Everton – Leicester 4-0

Mynd: Everton FC.

Þá var komið að 6 stiga leik við lið í botnslagnum, sem Everton virðist vera smám saman vera að mjakast úr. Því að í dag mætti Leicester í heimsókn á Goodison Park og sáu aldrei til sólar, Everton sá til þess frá upphafi leiks. Þetta er leikur sem hvorugt lið mátti við því að tapa en með sigri gat Everton slitið sig svolítið frá þessum neðstu fjórum liðum (9 stiga forskot og ættu leik til góða). Og það gerðu þeir.

En þær afar slæmu fréttir bárust fyrir leik að Mangala, sem fór út af meiddur í sigurleiknum gegn Brighton, sé með slitin krossbönd. Mann grunar að hann hafi því leikið sinn síðasta leik fyrir Everton, þar sem hann er lánsmaður frá Lyon til loka tímabils. Einnig kom í ljós að Calvert-Lewin verður frá í nokkrar vikur vegna tognunar og að McNeil gæti þurft aðgerð á hné vegna sinna meiðsla, sem hann hefur verið að glíma við undanfarið. Lánsmaðurinn Broja meiddist einnig fyrir nokkru, eins og við þekkjum, en Everton á í samningaviðræðum við Chelsea um að fá annan lánsmann í staðinn.

Þetta er ekki alveg staðan sem maður vildi sjá, en sem betur fer er þó enn smá tími (tveir dagar í viðbót) fyrir Everton að bregðast við í félagaskiptaglugganum.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, N’Diaye, Doucouré, Lindström, Beto.

Varamenn: Virginia, Begovic, Keane, Patterson, Young, Harrison, Iroegbunam, Armstrong, Sherif.

Sem sagt, Garner kom inn í liðið fyrir Mangala en þetta var fyrsti leikur Garner eftir nokkurn tíma frá vegna meiðsla. Beto tók einnig stöðu Calvert-Lewin í framlínunni. Maður fékk hins vegar blendnar tilfinningar þegar maður horfði á bekkinn, því að aftur voru tveir (!) markverðir á bekknum og enginn framherji með reynslu. Góðu fréttirnar eru þó þær að Iroegbunam virðist vera búinn að jafna sig af sínum meiðslum. En þá að leiknum.

Við fengum algjöra óskabyrjun á leiknum, því eftir rétt rúmar 10 sekúndur var Doucouré búinn að skora mark, en hann varð þar með sá leikmaður Everton sem var fljótastur til að skora mark í úrvalsdeildinni, en markið er í fjórða sæti yfir alla leikmenn deildarinnar.

Markið kom eftir langa stoðsendingu fram frá Pickford, sem Doucouré tók með sér í frábærri fyrstu snertingu, komst þar með einn inn fyrir hægra megin og lagði boltann í hliðarnetið.

Og örfáum mínútum síðar kom mark númer tvö og það var ekkert mikið flóknara. Löng stunga inn fyrir hægra megin, frá Tarkowski, beint á Beto, sem fylgdi fordæmi Doucouré og setti hann í innanvert vinstra megin. 2-0 fyrir Everton!

Það ringdi svolítið mörkunum í fyrri hálfleik því þriðja markið kom frá O’Brien stuttu síðar, en hann var því miður augljóslega rangstæður og markið var því ekki tekið gilt.

Fyrsta tilraun Leicester að marki kom ekki fyrr en á 25. mínútu, en nokkuð yfir. Lítil hætta.

Á 35. mínútu átti Everton að fá viti þegar Beto var keyrður niður í teig. Ekkert dæmt – en þulirnir minntust á að VAR hefði líklega ekki snúið við dómnum ef dómarinn hefði dæmt víti.

En það kom ekki að sök því Everton náði að bæta við marki rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og það var enn á ný sama uppskrift. Langur bolti fram (geggjuð stungusending frá Garner), inn fyrir framliggjandi vörn Leicester, sem setti Beto einan inn fyrir og honum brást ekki bogalistin. 3-0 og þannig var það í hálfleik. Þetta var í annað skipti í þremur leikjum sem Everton skorar þrjú mörk í fyrri hálfleik!

Leicester hittu ekki hitt á rammann allan fyrri hálfleik.

Lítið að segja um seinni hálfleik því það var áfram ekkert að frétta af Leicester og Everton mun líklegri til að skora. Flæðið var mun betra hjá Everton og sóknir Leicester brotnuðu oft niður á þeirra eigin vallarhelmingi. Vardy var svo skipt út af á 60. mínútu – hafði ekki sést í leiknum. Þetta var partur af þrefaldri skiptingu, en hún gerði ekki mikið fyrir þá.

Lindström fékk gullið tækifæri til að skora á 74. mínútu, innan vítateigs nálægt marki. Þurfti bara að setja boltann framhjá markverði og hafði fullt af tíma til að athafna sig, en skotið beint í fótinn á markverði. Illa farið með dauðafæri.

Everton bætti einu við í lokin, rétt áður en flautað var og það var eftir klaufagang í vörn Leicester, sem gáfu boltann á silfurfati til Ndiaye við jaðar vítateigs og hann þakkaði fyrir sig með því að bruna inn í teig óáreittur og setti boltann auðveldlega framhjá markverði.

Fjögur núll. Meira svona!

Það sýndi sig enn á ný í þessum leik hversu stór gjá er á milli úrvalsdeildarliða og liðanna sem koma upp úr Championship. En ég held að þetta hafi verið ein lélegasta frammistaða útiliðs á Goodison sem ég hef séð í langan tíma. Það var engin ógnun af Leicester í dag.

Einkunnir Sky Sports: Everton: Pickford (6), O’Brien (6), Tarkowski (7), Branthwaite (7), Mykolenko (7), Gueye (7), Garner (8), Lindstrom (6), Doucoure (7), Ndiaye (8), Beto (8). Varamenn: Young (6).

Einkunnargjöf Leicester var afleit, eins og við var að búast en tveir í byrjunarliðinu náðu upp í heila 6 í einkunn en aðrir fengu lægra — þar af 7 leikmenn með fimm í einkunn og tveir með fjarka.

Maður leiksins að mati Sky Sports var Iliman Ndiaye.

Einnig biðjumst við velvirðingar á því að skýrslan datt út um tíma, sem uppgötvaðist ekki fyrr en upp úr hádegi daginn eftir.

11 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    1-0 eftir 10 sekúndur, allt annað en sigur í dag er bara slys

  2. Eirikur skrifar:

    Garner geggjaður og Beto komin með tvö og mögulega átt að fá víti. Þetta er eitthvað betra enn Dyche bauð upp á.

  3. AriG skrifar:

    Algjörlega sammála Eiríki James Garner stórkostlegur stoðsendingar hans eru ótrúlegar. Frábær fyrri hálfleikur. Beto loksins vaknaður. Þurfum bara einn sóknarmann nauðsynlega ef Beto meiðist. Einn vængmann og varnarmann þá er þetta komið. Allt annað lið núna. Stefnum á 10 sætið í vor.

  4. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Ég náði ekki að klára þetta komment fyrir leik, en ég ætlaði að benda á að staðan (og þetta er skrifað *fyrir* Leicester leikinn) er betri nú en staðan var á sama tíma á síðasta tímabili.

    Því eftir 22. umferðir á síðasta tímabili, var staðan á botninum svona:

    16. sæti með 20 stig, -04 í markatölu: Everton
    17. sæti með 20 stig, -13 í markatölu: Nottingham Forest
    18. sæti með 20 stig, -10 í markatölu: Luton Town
    19. sæti með 12 stig, -23 í markatölu: Burnley
    20. sæti með 10 stig, -35 í markatölu: Sheff Utd

    Í ár:

    16. sæti með 23 stig, -09 í markatölu: Everton
    17. sæti með 17 stig, -23 í markatölu: Leicester
    18. sæti með 16 stig, -20 í markatölu: Wolves
    19. sæti með 16 stig, -26 í markatölu: Ipswich
    20. sæti með 06 stig, -37 í markatölu: Southampton

    Þannig að: Baráttan á síðasta tímabili var hvaða lið í 16.-18. sæti myndi fara niður með neðstu tveimur liðunum. Í ár er þetta meira spurning um hvaða tvö lið af þremur í sætum 17.-19. falla með Southampton.

    Sigurinn í dag skerpir enn frekar á þessu, þar sem Everton er komið með 26 sig og snarbætti markatöluna. Vel gert.

  5. Diddi skrifar:

    Orri vinur minn var á leiknum í dag og hringdi í mig áðan. Ég sagði honum að vera bara áfram í Evertonborg fram á vor

  6. Orri skrifar:

    Það var frábært að fá að vera þarna með dóttir minni og dótturdóttir í dag og sjá mark eftir 10,18 sek enda var liðið að spila fótbolta þeir voru bara flottir aldrei spurning um sigur.Ég var yfir mig stolltur af mínum mönnum í dag.Nú eru bara eftir 9 leikir á Goodison til gamans má ég til með að geta þess að árið 2002 fór ég með umrætta dóttir mína til Englands ég á Everton gegn Liverpool en hún Manchester leik síðan bauð ég henni og vinkonu hennar a næstsíðasta leik MANCHESTER City á Mainroct svo hún er búin að kveðja 2 velli á Englandi það er meira en ég hef gert hef ég þó ýmsa fjöruna soplð.

    • Ari S skrifar:

      Já það var gaman að heyra í þér í símanum í gærkveldi, og til hamingju með stigin þrjú og frábæranleik okkar manna…. 🙂

      Frábært að sjá „nýju“ leikmennina okkar þá O’Brien og Lindström eiga góða leiki aftur og aftur… Það er greinilegt að Moyes hefur áhrif á þá og allt liðið reyndar… Bara yndislegt að sjá.

      ps. vonandi fáum við nýja leikmenn um helgina og það er enn von…

      kær kveðja, Ari S

  7. Orri skrifar:

    BBC segir að markið hjá Doucouré sé það 4 fljótasta ì deildinni en það fljótasta á heimavelli 10,18 sek.

  8. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Tarkowski í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/articles/cy8plyzjg7lo

Leave a Reply