Everton – Brighton 2-0

Mynd: Everton FC.

Brighton fengu þann heiður að vera fyrsta úrvalsdeildarliðið sem mætti í heimsókn á Hill Dickinson völlinn, stolt Liverpool borgar, í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag, en flautað var til leiks kl. 13:00 að íslenskum tíma.

Uppstillingin: Pickford, Garner, Keane, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Iroegbunam, Ndiaye, Dewsbury-Hall, Grealish, Barry.

Varamenn: Travers, Coleman, Aznou, Armstrong, Onyango, McNeil, Alcaraz, Chermiti, Beto.

Grealish var á vinstri kantinum, Ndiaye á þeim hægri og Garner í vinstri bakverði, en annað hefðbundið. Andrúmsloftið var gott á vellinum, mikið sungið og trallað og aðsóknin afar góð á þessum fyrsta heimaleik Everton á Hill Dickinson, en 51.759 áhorfendur voru á vellinum, skv. BBC.

Fyrsta skotið á mark kom frá Brighton á 12. mínútu, skot við D-ið en auðvelt fyrir Pickford að grípa. Mitoma fékk betra tækifæri á 18. mínútu, þegar hann náði að losa sig við báða miðverðina okkar inni í teig og skjóta á mark. Boltinn í ofanverða slána og út af, en hann snerti boltann með hendi í aðdragandanum, þannig að VAR hefði snúið því við… líklegast, annars veit maður aldrei þessa dagana. En aðeins mínútu síðar komust þeir í dauðafæri upp við mark, þegar Welbeck fékk sendingu fyrir framan markið, og sem betur fer kom sendingin aðeins aftur fyrir hann, þannig að í stað þess að pota inn af stuttu færi skóflaði hann boltann vel yfir slána.

Viðvörunarbjöllurnar farnar að hringja en Everton brást rétt við og komust yfir á 22. mínútu. Markið kom upp úr skyndisókn þar sem langur bolti var sendur fram á Barry, sem hélt honum vel og kom honum svo í leik. Leikmenn Everton voru snöggir að láta boltann ganga upp völlinn, Ndiaye á Gana sem sendir á Dewsbury-Hill og hann framlengdi á Grealish, sem kom honum inni í teig vinstra megin. Þar náði hann frábærri sendingu yfir á fjærstöng hægra megin, framhjá markverði, þar sem Ndiaye kom á hlaupinu og þurfti bara, upp við mark, að pota boltanum í autt netið. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton! Ndiaye þar með aftur að skrifa sig í sögubækurnar, í þetta skipti með fyrsta markið á nýja leikvanginum — og Grealish með fyrstu stoðsendinguna.

Iroegbunam fékk fínt skotfæri utan teigs á 34. mínútu, við D-ið, en skaut framhjá stönginni vinstra megin, frá honum séð.

Á 38. mínútu náði nr. 6 hjá Brighton föstu skoti af löngu færi, sem breytti um stefnu af varnarmanni Everton og fór í innanverða stöngina og út aftur. Lukkan með Everton í það skiptið. Á 45. mínútu var lukkan aftur með Everton þegar Tarkowski sendi slaka sendingu aftur á Pickford sem sóknarmaður Brighton komst inn í og þar með í dauðafæri einn á móti Pickford. Reyndi að fara framhjá honum vinstra megin og skjóta í netið en Pickford las þetta hárrétt og náði að loka á hann og verja. 

Staðan 1-0 fyrir Everton í hálfleik.

Á 52. mínútu skoraði Everton annað mark sitt í leiknum og þar var að verki James Garner með þrumuskoti utan teigs sem fór inn alveg við stöngina, eftir flottan undirbúning frá liðsfélögum, sem unnu sig upp hægri kantinn og Jack Grealish lagði lokahönd á það með stoðsendingu. Glæsimark hjá Garner.

Á 59. mínútu náðu Brighton menn föstu skoti á mark utan teigs, sem Pickford sá seint, því það fór í gegnum klofið á Tarkowski. En, Pickford var vandanum vaxinn.

Beto og Alcaraz komu inn á fyrir Barry og Ndiaye á 62. mínútu og stuttu síðar, eða á 71. mínútu, kom McNeil inn á fyrir Iroegbunam.

Á 75. mínútu fengu Brighton víti þegar Dewsbury-Hall varði boltann með hendi inni í teig. Annar leikurinn í röð sem andstæðingurinn fær víti en líklega sanngjarn dómur í þetta skiptið, ólíkt því síðasta. En lukka Everton hélt áfram, því Pickford giskaði á rétt horn og varði vítið frá Welbeck!

Grealish setti upp flott skotfæri á 85. mínútu þegar hann hljóp í átt að endalínu vinstra megin og sendi lága sendingu aftur út í teig, beint á McNeil en hann náði ekki góðu skoti. Ef hann hefði náð að skora hefði Grealish farið frá leiknum með stoðsendingarþrennu. Boltinn barst hins vegar til Beto sem reyndi skot eftir snúning, en setti boltann framhjá. Tvö fín tækifæri til að komast í þriggja marka forystu. Stuttu síðar reyndi McNeil aftur skot á mark en setti boltann í hliðarlínuna. 

Sjö mínútum var bætt við og á 93. mínútu skipti Moyes Armstrong inn á fyrir Grealish en fleiri urðu færin ekki.

2-0 sigur í höfn í fyrsta heimaleiknum á Hill Dickinson.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), O’Brien (6), Tarkowski (5), Keane (6), Garner (7), Gueye (6), Iroegbunam (7), Dewsbury-Hall (6), Ndiaye (7), Grealish (8), Barry (6). Varamenn: Beto (6), Alcaraz (6), McNeil (5).

Maður leiksins, að mati Sky Sports, var Jack Grealish.

15 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Til hamingju allir Everton stuðningsmenn. Þettaer eiginlega rosalegt að sjá… svo flottur þessi völlur…

    Áfram Everton!

  2. Ari S skrifar:

    …gott að vera yfir egg. Brighton góðir og hegðun með heppni verið búnir að skora fleiri en eitt. Tarkowski heppinn þarna í loki. Besti markvörður Englendinga var vel vakandi og bjargaði Tarkowski.

    • Ari S skrifar:

      …og náttúrulega yndislegt mark sem Iliman skoraði eftir glæsilegan undirbúning frá Grealish

      • Ari S skrifar:

        Það er mikið talað um hversu góður Micheal Keane var í þessum leik. Mér fannst hann einna bestur og Garner frábær líka miðað við að hann var að spila úr stöðu og var með Minteh á sér mestallan leikinn. Svo skoraði hann líka þetta fallega mark eftir snilldar upplagningu hjá Grealish, sem að sýndi hvað heimsklassaleikmaður er.

        frábær sigu hjá okkar mönnum í dag við vorum fínir gegn Brighton sem eru sterkir og voru pínu óheppnir að skora ekki í dag. En þetta var dagurinn okkar í dag. Til hamingju Everton stuðningsmenn og konur 🙂

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Fyrri hálfleikur allt í lagi að mestu leyti fyrir utan smá vitleysisgang í vörninni af og til, sérstaklega hjá Tarkowski. Ég var reyndar alveg viss um að fyrsta deildarmark sem yrði skorað á þessum velli yrði sjálfsmark frá Michael Keane, en er glaður með að svo var ekki og gaman að Ndiaye skyldi verða fyrstur til að skora á Hill Dickinson og síðastur á Goodison.

  4. Albert Gunnlaugsson skrifar:

    Frábært að sjá Everrton spila á þessum nýja flotta velli. Áfram Everton

  5. Diddi skrifar:

    vonandi bjartari tímar framundan hjá okkur

  6. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Flott að vinna fyrsta deildarleikinn á nýja vellinum. Það fór um mann þegar Brighton fékk vítið en Pickford reddaði þessu fínt. Vonandi lofar þessi leikur góðu varðandi framhaldið.

  7. Gunni D skrifar:

    Hver er svona hrifinn af stigatöflunni síðan í vor? En annars,til hamingju með daginn Evertonmenn.

    • Ari S skrifar:

      Ha ha það er ekki Finnur svo mikið er víst… búast má við að ný tafla fari að koma bráðlega

  8. Diddi skrifar:

    frábær dagur Evertonlega séð! Ekki aðeins að við unnum opnunardeildarleikinn á þessum frábæra velli okkar heldur vann Everton maðurinn Tommy Fleetwood langþráðan sigur í golfinu í kvöld, nú opnast flóðgáttir og ekki verður horft til baka, áfram EVERTON

    • Ari S skrifar:

      Já frábært hjá Tommy, gaman að sjá hann vinna þarna í kvöld… 30 efstu spilararnir á FedEx mótaröðinni spiluðu og hann vann…

  9. Þorri skrifar:

    Mitt mat fyrri hálfleikur lala og vörnin svolítið götótt en seinni hálfleikur hann var betri sérstaklega Grealish já og Tarkowski. Í heildina ágætur leikur og góður sigur og við skulum segja verður frábært tímabil. Áfram Everton!

  10. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Pickford og Grealish í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/articles/cy4dexp5lpxo?at_medium=RSS&at_campaign=rss

Leave a Reply to Jón Ingi Einarsson