Everton – Aston Villa 0-0

Mynd: Everton FC.

Everton tók á móti Aston Villa á Hill Dickinson leikvanginum í fjórða umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Skýrslan barst seint þar sem ritari var í sveitinni og þurfti að styðjast við upptöku af síðu Everton, sem fór ekki í loftið fyrr en morguninn eftir leik.

Uppstillingin: Pickford, Garner, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Iroegbunam, Grealish, Dewsbury-Hall, Ndiaye, Beto.

Varamenn: Travers, Aznou, Patterson, Coleman, Alcaraz, Röhl, McNeil, Dibling, Barry.

Garner í vinstri bakverði í fjarveru Mykolenko, en restin af uppstillingunni var eftir bókinni.

Beto átti fyrsta færi leiksins eftir að Ndiaye fann hann í teignum en Beto náði ekki góðu skoti og boltinn fór vel framhjá marki.

Everton setti góða pressu á vörn Villa á 15. mínútu og tveir leikmenn Everton náðu skoti á mark, fyrst Beto (en varnarmaður náði að blokkera skotið) svo Grealish sem náði betra skoti, sem mér sýndist breyta um stefnu af varnarmanni Villa en markvörður Villa náði að verja vel, þrátt fyrir það.

Villa menn buðu upp á lítið annað en vitlaus innköst og það tók þá 23 mínútur að ná fyrstu tilraun á mark. Sú tilraun var alveg frá miðjuhringnum, innan vallarhelmings Everton, þegar miðjumaður þeirra fékk boltann um það leyti sem Pickford var kominn vel út úr teig, en skotið frá honum rataði ekki á markið. En þáttur Villa fór vaxandi eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn, þrátt fyrir að þeim tækist ekki að skapa sér almennileg færi.

0-0 í hálfleik.

Beto fékk hálfgert dauðafæri strax í upphafi seinni hálfleiks, þegar Garner fann hann inni í teig með flottri sendingu. Beto var með varnarmann í bakinu en hefði bara þurft smá snertingu til að setja boltann öðru hvoru megin framhjá Martinez, í markinu, en Beto náði því miður ekki að snerta boltann.

Villa menn brunuðu strax í sókn og náðu skoti af löngu færi, sem breytti um stefnu af Tarkowski, og sá bolti hefði getað endað hvar sem er, en sem betur fer fór boltinn rétt framhjá stönginni ofarlega vinstra megin, frá þeim séð.

Uppgangur Villa í leiknum hélt áfram og þeir náðu undirtökum á miðsvæðinu í seinni hálfleik, án þess þó að skapa neitt fram á við. Everton náði hins vegar nokkrum skotum á mark í sömu sókninni á 62. mínútu, sem Villa mönnum tókst alltaf einhvern veginn að kasta sér fyrir eða blokkera og á endanum fór boltinn í horn (sem ekkert kom úr). 

Iroegbuna fór út af fyrir nýja mann Everton, Merlin Röhl, á 66. mínútu, við mikinn fögnuð áhorfenda.

Jack Grealish var næstum búinn að bæta enn einni stoðsendingu í safnið á tímabilinu á 71. mínútu, þegar hann sendi geggjaðan háan bolta inn í teig, beint á pönnuna á Michael Keane, sem náði frábærum skalla á mark alveg upp við slána. En Martinez náði rétt svo að verja hann í horn.

Barry kom svo inn á fyrir Beto á 74. mínútu.

Everton komst í frábært færi á 87. mínútu þegar þeir náðu að stela boltanum af Villa mönnum á miðsvæðinu og bruna í skyndisókn með Barry fremstan. Hann komst í skotfæri inni í teig en Mings náði að hlaupa hann uppi og hreinsa í horn.

Grealish náði annarri frábærri hárri sendingu á kollinn á Keane á 91. mínútu, og Keane (sem var á auðum sjó inni í vítateig) skallaði rétt framhjá stönginni. Villa menn heppnir aftur þar.

Þetta reyndist síðasta færið í leiknum. Manni fannst Everton líklegra liðið til að skora í lokin — og reyndar í öllum leiknum, enda með betri færi en Villa menn. En þetta small ekki og Villa menn eru þar með fyrsta liðið, í þremur tilraunum, sem fer frá Hill Dickinson leikvellinum með svo mikið sem eitt stig. Everton hefur haldið hreinu í öllum fjórum leikjum sínum þar, til þessa.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (6), Keane (7), Tarkowski (7), Garner (7), Gana (6), Iroegbunam (7), Ndiaye (8), Dewsbury-Hall (6), Grealish (8), Beto (5). Varamenn: Rohl (6), Barry (6).

Aðeins Martinez, markvörður Villa, stóð upp úr meðalmennskunni hjá þeim (þrír af leikmönnum þeirra voru með 5 í einkunn, og fimm leikmenn með 6) en Martinez var valinn maður leiksins.

4 Athugasemdir

  1. Eirikur skrifar:

    Erfitt að vera með center þar sem hugur og hönd(fótur í þessu tilfelli) virkar ekki 😞 Hef áhyggjur af þessu leik, virkum ekki alveg on.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Grautfúlt að hafa ekki náð sigri úr þessum leik, við vorum mun betri, Villa skapaði sér ekki einu sinni hálffæri. Mér fannst að Barry hefði mátt koma fyrr inn á, Beto var ekki að eiga góðan dag.

  3. Þorri skrifar:

    Sælir félagar á maður von á Everton mönnum á Ölver á morgun

  4. Þorri skrifar:

    Á Everton Liverpool

Leave a Reply to Þorri