Wolves – Everton 2-3

Mynd: Everton FC.

Þá var komið að þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar en Everton mætti í þetta skiptið í heimsókn til Úlfanna. Úlfarnir voru stigalausir í deild, næst-neðstir eftir tap í fyrstu tveimur umferðunum, gegn Bournemouth í leiknum á undan og 0-4 tap á heimavelli gegn Manchester City í upphafsleiknum. Everton var í áttunda sæti deildar með þrjú stig.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Grealish, Dewsbury-Hall, Ndiaye, Beto.

Varamenn: Travers, McNeil, Barry, Dibling, Coleman, Alcaraz, Iroegbunam, Armstrong, Onyango.

Wolves menn voru nokkuð mikið með boltann fyrstu mínúturnar, en eins og einhver benti á, komust þeir varla út úr eigin vallarhelmingi, þangað til á 3. mínútu þegar þeir fengu fyrstu sókn sína og reyndu langskot utan teigs, en engin hætta. Auðvelt fyrir Pickford.

Eftir það tók Everton stjórnina á leiknum og setti góða pressu á vörn Wolves og uppskáru mark á 7. mínútu. Ndiaye kom af kantinum vinstra megin, hljóp þvert á markið við vítateigsjaðarinn en mætti þar varnarmúr. Fann hins vegar Mykolenko meira miðsvæðis utan teigs, og hann sendi háan bolta fyrir teig, beint á Grealish sem var vinstra megin við markið og hann þvert á markið, beint á Beto, sem skoraði.  Staðan orðin 0-1 fyrir Everton og algjör óskabyrjun á leiknum!

Everton tók aðeins fótinn af bensíngjöfinni við þetta en það var ekkert að frétta hjá Wolves í kjölfarið en þeim gekk illa að ná bara saman þremur sendingum, sem gerði það að verkum að þeirra eigin áhorfendur á heimavelli voru að snúast gegn þeim.

Beto komst á 19. mínútu í færi einn á móti markverði eftir flott hlaup fram en Bueno varnarmaður Wolves hékk svolítið í honum (án þess að brjóta) og gerði mjög vel með því að ná að hreinsa áður en Beto náði skoti. Þurfti að vera rétt tímasett, því annars hefði þetta getað endað með víti.

En á 21. mínútu náðu Wolves að jafna og það mark var gegn gangi leiksins og kom upp úr engu. Everton hafði haft góð tök á leiknum fram að því, en svo komust Wolves í sína fyrstu almennilegu sókn og það var einn langur bolti, djúpt upp hægri kantinn. Þeir náðu sendingu í fyrstu snertingu, nánast alveg frá hliðarlínu og inn í teig og beint á Hwang Hee-Chan sem kom á hlaupinu milli miðvarðanna og þrumaði inn. Staðan orðin 1-1.

Þetta gaf Wolves aukinn byr í seglin og Agbadou reyndi á 27. mínútu, eftir horn, bakfallsspyrnu  en boltinn fór yfir slána.

Á 33. mínútu náðu Dewsbury-Hall og Grealish mjög vel saman með þríhyrningaspili utan teigs, og stungusendingin frá Dewsbury-Hall setti Grealish inn fyrir vinstra megin, nokkuð nálægt marki, en hann var í nokkuð þröngu skotfæri og markvörður Wolves varði vel. En það kom ekki að sök, því að örskömmu síðar var Ndiaye búinn að koma Everton yfir aftur!

Garner sendi á Beto sem var rétt svo inni í teig og hann sendi út úr teig aftur á Dewsbury-Hall sem fann Grealish við hlið Beto inni í teig. Grealish gerði vel að sjá Dewsbury-Hall hlaupa inn í teig og náði stungusendingu á hann, vinstra megin við mark og hann sendi fyrir markið. Boltinn skautaði þvert á markið, framhjá Beto, og svo framhjá varnarmanni Wolves en endaði hjá Ndiaye sem rétt svo náði að skófla boltanum í netið með vinstri fæti. Everton komið aftur yfir í leiknum og staðan orðin 1-2!

Everton tók ekki fótinn af bensíngjöfinni í þetta skiptið og hleyptu því ekki Wolves í leikinn aftur. Staðan því 1-2 í hálfleik.

Everton byrjaði seinni hálfleik með miklum látum þegar Gana stal boltanum af varnarmanni Wolves á fyrstu mínútu seinni hálfleiks og kom honum á Dewsbury-Hall, sem var við horn vítateigsins hægra megin. Hann sendi á Beto, sem lagði boltann fyrir á Gana, sem reyndi skot. Boltinn fór hins vegar í höndina á varnarmanni Wolves, sem ef við fylgjum reglunum sem giltu í upphafsleik Everton (gegn Leeds) ætti að vera víti. Dómarinn dæmdi þó ekkert, sem var réttur dómur (í báðum tilvikum). Boltinn endaði hins vegar hjá Ndiaye sem skoraði auðveldlega framhjá markverði, en var réttilega dæmdur rangstæður.

Wolves menn virtust ekki vita hvort þeir væru að koma eða fara og Everton jók forskotið á 55. mínútu. Enn á ný var Jack Grealish þar að verki en hann sá hlaup Dewsbury-Hall inn í teig og sendi á hann frábæra stungusendingu og Dewsbury-Hall var ekki í neinum vandræðum með að koma boltanum framhjá markverði. Setti boltann í neðanverða slána og inn og staðan orðin 1-3! Þess ber að geta að þetta var fjórða (!) stoðsending Grealish í tveimur leikjum!

Það var erfitt að sjá hvernig Wolves menn ættu eftir að ná að vinna sig aftur inn í leikinn. Kannski þess vegna sem þeir reyndu tvisvar að fiska vítaspyrnu fyrir litlar sakir?

Tvöföld skipting hjá Everton á 75. mínútu. Barry kom inn á fyrir Beto og Iroegbunam fyrir Gana. Wolves svöruðu með því að skipta tveimur af sínum bestu mönnum fram að þessu út af, Bueno og Hee-Chan Hwang.

En Wolves náðu samt að minnka muninn á 79. mínútu og það var eins og spegilmynd af hinum markinu. Aftur mark upp úr engu og aftur sending utan af kanti, nánast við hliðarlínu, sem vörnin hreinsaði ekki. Boltinn fór framhjá Keane (sem átti ekki séns í að hreinsa) en Mykolenko hefði átt að sjá það og bregðast við með því að mæta boltanum og hreinsa, en hann var svifaseinn og sóknarmaður komst því á undan í boltann og setti hann í netið. Klaufalegt. Engin ógnun búin að vera af Wolves en svo staðan allt í einu orðin 2-3!

Og við það breyttist leikurinn. Wolves menn allt í einu komnir með skottið upp og þá lifnaði yfir áhorfendum!

Alcaraz kom svo inn á fyrir Grealish á 88. mínútu en 6 mínútu var bætt við. Pínu taugatrekkjandi.

En ógnunin frá Wolves var minni en maður átti von á og Everton komst í ágætt færi þegar Barry skallaði boltann frá Pickford áfram á Ndiaye, sem dró að sér tvo varnarmenn þegar hann reyndi að komast í skotfæri. Hann reyndi svo fína stoðsendingu á Barry inni í teig, en varnarmaður komst inn í sendinguna. 

Wolves komust í gott færi hinum megin þegar laus leikmaður við jaðar vítateigsins fékk boltann og enginn var þar til að blokkera skotið, sem hann reyndi í hornið niðri hægra megin hjá Pickford, en hann varði vel. Boltinn fór hins vegar út í teig, beint á lausan mann við vítapunktinn og hann reyndi skot, en hitti ekki markið. Sem betur fer. 

Þetta var þeirra móment til að jafna, því fleiri urðu færin ekki. Coleman kom inn á fyrir Ndiaye á 96. mínútu, en það breytti engu.

Everton sigraði því Wolves 2-3 á útivelli í dag. Vel gert.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (6), Keane (6), Tarkowski (6), Mylokenko (5), Gueye (7), Garner (7), Dewsbury-Hall (8), Ndiaye (7), Beto (7), Grealish (9). Varamenn: Iroegbunam (6), Barry (6). 

Einn leikmaður í byrjunarliði Wolves með sjöu (Gomes) en restin með lægri einkunn.

Maður leiksins að mati Sky Sports: Jack Grealish.

9 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta hljómar auðvitað mjög neikvætt en við eigum ekki séns á að vinna þennan leik. Ekki af því að ég haldi að liðið sé ekki nógu gott, heldur vegna þess að Michael Oliver er dómari í dag og Craig Pawson er VAR dómari. Þeir hafa aldrei verið sérstaklega vinveittir Everton og ég efast um að þeir séu eitthvað að fara að breyta því í dag. Ég held samt að okkar menn nái jafntefli í dag og spái 1-1.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Fínn fyrri hálfleikur, vonandi verður sá seinni bara betri.

  3. Eirikur skrifar:

    Skrítinn leikur, alveg með þetta enn þá fáum við á okkur mörk og Úlfarnir komast inn í leikinn. Finnst við hefðum átt að gera betur úr nokkrum stöðum sérstaklega í seinni hálfleik. Enn sem betur fer er Jack Grealish í okkar liði annars værum við í vandræðum.
    Hefði átt vera vera öruggur sigur á slöku liði Úlfana enn mikið stress í restina. Enn tökum þessi 3 stig með 😁 á vör.

    • Ari S skrifar:

      Það voru fleiri en hann sem voru góðir í dag. Það var vörnin sem að klikkaði, vörnin í heild í mörkunum sem við fengum á okkur í dag.

      Já Grealish er frábær og með svo mikinn klassa í öllu sem hann gerir sem að síðan smitar út frá sér. Það verða allir betri í kringum hann…

      kær kveðja, Ari

  4. Ari S skrifar:

    Jack Grealish blómstrar hjá Everton – og Moyes tekur ekki heiðurinn
    Jack Grealish virðist endurfæðast í bláa búningnum. Í 3–2 sigri Everton á Wolves á Molineux í dag átti hann stórleik – lagði upp tvö mörk og átti þátt í því þriðja. Þetta er fjórða stoðsending hans á tímabilinu, sem er meira en hann náði á tveimur heilum árum hjá Manchester City.
    Þrátt fyrir frábæra frammistöðu neitar David Moyes, stjóri Everton, að taka heiðurinn:
    “It’s nothing to do with me, let me tell you, it’s all to do with Jack and his own mentality to be better.”
    Moyes lýsir Grealish sem leikmanni sem hefur eitthvað að sanna og sé að sýna hversu góður hann raunverulega er. Hann bætir við:
    “He’s better than I thought he was.”
    Þetta er ekki bara endurkoma fyrir Grealish – þetta gæti verið lykillinn að því að Everton haldi sér í efri hluta töflunnar.
    Þetta er þýðing frá YAhoo Sport með hjálp gerfigreindar.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég verð að viðurkenna að ég var mjög efins um að fá Grealish til Everton, hélt að hann væri útbrunnin fyllibytta sem væri bara að koma til að sitja á bekknum og hirða launin sín. Mér fannst þetta vera svona svipað dæmi og þegar Dele Alli kom og hirti pening af félaginu án þess að gera nokkuð í staðinn.
    En frammistaða Grealish í síðustu leikjum hefur orðið til þess að ég skipti snarlega um skoðun. Ef hann heldur svona áfram, þá held ég að óhætt sé að fullyrða að það sé besti díll sumargluggans að hafa fengið hann á láni.

  6. Halli skrifar:

    Um síðustu helgi unnum við fyrsta leikinn í ágúst í 5 ár þá spyr ég hvað er langt síðan við áttum 6 stig á töflunni í ágúst. Gleði Gleði

Leave a Reply to Orri