyrir Everton!

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Grealish, Ndiaye, Dibling, Barry.

Varamenn: Travers, King, Aznou, Coleman, Patterson, Iroegbunam, Alcaraz, McNeil, Beto.

Branthwaite og Rohl báðir meiddir og hvorugur var farinn að æfa á grasi, að sögn Moyes, sem þýðir að það er enn nokkuð í að við sjáum þá í liðinu. Dewsbury-Hall var í leikbanni í þessum leik, vegna fimm gulra spjalda sem hann fékk í fyrstu í 6 leikjum tímabilsins (!), en PGOL hefur viðurkennt að tvö síðustu spjöldin hafi verið dómaramistök. Það gefur tækifæri fyrir Dibling, sem fær að byrja leikinn, og eigum við ekki að skjóta á að Ndiaye taki þá stöðu Dewsbury-Hall í holunni (frekar en Grealish)? Að öðru leyti er þetta okkar hefðbundna 4-2-3-1 uppstilling.

Palace menn byrjuðu leikinn betur, komust í sókn, settu pressu á vörn Everton og uppskáru horn. Boltinn barst svo til manns við D-ið sem náði skoti, sem Pickford náði að verja vel með því að slá boltann til hliðar. Greinilega fullt af sjálfstrausti í þessu Palace liði, skiljanlega. Þulirnir höfðu á orði að Palace væri besta liðið sem hefði komið í heimsókn á Hill Dickinson leikvanginn hingað til.

Everton hins vegar með fyrsta færið á 9. mínútu þegar Grealish komst í skotfæri innan teigs en þó skotið væri fast var það lágt og of nálægt Henderson í marki Palace. Mykolenko átti næsta skot á mark Palace, á 17. mínútu, en setti boltann yfir mark af mjög löngu færi. Engin hætta.

Crystal Palace komust hins vegar í dauðafæri á 19. mínútu, eftir langt innkast í teig Everton. Boltinn datt fyrir Guehi sem náði skoti af stuttu færi, sem varnarmaður náði að setja fótinn fyrir, og þar með taka kraftinn úr skotinu. En Pickford þurfti samt að hafa sig allan við að slá boltann frá, sem hann og gerði.

Palace áttu skot á 27. mínútu sem Pickford gerði vel að verja í horn. Hinum megin átti Dibling skot innan teigs hægra megin á 30. mínútu en beint á markvörð Palace. Á einhverjum tímapunkti áttu þeir líka skot í utanverða stöng og út af.

Garner skapaði hins vegar dauðafæri fyrir Barry á 35. mínútu þegar hann sendi frá vinstri fyrir mark og á fjærstöng. Guehi var röngu megin við Barry og náði ekki til boltans, en Barry var óheppinn að ná ekki að slengja fæti í boltann af stuttu færi. Þar hefði hann átt að skora, en hann var búinn að eiga afleitan fyrri hálfleik og þetta var því bara eftir því. Heppnin með Crystal Palace þar.

Og þeir náttúrulega komust í skyndisókn örskömmu síðar, þrír á tvo varnarmenn og það endaði á því að Munoz fékk boltann á auðum sjó hægra megin í teig og skoraði inn við fjærstöng. 0-1 fyrir Crystal Palace og líklega verðskuldað, verður maður að viðurkenna.

Þannig var staðan í hálfleik.

Beto og Alcaraz komu inn á í hálfleik fyrir Dibling og Barry og Alcaraz fór þar með í holuna, þar sem Ndiaye var — en hann var færður á hægri kant. Beto fór í framlínuna, eins og við var að búast.

Þetta setti kraft í sóknarleik Everton. Allt annað að sjá til liðsins, sem setti góða pressu á lið Palace og náðu í byrjun hálfleiks skalla á mark, sem Henderson réði illa við og missti frá sér. 

En alltaf þegar Everton ógnaði, virtist það skapa færi fyrir Palace strax í kjölfarið. Og á 60. mínútu komust Palace menn í gegnum vörn Everton og Mateta komst einn á móti Pickford. Pickford náði að loka markinu vel þannig að nánast eini séns fyrir Mateta að skora var að lyfta boltanum yfir Pickford, sem hann gerði, en O’Brien var aftasti maður og náði að skalla frá á marklínu, eða svo gott sem. Hélt okkur inni í leiknum.

Everton svaraði með þungri sókn á 63. mínútu sem endaði með tveimur skotum frá Keane utan teigs.

Palace menn fóru svo mjög illa að ráði sínu strax í næstu sókn, þegar sóknarmaður þeirra (Sarr líklega?) komst næstum því framhjá Pickford vinstra megin í teig, en Pickford náði að loka á hann aftur. Boltinn barst hins vegar til hliðar inn í teig, þar sem Mateta var á fjærstöng, og þurfti bara að renna boltanum framhjá öðrum af tveimur varnarmönnum Everton — en renndi boltanum bara í staðinn framhjá markinu! Takk fyrir það!

Iroegbunam kom inn á fyrir Keane strax þar á eftir, líklega vegna meiðsla — en það var högg að missa Keane af velli, þar sem hann var líklega búinn að vera besti maður Everton í leiknum fram að því. Garner þar með settur í hægri bakvörðinn og O’Brien tók stöðu Keane í miðverðinum.

Alcaraz átti svo frábært skot innan teigs vinstra megin á 65. mínútu, upp í samskeytin við nærstöng, en Henderson varði glæsilega.

Á 74. mínútu fékk Everton hins vegar víti, þegar Iroegbunam var felldur inni í teig, eftir að hafa komist í gegn. Ndiaye fór á punktinn og setti boltann örugglega í vinstra hornið niðri. Henderson giskaði á vitlaust horn og staðan því orðin 1-1! Eftir þetta var sem allur vindur væri úr Palace, sem áttu held ég ekki færi það sem eftir lifði leiks — allavega ekkert sem var þess virði að nefna.

Grealish átti hins vegar skot á 80. mínútu frá vinstri inni í teig, en Henderson varði.

Átta mínútum var bætt við og það hentaði Everton, því að Palace menn ferðuðust til Póllands til að spila í Evrópukeppninni á fimmtudaginn. 

Jöfnunarmark Everton kom svo á 93. mínútu, eftir að Ndiaye náði flottri hárri sendingu fyrir mark, beint á Beto sem kom á þvílíka fluginu í átt að marki og náði að stanga boltann. Var óheppinn að skora ekki, því Henderson rétt náði að verja með öðrum fætinum. Boltinn var svo laus inni í teig þar sem Munoz, varnarmaður Palace, reyndi hreinsun, en Grealish setti löppina fyrir og náði að stýra boltanum í netið. Everton þar með komið yfir í leiknum, 2-1!!

Palace menn voru heppnir að missa ekki mann af velli á 96. mínútu þegar leikmaður þeirra gekk rólega framhjá Tarkowski og sló hann í magann. Leikmaður annars liðs hefði látið sig detta með þvílíkum leikaraskap og vælt út rautt spjald, en ekki Tarkowski.

Palace menn reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna, en tankurinn hjá þeim var orðinn tómur. 

2-1 sigur Everton því staðreynd, sem þýðir að Everton er fyrsta liðið í 20 tilraunum sem tekst að vinna Crystal Palace. Önnur Everton lyfti sér þar með upp í 7. sæti deildar.

Einkunnir Sky Sports: Everton: Pickford (8), O’Brien (7), Tarkowski (7), Keane (7), Mykolenko (7), Gueye (7), Garner (7), Ndiaye (7), Dibling (5), Grealish (8), Barry (4). Varamenn: Beto (7), Alcaraz (7).

Maður leiksins að mati Sky Sports: Jack Grealish.

7 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    cp taplausir í 19 og í evrópu í vikunni, moyes hin varfærni ræðsr örugglega ekki til atlögu fyrr en hann lendir yndir

  2. Eirikur skrifar:

    Hversu lélegur er Barry, shitt hver sér eitthvað í þessum spóalegg.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Við töpum þessu 0-3.

  4. Diddi skrifar:

    orðið á götunni segir að Barry hafi verið skátaður af Stevie Wonder

    • Eirikur skrifar:

      Því skal ég trúa 😁 Barry og Dibling eiga langt í land.
      Enn geggjað að koma til baka og sækja 3 stig.
      Alcaraz kom með mikinn kraft og í raun allir varamenn í dag
      Gott hjá Moyes að gera skiptingar strax í hálfleik.

  5. Finnur Thorarinsson skrifar:

    „I never felt more like singing the blues…“

  6. Albert Gunnlaugsson skrifar:

    Alveg ótrúlegt hvað markverðir verja mikið í dag! Hefðum tapað þessum leik ef Pickford hefði ekki varið svona vel. Töpum oftast svona leikjum vegna þess að það er svo ERFITT að koma boltanum yfir marklínuna LOL. Bar mjög gaman að horfa á OKKAR menn og vonandi gengur þetta svona áfram. Varamenn: Beto (7), Alcaraz (7). voru mjög góðir og tel að innáskipting þeirra hafi skapað sigurinn, því C Palace er með gott lið!

Leave a Reply to Finnur Thorarinsson