
Mynd: Everton FC.
Þá er komið að því að Everton mæti í heimsókn til Brighton í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar en flautað verður til leiks klukkan 15 í dag. Brighton eru sem stendur rétt yfir miðri deild og hafa unnið sína síðustu tvo leiki í deild (gegn Man United og Ipswich), eftir sjö leiki án sigurs í röð. Þeir hafa hins vegar ekki unnið á heimavelli síðan 9. nóvember á síðasta ári.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Lindström, Mangala, Gana, Ndiaye, Doucouré, Calvert-Lewin.
Varamenn: Virginia, Begovic, Keane, Patterson, Young, Garner, Armstrong, Harrison, Beto.
4-4-2 uppstilling hjá Brighton sem spiluðu í bláu. Everton í svörtu með 4-2-3-1 uppstillingu (skv. þuli) með miðvörðinn O’Brien í hægri bakverði.
Brighton vilja spila út frá markverði og Everton pressaði fyrir vikið hátt upp á velli. Mangala og Doucouré byrjuðu leikinn svo framarlega að þeir voru framar en Calvert-Lewin oft á tíðum.
Smá viðvörunarbjöllur fóru að klingja í hægri bakvarðarstöðunni hjá Everton (O’Brien) í upphafi leiks. Tvisvar komst Baleba, kantmaður þeirra, í ákjósanlega stöðu, í fyrra skiptið næstum kominn inn fyrir vörnina en missti boltann út af, en í seinna skiptið tókst honum ætlunarverkið og komst inn í teig en sendi á engan fyrir framan mark. Brighton virkuðu líklegri til að skora en ekkert skot á mark framan af og þeir náðu ekki einu skoti á rammann allan fyrri hálfleikinn.
Á 11. mínútu stökk Calvert-Lewin upp í skallabolta og virtist togna aftan í læri. Týpískt. Mikið högg svona í upphafi leiks. Beto skipt inn á fyrir hann á 13. mínútu og það átti eftir að reynast örlagaríkt.
Bæði lið að spila svipaðan bolta, að spila út frá markverði og út úr pressunni og tilbúin að sækja á jafnvel fjórum í einu og beita löngum boltum fram á við. En bæði lið voru einnig öguð í sínum varnarleik og náðu að núlla hvort annað út.
Á 38. mínútu fékk Everton víti þegar Veltman datt í samstuði við Beto inni í teig og sló boltann í horn. VAR skoðaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri víti. „Bizarre piece of defending“, sagði þulurinn. Fyrsta víti Everton á tímabilinu, að mig minnir? Ndiaye fór á vítapunktinn (sem markvörður Brighton hafði reynt að eyðileggja — og fékk gult spjald fyrir vikið). En Ndiaye skoraði auðveldlega með lágu skoti niðri í vinstra hornið sem markvörður átti ekki séns í þó hann næði að skutla sér í rétt horn. Everton þar með komið 0-1 yfir á 44. mínútu.
Og þar með var þetta bara spurning um klóka leikstjórn til að komast með eins marks forskot í hálfleik. Og það gerðu þeir.
Mitoma átti hættulegt skot frá vinstri innan teigs Everton á 50. mínútu en rétt framhjá marki. Enn ekkert skot ratað á rammann frá þeim. Áfram mjög agaður og vel skipulagður varnarleikur sem varðist öllu sem kom nálægt marki. Oft á tíðum virkaði þetta sem 6-4-0 uppstilling hjá Everton, með Lindström og Ndiaye sem bakverði.
Gana settist á völlinn á 61. mínútu, virtist hafa meitt sig en hélt þó áfram. Patterson kom svo inn á fyrir Lindström á 62. mínútu, sem gaf til kynna að Gana væri allavega í góðu lagi, á meðan hann jafnaði sig utan vallar.
Brighton voru með boltann 84% í seinni hálfleik eftir 65 mínútur en náðu ekki að gera mikið af viti með hann. Mitoma og Rutter áttu báðir ágætis tilraun að marki, en Brighton einfaldlega gátu ekki komið boltanum á mark, að því er virtist!
Beto komst svo óvænt í skyndisókn á 76. mínútu og komst inn í teig. Varnarmaður skriðtæklaði fyrir skotið, sem fór framhjá marki.
Moyes gerði tvöfalda skiptingu á 77. mínútu Doucouré og Ndiaye fóru út af fyrir Garner og Young. Mangala meiddist hins vegar á 80. mínútu eftir samstuð og gat ekki haldið áfram. Þar sem skiptingarnar voru búnar þurfti Everton því að spila manni færri síðustu 10 mínúturnar plús uppbótartíma, sem vitað var að yrði ríflegur. Og það stemmdi, 8 mínútum var bætt við og svo tveimur til viðbótar. Það átti greinilega að spila þangað til Brighton næðu allavega tilraun á rammann. En manni færri náðu Everton að halda þetta út og landa þremur stigum.
Þar með var þetta annar sigurleikurinn í röð — og þetta er farið að líta mun betur út, sérstaklega þar sem Southampton, Ipswich og Wolves töpuðu öll. Leicester á leik á útivelli gegn Tottenham á morgun og það gæti svo farið að aðra vikuna í röð tapi öll liðin fyrir neðan Everton í töflunni.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), O’Brien (8), Tarkowski (8), Branthwaite (9), Mykolenko (7), Mangala (8), Gueye (8), Doucoure (7), Lindstrom (6), Ndiaye (7), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Patterson (7), Young (6), Garner (6), Beto (7).
Maður leiksins að mati Sky Sports svar Jarrad Branthwaite.
Athyglisvert að sjá einkunnir Brighton líka, því að naumur minnihluti byrjunarliðs þeirra fékk 6 í einkunn, restin var með 5 fyrir utan einn fjarka. Er ekki alltaf sagt að andstæðingur manns spili bara jafn vel og maður leyfi?
Vel gert það á útivelli
Geggjað að sjá hvernig þeir vængstífðu sóknarmenn Brighton.
Útisigur á Brighton er stórkostlegt miðað við stöðu beggja liða. Það er eins og að hafa fengið tvo nýja leikmenn í Lindstrom og O’Brien. Bara frábært að sjá til þeirra.
Ég sá ekki fyrri hálfleik en varnarleikur okkar manna var til fyrirmyndar í lok leiksins. Eðlilega tók allt liðið þátt í varnarleiknum því að Brighton sótti stíft enda með gott lið. En þeir áttu víst bara eitt skot á rammann sem segir okkur hversu vörnin hjá Everton var þétt fyrir.
Til hamingju með þrjú stig í dag…og takk fyrir Sir David Moyes.
Það reyndi dálítið á taugarnar að horfa á þennan leik, en stigin eru góð. Flott hjá Moyes að ná 6 stigum út úr tveimur síðustu leikjum á móti liðum sem eru ofar í töflunni. Áfram Moyes.
Þetta var aldrei í hættu. Brighton sótti stíft en áttu ekki eitt einasta marktækifæri. Eins og eftir síðasta leik er erfitt að velja mann leiksins en líklega var það Gana í dag.
Þvílík breyting sem orðin er á liðinu á svona stuttum tíma, maður heldur hreinlega stundum að þetta sé ekki Everton. Vonandi heldur þetta bara svona áfram.
Branthwaite í hjarta varnarinnar í liði vikunnar hjá BBC:
https://www.bbc.com/sport/football/articles/cgmy2r0xpvjo
Þetta var frábær sigur en mér fannst okkar menn bakka of mikið en frábært 2 í röð
ef fréttirnar af Carlos alcaraz eru réttar þá er ég spenntur, spilaði með Southampton í úrvaldeildinni og var mjög flottur. Efast ekki um að hann verði enn betri með okkur eftir þá reynslu