Mynd: (c) 2019 Paolo Pupillo (af stadiumdb.com)
Uppfært: Athugið að þessi ferð er nú uppseld!
Á nýliðnum aðalfundi var samþykkt að setja upp formlega ferð á vegum íslenska stuðningsmannaklúbbsins til Everton City til að fá síðasta tækifærið til að sjá okkar ástsæla lið á Goodison Park. Við fórum því á stúfana og náðum samningum við Verdi ferðaskrifstofuna um að setja upp pakkaferð fyrir okkur. Um er að ræða úrvalsdeildarleik við Brentford og hér eru smáatriðin sem skipta máli:
Flug: Um er að ræða beint flug fram og til baka frá Keflavík til Liverpool með flugfélaginu Play. Flogið verður út föstudaginn 22. nóvember kl. 7:00 (flugnúmer OG810) og heim aftur (flugnúmer OG811) mánudaginn 25. nóvember kl. 13:40. Innifalið í pakkanum er 20 kg taska, akstur frá flugvelli að hóteli og til baka aftur í lok ferðar.
Gisting: Gist verður á Leonardo hótelinu á Albert Dock, en það er okkur að góðu kunnugt þó að nafnið hljómi kannski ekki kunnulega. Þetta er nefnilega hótelið sem við þekkjum sem Jury’s Inn og höfum mjög margoft gist á í þessum skipulögðu ferðum.
Leikdagur: Leikurinn er settur á laugardaginn 23. nóvember, kl. 15:00 (að breskum tíma).
Verð: Heildarverð fyrir þennan pakka er 110.000 kr. per mann, ef tveir koma sér saman um að gista í herbergi. Þau ykkar sem kjósa að vera ein í herbergi greiða 145.000 krónur fyrir pakkann. Innifalið í því verði er flug, rúta, gisting og miði á leikinn.
Staðfesting: Tekið er við bókunum í ferðina á vefsíðu Verdi (uppselt!)
Skráningarfrestur: Rétt að ítreka að það er takmarkað sætaframboð og takmarkaður tími til að bóka sig í þessa ferð þannig að ekki bíða með að panta. Síðasti séns er sunnudagskvöldið 15. september.
Hafið endilega samband ef ykkur langar að fara en vantar herbergisfélaga og við getum reynt að koma ykkur til hjálpar.
Vel gert að setja á ferð. Held að það sé ekki hægt að sleppa þessu 🙂
Annars er þetta með Verdi ferðaskrifstofu en ekki Vita en það skiptir væntanlega ekki máli. Geri ráð fyrir að það fylgi taska og sætisbókun þar sem að flogið er með Play.
Mjög góð ábending — það er rétt að þetta er Verdi ferðaskrifstofan, en hún varð til við samruna Ferðaskrifstofu Akureyrar og Vita (sem eru með tengilið sem við höfum mikið skipt við gegnum árin og gerðum núna líka). Það er því af gömlum vana sem við tölum um Vita, en hið rétta er Verdi og það leiðréttist hér með. Takk!
Hvað hina spurninguna varðar þá skilst mér að taska sé innifalin, en ekki sætisbókun.
Jæja þá er maður búinn að bóka þessa ferð þetta verður geggjað
Já, ég gat ekki verið minni maður þannig að ég bókaði mig líka. Þetta verður eitthvað — síðasta ferðin (ever) á Goodison Park!
Ég kem!
Glæsilegt,en þar sem ég bý í Portúgal er hægt að redda miða+hótelherbergi fyrir mig þar sem þið verðið ? Ekki það að þið séuð skemmtilegir bara gott að geta rifið kjaft á íslensku 🙂