Bournemouth – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton átti leik við Bournemouth á útivelli kl. 15:00 í dag, en þetta var 29. leikur Everton í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Aðeins níu leikir eftir.

Ritari var því miður á ferðalagi í augnablikinu en bræðurnir Elvar og Georg tóku að sér skýrsluna og við kunnum þeim bestu þakkir fyrir!

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Branthwaite, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), McNeil, Onana, Garner, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Keane, Patterson, Young, Gana, Gomes, Chermiti, Warrington, Beto.

Gefum meisturunum orðið…

Fyrri hálfleikur var mjög jafn, mikið af mistökum hjá báðum liðum í uppbyggingu á sóknum og gekk frekar illa að koma sér í almennileg færi. Besta færi Everton í fyrri hálfleik kom á 32. mínútu þegar Pickford átti markspyrnu, sparkaði fram og Tarkowski setti hann til baka á Calvert-Lewin sem átti fínt skot, sem Neto varði vel í markinu. Besta færi Bournemouth í fyrri hálfleik var rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, þegar þeir áttu skot í stöng eftir mikið klafs í teignum.

Staðan í hálfleik 0-0.

Bournemouth byrjaði seinni hálfleik aðeins betur en Everton. Everton var þó ansi nálægt því að komast yfir á 59. mín þegar Everton átti horn sem McNeil tók, Harrison fór framhjá varnarmannni Bournmouth og setti boltann í innanverða stöngina framhjá Neto í markinu, en boltinn fór af leikmanni Bournmouth og framhjá.

Það var svo á 64. mín sem Bournmouth skoraði eftir skyndisókn þar sem Kelly sendi hann inn í á Solanke sem gerði vel og skallaði hann í markið, Tarkowski hefði mátt vera betur staðsettur. Staðan 1-0 fyrir Bournemouth.

Seinni hálfleikur var að miklu leiti eins og sá fyrri þar sem bæði lið áttu í erfiðleikum með að klára sóknaruppbyggingu.

Það var svo á 87. mín sem McNeil á sendingu inn í, Neto gerir illa í markinu og missir boltann úr höndunum og Beto gerði vel, nýtti sér mistök Neto og setti boltann í netið af stuttu færi. Staðan 1-1 og lítið eftir.

Allt stefndi í 1-1 jafntefli en á 91. mínútu komst Bournmouth í 2-1, þeir áttu sendingu inn í teig, sem lendir hjá Coleman sem ætlaði líklega að kassa hann á Pickford en fer ekki betur en svo en hann setur hann í eigið net. Bournemouth því komið í 2-1.

Það fór að lokum svo að sjálfsmark Coleman var það síðasta marktæka í leiknum og gríðarlega svekkjandi tap því niðurstaðan.

Sem betur fer tapaði Luton sínum leik sem var 0-1 yfir gegn Tottenham í hálfleik og Nottingham Forest gerði jafntefli. Everton því 3 stig fyrir ofan fallsæti og á leik til góða.

Nokkuð ljóst að Everton verður að fara að vinna leiki og hafa ekki unnið leik í deildinni síðan 16. desember. Næsti leikur Everton er á útivelli gegn Newcastle. Everton vann Newcastle 3-0 á Goodison Park þann 7. desember.

Við þökkum bræðrunum kærlega fyrir skýrsluna og ljúkum þessu með einkunnum leikmanna…
 
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (5), Tarkowski (6), Branthwaite (6), Godfrey (6), Harrison (6), Onana (6), Garner (6), McNeil (7), Doucoure (6), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Young (6), Beto (7).

11 Athugasemdir

 1. Eirikur skrifar:

  Það hefur lítið breyst í fríinu síðustu 3 vikur.
  Sama taktík spiluð sem hefur ekki skilið neinu á þessu ári
  Vonandi fæst 1 stig úr þessum leik.

 2. Diddi skrifar:

  Það þarf nú að sparka í rassgatið á þessum Onana, hann nennir ekki að leggja sig fram hjá okkur en á stjörnuleiki með landsliðinu og já það má sparka í fleiri mín vegna

  • Orri skrifar:

   Èg held að það dugi enginn spörk þetta er bara búið spil ì þessari deild því miður jafn dapurlegt og það er.

 3. Eirikur skrifar:

  Lentir undir og við setjum Ashley Young inná☹️

 4. Hallur skrifar:

  Guð minn almáttugur hvað Everton er orðið lélegt og leiðinlegt lið
  gætum ekki fundið sigur í góða hirðinum

 5. Gestur skrifar:

  Burtu með Sean

 6. Eirikur skrifar:

  Hvernig gat DCL bara legið í teignum og ekki heimtað víti. Hann hefði þurt að stökkva upp og rjúka í dómarann, þó að það hefði kostað gult. Við látum bara ganga yfir okkur

 7. Þorri skrifar:

  Þetta er bara ömurlegt vonandi náum við að halda okkur uppi

 8. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þessi leikur tapaðist ekki á sjálfsmarkinu hans Coleman. Þessi leikur var tapaður áður en hann byrjaði.
  Maður hélt (sem eftir á að hyggja var fáránlegt að halda) að á þremur vikum og einum æfingabúðum seinna, myndi eitthvað breytast, en nei, ekkert hefur breyst. Og þó, jú eitthvað hefur breyst.
  Liðið virkar aðeins öðruvísi en það var og ég hélt að það gæti ekki gerst en eftir þessar þrjár vikur virkar liðið núna þreyttara, áhugalausara, hugmyndasnauðara, hægara og að öllu leyti lélegra en áður.
  Vel gert Dyche.
  Ég sagði hérna fyrir nokkrum vikum að ég væri ekki alveg viss um hvað mér findist um Dyche, jæja, ég er núna alveg viss, ég vil hann burt og það strax og mér er hreinlega alveg sama hver tekur við. Ég held hreinlega að einhver af boltastrákunum myndi ná meiru út úr liðinu heldur en þessi risaeðla.

  Og til að bæta geðið ennþá meira þá kom þessi bomba í gær.
  https://www.toffeeweb.com/season/23-24/news/44647.html

 9. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Newcastle í kvöld.
  Stærsti sigur Newcastle í deildarleik er 13-0, kom 1946 gegn Newport í annari deild, stærsti sigur þeirra í úrvalsdeildinni er 8-0 gegn Sheffield utd fyrr á þessu tímabili.
  Það kæmi mér ekkert á óvart ef það met þeirra yrði bætt í kvöld, það verður samt vonandi ekki 13-0.