Fulham – Everton 1-3

Mynd: Everton FC.

Þriðji síðasti leikur Everton í úrvalsdeildinni á tímabilinu (og næst síðasti útileikurinn) var gegn Fulham, klukkan 14:00 í dag.

Uppstillingin: Mykolenko, Branthwaite, Keane, Young, Gana, Garner, Harrison, Doucouré, Alcaraz, Beto.

Varamenn: Virginia, Patterson, Coleman, Iroegbunam, McNeil, Ndiaye, Chermiti, Broja, Calvert-Lewin.

Keane kemur inn fyrir O’Brien, sem er ekki einu sinni í hóp, og Young kemur inn á fyrir Patterson sem fer á bekkinn. Sama gildir um Harrison og Doucouré, sem koma inn fyrir Ndiaye og McNeil. Bekkurinn er því óvenjulega sóknarsinnaður og gott að sjá að ekki þurfi lengur að fylla upp í sætin með aukamarkverði og kjúklingum. Það vekur einnig athygli að á bekknum eru aðeins tveir varnarmenn, Patterson og Coleman — sem eru báðir hægri bakverðir, eins og við þekkjum.

Ekkert sérstaklega áferðarfallegur bolti fyrstu 10 mínúturnar og liðin svolFulham með fyrsta skot á mark á 5. mínútu, utan teigs af löngu færi en beint á Pickford. Engin hætta. Iwobi með næstu tilraun frá Iwobi aðeins fimm mínútum síðar. Aftur langskot en frá vinstri í þetta skiptið. Sama niðurstaða samt, beint á Pickford.

Everton var nálægt því að skapa hættulegt færi þegar há sending barst á fjærstöng hægra megin og Harrison reyndi skalla fyrir mark á Beto upp við mitt markið, en náði ekki að koma boltanum á hann.

Fulham náðu að komast yfir á 18. mínútu eftir trademark skallamark frá Raul Jimenez upp við mark. Náðu að koma háum bolta fyrir mark, yfir Branthwaite og beint á Jimenez, sem vann skallaeinvígi við Mykolenko og skoraði af stuttu færi.  1-0 fyrir Fulham.

Everton hafði fram að því verið í þægilegri stöðu, að því er virtist, og ekki undir mikilli pressu frá Fulham. En markið setti Everton svolítið út af laginu og áttu þeir í erfiðleikum með að byggja upp sóknir strax í kjölfarið. Fulham reyndu flott skot af löng færi sem sigldi rétt framhjá stönginni hægra megin, en Pickford sá að það var að fara út af og reyndi ekki við boltann.

Harrison komst í skotfæri hinum megin eftir ágætis hraða sókn Everton, en skotið frá honum slakt og Leno í markinu varði.

Á 39. mínútu settist Branthwaite í grasið, stuttu eftir að hafa lent í samstuði við Jimenez. Hann fékk aðhlynningu í kjölfarið og hélt áfram að spila. Eins gott, því það var enginn miðvörður á bekknum, eins og fram kom hér að ofan og Keane hefði verið eini heili „senior“ miðvörðurinn í liðinu ef Branthwaite hefði meiðst. 

Á 43. mínútu reyndi Wilson lágt og lúmskt skot rétt utan teigs sem leit út fyrir að vera að fara inn við stöngina hægra megin, en Pickford varði glæsilega í horn.

Þremur mínútum bætt við og þegar tvær af þeim voru liðnar náði Alcaraz að stela boltanum af vörn Fulham og bruna inn í teig. Skotið frá honum ekkert spes, varið í horn en í kjölfarið náði Mykolenko skoti utan teigs, sem breytti um stefnu af varnarmanni og sendi Leno í vitlaust horn. 

Staðan orðin 1-1 og þannig var það í hálfleik.

Meiri ákefð í leik Everton í seinni hálfleik. Fulham meira með boltann en Everton meira og meira hættulegri eftir því sem leið á leikinn.

Sessegnon með fyrsta skot á mark í seinni hálfleik en Pickford vel á verði og sló boltann í horn, sem ekkert kom úr. 

Wilson reyndi skot á 54. mínútu, lúmskt skot frá hægri í teignum með Pickford framarlega en Pickford varði meistaralega með því að stýra boltanum rétt framhjá fjærstöng. Geggjuð varsla, en hann virtist meiðast í lendinugunni.

Tvöföld skipting hjá Moyes á 61. mínútu. Ndiaye og McNeil inn á fyrir Harrison og Doucouré.

Á 71. mínútu skoraði Keane með góðum skalla eftir hornspyrnu. Alcaraz stóð fastur á sínu fyrir framan Leno í markinu og VAR tékkaði Alcaraz fyrir bæði á broti á markverði (sem var ekki raunin) og rangstöðu (sem var heldur ekki), þannig að Everton gat fagnað markinu aftur. 1-2 fyrir Everton!!

En partýið var ekki búið því að strax í næstu sókn skoraði Beto flott mark. Sóknin byrjaði og endaði á Beto — fyrst þegar hann vann boltann á vinstri kanti og kom honum á Ndiay sem fann Alacaraz og saman brunuðu þeir þrír (fjórir?) fram. Alcaraz fann Beto vinstra megin og hann reyndi strax skot af löngu færi sem fór undir Leno í markinu og inn við hliðarnetið. 1-3 fyrir Everton!!

Jimenez átti hættulegan skalla að marki á 77. mínútu en rétt framhjá stönginni vinstra megin (frá honum séð).

Iroegbunam inn á fyrir Alcaraz á 84. mínútu og fimm mínútum síðar komu Coleman og Calvert-Lewin inn á fyrir Gana og Beto.

Sjö mínútum bætt við en það var sama hvað Fulham reyndu, það gekk ekkert að brjóta niður vörn Everton. Ekki fyrr en á lokamínútu uppbótartíma — hélt maður, þegar þeim tókst að skjóta boltanum í höndina á Mykolenko af stuttu færi, innan teigs. Dómarinn sá ekkert athugavert við það en var sendur í skjáinn — en sem betur fer hafði hann kjark til að standa við upprunulegu ákvörðunina. Ekkert víti og þulirnir sammála.

1-3 sigur staðreynd og gerir líklega út um Evrópuvonir Fulham. Úlfarnir töpuðu í dag þannig að Everton hoppaði upp í 13. sæti.

Einkunnir Sky Sports: Everton: Pickford (7); Young (6), Keane (8), Branthwaite (7), Mykolenko (8); Gueye (7), Garner (7); Harrison (6), Doucoure (6), Alcaraz (7); Beto (8). Varamenn: McNeil (7), Ndiaye (6).

Maður leiksins að mati Sky Sports: Michael Keane.

8 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    hveitibrauðsdagar Moyes eru liðnir, 1sigur í síðustu 10. Af hverju reynir hann ekki eitthvað skemmtilegt þegar staða liðsins er trygg? Doucoure beint í byrjunarliðið sem er að verða samningslaus. Hroðalegt að sjá Keane í liðinu, eigum við ekki einhvern strák sem mætti prufa. Ég var á móti endurkomu Moyes og þessi varfærnisjafnteflisstefna (dyche) er mér ekki að skapi, en að þessu sögðu þá skorar Keane ábyggilega í 1-3 sigri í dag

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    O’Brien er víst meiddur, þess vegna er hann ekki í hópnum í dag.
    Patterson hefur líklega ekki verið að heilla fyrst hann er settur á bekkinn, hefði samt frekar vilja sjá hann byrja en ekki Young því ég get ekki séð hvað Everton græðir á því að láta hann ekki spila, hvort sem hann er í plönum Moyes fyrir næsta ár eða ekki, þá gæti hann kannski hækkað á sér verðmiðann ef hann spilar.
    Það er ekki séns að við fáum nokkuð út úr þessum leik með Keane í hjarta varnarinnar og menn sem ekki geta haldið boltanum eða tengt saman tvær óbrjálaðar sendingar í sókninni.
    Þetta fer 3-0 fyrir Fulham.

  3. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Ekki gat maður átt von á því að fá 3 stig úr þessum leik eftir fyrri hálfleikinn. Gott að fá stigin og ánægjulegt að Kean skoraði, því menn hafa nú verið misjafnlega hrifnir af honum.

  4. Eirikur skrifar:

    Góður sigur og jafnar út stigin sem maður vonaðist eftir úr þessum leik og leiknum á móti Ispiss. Nú er bara að taka 4 stig úr seinustu tveimur og enda í 13 sæti. Það verður fróðlegt að sjá hverjir fá endurnýjun á samning á næstu vikum.

  5. Orri skrifar:

    Vinur minn Sigurjón Sigurðsson er spámaður góður.

Leave a Reply to Diddi